Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Þingsályktunartillaga um takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru sem beint er að börnum, 47. mál.

Skoða þingsályktunartillögu um takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru sem beint er að börnum, 47. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna og talsmanns neytenda

Alþingi - nefndasvið
B.t. ritara heilbrigðisnefndar
Alþingi
150 Reykjavík

Reykjavík, 12. janúar 2008

 

Efni: Umsögn talsmanns neytenda og umboðsmanns barna um 47. mál, þingsályktunartillögu um takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru sem beint er að börnum (135. löggj.þ.)
 
Að teknu tilliti til neðangreinds samstarfsverkefnis embættanna teljum við tilgang þingsályktunartillögu (þál.till.) þessarar til mikilla hagsbóta fyrir börn sem neytendur eins og rökstutt skal í umsögn hér að neðan. Leggjum við til þál.till. verði endurskoðuð í samræmi við þær athugasemdir sem fram koma hér á eftir.
 
Vísað er til bréfa yðar, dags. 7. desember sl., um ofangreint þingmál. Við höfum áður gefið umsagnir um sambærilega þál.till. en nú er tekið fram að takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru afmarkist við auglýsingar sem beint er að börnum; eru þær umsagnir hjálagðar í afriti. Fögnum við þingmáli þessu og því hversu margir sýna þessu brýna máli áhuga sem stuðla mun að víðtækri umræðu og sátt til lausnar.
 
Talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hafa lögum samkvæmt m.a. það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda annars vegar og barna hins vegar og stuðla að aukinni neytendavernd og bæta hag barna. Með hliðsjón af þeim lagaramma hafa þessi tvö embætti undanfarin rúm tvö ár unnið að því að koma á sátt meðal hagsmunasamtaka atvinnurekenda, ljósvakamiðla, almannasamtaka og stjórnsýsluaðila um frekari mörk við markaðssókn sem beinist að börnum.
 
Eins og fram kemur á vinnusíðu samstarfsverkefnisins er ein megin áhersla þess að takmarka auglýsingar í ljósvakamiðlum á matvöru fram að tilteknu tímamarki við matvöru sem öðlast sérstakan opinberan hollustustimpil sem vænst er að ný Matvælastofnun komi á laggirnar í samstarfi við samstarfsstofnanir í fleiri norrænum ríkjum. Er þá horft til norrænnar reynslu af (ó)hollustumerkingum og til lýðheilsumarkmiða, svo og þess að á barnsaldri mótast neysluvenjur sem erfitt getur verið að snúa til betri vegar ef út af bregður.
 
Eins og fram kom í fyrri umsögnum um sambærilega þingsályktunartillögu á 132. löggjafarþingi fólst fyrsti áfangi þessa samstarfsverkefnis í því að halda málþing um börn og auglýsingar ásamt samtökunum Heimili og skóla með þátttöku fjölmargra annarra hagsmunaaðila. Í kjölfar málþingsins var því slegið föstu að þörf væri á að setja frekari mörk við markaðssókn sem beinist að börnum.
 
Síðan hafa talsmaður neytenda og umboðsmaður barna unnið að gagnaöflun og afmörkun álitamála og hugsanlegra lausna í því skyni að að koma á slíku samkomulagi. Undanfarið hálft ár hafa talsmaður neytenda og umboðsmaður barna fundað með tugum aðila í þessum tilgangi, sbr. lista yfir þá hagsmunaaðila á vinnusíðu samstarfsverkefnisins. Hafa undirtektir þeirra almennt verið mjög góðar - bæði gagnvart markmiðum, áherslum og þeirri leið að embætti talsmanns neytenda og umboðsmanns barna leiti samkomulags við framleiðendur, innflytjendur, auglýsendur, auglýsingastofur og smásöluaðila - sem er í raun sama leið og gert er ráð fyrir í þál.till.
 
Sömuleiðis hefur verið óskað verið eftir fundum með heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þeim tilgangi að kynna þeim verkefnið og óska eftir stuðningi við það. Þá kynnti talsmaður neytenda nýjum viðskiptaráðherra málið í júní sl.
 
Eins og fram hefur komið er við val á aðferðarfræði horft bæði til innlendra og erlendra fyrirmynda og er litið svo á að samkomulag við embætti talsmanns neytenda og umboðsmanns barna eða leiðbeiningar frá þeim sé æskileg leið en löggjöf þrautalending.
 
Við erum fús að kynna nefndinni og einkum flutningsmanni samstarfsverkefni þetta og stöðu þess nú.

Virðingarfyllst,
talsmaður neytenda og umboðsmaður barna,

_______________________________________
Gísli Tryggvason og Margrét María Sigurðardóttir