Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Minnisblað vegna fundar með nefnd sem endurskoðar grunnskólalög

Minnisblað umboðsmanns barna vegna fundar þann 22. maí 2006 með nefnd sem endurskoðar grunnskólalög.
 
Umboðsmaður barna skoðar málefni grunnskólans út frá rétti og hagsmunum nemenda og þá fyrst og fremst út frá lögfræðilegum sjónarhóli.
 
Grunnskólalög setja ramma um skólastarfið- þau eiga að vera verkfæri í daglegri starfsemi þeirra. Lagatextinn (og uppbygging hans) verður að vera skýr og einfaldur m.a. þar sem þeir sem vinna eiga eftir þeim eru ekki löglærðir.
 
Rauði þráðurinn í lögunum á að vera það sem barni er fyrir bestu, sbr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (BSSÞ). Mikilvægt er að þessi grundvallarregla komi fram í allri löggjöf er varðar börn. Grunnskólalög eru meðal þeirra 5 lagabálka er varða börn mestu og því er rétt að setja þessa meginreglu inn í markmiðslýsingu laganna.
 
Í umfjöllun þessari er tekið mið af því að frumvarp til breytinga á grunnskólalögum, sem hefur verið til meðferðar á Alþingi, verði samþykkt eins og það kom frá menntamálanefnd þingsins. Umboðsmaður barna skilaði nefndinni umsögn um frumvarpið og tók nefndin flestar athugasemdir hans til greina.(Umsögn meðfylgjandi).
 
Umboðsmaður barna leggur megináherslu á að grunnskólalög tryggi gæði menntunar/fræðslu, jafnræði nemenda, vellíðan þeirra og réttaröryggi.
 
Taka þarf mið af skuldbindingum Íslands samkvæmt BSSÞ og öðrum alþjóðlegum samningum svo sem Mannréttindasáttmála Evrópu, samningum SÞ frá 1966 um annars vegar borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hins vegar um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, SALAMANCA- yfirlýsingunni og rammaáætlun UNESCO frá 1994.
 
Rétt er að vekja sérstaka athygli á að samkvæmt ákvæðum BSSÞ ( 2. gr. og 28. gr.) þarf að tryggja öllum börnum sama rétt (rétt til sambærilegrar menntunar), hvar sem þau búa á landinu. Barnanefnd SÞ hefur gert athugasemdir við Svía um þetta atriði.
 
Meðal þess sem þarf að skoða er:
 
I.  Stjórnsýsla skólakerfisins
Stjórnsýsla skólakerfisins er hvorki nægilega skýr né skilvirk þegar litið er til þess hve veigamiklir hagsmunir nemenda geta verið í húfi. Tryggja þarf að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga gildi um allar ákvarðanir er varða réttindi og skyldur nemenda og að samræmis og jafnræðis sé gætt við túlkun laganna um land allt með því að slíkar ákvarðanir fái ávallt umfjöllun á fleiri en einu stjórnsýslustigi.
 
Með lögum nr. 66/1995 um grunnskóla var meginábyrgð á skólahaldi og framkvæmd grunnskólalaga færð á sveitarfélögin. Ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsforræði sveitarfélaga, sveitarstjórnarlaga og grunnskólalaga veita sveitarfélögunum verulegt svigrúm til að skipuleggja skólahald og nám í samræmi við aðstæður og þarfir á hverjum stað. Menntamálaráðuneytinu er þó ætlað að koma að ákveðnum ákvörðunum og hafa eftirlit með framkvæmd laganna. (Sumar ákvarðanir sveitarfélaga má kæra til félagsmálaráðuneytis skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.)
 
Skýra þarf betur í lögunum grunnreglur um ákvarðanaferli og málsmeðferð og hvaða ákvarðanir teljist stjórnsýsluákvarðanir sem stjórnsýslulög taka til. Undanfarin ár hefur orðið sú þróun í íslenskum rétti að skilgreining þar á hefur rýmkað, þ.e. að allar þær ákvarðanir er varða réttindi og skyldur borgaranna falli hér undir. Slíkar ákvarðanir samkvæmt grunnskólalögum eru t.d. þær er varða rétt til sérkennslu, sérfræðiþjónustu, agamál, skólasókn, valgreinar o.fl.
 
Jafnframt þarf að skýra kæruleiðir og skapa þeim formlegan farveg- skólastjóri-skólanefnd-ráðuneyti/kærunefnd.
 
Grunnskólalög kveða á um 10 ára skólaskyldu barna og rétt þeirra til menntunar. Hér er um mjög mikilvæga hagsmuni barna að ræða sem ráðið geta úrslitum um hvernig þeim farnast í lífinu. Þegar til þess er litið má ljóst vera að tryggja ber jafnræði nemenda og að túlkun og beiting grunnskólalaga sé samræmd. Sjónarmið er varða réttaröryggi borgaranna hníga í sömu átt.
 
Í núgildandi grunnskólalögum er gert ráð fyrir því að unnt sé að skjóta nokkrum ákvörðunum til menntamálaráðuneytis til endanlegrar úrlausnar - en þau eru afar fá. Umboðsmaður barna telur að huga beri að því hvort ekki sé rétt að stofna sérstaka úrskurðarnefnd skólamála, sem skjóta mætti ákveðnum ákvörðunum skólanefnda til. Slík nefnd væri skipuð fulltrúum sveitarfélaga, ráðuneytis og jafnvel fleirum og hefði aðsetur í menntamálaráðuneytinu. Mörg dæmi eru um slíkar kæru/úrskurðarnefndir sem fjalla um ákvarðanir sveitarstjórna, m.a.:
 
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu, sbr. lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga
(Í athugasemdum með frumvarpinu sagði að lagt væri til að komið yrði á fót sérstökum óháðum úrskurðaraðila til þess að treysta réttaröryggi skjólstæðinga félagsþjónustunnar ).
Kærunefnd barnaverndarmála, sbr. 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála, sbr. lög nr. 73/1997.
Kærunefnd húsnæðismála, sbr. lög nr. 44/1998.
 
II. Skilgreina þarf, betur en nú er gert, hlutverk og ábyrgð, réttindi og skyldur -skólans, nemenda og foreldra
Skólinn/sveitarfélagið
Mest ber á ábyrgð og skyldum þegar skólinn sjálfur á í hlut. Skoða þarf betur 2. gr. laganna um hlutverk skólans og inntak menntunar. Rétt er að hafa í lögunum ákvæði um meginmarkmið náms og kennslu og fræðslu- og uppeldishlutverk grunnskólans. Skólinn er fyrst og fremst fræðslustofnun en hann gegnir einnig mikilvægu uppeldishlutverki- þó meginábyrgð á uppeldi barna sé að sjálfsögðu á hendi foreldra. Þetta ákvæði þarf að vera skýrara og hnitmiðaðra. Ekki er nægilegt að slík umfjöllun sé í aðalnámskrá, þar á hins vegar heima frekari útlistun á meginmarkmiðum.
 
Í lögum verður að tilgreina rétt allra nemenda til tiltekinnar lágmarksmenntunar, þannig að skýrt komi fram hvað allir nemendur eiga að hafa tileinkað sér eða öðlast grundvallarfærni í að loknu lögbundnu skyldunámi. Rétt væri að setja ákvæði 4. og 5. mgr. 29. gr. inn í þessa umfjöllun- ekki síst þegar litið er til þeirra breytinga sem gerðar voru á þeirri grein í fyrrnefndu frumvarpi til breytinga á grunnskólalögum.
 
Kveða þarf skýrt á um að skólinn beri ábyrgð á öryggi og líðan nemenda meðan þeir eru í skólanum eða taka þátt í starfi á vegum skólans. Grunnskólalög taka ekki á ábyrgð skóla að þessu leyti og fáir dómar hafa gengið hér á landi. Í þeim hefur verið byggt á almennu skaðabótareglunni – skilyrði bótaábyrgðar er að tjón megi sannanlega rekja til lélegs aðbúnaðar eða viðhalds húsnæðis eða skorts á eftirliti af hálfu starfsmanna skóla. Í Svíþjóð hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að eftirlitsskylda foreldra færist yfir á skóla á skólatíma þegar börn eru í skyldunámi- nemendur séu skólaskyldir og foreldrar hafi ekki möguleika á að hafa eftirlit með þeim. Hér má einnig vísa til álits menntamálaráðuneytisins um öryggi nemenda og ábyrgð kennara frá ágúst 1997.
 
Í áðurgreindu frumvarpi um breytingar á grunnskólalögum er að finna ákvæði um þetta efni, sbr. 10. gr. þess. Þar segir að grunnskólinn sé vinnustaður nemenda og að við hönnun og byggingu skólahúsnæðis skuli taka mið af þörfum nemenda og líðan og leggja áherslu á öruggt náms- og starfsumhverfi. Einnig segir í 11. gr. þess að menntamálaráðherra skuli setja sérstaka reglugerð um slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og skólalóðum í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Loks er í 2. gr. kveðið á um að ráðherra setji nánari reglur um tilhögun skólaaksturs í samráði við sömu aðila. Þessi ákvæði eru öll til mikilla bóta. En ákvæði grunnskólalaga má enn bæta að þessu leyti.
 
Á miklu veltur að börnum líði vel í skólanum- það hefur m.a. mikil áhrif á námsárangur. Börn eru drjúgan hluta dags í skólanum níu mánuði ársins. Líðan þeirra ræðst af mörgum atriðum sem ýmist varða heimilisaðstæður þeirra eða aðstæður í skólanum. Húsnæði og allur aðbúnaður í skólanum skipta miklu máli. Þar þarf að huga að mörgu, stærð og gerð húsnæðis, búnaði, hljóðvist, lýsingu, loftræstingu, hreinlæti og almennum hollustuháttum. Grunnskólalög verða að tryggja nemendum og foreldrum þeirra rétt til að gæta hagsmuna þeirra og sækja rétt þeirra í þessu efni, telji þeir aðbúnaði eða öryggi ábótavant.
 
En andleg og félagsleg líðan nemenda skiptir ekki minna máli. Skerpa þarf á skyldum skólans í þessu efni. Þannig þarf að kveða skýrt á í lögum um að skólastjórn skuli taka á einelti, sem því miður er enn mikið vandamál í skólum, þrátt fyrir mikla umræðu og aðgerðir (t.d. Olweusarverkefnið) undanfarin ár. Svo má kveða á um í reglugerð hvernig það er gert. Um þetta má vísa í ákvæði í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Ekki verður við unað að börn búi við lakari lagavernd en fullorðnir í þessu efni.
 
Réttindi og skyldur nemenda
Réttur varðandi námið, m.a. inntak þess.
Réttur varðandi aðbúnað í skóla/skólalóð/skólabíl- öryggi, líðan, heilsa (líkamleg, andleg og félagsleg).
Réttur til að hafa áhrif, m.a. á umhverfi sitt, námstilhögun og fyrirkomulag skólastarfs.
Réttur varðandi sérúrræði, sérkennslu, sérfræðiþjónustu - sem einstaklingar/hópur-.
Skyldur þeirra gagnvart skóla og starfsmönnum skóla, samnemendum og sjálfum sér.
 
Í núgildandi lögum eru ákvæði er varða rétt nemenda á víð og dreif jafnframt því sem VII. kafli þeirra ber yfirskriftina: Réttindi og skyldur nemenda. Hvergi er þó skilgreindur réttur barns varðandi námið sjálft, þ.e. inntak þess.
 
Ákvæði þessi þarf að skerpa, setja þau fram með skipulagðari (samfelldari) hætti og gera þau markvissari jafnframt því sem kveða þarf með skýrum hætti á um hvernig réttindum nemenda verði náð fram.
 
Áður hefur verið vikið að atriðum er varða rétt nemenda varðandi inntak náms og öryggi þeirra og líðan og vísast til þess er þar segir.
 
Réttur til að hafa áhrif
12. gr. BSSÞ leggur þá skyldu á aðildarríki hans að þau tryggi börnum, sem geta myndað eigin skoðanir, rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum þeim málum, sem þau varða og að tekið skuli réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Í fyrrgreindu frumvarpi um breytingar á grunnskólalögum eru ákvæði sem ætlað er að uppfylla þessar skuldbindingar. Í 9. grein þess er gert ráð fyrir að skylt verði að stofna nemendaráð í hverjum skóla en í núgildandi lögum er einungis að finna heimild til þess. Skulu nemendaráðin fá til umsagnar skólanámskrá og aðrar áætlanir eða meiri háttar breytingar á skólahaldi. Ákvæði um nemendaráð mætti útfæra enn frekar.
 
Við lok grunnskóla er mikilvægt að nemendur njóti góðra leiðbeininga og ráðgjafar um náms- og starfsval og möguleika sína í þeim efnum, sbr. m.a. 28. gr. BSSÞ. Rétt væri að taka í lögin frekari ákvæði um námsráðgjöf og aðkomu foreldra að henni, m.a. til að koma í veg fyrir brottfall úr námi.
 
Réttur nemenda varðandi sérúrræði, sérkennslu og sérfræðiþjónustu
Skóli án aðgreiningar er háleitt og gott markmið sem vinna ber eftir.
Ljóst er þó að það hefur ekki gengið sem skyldi. Að því er virðist hefur verið farið af stað án nægs undirbúnings. Til að skóli án aðgreiningar gangi upp þarf :
·        Húsnæði, aðgengi, aðbúnað/tækjabúnað, sem og kennslugögn, sem taka mið af fötlun og sérþörfum nemenda.
·        Sérmenntaða kennara og starfsfólk.
·        Nægilegt fjármagn til að tryggja stuðning við einstaka nemendur.
 
Skilgreina þarf betur í lögunum rétt nemenda með sérþarfir, m.a. til að tryggja jafnræði nemenda um land allt. Þegar litið er til réttaröryggissjónarmiða er ekki nægilegt að kveða á um rétt nemenda í þessum efnum í reglugerð- nema þá um smærri framkvæmdaratriði.
 
Í 37. gr. núgildandi grunnskólalaga er kveðið á um rétt nemenda, sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika/ og eða fötlunar sbr. lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992, til sérstaks stuðnings í námi. Setja þarf skýr ákvæði í lögin um sama rétt langveikra barna og annarra barna með heilsutengdar sérþarfir sem og um sjúkrakennslu. Ekki er nóg að hafa slík ákvæði í reglugerðum eða aðalnámskrá eins og nú er.
 
 Í grunnskólalögunum sjálfum þarf að kveða á um skyldu sveitarfélags til að tryggja sérstuðning við nemendur og hvernig það verði gert. Skyldu skólastjóra til að meta þörf einstakra nemenda fyrir sérstuðning og að stilla upp námsáætlun, um skýrt ferli mála og boðleiðir innan skólans. Hvort og þá hvaða greining þurfi að liggja fyrir, ábyrgð skólans á því að hún fáist fram og að hraða skuli máli. Mikilvægt er að málsmeðferðarreglur séu skýrar, m.a. um rétt foreldra til að koma að ákvörðunum og til að kæra ákvarðanir skóla til skólanefndar og jafnvel til æðra stjórnsýslustigs. Í dag er í reglugerðum kveðið á um sumt af því sem hér var nefnt. Rétt er að mati umboðsmanns barna að í lögum séu að finna ákvæði um rétt barna í grundvallaratriðum en að í reglugerðum verði fjallað um frekari útfærslu á framkvæmdinni. Jafnframt þarf að vera ótvírætt að það er nemandinn sem á rétt á stuðningnum en ekki skólinn þannig að fjárframlög fylgi nemandanum.
 
Tryggja þarf samfellu í þjónustu við börn sem eru að koma inn í grunnskóla og hafa notið góðs einstaklingsstuðnings í leikskóla. Huga þarf að því hvernig gögn varðandi þau færist á milli skólastiga en jafnframt að tryggt sé að meðferð slíkra gagna uppfylli kröfur um trúnað. Gera þarf sérstaklega ráð fyrir og setja reglur um samvinnu foreldra og skólans þegar nemandi með sérþarfir á í hlut- sem og um samstarf skóla við aðra þá þjónustuaðila sem að málum barnsins koma.
 
Í aðalnámskrá er fjallað um að nauðsynlegt sé að meta sérþarfir nemenda með öflugri skimun og greiningu sem allra fyrst á skólagöngunni og að brugðist sé við á markvissan hátt. Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar. Því verður að skýra rétt nemenda í þessu efni í lögunum.
 
Ljóst er að skóli án aðgreiningar krefst þess að skólahjúkrun verði efld til muna og þarf því ítarlegri ákvæði um það efni í löggjöfina. Sama á við um ýmsa aðra sérfræðiþjónustu svo sem námsráðgjafa, félagsráðgjafa, sálfræðinga o.fl. sem veita þarf inni í skólunum eða a.m.k. í nánu samhengi við skólastarfið.
 
Í 39. gr. grunnskólalaga er kveðið á um að heimilt sé að stofna nemendaverndarráð og í reglugerð nr. 388/1996 er fjallað nánar um þau. Rétt væri að gera skylt að stofna slíkt ráð í öllum skólum, a.m.k. yfir ákveðnum stærðarmörkum.
 
Taka þarf til sérstakrar skoðunar ákvæði laganna um þjónustu við nemendur með sérþarfir, um sérfræðiþjónustu, sérdeildir og sérskóla. Setja þarf slík ákvæði fram með samfelldum hætti - en ekki dreift eins og nú er. Meðal annars þarf að fjalla um
 
hver á að ráða því hvar barn með sérþarfir sækir skóla. Nú eiga foreldrar barns síðasta orðið um það- jafnvel þó allir sérfræðingar sem að máli koma séu þeirrar skoðunar að barni væri fyrir bestu að tekið sé á því með örðum hætti en foreldrar vilja. Huga má að því að gera hér breytingar á - en þá þarf að setja upp reglur um vandaða meðferð máls, þar sem foreldrar eiga rétt á að koma sínum sjónarmiðum að og til að kæra niðurstöðu til æðra stjórnvalds. Foreldrar eru ekki alltaf hæfastir til þess að meta hagsmuni barns síns rétt. Jafnframt verður að huga að rétti annarra nemenda í þessu efni. Fórnarkostnaður barns með sérþarfir má aldrei vera meiri af því að vera í almennum skóla en af því að nýta sérúrræði.
 
Um skyldur nemenda er m.a. fjallað í 41. gr. grunnskólalaga. Að mati umboðsmanns barna væri rétt að setja í lögin ákvæði sams konar og eru í 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 270/2000 um skólareglur í grunnskólum. Um skyldu hvers skóla til að setja sér skólareglur og hvernig þær skuli settar, m.a. um aðkomu foreldra og nemenda að þeim og ábyrgð þeirra á að þeim sé framfylgt. Þar komi einnig fram hvernig með agabrot skuli farið innan skóla og samráð við foreldra. Í núgildandi lögum eru það aðeins mál er varða brottvikningu úr skóla sem sérstakar málsmeðferðarreglur gilda um. Rétt er að tryggja að ef nemandi gerist sekur um alvarlegt brot á skólareglum eða brot sem varða einhverjum tilteknum viðurlögum, þá verði að kalla til foreldra til að gæta hagsmuna hans.
 
Rétt er að nefna að ef skyldur nemenda eru vel skilgreindar og reglur um jafnræði og réttaröryggi þeirra eru skýrar, þá geta agareglur verið strangari. Segja má að það sé hluti af að undirbúa nemendur fyrir lífið að hafa þá með í að setja skólareglur og kenna þeim að virða þær.
 
Réttindi og skyldur foreldra
Í lögum um grunnskóla er vikið að skyldum foreldra í 2 greinum: Samkvæmt 6. gr. er þeim skylt að sjá til þess að barn innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og að það sæki skóla. Þessi skylda foreldra er talin til forsjárskyldna, sbr. 3. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003.
 
Jafnframt segir í 8. gr. laga um grunnskóla að ef foreldri fær tímabundna undanþágu frá skólasókn barns síns þá beri því að sjá til þess að nemandi vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.
 
Ljóst má vera að fleira stendur uppá forráðamenn nemenda varðandi skólavist þeirra og nám. Þær skyldur verða að sjálfsögðu ekki tæmandi taldar í lögum, en það væri rétt að kveða skýrar á um þær en nú er gert. Í aðalnámskrá segir m.a. að á foreldrum hvíli sú skylda að börnin séu eins móttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn annast og framast er unnt. Þá skyldu mætti taka upp í lögin sem og að þeim beri að fylgjast með námsframvindu barna sinna jafnframt því sem þeim beri að sínu leyti að stuðla að því að haldið verði uppi aga í skólum.
 
Einnig þarf að kveða skýrar á um rétt foreldra- sem hóps og sem foreldra einstakra barna. Samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 og lögræðislögum nr. 71/1997 eiga foreldrar rétt á og ber skylda til að gæta hagsmuna barna sinna til 18 ára aldurs. Sú staðreynd birtist ekki sem skyldi í núgildandi grunnskólalögum.
 
Ekki þarf að hafa mörg orð um að rannsóknir sýna að samstarf foreldra og skóla hefur jákvæð áhrif á skólastarf og líðan og námsárangur nemenda. Skólinn og foreldrar eru í reynd samstarfsaðilar í því veigamikla starfi sem uppeldi og menntun barna er. Hér er um gagnkvæma hagsmuni foreldra og skóla að ræða en þó fyrst og fremst væri slíkt lögbundið samstarf til mikilla hagsbóta fyrir nemendur. Því þarf að setja ákvæði í grunnskólalög sem efla það samstarf sem mest. Aukin áhrif foreldra á starfsemi skóla auka um leið ábyrgð þeirra.
Í grunnskólalögum skulu foreldraráð gefa umsögn um skólanámskrá. Frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi um breytingar á grunnskólalögum veitir foreldraráðum aukið vægi. Í því er gert ráð fyrir að þau fái til umsagnar allar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en þær eru teknar og að þau komi að undirbúningi að gerð skólahúsnæðis. Þessi breyting er til bóta en umboðsmaður barna telur æskilegt að foreldraráð komi að fleiri ákvörðunum, t.d. um lengd kennslustunda- sérstaklega ef fella á úr lögum ákvæði um að meðallengd kennslustunda skuli vera 40 mínútur. Jafnframt væri rétt að foreldrar væru hafðir með í ráðum við gerð skólareglna.
 
Skoða mætti hvort rétt er að kveða á um skyldu foreldra til samstarfs við skóla með einhverjum hætti. Í þessu sambandi má m.a. benda á 3. mgr. 28. gr. barnalaga :
 
“Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Foreldrum ber að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.”
 
Setja þarf skýrari reglur um uppbyggingu og ramma starfs foreldra. Í 15. gr. grunnskólalaga segir heimilt að stofna foreldrasamtök við skóla en í 16. gr. segir að skylt sé að stofna 3ja manna foreldraráð. Jafnframt væri rétt að tryggja fjárhagsgrundvöll þessara ráða og landsamtaka þeirra.
 
Í þessu sambandi er rétt að nefna að auka þarf skilning vinnumarkaðarins og í samfélaginu öllu á mikilvægi þess að foreldrar geti sinnt þessum mikilvægu skyldum sínum. Til að mynda þyrfti að tryggja rétt foreldra gagnvart vinnuveitendum til að sækja foreldraviðtöl etc.
 
Réttur foreldra einstakra nemanda til að fá ákvörðun breytt
Setja þarf skýrari reglur um rétt foreldra til að kæra einstakar ákvarðanir er varða börn þeirra til skólanefndar og í einstökum tilvikum jafnvel lengra- eins og áður er vikið að.
 
Í umsögn umboðsmanns barna um áðurnefnt frumvarp til breytinga á grunnskólalögum voru gerðar athugasemdir sem lúta að þessu efni, t.d. varðandi 6. gr. og 19. gr. þess og er vísað til þess er þar segir.
 
Menntamálanefnd Alþingis tók athugasemdirnar til greina í nefndaráliti sínu og hefur gert tillögur um breytingar á frumvarpinu í samræmi við þær.
 
III. Ýmis önnur atriði
 Námsmat
Í IX. kafla grunnskólalaga er fjallað um námsmat en því er ætlað að afla sem öruggastrar vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstökum nemendum eða hópum gengur að ná settum markmiðum. Námsmat á að vera óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt gagnvart nemendum. Samkvæmt 3. mgr. 45. gr. eiga nemandi og forráðamaður hans rétt á að skoða metnar prófúrlausnir og í reglugerð nr. 710/1996 er kveðið frekar á um hvernig skuli að því staðið. Samkvæmt þessum ákvæðum á nemandi aðeins rétt á að skoða gögn en hann á ekki rétt á að fá niðurstöðu mats (einkunn eða vitnisburði) breytt. Þar sem niðurstaðan getur varðað nemandann miklu, væri eðlilegt að áskilja honum rétt til þess að óska eftir að niðurstaðan sæti endurskoðun.
 
Í aðalnámskrá er fjallað um námsmat út frá því að það sé gert fyrir nemanda, til að ljóst sé hvernig honum farnast sem einstaklingi og í samanburði við aðra. Jafnframt sé því ætlað að veita skólum aðhald- þannig að unnt sé að fylgjast með hvort skólarnir eru að standa undir skyldum sínum- sem sagt til að bæta nám og kennslu.
Í grunnskólalögum nr. 66/1995 voru í fyrsta skipti sett ákvæði um mat á skólastarfi. Þar er megin áherslan lögð á sjálfsmat en menntamálaráðuneytinu ber að sjá til að fram fari ytra mat á starfsemi skóla og úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla.
Skýra þarf ákvæði grunnskólalaga um eftirlit og mat á menntun, kveða á um gæðamat og setja lágmarkskröfur um hvað mat skuli taka til. Setja inn ákvæði um að m.a. skuli taka út starf nemenda- og foreldraráða og raunveruleg áhrif þeirra, hvernig almenn líðan nemenda er tryggð og hvernig tekið er á agamálum og félagslegum þáttum svo sem einelti.
 
Nýbúar - nemendur með annað móðurmál en íslensku
Nú eru tæplega 1600 nemendur í grunnskólum á Íslandi með annað móðurmál en íslensku. Á næstu misserum mun þeim eflaust fjölga til muna. Taka þarf til sérstakrar skoðunar málefni þessara nemenda- bæði á landsvísu og í einstökum sveitarfélögum.
Í núgildandi lögum er vikið að nemendum með annað móðurmál en íslensku í 36. gr. og segir þar að þau eigi rétt á sérstakri kennslu í íslensku og að heimilt sé að veita þeim undanþágur varðandi samræmd próf. Í aðalnámskrá segir að börn þessi hafi ólíkan menningarlegan, mállegan og námslegan bakgrunn og hafi því misjafnar forsendur til að takast á við almennt nám í íslenskum skólum. Ljóst er að um mál þessara barna þarf að fjalla meira í lögunum og sérstaklega þarf að huga að samstarfi skóla við foreldra þeirra. Tryggja þarf að nemendur og foreldrar þeirra eigi greiðan aðgang að upplýsingum og ráðgjöf og rétt væri að huga að því hvort skipa eigi þeim talsmann í einhverjum tilvikum.
 
Jafnframt þarf að tryggja að erlend börn, sem hér dvelja komi öll inn í skólakerfið- kveða þarf skýrt á um skyldur stjórnvalda- ríkis og sveitarfélaga- í því efni.
Rétt er að minna á að í 2. gr. 1. BSSÞ segir : „Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum án mismununar af nokkru tagi....“ Hér er m.a. átt við rétt barns til menntunar skv. 28. gr. hans.
 
Vakin skal athygli á að í frumvarpi til breytinga á grunnskólalögum sem liggur fyrir Alþingi er gerð breyting á 1. gr. laganna í þá veru að sveitarfélögum verði skylt að halda skóla fyrir öll börn sem eiga lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Að þessu þarf að huga.
 
Trúarbragðafræðsla
Ísland er í dag fjölmenningarsamfélag og sú staðreynd þarf að endurspeglast í grunnskólalögum. Í núgildandi lögum er ekki vikið að rétti nemenda í þessu efni en í aðalnámskrá er að finna umfjöllun um það. Nú fá foreldrar undanþágu frá skólasókn skv. 8. gr. eða 35. gr. laganna og er svo litið á að þá beri foreldrar og skólinn ábyrgð á því að nemandinn fái jafngild tækifæri til menntunar og þroska. Í raun er ekki tryggt að nemendur fái slík tækifæri og brýtur það gegn ákvæðum 2. og 29. gr. laganna um jafnræði og 2.mgr. 27. gr. um vikulegan kennslutíma hvers nemanda. Á þessu þarf að taka við yfirstandandi endurskoðun laganna.

Reykjavík, 22. maí 2006
 
Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna