Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Hugmyndir umboðsmanns barna um málefni sem æskilegt er að fjallað verði um í nýrri aðgerðaáætlun í málefnum barna

Umboðsmaður barna á sæti í Barnahópi Velferðarvaktarinnar. Verkefni hópsins er m.a. að leggja mat afleiðingar kreppunnar á börn og barnafjölskyldur og tilgreina hvaða upplýsingar vantar til að skýr mynd fáist. Auk þess að taka saman yfirlit um það sem þegar hefur verið gert til að koma í veg fyrir alvarlegar/varanlegar afleiðingar efnahagsástandsins á börn á hópurinn einnig að leggja fram tillögur til úrbóta.

Óskað hefur verið eftir því að þeir sem sæti eiga í Barnahópnum setji fram tillögur fyrir drög að nýrri aðgerðaráætlun í málefnum barna. Umboðsmaður tók því saman nokkur atriði sem embættið telur brýnt að fjallað verði um í nýrri aðgerðaráætlun. Umboðsmaður vonast til að geta komið með frekari ábendingar síðar. Þeir sem vilja gera athugasemdir eða koma með ábendingar varðandi þessar hugmyndir er velkomið að hafa samband við umboðsmann, t.d. með því að senda tölvupóst á ub@barn.is. Einnig er vert að benda á að á síðu Velferðarvaktarinnar er gátt þar sem hægt er að senda Velferðarvaktinni ábendingu eða fyrirspurn.

Hér að neðan er innlegg umboðsmanns barna inn í þessa vinnu sem hann sendi Velferðarvaktinni með tölvupósti dags.2. febrúar 2012.

Hugmyndir umboðsmanns barna um málefni sem æskilegt er að fjallað verði um í nýrri aðgerðaáætlun í málefnum barna
Febrúar 2012

Á fundi barnahóps Velferðarvaktarinnar þann 15. desember 2011 var ákveðið að safna saman tillögum fyrir drög að nýrri aðgerðaráætlun í málefnum barna. Umboðsmaður barna þakkar fyrir tækifærið til að koma með hugmyndir um málefni sem æskilegt er að fjallað verði um í nýrri aðgerðaráætlun. Þar sem í barnahópnum sitja fulltrúar sem hafa sérþekkingu á ýmsum málaflokkum sem varða daglegt líf og aðbúnað barna, s.s. skólagöngu, fjölskyldulíf, heilsu og líðan, ákvað umboðsmaður að leggja frekar áherslu á sértækari málaflokka í sínum tillögum. Vandasamt var að velja hvað ætti að fjalla um í tillögunum en auk þeirra hefði umboðsmaður gjarnan viljað fjalla um fleiri málefni s.s. fæðingarorlof, mikilvægi forvarna, sáttaumleitan í forsjár- og umgengnismálum, fræðslu í foreldrafærni fyrir ýmsa hópa, málefni innflytjenda og barna sem eiga erfitt með að fóta sig í skólakerfinu. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að stjórnvöld hafi víðtækt samráð við ólíka aðila, ekki síst börn eða fulltrúa barna, við gerð aðgerðaráætlunar í málefnum barna. Einnig er brýnt að áætlunin taki mið af ábendingum frá alþjóðlegum stofnunum, s.s. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmaður barna hefur tekið saman neðangreind atriði sem embættið telur mikilvægt að hugað verði að þegar ný aðgerðaráætlun verður sett saman.

1. Að Barnasáttmálinn verði lögfestur og innleiddur í íslenskt samfélag
Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 en hann hefur ekki ennþá verið lögfestur. Þó að fullgilding feli í sér að íslenska ríkið sé skuldbundið til þess að virða og uppfylla ákvæði sáttamálans er mjög sjaldan vitnað í ákvæði hans við úrlausn mála hjá stjórnvöldum og dómstólum. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að Barnasáttmálinn verði lögfestur og að honum verði í auknum mæli beitt í framkvæmd. Frumvarp um lögfestingu Barnasáttmálans liggur fyrir en hefur ekki enn verið lagt fyrir Alþingi. Það sem stendur aðallega í vegi fyrir því er fyrirvari sem Íslandi gerði í upphafi við c-lið 37. gr. sáttmálans um aðskilnað ungra fanga frá þeim eldri.
Auk þess leggur umboðsmaður barna áherslu á að Barnasáttmálinn verði innleiddur í íslenskt samfélag, enda vel hægt að hefjast handa við innleiðingu sáttmálans þrátt fyrir að hann hafi ekki enn verið lögfestur. Ein af helstu athugasemdum sem barnaréttarnefndin gerði við íslensk stjórnvöld er innleiðing sáttmálans í íslenskt samfélag. Barnaréttarnefndin gagnrýndi að stjórnvöld hafi ekki gert landsáætlun fyrir innleiðingu Barnasáttmálans en nefndin benti á að slík áætlun þurfi að tilgreina ábyrgð ólíkra stofnana auk sveitarfélaga á sínum þætti í framkvæmd sáttmálans á Íslandi. Markmiðið með slíkri áætlun er að geta þjónað sem verkfæri fyrir öll stig stjórnsýslunnar þannig að í öllu starfi með börnum og við ákvarðanatöku sem varðar börn er miðað við þær forsendur sem sáttmálinn gengur út frá og Ísland hefur gengið að með fullgildingu hans. Bæði lögfesting og innleiðing Barnasáttmálans eru mikilvæg skref í að tryggja réttindi og stöðu barna í íslensku samfélagi.

2. Að þjónusta við börn sem skorin hefur verið niður verði tryggð á ný
Mikill niðurskurður hefur átt sér stað á öllum sviðum samfélagsins í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 og hefur hann bitnað á öllum þjóðfélagshópum, ekki síst þeim sem standa að einhverju leyti höllum fæti.Umboðsmaður barna hefur bent á mikilvægi þess að halda sérstaklega vel utan um börn og réttindi þeirra á niðurskurðartímum og tryggja að þau njóti þeirrar þjónustu sem velferð þeirra krefst. Það er einnig nauðsynlegt að huga vel að börnum nú þegar hafist er handa við uppbyggingu íslensks samfélags. Mikilvægt er að sú þjónusta sem var skert á niðurskurðartímum, t.d. í leik-, grunn- og framhaldsskóla, á frístundaheimilum, í heilbrigðiskerfinu, í málefnum fatlaðra barna og á sviði barnaverndar verði a.m.k. aftur sambærileg við það sem áður var.

3. Að heilbrigðisþjónusta við börn á öllum sviðum verði bætt
Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hefur óneitanlega bitnað á börnum, ekki síst þeim sem búa á landsbyggðinni, eru fötluð eða standa að einhverju leyti höllum fæti. Ef börn fá ekki þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa eru líkur á því að það hafi alvarlegri vandamál í för með sér í framtíðinni.
Tannheilbrigði barna á Íslandi fer hnignandi en dregið hefur úr kostnaðarþátttöku stjórnvalda við tannviðgerðir á börnum og unglingum. Umboðsmaður barna telur það óeðlilegt að tannheilbrigði njóti ekki sömu stöðu og önnur svið heilbrigðismála í hinu íslenska velferðarkerfi enda er tannheilbrigði óneitanlega stór þáttur í líðan og heilsu barna. Í rúman áratug hefur ekki verið í gildi samningur milli Tryggingarstofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands um endurgreiðslu á tannlæknaþjónustu. Í dag fá foreldrar endurgreitt samkvæmt gjaldskrá ráðherra sem er ekki í samræmi við raunkostnað þjónustunnar og lækkar endurgreiðsluhlutfallið því stöðugt. Er því ljóst að börn efnaminni foreldra njóta síður þeirrar tannheilbrigðisþjónustu sem þau þurfa og er það í andstöðu við 2. gr. Barnasáttmálans. Ljóst er að heimsóknum barna til tannlækna hefur fækkað þrátt fyrir að forvarnarskoðanir fyrir börn á aldrinum þriggja, sex og tólf ára, séu foreldrum að kostnaðarlausu. Má það e.t.v. rekja til þess að foreldrar sjá ekki tilgang í því að fara í ókeypis skoðun til tannlæknis þegar ljóst er að barnið þarf á tannviðgerð að halda. Raunin er því sú að afgangur hefur verið af fjárlögum til tannlækninga síðustu misseri – á sama tíma og meiri þörf er á að jafna aðstöðu barna og tryggja þeim öllum aðgang að tannheilbrigðisþjónustu.
Staða barna með hegðunar- og geðraskanir er vaxandi áhyggjuefni á Íslandi. Langir biðlistar og skortur á úrræðum fyrir börn með slíkar raskanir hafa skapað mjög erfitt ástand, bæði fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. Á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) er tekið á móti börnum sem eiga við geðheilsuvanda að stríða. Þrátt fyrir að góður árangur hafi náðst að stytta biðlistann fyrir nokkrum árum, fjölgaði málum í kjölfar efnahagshrunsins og biðlistinn hefur lengst á ný. Eru því dæmi um börn þurfi að bíða í allt að eitt ár eftir þjónustu og meðferð. Mikilvægt er að brugðist sé skjótt við hegðunar- og geðröskunum barna til að minnka eða koma í veg fyrir vandamál sem slíkum röskunum fylgja. Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um að skortur sé á skýru skipulagi og verklagi í þessum málaflokki. Þannig virðist oft óljóst hver þáttur skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu er og hvaða stofnun fari með mismunandi þætti málsins. Takmörkuð samskipti virðast vera milli þeirra sem starfa á þessu sviði og fagfólk veit ekki hvaða þjónusta barni hefur verið boðin áður, hvar og hvernig það gekk.

4. Að bætt verði úr skorti á úrræðum barnaverndar
Ljóst er að mikil aukning hefur orðið á fjölda tilkynninga sem berast barnavernd um land allt. Einnig er aukið álag á starfsfólk barnaverndarnefnda í ljósi þess að um erfiðari og þyngri mál er að ræða. Í samræmi við þessa þróun hafa fjárframlög til barnaverndarnefnda ekki aukist og starfsfólki fjölgað óverulega. Þannig hefur þjónusta við börn verið skert þar sem hætta er á því að starfsfólk barnaverndarnefnda hafi ekki undan því að sinna öllum þeim málum sem upp koma. Er því mikilvægt að barnaverndaryfirvöld fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda til þess að geta sinnt starfi sínu.
Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar um skort á úrræðum þegar um er að ræða börn sem stofna eigin velferð í hættu, t.d. vegna vanlíðan, hegðunarvandamála eða vímuefnaneyslu. Nauðsynlegt er að tryggja að nægileg úrræði séu til staðar og ávallt sé metið í hverju tilviki fyrir sig hvaða úrræði henti viðkomandi barni. Einnig er mikilvægt að börn þurfi ekki að bíða lengi eftir viðeigandi meðferðarúrræði og fái aðstoð eins fljótt og mögulegt er. Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar um að fullorðnir fái betri þjónustu en börn þegar kemur að geðrænum vandamálum eða áfengis- og vímuefnavanda. Umboðsmaður barna leggur til að allt verklag sem viðkemur samvinnu mismunandi stofnana, s.s. barnaverndaryfirvalda, meðferðarstofnana, spítala, lögreglu o.s.frv. verði endurskoðað í þeim tilgangi að ofangreindir aðilar geti ekki skilgreint sig frá vandanum án þess að tryggt sé að viðkomandi barn fái þjónustu annars staðar. Þannig eiga börn í vanda ávallt að hafa einhvern að leita til sem getur hjálpað og ekki snúið sér undan vandamálinu.

5. Að hugað verði að málefnum barna sem komast í kast við lögin
A. Að sakhæf börn verði ekki vistuð með fullorðnum föngum
Mjög fá sakhæf börn sitja í fangelsi á Íslandi á hverju ári. Það er þó áhyggjuefni að þegar svo háttar til eru börn ekki aðskilin frá fullorðnum föngum í fangelsum, eins og kveðið er á um í c-lið 37. gr. Barnasáttmálans. Þegar Ísland undirritaði og fullgilti Barnasáttmálann var settur fyrirvari um fyrrnefnt ákvæði sökum þess að aðskilnaður barna sem sitja í fangelsum frá fullorðnum föngum er ekki bundinn í lög. Hins vegar er lögfest að taka skuli tillit til aldurs fanga þegar afplánunarstaður er ákveðinn. Í gildi er samkomulag milli Fangelsismálastofnunar ríkisins og Barnaverndarstofu sem gengur út á að börn, sem hafa verið dæmd í óskilorðsbundið fangelsi, afpláni dóminn á meðferðarheimili. Slík afplánun er þó háð samþykki viðkomandi barns og því að meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu geti tekið á móti því. Þessi skipan tryggir því ekki alfarið að börn séu aðskilin frá eldri föngum. Dæmin sýna að það eru ávallt einhver börn sem kjósa að taka út refsingu sína í fangelsi frekar en á meðferðarheimili. Hætt er á að slík ráðstöfun sé viðkomandi barni ekki alltaf fyrir bestu. Umboðsmanni barna þykir því æskilegt að samkomulaginu við Barnaverndarstofu verði breytt og hægt verði að vista barn á meðferðarheimili án samþykkis þess eða að dómara verði beinlínis fengin heimild til að dæma einstakling til afplánunar á meðferðarheimili.
B. Að samvinna milli fangelsismálayfirvalda og barnaverndaryfirvalda verði aukin
Árið 2010 heimsótti umboðsmaður flest fangelsi á landinu. Heimsóknirnar leiddu í ljós að sáralítil samvinna er á milli barnaverndaryfirvalda og fangelsisyfirvalda. Það er nauðsynlegt að veita ungum föngum viðeigandi aðstoð og endurhæfingu til að efla sjálfsmynd þeirra og hjálpa þeim að verða góðir samfélagsþegnar. Þó að ungir fangar fái meiri aðstoð fangelsismálayfirvalda en aðrir fangar er þjónusta við þá ekki fullnægjandi að mati umboðsmanns barna. Lítil sem engin samvinna er á milli barnaverndaryfirvalda og fangelsismálayfirvalda þegar barn er dæmt til fangelsisvistar og tekur út refsingu í fangelsi í stað meðferðarheimilis. Þannig virðist barnavernd ekki hafa neitt eftirlit eða önnur afskipti af börnum sem sitja í fangelsi. Þegar börn ljúka afplánun virðast auk þess engin sérstök úrræði eða þjónusta í boði til að hjálpa þeim að aðlagast samfélaginu á ný, hvort sem ennþá er um börn að ræða eða ekki. Þessi börn eða ungmenni þurfa að standa á eigin fótum og er því hætta á að þau misstígi sig fljótt aftur. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að ungum föngum verði veitt eftirfylgni og að fangelsisyfirvöld og barnaverndaryfirvöld vinni saman þegar skörun verður á málefnum barna.

6. Að fjölskylduráðgjöf verði tryggð öllum óháð búsetu
Umboðsmanni barna berast reglulega erindi sem varða samskiptavanda foreldra eða erfið samskipti foreldra og barna. Slíkan vanda er yfirleitt hægt að leysa með góðri ráðgjöf og samtölum. Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskyldu- og uppeldisráðgjöf. Í Reykjavík er starfrækt Fjölskyldumiðstöð en að henni standa Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands, þjónustumiðstöðvar í Reykjavík og velferðarráðuneytið. Umboðsmaður barna hefur mikla trú á því starfi sem fer fram í Fjölskyldumiðstöðinni í Reykjavík og vísar oft fólki sem leitar til embættisins þangað. Þessi þjónusta er þó aðeins í boði fyrir þá sem eiga lögheimili í Reykjavík. Þó að í mörgum sveitarfélögum sé vönduð fjölskylduráðgjöf í boði telur umboðsmaður barna mikilvægt að Fjölskyldumiðstöðin verði efld þannig að íbúum fleiri sveitarfélaga verði gert kleift að nýta sér þá þjónustu eða að sambærilegar Fjölskyldumiðstöðvar verði settar á fót víðar á landinu, t.d. þar sem fámenni gerir það að verkum að fólk vill síður deila trúnaðarmálum sínum við fólk sem það kannast við úr samfélaginu.

7. Að börnum sem eru heyrnalaus eða alvarlega heyrnaskert séu tryggð grundvallarréttindi, t.d. menntun og rétturinn til að þroskast
Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af börnum sem eru heyrnalaus eða alvarlega heyrnaskert. Þessi börn þurfa að alast upp við virkt tvítyngi á íslensku og íslenskt táknmál. Ráðgjöf og þjónusta við þessi börn virðist mismunandi eftir sveitarfélögum og gæði og magn þjónustu veltur að miklu leyti á getu og vilja foreldra til að berjast fyrir réttindum barna sinna.
Að sögn sérfræðinga er afleiðing þessa að börn ná hvorki máltöku á íslensku né íslensku táknmáli og verða því málvana, þ.e. þau eiga sér ekkert móðurmál sem er nothæft til eðlilegra tjáskipta. Það þarf ekki að fjölyrða um að börn sem eiga sér ekki móðurmál hafa ekki sömu möguleika og önnur börn á því að móta sterka sjálfsmynd, tileinka sér félagsfærni, samkennd og öðlast menntun. Framtíðarmöguleikar þeirra er því verulega takmarkaðir. Þetta á að einhverju leyti einnig við um börn foreldra sem eru heyrnarlausir eða alvarlega heyrnarskertir enda hafa þau börn oft skertan málþroska.
Máltaka fer fram á heimilum og því telur umboðsmaður brýnt að allir foreldrar umræddra barna fái handleiðslu og þjálfun fagfólks frá upphafi. Þá er mikilvægt að leik- og grunnskólar hafi greiðan aðgang að ráðgjöf og þjónustu táknmálsfræðinga og annarra sérfræðinga á þessu sviði þannig að öll börn sitji við sama borð. Þessi þjónusta við skóla og foreldra þarf að vera þverfagleg og miðast að þörfum, þroska og aðstæðum hvers einasta barns. Umboðsmaður barna telur einnig brýnt að skólarnir átti sig á því að þeir bera ábyrgð á að öllu námsefni sé miðlað til umræddra barna eins og annarra á máli sem er þeim aðgengilegt. Einnig að kennsla í íslensku og íslensku táknmáli hafi sama vægi ef börnin eiga að ná virku tvítyngi. Umboðsmaður barna leggur áherslu á að þessum litla hópi barna verði tryggð sú þjónusta sem velferð þeirra krefst óháð búsetu eða félagslegum aðstæðum fjölskyldna þeirra.

8. Að auka vernd barna gegn hvers kyns ofbeldi sem beinist gegn barni eða einhverjum nákomnum þegar teknar eru ákvarðanir um forsjá og umgengni
Umboðsmaður barna telur óumdeilt að ofbeldi ætti að hafa mun meira vægi þegar teknar eru ákvarðanir varðandi forsjá og umgengni. Einnig ætti vilji barna að ráða meiru um niðurstöðu mála sem varða þau beint.
Þegar tekin er ákvörðun um umgengni barns skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 1. mgr. 47. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þrátt fyrir þetta virðast ákvarðanir í umgengnismálum á Íslandi of oft ganga fremur út frá réttindum foreldis en barns. Sem dæmi um slíkt má nefna að það er nánast ávallt kveðið á um að umgengni skuli fara fram þó að barn vilji það alls ekki og hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu foreldis. Raunin er því sú að umgengnisréttur er mjög foreldramiðaður og ekki er nægilega metið í hverju tilviki fyrir sig hvað sé viðkomandi barni fyrir bestu. Einnig virðist oft ekki nægilega tekið tillit til þess hver vilji barnsins er í umræddum málum.
Heimilisofbeldi hefur langvarandi og alvarleg áhrif á þroska og líðan barna, hvort sem það beinist að þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum. Þegar ofbeldi hefur átt sér stað innan veggja heimilisins heldur það oftar en ekki áfram þrátt fyrir skilnað eða sambúðarslit foreldra, auk þess sem líkurnar á því að sá sem beitir ofbeldinu beini því að barninu aukast töluvert við slíkar aðstæður. Er því mikilvægt að huga sérstaklega að vernd barna gegn heimilisofbeldi þegar metið er hvaða tilhögun forsjár sé barni fyrir bestu hverju sinni.
Í barnalögum nr. 76/2003 er ekki kveðið á um hvaða vægi heimilisofbeldi skuli hafa þegar tekin er ákvörðun um forsjá barns. Við rannsókn sem var gerð á dómum í forsjármálum kom í ljós að heimilisofbeldi hefur takmarkað vægi við mat á forsjárhæfni foreldris. Slíkar niðurstöður endurspegla ákveðna vanþekkingu á afleiðingum heimilisofbeldis og þeirri hættu sem skapast þegar sá sem beitir ofbeldi er fengin forsjá barns. Með sama hætti hefur heimilisofbeldi almennt takmörkuð áhrif við mat á umgengni barns við foreldri. Eins og að framan greinir eru mörg dæmi um að kveðið sé á um að barn eigi að fara í reglubundna umgengni til foreldris, jafnvel þó það eigi á hættu að verða fyrir ofbeldi. Af réttarframkvæmdinni má því draga þá ályktun að litið sé á það sem nánast afdráttarlausa meginreglu að umgengni sé barni fyrir bestu, óháð hegðun eða aðstæðum umgengnisforeldris.
Með hliðsjón af því hversu lítil áhrif heimilisofbeldi hefur þegar tekin er ákvörðun um forsjá og umgengni má draga í efa að börnum sé tryggð fullnægjandi vernd gegn ofbeldi í réttarframkvæmd að þessu leyti.

9. Að málshraði verði aukinn í umgengnismálum
Mikilvægt er að leysa úr ágreiningi um umgengni með eins vönduðum og fljótlegum hætti og hægt er. Eins og staðan er í dag þá tekur oft langan tíma, stundum marga mánuði, að leysa úr umgengnismálum hjá sýslumönnum og á meðan fer oft engin umgengni fram. Brýnt er að auka málshraða í þessum málum án þess að það bitni á faglegum vinnubrögðum. Þegar djúpstæður ágreiningur er til staðar í umgengnismálum þarf sýslumaður að leita eftir áliti barnaverndar, en slíkt getur tekið langan tíma. Æskilegt væri að sýslumenn hefðu sjálfir sérfræðinga sem gætu gert athuganir áður en kveðinn er upp úrskurður í umgengnisdeilu. Slíkt myndi bæta sérfræðiþekkingu innan sýslumannsembættanna og auka málshraða til muna.

10. Að slysavörnum barna verði betur sinnt
Embætti umboðsmanns barna berast á hverju ári fjöldi ábendinga og fyrirspurna varðandi slys á börnum og slysavarnir. Þessi málaflokkur snertir í raun öll svið samfélagsins, s.s. heimili, skóla, leiksvæði, umferð og íþrótta- og tómstundastarf. Til að leiðbeina almenningi varðandi slysavarnir barna þarf umtalsverða sérþekkingu, t.d. á þroska barna og líkamlegri getu þeirra sem og á sviði heilbrigðisvísinda. Einnig er nauðsynlegt að þekkja vel til stjórnsýslunnar og regluverksins. Umboðsmaður barn telur nauðsynlegt að almenningur eigi kost á ókeypis ráðgjöf og leiðbeiningum fagfólks á sviði slysavarna. Einnig er mikilvægt að allt fagfólk sem vinnur með börnum sé frætt um helstu slysahættur fyrir börn í því umhverfi sem það vinnur í. Þegar slys á sér stað, er mikilvægt að ákveðið ferli fari í gang til þess að hægt sé að koma í veg fyrir frekari slys og gera breytingar á aðbúnaði og verklagi. Svo virðist sem skráning slysa, þ.m.t. orsök slyss og afleiðingar, sé ekki í nægilega góðum farvegi. Embættinu hafa t.d. borist ábendingar um að meiðsli í íþróttum séu oft skráð sem slys þegar útlit er fyrir að ofbeldi eða of mikið álag hafi í raun valdið meiðslunum. Það sama á við þegar börn t.d. klemma sig alvarlega, falla úr hæð niður á gólf/jörð eða hljóta brunasár. Slíkt gerist yfirleitt vegna vanþekkingar þeirra sem gæta barnanna og er því oft hægt að koma í veg fyrir slíkt með fræðslu og aðgát.
Umboðsmanni barna barst athugasemd þess efnis að óvissa væri um hvar slysavörnum barna verði fundinn varanlegur staður á vegum hins opinbera. Embættið telur mikilvægt að leysa úr þessu máli sem fyrst. Samvinna ólíkra fagaðila gæti einnig verið málaflokknum til framdráttar. Umboðsmaður barna telur brýnt að tekið verði á þessum málum sem fyrst þannig að slysum á börnum fækki og þeim verði tryggð sú vernd sem velferð þeirra krefst.

11. Að öryggi barna á leiksvæðum verði tryggt með virku eftirliti
Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af ástandi öryggismála á leiksvæðum barna, t.d. á leikskóla- og grunnskólalóðum. Mikilvægt er að auka meðvitund þeirra sem málið varðar til þess að koma í veg fyrir slys á börnum sem nú þegar eru of mörg. Ljóst er að sveitarfélög fara ekki eftir reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim þegar kemur að eftirliti með öryggi leiksvæðanna. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar og viðauka III við hana eiga rekstraraðilar, sem oftast eru sveitarfélög, að fá fagaðila til að framkvæma aðalskoðun árlega auk þess sem framkvæma á rekstrarskoðun á 1-3 mánaða fresti. Þessu er í flestum tilfellum ekki sinnt þrátt fyrir ábendingar heilbrigðiseftirlitsins og virðist sem viðurlögum sé ekki beitt þrátt fyrir brot á þessum ákvæðum. Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af stöðu þessara mála enda er brýnt að vernda yngstu börnin sérstaklega þegar kemur að leikumhverfi þeirra. Þá er mikilvægt að foreldrum og starfsfólki leikskólanna séu kynntar gildandi reglur og hvernig hægt sé að fá upplýsingar um ástand öryggismála á leikskólum landsins. Æskilegast væri að niðurstöður aðalskoðunar væru birtar á heimasíðum skólanna eða settar upp á vegg í skólunum og þannig verið aðgengilegar þeim sem hafa áhuga á að kynna sér ástand öryggismála.

12. Að börnum sem eiga í sálrænum og félagslegum erfiðleikum verði tryggð ráðgjöf og þjónusta
Kannanir sýna að ákveðinn hópur barna, um 10-15%, á við verulega vanlíðan að stríða og virðist það oft vera sem svo að orsökin séu félagslegar aðstæður. Það veldur umboðsmanni barna töluverðum áhyggjum. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að sérstaklega sé hlúð að þeim börnum sem líður ekki vel og tryggt að öll börn hafi aðgang að þjónustu náms- og starfsráðgjafa í skólum, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Einnig að börnum sé tryggður aðgangur að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum og að börn hafi aðgang að fjölskylduþjónustu sveitarfélaga með eða án fylgdar foreldra. Að lokum hvetur umboðsmaður barna til áframhaldandi baráttu gegn einelti þar sem vanlíðan barna á oft rætur að rekja til eineltis sem þau verða fyrir.

13. Að börnum sé tryggð vernd gegn hávaða í leik og starfi
Embætti umboðsmanns barna hafa borist ábendingar frá börnum, foreldrum og fagfólki vegna mikillar hávaðamengunar í leik- og grunnskólum landsins, á frístundaheimilum og öðrum stöðum þar sem börn dvelja. Hávaði í umhverfi barna er stórt vandamál og hefur m.a. áhrif á heilsu þeirra, líðan, einbeitingu, tal- og lesskilning auk þess sem hann getur valdið heyrnaskaða.
Börn eru mun viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir þannig að það þarf minna til þess að heyrn þeirra skaðist. Hljóðvist í leik- og grunnskólum verður því að taka mið af heyrn og hljóðnæmni barna en ekki fullorðinna. Viðmiðunarmörk í viðaukum við reglugerð nr. 724/2008 eru miðuð við fullorðið fólk og ekki eru til leiðbeiningar um viðmiðanir um hljóðvistarkröfur í leik- og grunnskólum og annars staðar sem börn dvelja og hætta er talin á að hávaði geti valdið þeim ónæði eða verið heilsuspillandi, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar. Er því erfitt fyrir heilbrigðisnefndir að hafa eftirlit með hljóðvist í umhverfi barna.
Umboðsmaður barna telur brýnt að börnum verði tryggð vernd gegn heilsuspillandi hávaða og að almenningur sem hefur áhyggjur af hljóðvist í umhverfi barna geti leitað leiða til að gerðar verði mælingar og úrbætur á hljóðvist.

14. Að lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 verði fylgt
Ljóst er að lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 er ekki nægilega fylgt í framkvæmd, þó að um sex ár séu liðin frá gildistöku þeirra. Mikilvægt er að börnum sé tryggð sú vernd sem lögin kveða á um. Börn eru berskjölduð fyrir neikvæðum áhrifum myndefnis, s.s. tölvuleikja, kvikmynda og auglýsinga. Slíkt efni getur haft mikil og varanleg áhrif á siðferðisþroska þeirra, sérstaklega þegar það inniheldur ofbeldi, klám, neikvæðar staðalímyndir eða jákvæð viðhorf til hluta eða athafna sem teljast skaðleg.
Með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 var það eftirlit með kvikmyndum og tölvuleikjum, sem áður var í höndum Barnaverndarstofu, fært til fjölmiðlanefndar. Hefur fjölmiðlanefnd því víðtækt hlutverk hvað varðar vernd barna gegn óæskilegu hljóð- og myndmiðlunarefni. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að með þessu verkefni fjölmiðlanefndar hafi ekki fylgt nægilegt fjármagn til að hægt sé að sinna því. Eftirlit með lögum nr. 62/2006 er því ennþá ekki í nægilega góðum farvegi. Mikilvægt er að lögum sem sett eru í þeim tilgangi að vernda börn sé fylgt í framkvæmd og leggur umboðsmaður barna því áherslu á að þetta verði tryggt.

15. Að börn njóti verndar gegn áfengisauglýsingum
Umboðsmanni barna berast reglulegar ábendingar um ólögmætar áfengisauglýsingar sem hafa birst á samskiptasíðunni Facebook, í fjölmiðlum, á útihátíðum og á fleiri stöðum. Í öllum tilvikum var um að ræða auglýsingar á „léttöli“ og má því deila um hvort brotið sé gegn 1. mgr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár vakið athygli á nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkum hætti. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þann hóp en aðra. Í samræmi við það benda rannsóknir til þess að áfengisauglýsingar geti haft áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðlað að aukinni neyslu unglinga. Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnargildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Ljóst er að áfengi hefur ýmis skaðleg áhrif á líffæri og þroska barna. Auk þess er heili ungs fólks ennþá að vaxa og þroskast fram yfir 20 ára aldur. Áfengisneysla á mótunartíma heilans getur því skaðað ákveðnar stöðvar hans fyrir lífstíð. Umboðsmaður barna leggur áherslu á hagsmuni barna og að áfengisauglýsingar eiga ekki rétt á sér þar sem börn sjá til og skiptir engu máli í þeim efnum hvort um dulbúna auglýsingu er að ræða. Hagsmunir barna og unglinga af því að njóta verndar gegn áfengisauglýsingum eiga alltaf að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir fyrirtækja, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að það sem er börnum fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

16. Að börn fái tækifæri til að tjá sig á vettvangi ríkisins
Með æskulýðslögum nr. 70/2007 var lögfest sú skipan að sveitarstjórnir hlutist til um að stofnuð séu ungmennaráð í sveitarfélögum. Þannig er börnum gefinn kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á samfélagið sitt. Engan sambærilegan vettvang er hins vegar að finna á ríkisgrundvelli. Alþingi, ráðuneyti og önnur stjórnvöld taka oft ákvarðanir um málefni barna án þess að leita ráða hjá þeim sjálfum eða fulltrúum þeirra, sem leiðir oft til þess að ákvarðanir miðast fremur við sjónarmið fullorðinna en barna. Umboðsmaður barna telur fulla ástæðu til þess að bregðast við þessu og að íslenska ríkið komi upp vettvangi á ríkisgrundvelli til að börn fái tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á ákvarðanatöku um málefni sem snerta þau.