Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (stefnandi barnsfaðernismáls), 323. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um barnalög (stefnandi barnsfaðernismáls), 323. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 14. febrúar 2013.

Skoða Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (stefnandi faðernismáls), 323. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 14. febrúar 2013
UB: 1302/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (stefnandi barnsfaðernismáls),  323. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 31. janúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að tryggja rétt barna til að þekkja uppruna sinn, sbr. meðal annars 7. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ljóst er að framfarir í lífsýnarannsóknum hafa orðið til þess að auðvelt er að skera úr um það með óyggjandi hætti hver er líffræðilegur faðir barns. Telur umboðsmaður barna því tímabært að breyta barnalögunum og kveða á um að maður sem telur sig föður barns geti höfðað faðernismáls, án nokkurra takmarkana. Fagnar hann því ofangreindu frumvarpi og vonar að það verði að lögum. Umboðsmaður barna telur þó að ýmislegt sé óskýrt varðandi áhrif þessarar breytingar á aðstæður barna í mismunandi fjölskyldugerðum.

Umboðsmaður barna vonar að dómstólar geti stöðvað tilhæfulausar málsóknir eins og segir í greinargerð enda telur umboðsmaður mikilvægt að tryggja stöðuleika barna og friðhelgi fjölskyldunnar. Ein leið til að stuðla að því gæti verið að láta mann sem fer í faðernismál af ástæðulausu bera allan kostnað af málinu.

Annað sem umboðsmaður vill benda á og tengist stöðugleika í lífi barna er áhrif faðernismáls á líf barns sem kemst að því á viðkvæmum aldri að það eigi annan kynföður en það hélt. Umboðsmaður telur brýnt að fyllstu nærgætni sé gætt þegar niðurstaða barnsfaðernismáls er kynnt fyrir barni þar sem slík niðurstaða getur bæði verið barni alvarlegt áfall eða mikil gleði – allt eftir aðstæðum. Eftir mat á því hvort og þá hvernig barn skuli kynnast kynföður sínum ætti fyrirkomulag aðlögunar að vera endurskoðað reglulega og á forsendum barnsins.

Umboðsmaður barna vill einnig beina sjónum að hagsmunum barna sem hafa alla tíð alist upp með föður sem er ekki líffræðilegur faðir þeirra. Í núgildandi lögum segir: „Maður skal talinn faðir barns ef niðurstöður mannerfðafræðilegra rannsókna benda eindregið til þess að hann sé faðir þess." Umboðsmaður veltir fyrir sér hvort það sé í samræmi við bestu hagsmuni barns að staðhæfa að líffræðileg tengsl eigi ávallt að vega þyngra en tilfinningaleg tengsl. Þetta eru atriði sem umboðsmaður barna telur mikilvægt að löggjafinn velti fyrir sér. Jafnvel væri hægt að hugleiða hvort ástæða sé til að veita dómurum meira svigrúm til þess að meta hver skuli teljast lagalegir faðir barns, út frá aðstæðum hverju sinni. Umboðsmaður gerir sér grein fyrir því að slíkt mat yrði ávallt mjög vandasamt í framkvæmd og þá yrði vilji og afstaða barns að hafa áhrif, í samræmi við aldur þess og þroska, sbr. 3. mgr. 1. gr. barnalaga og 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna