Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Drög að reglugerð um útlendingamál

Í frétt sem birtist á vef Innanríkisráðuneytisins þann 2. febrúar 2017 var óskað eftir umsögnum um drög að reglugerð um útlendingamál. Reglugerðin er sett er á grundvelli nýrra útlendingalaga sem tóku gildi þann 1. janúar sl. 

Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti þann 17. febrúar 2017. 

 

  

Umsögn umboðsmanns barna

 

Innanríkisráðuneytið

 

Reykjavík, 17. febrúar 2017
UB:1701/4.1.2

 

Efni: Drög að reglugerð um útlendingamál

Vísað er í frétt á vef ráðuneytisins, dags. 2. febrúar sl., þar sem drög að reglugerð um útlendingamál eru kynnt. Vegna anna hafði umboðsmaður barna því miður ekki tök á að fara ítarlega yfir drögin, en hann vill þó koma eftirfarandi ábendingum á framfæri.

Í 24. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Útlendingastofnun skuli starfrækja miðstöð sem skuli vera fyrsta greiningar- og móttökuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Að mati umboðsmanns barna er jákvætt að tekið sé fram að fara skuli fram mat á því hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, en slíkt myndir væntanlega ávallt eiga við um börn. Umboðsmaður saknar þess þó að ekki sé sérstaklega minnst á börn í ákvæðinu. Þá telur hann mikilvægt að taka það fram í ákvæðinu að miðstöðin skuli bjóða upp á barnvænlegt umhverfi og aðbúnað sem hentar hagsmunum og þörfum barna. Má í því sambandi benda á að í þeim skammtímaúrræðum sem hafa verið nýtt fyrir fjölskyldur í leit að alþjóðlegri vernd er oft ekki að finna aðstöðu sem hentar börnum. Sérstaklega vantar leikskvæði fyrir börn, en leikur skiptir miklu máli fyrir þroska barna og getur hjálpað þeim að vinna úr áföllum og öðrum erfiðleikum. 

Umboðsmaður barna fagnar því að áréttað sé í 26. gr. reglugerðarinnar að börn njóti fulls aðgangs að almennu heilbrigðiskerfi og að barnshafandi konur hafi aðgang að mæðravernd og börn að ung- og smábarnavernd.  Þó er ekki nægilega skýrt í ákvæðinu hvort sú undantekning sem fram kemur í 2. mgr. eigi einnig við um börn. Ef það er ætlunin telur umboðsmaður ástæðu til að breyta ákvæðinu og tryggja börnum sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd alla þá heilbrigðisþjónustu, þar á meðal tannlækningar, sem velferð þeirra krefst.

Í 27. gr. reglugerðarinnar er fjallað um menntun barna. Í ljósi þess hversu langan tíma það hefur oft tekið  í framkvæmd að útvega börnum í leit að alþjóðlegri vernd skólavist fagnar umboðsmaður barna því að sett séu tímamörk í ákvæðnu. Að hans mati er of mikið að ætlast til þess að barn bíði í 12 vikur eftir að komast í almennan skóla. Skólaganga barna og samskipti við önnur börn á svipuðum aldri skipta miklu máli fyrir þroska barna og getur það haft verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér ef barn þarf að bíða í margar vikur og jafnvel mánuði eftir að komast í almennan skóla. Umboðsmaður leggur því til að ákvæðið kveði á um að barn skuli komið í almennan skóla sem fyrst og ekki seinna en fjórum vikum frá umsókn um alþjóðlega vernd.

Umboðsmaður barna vill enn fremur benda á mikilvægi þess að tryggja börnum á framhaldsskólaaldri aðgang að menntun, enda eiga öll börn á aldrinum 16 til 18 ára rétt á menntun við hæfi,  sbr. 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Umboðsmanni er kunnugt um að börn á aldrinum 16-18 ára þurfi oft að bíða í marga mánuði áður en þau komast í skóla, t.d. ef þau koma til landsins á miðri skólaönn.  Væri því full ástæða til að kveða á um það í reglugerðinni að tryggja skuli úrræði fyrir börn á þessum aldri án tafar, t.d. á vegum framhaldsskóla sem bjóða upp á nám fyrir innflytjendur eða annarra aðila sem geta tryggt þeim menntun eða starfsnám við hæfi.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna