Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Skýringar með 12. gr. frumvarps til stjórnskipunarlaga

Á fundi velferðarnefndar þann 28. nóvember sl. óskaði nefndin eftir því að umboðsmaður barna og UNICEF á Íslandi myndu senda skriflegar athugasemdir við skýringar með 12. gr. frumvarps til stjórnskipunarlaga um rétt barna.

Frumvarpið er að finna í heild sinni hér. 

Hér eru athugasemdir við skýringar með 12. gr. frumvarps til stjórnskipunarlaga frá umboðsmanni barna og UNICEF á Íslandi.

Nefndasvið Alþingis
Félagsmálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík


Reykjavík, 6. desember 2012

Efni: Skýringar með 12. gr. frumvarps til stjórnskipunarlaga

Á  fundi velferðarnefndar þann 28. nóvember sl. óskaði nefndin eftir því að umboðsmaður barna og UNICEF á Íslandi myndu senda  skriflegar athugasemdir við skýringar með 12. gr. frumvarps til stjórnskipunarlaga um rétt barna.

Umboðsmaður barna og UNICEF á Íslandi leggja til að eftirfarandi texti verði notaður í athugasemdum með umræddu ákvæði. Hrefna Friðriksdóttir, sem einnig var viðstödd á fundi nefndarinnar, hefur lesið yfir tillögurnar. Umræddar athugasemdir byggja að miklu leyti á skýringum stjórnlagaráðs við ákvæðið. 

Um 12. gr.
Markmið 12. gr. er að tryggja hagsmuni og réttindi barna á forsendum barnanna sjálfra í samræmi við helstu meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Með ákvæðinu er lögð áhersla á að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi. Ákvæðið hefur auk þess áhrif á túlkun annarra ákvæða og sækja má stoð til þess til að heimila undantekningar frá öðrum mannréttindaákvæðum ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum eða til að tryggja rétt þeirra að öðru leyti.  Til viðbótar við réttarvernd 12. gr. njóta börn einnig með sjálfstæðum hætti annarra mannréttinda sem kveðið er á um í frumvarpinu. Við túlkun á öðrum mannréttindaákvæðum er mikilvægt að taka mið af hagsmunum barna og því hvernig börn geta notið og beitt réttindum sínum. 

 Í 1. mgr. 12. gr. er ákvæði sem er samhljóða 3. mgr. 76. gr. núgildandi stjórnarskrár að því undanskildu að bætt hefur verið við tilvísun til „allra“ barna. Ákvæðið var tekið upp við endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar með lögum nr. 97/1995. Ákvæðið felur í sér stefnuyfirlýsingu sem sækir meðal annars stoð í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og að nokkru einnig í 24. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ákvæðið getur þó ennfremur falið í sér jákvæðar skyldur til þess að grípa til aðgerða til verndar börnum og veita þeim og fjölskyldum þeirra þá aðstoð sem nauðsynleg er til að tryggja velferð barna og mæta lágmarksþörfum þeirra, sbr. einnig ákvæði 22. gr. frumvarps þessa. Við túlkun ákvæðisins skal taka tillit til annarra mannréttindaákvæða, svo sem um friðhelgi fjölskyldulífs og félagslega aðstoð. Mikilvægt er að huga að því hvað telst vera hlutverk fjölskyldunnar annars vegar og hins opinbera hins vegar og má í því sambandi hafa hliðsjón af ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. 

 Í 2. mgr. 12. gr. er að finna þá meginreglu að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Nauðsynlegt er að meta hvað er barni fyrir bestu hverju sinni, meðal annars með hliðsjón af aðstæðum barns, réttindum þess og bestu þekkingu og niðurstöðum rannsókna á þörfum barna á hverjum tíma. Við mat á því hvað er barni fyrir bestu þarf einnig ávallt að horfa til skoðana barnsins sjálfs, sbr. 3. mgr. 12. frumvarpsins. Ákvæðið nær til allra ákvarðana sem varða börn með einum eða öðrum hætti, hvort sem þær eru teknar af yfirvöldum, lögaðilum eða einstaklingum. Þá nær ákvæðið ekki einungis til ákvarðana sem varða einstaka börn heldur jafnframt til ákvarðana sem snerta börn almennt. 

 Í 3. mgr. 12. gr. er að finna mikilvægt nýmæli um að barni skuli tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og að tekið skuli réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Ákvæðið felur í sér almennan rétt barna til þátttöku og á sér fyrirmynd í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Ákvæðið vísar jafnt til réttar einstakra barna, sem og til hópa barna eða barna almennt. Rétturinn til þátttöku nær til allra ákvarðana sem varða börn, hvort sem þær eru teknar af yfirvöldum, lögaðilum eða einstaklingum. Ákvæðið tryggir börnum rétt til þess að hafa áhrif á málefni sem þau varða og undirstrikar þannig stöðu þeirra sem sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi. Á sama tíma endurspeglar ákvæðið þá staðreynd að börn bera ekki óskoraða ábyrgð á eigin lífi og hvílir því endanleg ábyrgð á ákvörðunum almennt á fullorðnum. Mikilvægt er að undirstrika að ákvæðið felur í sér rétt barna en ekki skyldu. Ákvæðið leggur aftur á móti skyldu á yfirvöld til þess að skapa börnum raunveruleg tækifæri til þátttöku, bæði í eigum málum sem og í samfélaginu almennt. Ákvæðið veitir börnum á öllum aldri rétt til þátttöku og er því mikilvægt að leita fjölbreyttra leiða til að ná fram sjónarmiðum yngri barna og barna með sérþarfir. Eftir því sem börn eldast og þroskast eiga skoðanir þeirra að fá aukið vægi og er því rétt að stálpuð börn ráði almennt miklu um eigin málefni, svo lengi sem það gengur ekki gegn hagsmunum þeirra sjálfra.


Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Stefán Ingi Stefánsson,
framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi