Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring) 676. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um  frumvarp til laga um sjúkratryggingar (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring), 676. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti 2. maí 2016.

Skoða frumvarp til laga um sjúkratryggingar (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring), 676. mál.
Skoða feril málsins

Umsögn umboðsmanns barna

Velferðarnefnd  Alþingis                                                                                      

Reykjavík, 2. maí 2016
UB:1605/4.1.1 

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýring) 676. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 14. apríl sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Vegna anna hefur umboðsmaður barna því miður ekki haft tök á því að fara yfir frumvarpið með ítarlegum hætti. Hann hefur þó áhyggjur af því að með frumvarpinu sé í raun verið að auka gjaldtöku þegar kemur að heilbrigðisþjónustu fyrir börn. Má í því sambandi minna á 24. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, en þar kemur fram að börn eigi rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja og er í þeim tilgangi skylt að tryggja öllum börnum nauðsynlega læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu. Brýnt er að öllum börnum sé tryggð sambærileg þjónusta, án tillits til efnahags foreldra, sbr. meðal annars 2. gr. Barnasáttmálans. Þá á það sem er börnum fyrir bestu á ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn, sbr. meðal annars 3. gr. Barnasáttmálans.

Þjónusta í nærumhverfi barna er sérstaklega mikilvæg og er því almennt eðlilegt að börn leiti fyrst til heilsugæslunnar til að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Hins vegar hefur umboðsmaður barna fengið ábendingar um langan biðtíma á mörgum heilsugæslustöðvum. Má ætla að það tilvísunarkerfi sem lagt er til í ofangreindu frumvarpi geti verið þungt í framkvæmd og orðið til þess að börn þurfi að bíða enn lengur eftir þjónustu við hæfi. Sérstaklega er hætta á því að börn efnaminni foreldra þurfi að bíða eftir þjónustu, þar sem foreldrar þeirra hafa ekki tök á því að leita til sérfræðilækna án tilvísunar.  

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna