Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (heimild til staðgöngumæðrunar), 310. mál.

Heilbrigðisnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (heimild til staðgöngumæðrunar), 310. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 16. febrúar 2011.

Skoða tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (heimild til staðgöngumæðrunar), 310. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Heilbrigðisnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 16. febrúar 2011
UB:1102/4.1.1 

Efni: Tillaga til þingsályktunar um staðgöngumæðrun (heimild til staðgöngumæðrunar), 310. mál. 

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 27. janúar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreinda þingsályktunartillögu.

Með tillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp til að undirbúa frumvarp til laga um staðgöngumæðrun. Þegar tekin er afstaða til þess hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun hér á landi ber ávallt að hafa hagsmuni barnsins í fyrirrúmi, sbr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Verður því að gæta sérstaklega að réttindum og hagsmunum barna við slíka ákvörðun.

Umboðsmaður barna hefur skilning á því hversu erfitt það er fyrir einstaklinga eða pör að geta ekki eignast barn. Af 3. gr. Barnasáttmálans leiðir þó að réttur barns til að eiga góða foreldra eigi að ganga framar hugsanlegum rétti fullorðinna til að stofna fjölskyldu. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að það eru fjölmörg börn út um allan heim sem eru munaðarlaus og þurfa á góðum foreldrum að halda. Væri því eðlilegra að mati umboðsmanns barna að ríkið myndi beita sér fyrir því að auðvelda ættleiðingu barna.

Mikil óvissa er um hin ýmsu lagalegu og siðferðilegu vandamál sem geta komið upp ef staðgöngumæðrun verður leyfð. Hætt er við að staðgöngumæðrun valdi óvissu um móðerni barns, sem samræmist illa rétti allra barna til að þekkja uppruna sinn. Almennt hefur verið miðað við að sú kona sem fæðir barn sé móðir þess, þ.e. líffræðileg móðir. Ef heimila á staðgöngumæðrun þarf því að gera undantekningu frá þeirri reglu. Eftir að barn fæðist geta auk þess komið upp ýmis álitamál, til dæmis ef staðgöngumóðir neitar að láta barnið frá sér eða enginn vill gangast við barninu. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að skoða þessi álitamál vel út frá hagsmunum barnsins og dregur í efa að það sé eðlilegt gagnvart barni að það ráðist af samningi hver sé móðir þess.

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að staðgöngumæðrun leiði til þess að litið verði á börn sem söluvöru, en slíkt er ekki í samræmi við mannlega reisn þeirra. Nú þegar fer víða fram mansal kvenna og barna í tengslum við staðgöngumæðrun og er mikilvægt að lögleiðing hér á landi ýti ekki undir slíkt.

Umboðsmaður barna leggur áherslu á að fyllstu varkárni sé gætt við ákvörðun um hvort heimila eigi staðgöngumæðrun hér á landi og efast um að slíkt sé í samræmi við hagsmuni barna. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að lítil reynsla er komin á hvernig staðgöngumæðrun gengur í framkvæmd, enda er hún óheimil á öllum Norðurlöndum og flestum öðrum Evrópuríkjum.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna