Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Drög að reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum

Í tölvupósti frá mennta- og menningarmálaráðuneytingu, dags. 16. mars 2012, gafst umboðsmanni barna kostur á að koma með athugasemdir við drög að reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum. Athugasemdir sína sendi umboðsmaður með tölvupósti dags. 10. apríl 2012.

Athugasemdir umboðsmanns barna

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík 10. apríl 2012
UB:1204/4.1.2

Efni: Reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum.

Í tölvupósti frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dags. 16. mars, er óskað eftir ábendingum og athugasemdum við drög að ofangreindri reglugerð.

Skólaganga fósturbarna er málefni sem umboðsmaður barna hefur haft verulegar áhyggjur af og hefur ítrekað vakið athygli á þeim málum. Í því sambandi má benda á skýrslu sem umboðsmaður gaf út vorið 2008 og fjallar um skólagöngu barna sem voru í fóstri á vegum barnaverndarnefnda árin 2005-2007, sjá fylgiskjal. Í skýrslunni kom m.a. fram að víða er pottur brotinn þegar kemur að skólagöngu barna í tímabundnu fóstri. Skýrslan var m.a. send Alþingi þegar endurskoðun grunnskólalaganna átti sér stað. Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 var staða barna í tímabundnu fóstri sú sama og annarra barna með lögheimili í sveitarfélaginu. En með lögum nr. 91/2011 var grunnskólalögunum breytt að þessu leyti. Umboðsmaður barna gerði umsögn um frumvarp til breytinga á grunnskólalögum nr. 91/2011:

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að barnaverndarnefnd skuli kanna aðstæður og leggja mat á möguleika grunnskóla í sveitarfélagi til þess að koma til móts við þarfir barns, áður en því er ráðstafað í fóstur. Umboðsmaður barna getur ekki séð hvernig þetta ákvæði er til hagsbóta fyrir nemendur. Umboðsmaður barna hefur lagt mikla áherslu á að börnum sem er ráðstafað tímabundið í fóstur í annað sveitarfélag hafi sömu réttindi og þau börn sem eiga lögheimili þar. Telur umboðsmaður því ekki ástæðu til að veita sveitarfélögum meira svigrúm varðandi fósturbörn en önnur börn sem flytjast í sveitarfélagið. Margir þættir hafa áhrif á það hvar barni er ráðstafað í fóstur en við þá ákvörðun skiptir yfirleitt mestu máli hvernig aðstæður tilvonandi fósturfjölskyldu eru og hvernig hún getur mætt þörfum barns. Vissulega er einnig eðlilegt að aðstæður skóla til að taka við fósturbarni séu metnar áður en ákvörðun er tekin um hentugt fósturheimili en umboðsmaður barna telur þó mikilvægt að andstaða sveitarfélags eða skólastjóra geti ekki orðið til þess að barn verði ekki vistað hjá þeim fósturforeldrum sem geta tekið við því og sinnt þörfum þess best. Er því mikilvægt að skerpa á skyldu sveitarfélaga til þess að veita fósturbörnum þá þjónustu sem þau þurfa, á sama hátt og ef um barn sem ætti lögheimili í sveitarfélaginu væri að ræða. Umboðsmaður barna telur ennfremur ástæðu til að lögfesta ákvæði þess efnis að viðtökusveitarfélag beri ábyrgð á kostnaði vegna skólagöngu barns, enda er annars hætta á að ágreiningur sveitarfélaga um kostnað leiði til þess að barn sé utan skóla í lengri tíma. Þó að meginreglan sé sú að sveitarfélögum sé ekki skylt að veita íbúum annars sveitarfélags þjónustu að kostnaðarlausu verður að hafa í huga að þegar barni er ráðstafað í fóstur hjá fósturforeldrum, sem eru íbúar í sveitarfélagi og greiða þar útsvar, bera þau tímabundið sömu skyldur til barns og aðrir foreldrar. Getur sveitarfélag því ekki vikið sér undan því að tryggja fósturbarni einstaklinga sem búa í sveitarfélaginu þá þjónustu sem það þarf. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hagsmunir barns eiga ávallt að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir sveitarfélags, eins og meðal annars leiðir af 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Að mati umboðsmanns barna er orðalag 2. gr. reglugerðarinnar ekki fullnægjandi. Umboðsmaður telur ekki rétt að markmiðið sé að „leitast við“ að tryggja skólagöngu fósturbarna. Markmið reglugerðarinnar ætti frekar að vera á þá leið að skólaganga fósturbarna verði tryggð.

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir að ef ekki er unnt að koma til móts við þarfir barns og ráða bót á því á tilskildum tíma skal barnavernd meta aðra kosti sem betur geti mætt þörfum barnsins. Umboðsmaður telur þetta ákvæði óskýrt, of opið og viðbúið er að því verði beitt alltof oft í framkvæmd og þá er hætt við því að hagsmunir barnsins sem hlut á að máli verði fyrir borð bornir. 

Sjálfsagt er að vanda vel undirbúning þegar barni er ráðstafað í fóstur. Atburðarásin getur oft verið hröð enda er stundum brýnt að barn sé fjarlægt úr þeim aðstæðum sem það er í og komið fyrir á nýju heimili sem fyrst. Vangaveltur um skólagöngu barns í slíkum aðstæðum geta því vegið minna en heildarhagsmunir barns.

Samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar geta sveitarfélög vísað ágreiningi um kostnað vegna skólagöngu fósturbarna til úrskurðarnefndar. Í framkvæmd snúast ágreiningsmálin ekki eingöngu um kostnað heldur geta komið upp tilvik þar sem skólayfirvöld í viðtökusveitarfélagi treysta sér ekki til að taka við barni af öðrum ástæðum. Að mati umboðsmanns barna gæti því verið þörf á svipuðu úrræði fyrir sveitarfélög sem koma sér ekki saman um skólavist fósturbarna.

Kær kveðja,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna