Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014, 458. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014, 458. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 11. febrúar 20113.

Skoða tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014, 458. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík,11. febrúar 2013
UB:1302/4.1.1

Efni: Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014, 458. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 24. janúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda tillögu.

Umboðsmaður barna fagnar því að loks sé fram komin framkvæmdaáætlun í barnavernd. Hann óttast þó að fjölmörg af þeim atriðum sem nefnd eru í umræddri framkvæmdaáætlun muni ekki koma til framkvæmda á því tímabili sem áætlunin nær til. Telur hann því nauðsynlegt að samþykkja áætlun sem nær til lengri tíma. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn.

Umboðsmaður barna hefur ennfremur verulegar áhyggjur af því að ekki sé nægilegt fjármagn til staðar til að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt í ofangreindri tillögu. Hann telur það því algjöra grundvallarforsendu að tryggt verði „nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins“, eins og fram kemur í tillögunni. Ljóst er að rekstrarvandi Barnaverndarstofu er nú þegar verulegur og allt bendir til þess að úrræðum á hennar vegum muni fækka á næstunni. Er því óraunhæft að ætla Barnaverndarstofu frekari verkefni án þess að tryggja aukið fjármagn.

Umboðsmaður barna lýsir yfir ánægju með marga þætti framkvæmdaáætlunarinnar. Hann telur þó orðalag hennar of almennt og í sumum tilvikum jafnvel óljóst að hverju skuli stefnt. Þá er í ákveðnum tilvikum vísað til þess að brýnt sé að bæta þjónustu, án þess að fram komi hvernig og hvenær það skuli gert.  Umboðsmaður barna telur því nauðsynlegt að skýra orðalag tillögunnar og tiltaka með hvaða hætti tilteknir þættir hennar skuli koma til framkvæmda.

Í tillögunni er meðal annars fjallað um nauðsyn þess að efla Barnahús og bæta aðstöðu þess, án þess að fram komi hvernig það skuli gert og fyrir hvaða tíma því skuli lokið. Umboðsmaður barna hefur margoft bent á nauðsyn þess að styrkja starfsemi Barnahúss þannig að hægt verði að tryggja öllum börnum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi fullnægjandi þjónustu, óháð aldri, fötlun, búsetu eða stöðu að öðru leyti. Umboðsmaður telur ennfremur nauðsynlegt að tryggja sambærilega þjónustu fyrir þau börn sem eru eða hafa verið þolendur annars konar ofbeldis, helst með því að stækka umfang Barnahúss en annars með öðru sambærilegu úrræði.

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af stöðu barna sem eiga við geðræn vandamál að stríða eða stefna eigin velferð í hættu t.d. vegna vanlíðunar, hegðunarvandamála eða vímuefnaneyslu. Telur hann því jákvætt að fjallað sé um nýja meðferðarstofnun fyrir unglinga í alvarlegum vímuefna- og afbrotavanda í ofangreindri tillögu. Af orðalagi í athugasemdum með tillögunni er hins vegar óljóst hvort raunverulega sé stefnt að því að koma á fót slíku úrræði, þar sem einungis er vísað til tillagna Barnaverndarstofu. Umboðsmaður barna telur því nauðsynlegt að skýra orðalag tillögunnar að þessu leyti og kveða beinlínis á um að ný meðferðarstofnun skuli sett á fót og fyrir hvaða tíma það skuli gert. Þá er sem fyrr segir nauðsynlegt að tryggja að nægilegt fjármagn renni til þess verkefnis.

Eins og kemur fram í athugasemdum með tillögunni gæti ný meðferðarstofnun einnig nýst fyrir börn sem hafa brotið af sér. Í gildi er samkomulag milli Fangelsismálastofnunar ríkisins og Barnaverndarstofu sem gengur út á að börn, sem hafa verið dæmd í óskilorðsbundið fangelsi, afpláni dóminn á meðferðarheimili. Slík afplánun er þó háð samþykki viðkomandi barns og því að meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu geti tekið á móti því. Þessi skipan tryggir því ekki alfarið að börn séu aðskilin frá eldri föngum eins og kveðið er á um í c-lið 37. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Dæmin sýna að það eru ávallt einhverjir sem kjósa að taka út refsingu sína í fangelsi frekar en á meðferðarheimili, sem er ekki alltaf í samræmi við það sem er viðkomandi fyrir bestu. Umboðsmanni barna þykir því æskilegt að samkomulaginu við Barnaverndarstofu verði breytt þannig að hægt verði að vista barn á meðferðarheimili án samþykkis þess eða að dómara verði beinlínis fengin heimild til að dæma einstakling til afplánunar á meðferðarheimili. Þá telur umboðsmaður afar brýnt að barnaverndin aðstoði ungmenni sem hafa lokið afplánun í fangelsi eða á meðferðarheimilum og veiti þeim stuðning til þess að aðlagast samfélaginu á ný.

Í tillögunni er meðal annars fjallað um tilraunaverkefni um meðferð tilkynninga um heimilisofbeldi. Tekið er fram að verkefnið hafi verið framlengt til ársloka 2012. Nú er útlit fyrir að ekki verði tryggt nægilegt fjármagn til að halda áfram með þetta mikilvæga verkefni. Getur umboðsmaður ekki séð að umfjöllun um verkefnið eigi heima í framkvæmdaáætlun fyrir árin 2013 og 2014, nema stefnt sé að því að tryggja aukið fjármagn.

Að lokum vill umboðsmaður barna taka fram að hann telur mikilvægt að í framkvæmdaáætlun í barnavernd sé í meira mæli fjallað um forvarnir og aðgerðir til að koma mega í veg fyrir ofbeldi gegn börnum.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna