Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 22. febrúar 2002
Tilvísun: UB 0202/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um heildarstefnu um uppbyggingu og rekstur meðferðarstofnana 

Vísað er til bréfs heilbrigðis- og tryggingarnefndar Alþingis, dagsett 12. febrúar 2002, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreinda tillögu.

Mótun heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og rekstur meðferðarstofnana,  er ákaflega brýn og tel ég slíka heildarstefnu nauðsynlega til að koma í veg fyrir handahófskennd vinnubrögð í þessum efnum. Sérstaklega vil ég benda á mikilvægi þess að áfengis- og vímuefnameðferð barna og unglinga, sé markviss og miði að því að hver og einn eigi kost á meðferð við hæfi. Samvinna þeirra aðila, er að áfengis- og vímuefnameðferð koma, er ákaflega mikilvæg og tel ég nauðsynlegt að heilbrigðisyfirvöld, félagsmálayfirvöld, menntamálayfirvöld, sem og aðrir, er vinna að áfengis- og vímuefnameðferðum, taki höndum saman um að móta heildarstefnu í þessum málum.

Til að unnt verði að móta heildarstefnu tel ég brýnt að fram fari árangursmat á meðferðarstofnunum og þeim meðferðarleiðum, sem í boði hafa verið innan heilbriðigskerfisins og félagsmálakerfisins. Öðruvísi verður ekki séð hvort við erum á réttri leið í þessum efnum eða  hvort hinir miklu fjármunir, er fara til þessa málaflokks nýtist sem skyldi, í þágu þeirra sem á þurfa að halda.

Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið styð ég framkomna tillögu til þingsályktunar og vonast til að hún hljóti samþykki á hinu háa Alþingi.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal