Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Drög að frumvarpi til laga um þjóðskrá

Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins dags. 9. janúar 2015 voru dög að frumvarpi til laga um þjóðskrá kynnt og bent á að unnt væri að senda athugasemdir um drögin til ráðuneytisins. Markmið frumvarpsins er að fá fram skýrar lagaheimildir fyrir Þjóðskrá Íslands til þess að stofnunin geti sinnt verkefnum sínum á traustum grunni og með fullnægjandi fjármögnun. Umboðsmaður barna sendi umsögn til ráðuneytisins 16. janúar.

Drög að frumvarp til laga um þjóðskrá

Umsögn umboðsmanns barna.

UB:1501/4.1.2

Efni: Drög að frumvarpi til laga um þjóðskrá

Vísað er í frétt af heimasíðu innanríkisráðuneytisins, dags. 9. janúar sl., þar sem bent er á að hægt sé að senda umsagnir um drög að frumvarpi til laga um þjóðskrá.

Í 6. gr. frumvarpsins er gengið út frá því að heimilt sé að skrá fjölskyldu- og skyldleikatengsl í þjóðskrá. Umboðsmaður barna hefur margoft bent á nauðsyn þess að breyta skráningu í þjóðskrá þannig að auk upplýsinga um lögheimili komi þar skýrt fram hverjir fara með forsjá barns og hverjir eru með umgengnisrétt. Hann telur því sérstaklega jákvætt að stefnt sé að því að fjölga skráningarsvæðum í þjóðskrá, þannig að hægt verði að skrá þessar upplýsingar.  Hann telur brýnt að unnið verði að nauðsynlegum úrbótum eins fljótt og hægt er, þannig að slík skráning geti hafist sem fyrst. Þá telur hann ástæðu til að breyta frumvarpinu og taka fram að forsjá barna séu meðal þeirra upplýsinga sem ávallt skuli skrá í þjóðskrá. Slíkt myndi vera til mikillar hagræðingar fyrir börn, foreldra og þá sem vinna með börnum.

Umboðsmaður barna hvetur innanríkisráðuneytið til þess að tryggja það fjármagn sem nauðsynlegt er til þess að hægt verði að fjölga skráningarsvæðum í þjóðskrá sem fyrst, þannig að mögulegt verði að skrá upplýsingar um forsjá og umgengnisrétt barna. 

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna