Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til almennra hegningarlaga (samningur Evrópuráðsins um baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi), 401. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til almennra hegningarlaga (samningur Evrópuráðsins um baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi), 401. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. febrúar 2016.

Skoða þingskjalið.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

Reykjavík, 2. febrúar 2016
UB: 1602/4.1.1

 

Efni: Frumvarp til almennra hegningarlaga (samningur Evrópuráðsins um baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi), 401. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 21. janúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Fullgilding á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi væri mikilvægt skref í þá átt að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og skaðlegum hefðum sem stefna velferð barna í verulega hættu. Fagnar umboðsmaður barna því  frumvarpinu og vonar að það verði að lögum.

Heimilisofbeldi getur haft alvarleg áhrif á velferð og þroska barna, hvort sem ofbeldið beinist beinlínis gegn þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum. Að mati umboðsmanns barna er löngu tímabært að viðurkenna slíkt ofbeldi sem sérstakt brot í almennum hegningarlögum. Refsiákvæði um heimilisofbeldi eykur ekki einungis refsivernd þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi, heldur felur jafnframt í sér mikilvæga stefnuyfirlýsingu um alvarleika slíks ofbeldis. 

Í 7. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvær breyting á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir nr. 25/1975. Að gefnu tilefni vill umboðsmaður barna vekja athygli á því að samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna er gert ráð fyrir því að foreldrar skuli taka þátt í umsókn um fóstureyðingu með stúlkum undir 16 ára aldri, nema sérstakar ástæður mæli gegn því.  Hægt er að túlka umrætt ákvæði þannig að foreldrar þurfi almennt að samþykkja fóstureyðingar hjá stúlkum undir 16 ára aldri. Börn eiga sjálfstæðan rétt til friðhelgi einkalífs og eiga að fá stigvaxandi rétt til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigið líf og líkama. Það samræmist illa þessum réttindum að foreldrar geti komið í veg fyrir fóstureyðingu hjá ungri stúlku og þannig  ákveðið fyrir hennar hönd að hún eigi að ganga með og eignast barn. Telur umboðsmaður barna því rétt að breyta umræddu ákvæði, þannig að tekið sé skýrt fram að stúlkur á öllum aldri eigi sjálfsákvörðunarrétt um það hvort þær kjósi að fara í fóstureyðingu eða ekki.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna