Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, 748. mál.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, 748. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 10. maí 2012.

Skoða frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, 748. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík

Reykjavík, 10. maí 2012
Tilvísun: UB /4.1.1

Efni: Frumvarp til laga  um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu., 748. mál.

Vísað er til tölvupósts frá allsherjarnefnd Alþingis, dagsett 2. maí 2012, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Í frumvarpinu er m.a. fjallað um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins. Í 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins kemur fram að „Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“ Umboðsmaður barna vill vekja athygli á 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar koma fram skyldur ríkisins gagnvart börnum í þessum efnum:

17. gr.
 Aðildarríki viðurkenna mikilvægi fjölmiðla, og skulu þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki skulu í þessu skyni:
a) Hvetja fjölmiðla til að dreifa upplýsingum og efni sem börn njóta góðs af félagslega og menningarlega og samræmist anda 29. gr.
b) Stuðla að alþjóðlegri samvinnu við undirbúning, skipti og dreifingu á slíkum upplýsingum og efni af fjölbreyttum uppruna, menningarlegum, þjóðlegum og alþjóðlegum.
c) Stuðla að því að barnabækur séu samdar og þeim dreift.
d) Hvetja fjölmiðla til að taka sérstakt tillit til tungumálaþarfa barns sem tilheyrir minnihlutahópi eða er af frumbyggjaættum.
e) Stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningareglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þess, með ákvæði 13. og 18. gr. í huga.


Umboðsmaður barna vill því hvetja ráðmenn að stuðla að því að börn og ungmenni fái ekki aðeins afþreyingarefni við hæfi heldur líka fréttatengt efni sem er ætlað aldri þeirra og þroska og annars konar uppbyggilegt efni. Einnig vill Umboðsmaður barna árétta mikilvægi þess að öll börn geti notið þessa óháð stöðu þeirra samanber 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Umboðsmaður barna hefur fagnað því að búið sé að koma á fót Fjölmiðlanefnd og hefur bundið miklar vonir við störf hennar. En til að hún geti starfað sem skyldi verður að tryggja að stofnunin fái nægilegt fjármagn. Ef umrætt frumvarp verður að veruleika þarf að fylgja fjármagn til nefndarinnar til að tryggja rekstur og starfsemi hennar.


Virðingarfyllst,

______________________________
Margrét María Sigurðardóttir