Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum, 557. mál.

Félags- og tryggingamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum, 557. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með bréfi dags. 31. maí 2010.

Skoða frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum, 557. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 31. maí 2010

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum, 557. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 14. maí sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Í frumvarpinu er að finna margvíslegar breytingar á barnaverndarlögum. Margar breytinganna fela einungis í sér skýringu á núgildandi lögum og lagaframkvæmd, og telur umboðsmaður barna þær jákvæðar. Í frumvarpinu er að finna ýmis nýmæli sem umboðsmaður barna fagnar sérstaklega, svo sem ákvæði sem miða að því að skýra réttarstöðu foreldra með sameiginlega forsjá, aukið samstarf barnaverndarnefnda og annarra sem vinna með börnum og ákvæði sem taka til þungaðra kvenna sem stofna heilsu og lífi ófæddra barna í hættu.

Umboðsmaður barna lýsir yfir ánægju sinni með 2. gr. frumvarpsins, sem kveður á um heimild Barnaverndarstofu til að byggja upp sérhæfð úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að styrkja réttarstöðu þeirra barna sem geta ekki nýtt sér hefðbundin úrræði, svo sem vegna fötlunar. Samhliða því er nauðsynlegt að tryggja aukið fjármagn til uppbyggingar úrræða sem taka tillit til sérþarfa þessara barna.

Í frumvarpinu er að finna breytingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga varðandi úrræði fyrir börn sem eru vistuð utan heimilis. Ljóst er að sveitarfélög eru misvel í stakk búin til þess að tryggja börnum, sem vista þarf utan heimilis, nauðsynleg úrræði. Umboðsmaður barna fagnar 41. gr. frumvarpsins sem miðar að því að ríkið beri ábyrgð á að tryggja fagleg úrræði fyrir öll börn á landinu. Eins og fram kemur í 47. gr. frumvarpsins ber sveitarstjórn sem ráðstafar barni í vistun ábyrgð á hluta kostnaðar vegna slíkra úrræða. Sú tilhögun getur dregið úr líkum á því að minni sveitarfélög nýti sér þessi úrræði með sama hætti og stærri sveitarfélög. Umboðsmaður barna telur því að jafnræði barna væri betur tryggt ef umrædd úrræði væru alfarið á ábyrgð ríkisins.

Í tengslum við nýja verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga miðar 49. gr. frumvarpsins að því að styrkja mat og eftirlit með gæðum úrræða og vistun barna utan heimilis. Umboðsmaður barna bindur miklar vonir við að umrætt ákvæði muni auka réttaröryggi barna sem eru vistuð utan heimilis og auka líkurnar á því að sú vistun nái tilgangi sínum.

Í núgildandi barnaverndarlögum er sérstaklega tekið fram að ávallt skuli gefa barni sem náð hefur 12 ára aldri kost á að tjá sig um mál. Með a-lið 21. gr. frumvarpsins er þetta 12 ára aldurstakmark fellt úr gildi. Umboðsmaður barna hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að börnum sé gefið tækifæri til að tjá sig í öllum málum sem þau varða, sbr. 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á síðustu árum hafa embættinu borist athugasemdir um að aldurstakmark laganna hafi í ákveðnum tilvikum haft þau áhrif að yngri börnum sé ekki gefið tækifæri til þess að tjá sig. Verður því að telja jákvætt að orðalaginu sé breytt í samræmi við fyrrnefnt ákvæði Barnasáttmálans. Umboðsmaður barna leggur þó áherslu á að umrædd breyting verði til þess að öllum börnum, sem geta myndað sér skoðun, sé gefið tækifæri til að tjá og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Þá er mikilvægt að tryggja að breytingin dragi ekki úr rétti barna sem náð hafa 12 ára aldri til þess að tjá sig. 

Með 25. gr. frumvarpsins er kveðið skýrara á um skyldu til að kveðja til sérfróða meðdómsmenn í barnaverndarmálum. Umboðsmaður barna telur þetta mikla réttarbót, enda varða barnaverndarmál alltaf mikla hagsmuni barna. Í nýlegum dómi Hæstaréttar frá 25. mars 2010, í máli nr. 169/2010, var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að senda barn aftur á heimili foreldra sinna þrátt fyrir að gögn málsins bentu til þess að það hefði orðið fyrir ofbeldi á heimilinu. Í héraðsdómi voru ekki sérfróðir meðdómsmenn, þó að um hafi verið að ræða mikilvæga hagsmuni barnsins og eðlilegt hefði verið að hafa slíka meðdómsmenn. Telur umboðsmaður barna því mikilvægt að tryggja að sérfróðir meðdómsmenn séu almennt kvaddir til í barnaverndarmálum.

Umboðsmaður barna fagnar því að heimild Barnaverndarstofu til að óska eftir upplýsingum úr sakaskrá sé rýmkuð, sbr. 18. gr. frumvarpsins. Umboðsmaður barna telur ástæðu til að auka enn frekar heimildir Barnaverndarstofu til að halda utan um upplýsingar um dæmda kynferðisafbrotamenn. Þannig væri að mati umboðsmanns barna æskilegt ef Barnaverndarstofa gæti aflað upplýsinga um einstaklinga sem hafa hlotið refsidóm fyrir kynferðisbrot gegn börnum og metið hvort hætta sé á að viðkomandi brjóti af sér aftur. Ef áhættumat leiðir í ljós að um er að ræða einstakling sem ógn stafar af gæti Barnaverndarstofa komið því á framfæri til barnaverndarnefndar í því sveitarfélagi sem viðkomandi er búsettur í.

Í 4. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga kemur fram að barnaverndarnefnd skuli tilkynna foreldrum barns ef mál hefur verið tilkynnt til nefndarinnar og um ákvörðun sína í tilefni af henni. Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að slík tilkynning skuli fara fram innan við viku frá því að ákvörðun var tekin. Umrædd regla er eðlileg, enda bera foreldrar ábyrgð á öryggi og velferð barna sinna, auk þess sem mörg barnaverndarmál varða foreldra með beinum hætti. Umboðsmanni barna hafa þó borist athugasemdir, fyrst og fremst frá stálpuðum börnum, þar sem kvartað er yfir ósveigjanleika þessa ákvæðis. Í ákvæðinu er aðeins gert ráð fyrir að fresta megi tilkynningu ef ríkir rannsóknarhagsmunir mæla með því. Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skal ávallt hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Þegar um er að ræða mál sem varða ungmenni getur verið að í einstaka tilvikum sé það ekki viðkomandi einstaklingi fyrir bestu að foreldrar séu látnir vita af tilkynningu til barnaverndarnefndar. Telur umboðsmaður barna því ástæðu til að auka sveigjanleika ákvæðisins þannig að hægt sé, við mjög sérstakar aðstæður, að láta hjá líða að upplýsa foreldra um tilkynningu. Við mat á því hvort beita beri slíkri undantekningu þarf að hafa hliðsjón af þroska og vilja ungmennis sem og því hvort tilkynning teljist ógna verulega hagsmunum þess.


Virðingarfyllst,

____________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna