Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof (andvanafæðing).

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (andvandafæðing), 25. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. október 2015.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd

 

Reykjavík, 2. október 2015
UB: 1510/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (andvanafæðing), 25. mál.  

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 21. september sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Í frumvarpinu er lagt til að foreldrar sem eignast andvana barn öðlist sama rétt til fæðingarorlofs og aðrir foreldrar. Umboðsmaður barna styður þessa tillögu. Sérstaklega getur þetta skipt mál þegar foreldrar eiga önnur börn, enda getur það verið mikilvægt út frá hagsmunum barna að foreldrar þeirra fái fullnægjandi tækifæri til að takast á við þá sorg sem fylgir því að fæða andvana barn.

Að gefnu tilefni vill umboðsmaður barna benda á bréf sem hann sendi félags- og húsnæðismálaráðherra 21. maí sl. þar sem skorað er á ráðherra að beita sér fyrir því að lög um fæðingar- og foreldraorlof verði endurskoðuð, þannig að börnum verði ekki mismunað með ómálefnalegum hætti eftir stöðu foreldra þeirra. Umboðsmaður barna hvetur velferðarnefnd til þess að kynna sér efni bréfsins, en það má nálgast hér á vef embættisins.

 

Virðingarfyllst, 

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna