Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Skýrsla um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum

Í frétt á vef innanríkisráðuneytisns, dags. 24. september 2015,  var kynnt skýrsla um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Umboðsmaður barna sendi umsögn sína til ráðuneytisins 15. október. 

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Innanríkisráðuneytið

Reykjavík, 15. október 2015

 

Efni: Skýrsla um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum

Vísað er í frétt á heimasíðu ráðuneytisins, dags. 24. september sl., þar sem kynnt er skýrsla innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Umboðsmaður barna fagnar þeirri miklu vinnu sem hefur verið lögð í undirbúning skýrslunnar.

Umboðsmaður barna ítrekar fyrri afstöðu sína um að jafnt búsetuform barna snúist fyrst og fremst um að jafna stöðu foreldra, en ekki hagsmuni og réttindi barna. Hins vegar má ætla að það sé almennt börnum fyrir bestu að báðir foreldrar fái þann stuðning sem þeir þurfa frá hinu opinbera. Umboðsmaður barna gerir því ekki athugasemd við þá tillögu að foreldrar geti samið um skipta búsetu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Umboðsmaður telur þó ekki rétt að skipt búseta muni fela í sér að foreldrar þurfi að taka allar ákvarðanir sem varða barn í sameiningu. Þó að það sé að sjálfsögðu æskilegt að foreldrar hafi samráð um allar ákvarðanir sem varða börn, er ljóst að sú staða getur ávallt komið upp að foreldrar séu ósammála. Mikilvægt er að takmarka eins og hægt er togstreitu í lífi barna og reyna eftir fremsta megni að hlífa þeim við deilum foreldra. Að mati umboðsmanns barna er ekki viðunandi  að barn geti lent í þeirri stöðu að ekki sé hægt að taka ákvörðun, til dæmis um skólavist eða læknismeðferð, einungis vegna þess að foreldrar geta ekki komist að samkomulagi. Eins og umboðsmaður hefur áður bent á eiga hagsmunir barna af því að njóta stöðugleika og samfellu í daglegu lífi ávallt að vega þyngra en hagsmunir foreldra af því að standa jafnfætis þegar kemur að ákvarðanatöku, sbr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Þess vegna telur hann rétt að lögheimilisforeldri eigi áfram lokaorðið um vissar ákvarðanir sem varða daglegt líf barna, þegar foreldrar geta ekki komist að samkomulagi.

Umboðsmaður barna tekur undir það með starfshópnum að ákveðin skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að skipt búseta geti þjónað hagsmunum barna. Umboðsmaður er almennt sammála þeim skilyrðum sem starfshópurinn leggur til. Hann hefði þó viljað taka sérstaklega fram að áður en sýslumaður staðfestir samning foreldra um skipta búsetu sé ávallt skylt að leita eftir afstöðu þess barn sem um ræðir og að taka skuli ríkt tillit til vilja þess, í samræmi við aldur og þroska. Sama ætti að eiga við um staðfestingu annarra samninga sem varða börn. Má í því sambandi benda á að í framkvæmd er mjög misjafnt hvort börn fái yfir höfuð að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar foreldrar gera samninga um forsjá, umgengni og búsetu. Sú framkvæmd samræmist ekki réttindum barna til þess að hafa áhrif á öll mál sem varða þau með einum eða öðrum hætti, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. 

Ef ákvæði um skipta búsetu verða að veruleika er ljóst að það fyrirkomulag mun alls ekki henta öllum börnum. Telur umboðsmaður barna því mikilvægt að gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar til þess að stjórnvöld á vegum ríkis og sveitarfélaga hætti að líta á umgengnisforeldra sem barnlausa einstaklinga og tryggi þeim þann stuðning sem þeir þurfa til þess að geta sinnt framfærslu og umgengni við börn sín. Fagnar hann því sérstaklega tillögu starfshópsins um endurskoðun á lögum um Sjúkratryggingar Íslands nr. 112/2008, enda hefur hann ítrekað bent á mikilvægi þess að fötluð börn geti fengið nauðsynleg hjálpartæki á heimili beggja foreldra. Þá tekur hann sérstaklega undir mikilvægi þess að breyta tölvukerfi þjóðskrár sem fyrst, þannig hægt verði að skrá upplýsingar um forsjá, umgengni og búsetu.

Að lokum vill umboðsmaður barna ítreka mikilvægi þess að tryggja rétt barna til þess að tjá sig áður en teknar eru ákvarðanir um forsjá, umgengni eða búsetu, óháð því hvort deilur séu á milli foreldra eða ekki. Í framkvæmd virðist því miður of oft ekki rætt við börn áður en ákvarðanir um þessi mál eru teknar. Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga öll börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt til þess að tjá sig og er skylt að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lagt áherslu á að mat fullorðinna á því hvað sé barni fyrir bestu eigi ekki að duga til þess að takmarka þennan rétt. Er því ekki rétt að ætla að hlífa barni við deilum foreldra með því að veita því ekki tækifæri til þess að tjá sig. Þvert á móti er skylt að upplýsa barn sérstaklega um þennan rétt og tryggja barnvænlegar aðstæður og aðferðir, þannig að barn geti tjáð sig á eigin forsendum. Með þessu er þó að sjálfsögðu ekki átt við að það eigi að stilla barni upp við vegg og láta það velja á milli foreldra sinna, enda er einungis um rétt barns að ræða en ekki skyldu.  Með því að nýta þá sérþekkingu sem er til staðar er vel hægt að ná fram sjónarmiðum og vilja barna frá unga aldri án þess að það hafi skaðlegar afleiðingar í för með sér eða íþyngi þeim um of.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna