Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun) , 340. mál.

Skoða frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun) , 340. mál, þskj 374 
Skoða feril málsins

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík


Reykjavík,  20. janúar  2006
Tilvísun: UB 0601/4.1.1


Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun) , 340. mál.

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett þann 7. desember 2005, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna  um ofangreint frumvarp.

Í  frumvarpi þessu  er að finna  tillögur um breytingar á ýmsum lögum  í þeim tilgangi að  jafna stöðu  samkynhneigðra  og  gagnkynhneigðra í samfélaginu.  Tillögur  þessar  eru  byggðar  á  mikilli  og  vandaðri  undirbúningsvinnu, sbr.  skýrslu forsætisráherra um réttarstöðu samkynhneigðra, sem lögð var fram á  131. löggjafarþingi á þingskjali 381. Umboðsmaður barna  lýsir  yfir  fylgi sínu við   að réttarstaða samkynhneigðra sé almennt bætt með þeim hætti sem gert er með frumvarpi þessu.   Framhjá því verður þó ekki litið að sérstök sjónarmið eiga við um þá  kafla  frumvarpsins er  lúta að  málefnum  barna, einkum  XV. kafla um  breytingar á  lögum um ættleiðingar  nr. 130/1999  og  XVI. kafla um breytingar á lögum um  tæknifrjóvgun nr. 55/1996.

Í umsögn þessari  verður  fyrst vikið að  atriðum er varða  þessa tvo kafla sameiginlega. Um margt byggja ákvæði  ættleiðingarlaga og  laga um tæknifrjóvgun á  sömu forsendum því í   báðum tilvikum   má segja að fólk  “eignist”  barn  með atbeina samfélagsstofnana. 

Samkvæmt íslenskum  lögum á sviði barnaréttar ber ávallt   að  leggja  til grundvallar   það  sem  talið verður  barni fyrir bestu, sbr. t.d. barnalög nr. 76/2003  og barnaverndarlög nr. 80/2002.   Hagsmunir barnsins sem í hlut á, hagir þess og  þarfir  skulu lagðir til grundvallar við allar úrlausnir  mála  er það varðar.  Þessi meginregla er í  fullu samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland  hefur  gengist undir  samkvæmt  ýmsum alþjóðlegum samningum svo sem  samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi  barnsins  og  Haag-samningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa.

Undirrituð tekur undir  þau rök  Þórhildar  Líndal, fyrrverandi umboðsmanns barna, sem fram koma  á bls. 61 í fyrrgreindri skýrslu forsætisráðherra, að  leggja beri til grundvallar það sjónarmið að börn eigi rétt á að eiga foreldra  fremur en  að  byggja á því að  fullorðnir  eigi rétt á því að eignast  börn.  Þessi rök eiga sér  m.a. stoð  í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.  Þar er hvergi fjallað um börn og tæknifrjóvganir en í 21. gr. hans segir  að  aðildarríki sem viðurkenna og/eða leyfa ættleiðingu skuli tryggja að fyrst og fremst sé litið til þess sem barni er fyrir bestu. 

Ekki verður  talið  að  ákvæði  samningsins standi í vegi fyrir því að   samkynhneigðir  fái að ættleiða börn eða að gangast undir tæknifrjóvgun.   Hann setur engin takmörk fyrir því  hverjir  megi  ættleiða barn heldur  hvaða forsendur ber fyrst og fremst að leggja til grundvallar við úrlausn á  umsókn um  ættleiðingu, þ.e. að ættleiðing  sé  barni fyrir bestu.

Í  frumvarpi  þessu  eru lagðar til breytingar á  lögum  um  það  hverjir  geta verið ættleiðendur eða gengist  undir  tæknifrjóvgun.   Því  er  ekki  ætlað  að  hreyfa  við þeim  almennu og sérgreindu efnisskilyrðum sem  lög um ættleiðingar  og tæknifrjóvgun setja.  Eftir stendur að meginskilyrði þessara laga um að hagsmunir barns skuli ráða í hverju tilviki  er óbreytt sem og  ákvæði þeirra um  lagalegar skyldur foreldra gagnvart börnum.

Við mat á því hvort það skilyrði er uppfyllt koma sérstaklega til skoðunar hæfni aðila  til að annast og ala upp börn og  þær  aðstæður, m.a. félagslegar og fjárhagslegar, sem barni eru búnar hjá viðkomandi.   Innlendar og erlendar  rannsóknir benda til að enginn munur sé á hæfni  samkynheigðra  og gagnkynhneigðra að því er varðar tilfinningatengsl og samskipti við börn sín, umönnun og uppeldishætti eða almenna færni sem uppalendur.   Nefnd  sem  vann   að undirbúningi lagasetningar í Svíþjóð um rétt samkynhneigðra til ættleiðingar  lét m.a. gera ýmsar  rannsóknir og byggði  niðurstöðu sína á  meira  en 40 rannsóknum.  Markmið þeirra var að meta hvort og  þá  hvaða áhrif  samkynhneigð  foreldra  hefði á líðan og uppvaxtarskilyrði barns.  Þær sýndu  að  enginn munur var á milli barna samkynhneigðra og gagnkynhneigðra foreldra í þessu efni.

Umboðsmaður barna er þeirrar skoðunar að ekki séu  efni til   að  útiloka  ættleiðingu eða tæknifrjóvgun eingöngu  á  grundvelli kynhneigðar  umsækjanda.   Samþykkja  má     breytingar  á  lögum um ættleiðingar og tæknifrjóvgun  á þeirri forsendu   að samkynhneigðir  eiga   stjórnskipulegan rétt  á  að fá  einstaklingsbundið   mat  á því hvort þeir uppfylla efnisskilyrði laga    með sama  hætti og  gagnkynhneigðir.     Við  það mat  beri  þá fyrst og fremst  að  líta   til  sjónarmiða  er  varða  hagsmuni og  þarfir barns. Því aðeins  eigi  að veita  leyfi til ættleiðingar eða tæknifrjóvgunar að ótvírætt sé að  barni verði búin  góð og þroskavænleg uppeldisskilyrði.  Þar ber að líta til   hæfni  og aðstæðna umsækjenda til að sinna  forsjárskyldum og sýna skilning á þörfum viðkomandi barns við þær aðstæður sem því er ætlað að búa við.

Í gagnrýni á frumvarp þetta hefur verið nefnt að með því að heimila samkynhneigðum að ættleiða barn eða gangast undir tæknifrjóvgun sé  gengið  gegn þeim hagsmunum barns að það alist upp með bæði föður og móður.  Með  lögum  nr. 130/1999  var tekið upp það nýmæli að heimila  einstaklingi að ættleiða barn  ef sérstaklega stendur á og ættleiðing er ótvírætt talin barninu til hagsbóta.  Má segja að með því hafi verið gefið fordæmi í þessu efni  sem ekki verði  horft framhjá.

XV. kafli- Breyting á lögum  um ættleiðingar nr. 130/1999.
Nefnd  um réttarstöðu samkynhneigðra sem vann  fyrrgreinda skýrslu forsætisráðherra  var  einhuga um  tillögu um að  heimila samkynhneigðum  ættleiðingu íslenskra barna  enda  færi ávallt fram  ítarleg könnun   á grundvelli  ættleiðingarlaga.

Meginskilyrði fyrir ættleiðingu er að finna í   4. gr. laga nr. 130/1999  um ættleiðingar en þar er kveðið á um  að ekki sé heimilt að veita  leyfi til ættleiðingar   “nema sýnt þyki  eftir könnun viðkomandi barnaverndarnefndar á málefnum væntanlegs kjörbarns og þeirra sem óska  ættleiðingar að ættleiðing sé barninu fyrir bestu”.

Dómsmálaráðherra hefur sett reglugerð um ættleiðingar-  nr. 238/2005.  Í  henni er m.a. að finna ákvæði um umsóknir og fylgigögn, skilyrði sem  umsækjendur verða að uppfylla, umsagnir barnaverndarnefnda  og  ættleiðingar á erlendum börnum.  Almenn og  sérgreind  efnisskilyrði ættleiðingar  koma  vel fram í reglugerðinni.   Samkvæmt 13. gr. hennar ber barnaverndarnefnd að meta hvort  fyrirhuguð ættleiðing sé barni fyrir bestu. Í umsögn nefndarinnar skal koma fram hvort hún mælir með að ættleiðing verði heimiluð eða ekki og skal niðurstaða hennar  vera ítarlega rökstudd.

Í  lögum nr 130/1999 um  ættleiðingar  var matsferlið  styrkt enn frá því sem áður var, því með  17. gr.  var  komið á fót  sérstakri  ættleiðingarnefnd sem skipuð er lögfræðingi, lækni og sálfræðingi eða félagsráðgjafa.  Nefndin  veitir  sérfræðilega umsögn um umsóknir sem ráðuneytið óskar  álits um, einkum að því er varðar hæfi umsækjenda eða aðstæður þeirra til að ættleiða barn.  Umsögn nefndarinnar er  til viðbótar við  umsögn barnaverndarnefndar  en það er háð mati ráðuneytisins hvaða mál koma til umfjöllunar hjá  nefndinni.

Samkvæmt framansögðu   er  tryggt  að  sérhver umsókn  um ættleiðingu fær  ítarlega  skoðun  og   ótvírætt er  að við endanlegt mat á því hvort orðið er við umsókn skuli  fyrst og fremst  tekið mið af því sem barni er fyrir bestu í hverju einstöku tilviki.

Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra klofnaði í afstöðu  til þess hvort veita ætti samkynhneigðum  heimild til að ættleiða  erlend börn. Helmingur  hennar  taldi það ekki  rétt að svo stöddu (2004)   annars vegar  vegna  “ákveðinnar óvissu um sálræna líðan erlendra ættleiddra barna hér á landi og áhrif ýmissa álagsþátta”   og hins vegar  að varasamt væri að stefna í hættu árangursríkri  samvinnu sem komist hefði á við  stjórnvöld erlendra ríkja svo sem Kína, sem heimila ekki ættleiðingu til samkynhneigðra.

Ekki verður séð að   síðari forsendan eigi við lengur  því  tæp fjögur  ár eru síðan Svíar breyttu löggjöf sinni í þessa veru  og  hefur  það ekki haft  í för með sér  að erlend  ríki hafi útilokað  samstarf um ættleiðingar til gagnkynhneigðra  þar í landi.  Til þess er og að líta að samkvæmt  Haagsamningnum frá 1993  geta ættleiðingar   aðeins farið fram ef ættleiðendur eru hjón eða einstaklingar.  Í honum er ekki  gert ráð fyrir að karl og kona í óvígðri sambúð geti ættleitt barn saman.  Þó íslensk löggjöf leyfi  ættleiðingu  í þessum tilvikum hefur það ekki  spillt fyrir  í samskiptum  Íslands við erlend ríki  um ættleiðingar.

Samfélagið ber mikla ábyrgð þegar gengið er frá ættleiðingu barna, ekki síst  þegar um er að ræða  alþjóðlegar ættleiðingar.   Eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar hafa engar  rannsóknir verið gerðar hér á landi  á því hvernig  erlendum kjörbörnum vegnar   við nýjar  aðstæður  og  þarf  að bæta úr því.   Samkvæmt  erlendum rannsóknum   og  áliti Valgerðar Baldursdóttur, barnageðlæknis, sem á sæti í ættleiðingarnefnd, er talið  að því fylgi   sálrænt  álag fyrir börn, þegar þau eru ættleidd til annarra landa. Í máli Valgerðar kom fram að ákveðin tengslarof  ættu sér  ávallt stað, sem börnum reynist  misjafnlega erfitt að vinna úr.  Ýmsir álagsþættir gætu haft áhrif í þessu efni.  Þær aðstæður að  barn ælist upp hjá samkynhneigðum foreldrum gætu hugsanlega verið einn  álagsþáttur. Aukið álag í umhverfi barna hefði alltaf áhrif á möguleika þeirra  á að vinna úr tengslarofi en ekki væri hægt að gera upp á milli  tiltekinna álagsþátta í þessu sambandi.
Í  lögum nr. 130/1999 um ættleiðingar  gilda sérstök sjónarmið um ættleiðingar á erlendum börnum   til viðbótar þeim sem  gilda um ættleiðingar innlendra barna, m.a. vegna framangreindra röksemda, sbr. VI. kafla  þeirra.   Það sama á við um  reglugerð um ættleiðingu en þar er m.a. gert ráð fyrir  að umsækjendur  skuli  sækja sérstök námskeið til undirbúnings ættleiðingu erlends barns.

Umboðsmaður barna  er þeirrar skoðunar að samkynhneigðir verði ekki útilokaðir frá að ættleiða erlend  börn eingöngu á grundvelli kynhneigðar sinnar, enda sé sýnt fram á það með  ítarlegri könnun barnaverndarnefndar á hæfni og aðstæðum viðkomandi að ættleiðing sé barni fyrir bestu.

Vegna þess álags fyrir barn sem kann að leiða  af því að umsækjendur eru samkynhneigðir  er  rétt  að gera  kröfu um að sýnt sé sérstaklega fram á  hæfni þeirra  til að  mæta þörfum  barnsins sem rekja má til þeirra aðstæðna.  Telja verður að slíkur  áskilnaður byggist á þeim  málefnalegu rökum  að hagsmunir barnsins krefjist þess.  Í þessu sambandi má benda á  að í  4. mgr. 2. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar segir að  heimilt sé  að leyfa einhleypum manni að ættleiða barn ef sérstaklega stendur á og ættleiðing er ótvírætt talin  barninu til hagsbóta. Í athugasemdum með frumvarpi til  þeirra laga sagði um þetta: “Um heimild einhleypra einstaklinga til að ættleiða börn ríkir það sjónarmið að leggja verði áherslu á að tryggja kjörbörnum sem heppilegust og eðlilegust uppvaxtarskilyrði. Mikilvægur þáttur í því er að kjörbarn alist upp bæði hjá móður og föður. Því verður að gera þær kröfur til einhleypra umsækjenda að sýnt sé fram á að þeir séu sérstaklega hæfir umfram aðra til að taka að sér barn vegna eiginleika sinna eða reynslu…”.  Þetta orðalag úr athugasemdum er svo að finna í   15. gr. reglugerðar um ættleiðingar nr. 238/2005  en þar er  kveðið á um að  sæki einhleypur maður um ættleiðingu barns skuli í umsögn barnaverndarnefndar gerð rækileg grein fyrir því að umsækjandi sé sérstaklega hæfur umfram aðra til að taka að sér barn vegna eiginleika sinna eða reynslu.

XVI. kafli.  Breyting á lögum um tæknifrjóvgun nr. 55/1996.
Tekið skal undir þau sjónarmið að þegar barn verður til með atbeina heilbrigðisyfirvalda  hvíli á  samfélaginu sérstök ábyrgð  varðandi  þær aðstæður sem barn fæðist í.  Því er  rétt að  setja  það  meginskilyrði fyrir  tæknifrjóvgun  að  ótvírætt sé  að  barni  verði  í alla staði búnar   traustar og góðar aðstæður.

Í  1. mgr. 3. gr. laga  nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun  er kveðið á um  skilyrði þess að tæknifrjóvgun verði framkvæmd  en þar segir:
 Tæknifrjóvgun má því aðeins framkvæma að:
   a. konan, sem undirgengst aðgerðina, sé samvistum við karlmann, í hjúskap eða óvígðri sambúð, sem staðið hafa samfellt í þrjú ár hið skemmsta og að þau hafi bæði samþykkt aðgerðina skriflega og við votta,
   b. aldur parsins megi teljast eðlilegur, m.a. með tilliti til velferðar barnsins á uppvaxtarárum,
   c. andleg og líkamleg heilsa og félagslegar aðstæður parsins séu góðar og
   d. aðrar aðgerðir til að sigrast á ófrjósemi hafi brugðist eða séu ekki tiltækar.

Samkvæmt  3. mgr.  3. gr.  er það læknir sem  ákveður hvort  tæknifrjóvgun  fer fram.  Í lokamálsgrein  3. gr. segir að  ráðherra  setji nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um heimild til að leita umsagnar barnaverndarnefndar  um félagslegar aðstæður parsins. 

Í  3. gr. reglugerðar nr. 568/1997 um tæknifrjóvgun eru  skilyrði tæknifrjóvgunar áréttuð.  Samkvæmt 4. gr.  skal  við mat læknis á því hvort par sem sækir um tæknifrjóvgun uppfyllir skilyrði c. liðar 3. gr. laganna  litið til þess hvort ætla megi að barninu  yrðu tryggð  þroskavænleg uppeldisskilyrði. Telji hann ástæðu til  geti hann krafist  vottorða frá viðeigandi sérfræðingum um andlega  og líkamlega heilsu parsins og frá félagsráðgjafa eða öðrum sem veitt geta upplýsingar um félagslegar aðstæður þess.  Telji hann vafa leika á um að félagslegar aðstæður þess til uppeldis barns séu nægilega góðar getur hann leitað umsagnar barnaverndarnefndar.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um tæknifrjóvgun  kom fram að eðlilegt mætti telja að  réttur umsækjanda  um tæknifrjóvgun  viki fyrir þeim hagsmunum er varða uppeldisaðstæður barns.   Við mat  á því hvort  barni yrði tryggð þroskavænleg uppeldiskjör skuli einkum litið  til þess hvort barnið ætti þess kost  að alast upp með móður og föður.  Því væru samkynhneigðar  og  einhleypar konur útilokaðar  frá  tæknifrjóvgunarmeðferð.

Eins  og áður  hefur verið rakið  verður ekki talið að  samkynhneigðir  foreldrar  búi börnum sínum  síður  þroskavænlegar  uppeldisaðstæður en gagnkynhneigðir.   Verður ekki séð að   málefnaleg rök standi til þess að  aðgangur að tæknifrjóvgunarmeðferð taki mið af  kynhneigð eða  fjölskyldugerð viðkomandi.

Umboðsmaður barna getur því  fallist  á að  þær breytingar sem gerðar eru í XVI. kafla frumvarps þessa  nái fram að ganga.    Rétt  væri  þó að  setja inn í texta laganna  skýrari áskilnað um að við ákvörðun um tæknifrjóvgun skuli fyrst og fremst tekið mið af hagsmunum þess barns sem  til verður við hana.  Því er gerð tillaga um að inn í 1. mgr. 3. gr. laga um tæknifrjóvgun komi nýr   stafliður  b.  svohljóðandi:  að ætla megi að barninu sem til verður við aðgerðina verði tryggð þroskavænleg uppeldisskilyrði.  

Jafnframt  væri rétt  að skerpa ákvæði  laga  og reglugerðar um tæknifrjóvgun um könnun  á  hæfi og aðstæðum umsækjenda  m.a.  þannig að lækni væri skylt að láta hana fara fram.  Eins og áður hefur verið vikið að  getur fylgt því sérstakt  álag fyrir börn að alast við upp þær aðstæður  að  báðir foreldrar eru  af sama kyni. Ekki er óeðlilegt að kannað verði sérstaklega hvort  umsækjendur hafi til að bera  hæfni til að styrkja barn í að mæta  því sérstaklega.

Að lokum er rétt  m.a. með vísan til 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og  7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins að  benda á  að tímabært er  að taka upp umræðu  um ákvæði laga um tæknifrjóvgun um nafnleynd   kynfrumugjafa  og   rétt barns  til að þekkja uppruna sinn.   Ákvæði ættleiðingarlaga taka mið af þessum rétti barna. 

XVII.  KAFLI.  Breyting á  barnalögum nr. 76/2003.
Tillögur í  þessum  kafla  frumvarpsins  taka mið af  því að XV. og  XVI. kaflar þess verði  samþykktir og eru   ekki gerðar athugasemdir við  efni eða  framsetningu þeirra.

Með vísan til framangreindra  athugasemda   er lýst yfir stuðningi við framkomið frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun).

Virðingarfyllst,
Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna