Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um unglingamóttöku og getnaðarvarnir

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 8. mars 2002
Tilvísun: UB 0203/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um unglingamóttöku og getnaðarvarnir

Vísað er til bréfs heilbrigðis- og tryggingarnefndar Alþingis, dagsett 12. febrúar 2002, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreinda tillögu.

Samkvæmt tillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra verði falið að hefja viðræður við heilsugæsluna í Reykjavík um opnun unglingamóttöku. Jafnframt feli ráðherra landlækni að koma á fót tilraunaverkefni innan heilsugæslunnar með ókeypis eða ódýrar getnaðarvarnir fyrir fólk á aldrinum fimmtán ára til tvítugs.

Ég tel opnun unglingamóttöku í Reykjavík ákaflega þarft mál og styð heilshugar þá hugmynd. Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 segir m.a. að eitt af verkefnum heilbrigðisþjónustunnar verði að auka fræðslu ungmenna um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir. Þá segir að verkefnið sé brýnt ef takast eigi að draga úr ótímabærum þungunum ungra kvenna.

Þörfin fyrir aukna fræðslu og forvarnir er augljóslega fyrir hendi og mjög mikilvægt að unglingar geti leitað til, og rætt við fagfólk um sín málefni í fullum trúnaði og á eigin forsendum.

Varðandi aldursmörk í seinni hluta tillögunnar, þ.e. að koma skuli á fót tilraunaverkefni innan heilsugæslunnar með ókeypis eða ódýrar getnaðarvarnir fyrir fólk á aldrinum fimmtán ára til tvítugs, vil ég sérstaklega taka fram, að eðlilegra væri að miða við fjórtán ára aldur, þar sem kynferðislegur lögaldur á Íslandi er almennt talinn miðast við fjórtán ár.

Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið styð ég framkomna tillögu til þingsályktunar og vonast til að hún hljóti samþykki á hinu háa Alþingi.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal