Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Drög að reglugerð um ábyrgð og réttindi nemenda í grunnskólum - Önnur umsögn

Umboðsmanni barna gafst með tölvupósti dags. 18. október 2010, kostur á að senda menntamálaráðuneytinu umsögn um drög að reglugerð um ábyrgð og réttindi nemenda í grunnskólum. Umsögn sína sendi umboðsmaður með tölvupósti dags. 22. október 2010:

Umsögn umboðsmanns barna

Reykjavík 22. október 2010
UB:1010/4.1.1
 
Efni: Reglugerð um ábyrgð og réttindi nemenda í grunnskólum
 
Í tölvupósti frá menntamálaráðuneytinu, dags. 18. október, er óskað eftir ábendingum og athugasemdum við drög að ofangreindri reglugerð.
Umboðsmaður barna hefur þegar komið umsögn um efnið á framfæri við ráðuneytið og fagnar því að í drögunum hefur verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma fram. Umboðsmaður þakkar fyrir að fá að vera áfram með í þessu ferli og vill nota tækifærið til að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri.
 
Umboðsmaður vill byrja á því að benda á að í reglugerðinni eru tvær 7. greinar, tvær 12. greinar og tvær 13. greinar en engin 14. grein. Í neðangreindum athugasemdum verður vísað í fyrri eða seinni grein.
 
7. gr. (fyrri) Aðgerðaráætlanir grunnskóla gegn einelti.
Skýra mætti betur hvernig kynna á eineltisáætlanir grunnskóla fyrir starfsfólki, nemendum, foreldrum og öðrum í grenndarsamfélaginu. Umboðsmanni þykir orðalagið sem notað er í 3. mgr. 7. gr. (seinni) henta vel í þessu sambandi, þ.e. að áætlunin skuli kynnt og afhent starfsfólki, nemendum og foreldrum og birt í skólanámskrá.
 
10. gr. Misbrestur á hegðun nemenda.
Í 3. mgr. eru taldir upp nokkrir þættir sem skoða skal sérstaklega þegar kannaðar eru mögulegar ástæður agabrots, vanlíðunar eða háttsemi nemenda. Umboðsmanni barna þætti eðlilegt að heimilisaðstæður nemenda  væru hafðar með í þeirri upptalningu.
 
11. gr. Ítrekuð brot nemenda á skólareglum.
Umboðsmaður barna vill benda á að uppröðun málsgreina er ruglandi. Eðlilegt væri að fjalla fyrst um skyldur kennara að leita orsaka agabrota og reyna ráða á þeim bót áður en fjallað er um brottvísun úr skóla. Þá telur umboðsmaður skýrara ef sérstakt ákvæði myndi gilda um bann við líkamlegum refsingum í stað þess að minnast á þær í lok 11.gr. og 12. gr. (fyrri).
 
Í 1. mgr. 11. gr. er sérstaklega tekið fram að heimilt sé að vísa nemenda úr þátttöku í félags- og tómstundastarfi á vegum skólans. Mikilvægt er í þessu sambandi að árétta að samræmi ríki milli þess brots sem framið er og viðurlaga við brotinu, sbr. 9. gr. reglugerðarinnar. Þannig ætti að mati umboðsmanns barna einungis að beita slíkum viðurlögum þegar framkoma nemanda er þannig að líkur eru á að hún bitni á öðrum nemendum  eða starfsfólki í félags- og tómstundastarfi.
 
12. gr. (seinni) Brot á skólareglum utan skólatíma og skólalóðar.
Eðlilegt er að taka fram að foreldrar beri ábyrgð á háttsemi barna sinna utan skólatíma. Þó vill umboðsmaður minna á að ákveðin háttsemi nemenda utan skólatíma getur haft mikil áhrif á samskipti og líðan nemenda í skólanum. Á það t.d. við um einelti og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þó að grunnskólinn taki það ekki upp sem brot á skólareglum er mikilvægt að hann taki á slíkum vanda í samstarfi við foreldra og eftir atvikum aðra í grenndarsamfélaginu.
 
13. gr. (fyrri) Brottvísun um stundarsakir og ótímabundin brottvísun.
Í lok  1. mgr. segir að takist skólastjóra ekki að leysa vanda nemanda innan skóla á viku skuli hann vísa málinu til skólanefndar. Til þess að lausn á erfiðum málum finnist sem fyrst telur umboðsmaður barna ekki í samræmi við hagsmuni nemenda að þeir þurfi að bíða í allt að viku áður en málinu er vísað til skólanefndar. Umboðsmanni þætti því réttara að breyta setningunni á þessa leið:
 
Ef fyrirsjáanlegt er að skólastjóra takist ekki að leysa vanda nemenda á þeim tíma skal hann eins fljótt og auðið er vísa málinu til skólanefndar, sem beitir sér fyrir lausn málsins í samráði við sérfræðiþjónustu sveitarfélaga.
 
Orðalag 2. mgr. er að mati umboðsmanns ekki nógu skýrt. Heppilegra væri t.d. að orða hana með þessum hætti:
 
Sé nemanda vikið ótímabundið úr skóla skal skólastjóri strax tilkynna málið skólanefnd. [sleppa næstu setningu] Eftir að máli hefur verið vísað til skólanefndar ber hún ábyrgð á því að nemanda sé tryggð skólavist eða önnur viðeigandi kennsluúrræði eins fljótt og auðið er og aldrei síðar en innan þriggja vikna.
 
15. gr. Kæra til mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Leiðrétta þarf tilvísun í ákvæði um ákvörðun skólastjóra um brottvísun.
 
Kær kveðja,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna