Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 22. janúar 2001
Tilvísun: UB 0101/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2010 

Vísað er til bréfs heilbrigðis- og tryggingarnefndar Alþingis, dagsett 14. desember 2000, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreinda tillögu.  Vegna mikilla starfsanna hefur mér ekki reynst unnt að kynna mér til hlítar efni framangreindrar tillögu, en vil þó koma eftirfarandi á framfæri:

Að mínu mati er heildarstefnumótun í heilbrigðismálum mjög mikilvægt skref í átt að bættu heilsufari þjóðarinnar, og fagna ég því að málefni barna og ungmenna séu nefnd sérstaklega meðal forgangsverkefna heilbrigðisáætlunarinnar. Það má segja að langflest þau svið, sem talin eru upp sem forgangsverkefni, snerti börn og unglinga á einn eða annan hátt. Von mín er þó sú, að á yfirstandandi þingi verði samþykkt fyrirliggjandi þingsályktunartillaga um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga, 19. mál,  þ.á m. stefnumótun í heilbrigðismálum barna og unglinga.

Stefnumótun ein og sér dugar þó skammt ef ekki fylgir í kjölfarið áætlun um framkvæmdir á stefnu stjórnvalda. Það er því fagnaðarefni, að í athugasemdum við fyrirliggjandi þingsályktunartillögu  sé að finna áform um skipun nokkurra vinnuhópa til að vinna framkvæmdaráætlanir fyrir einstaka þætti.

Yfirumsjón með framkvæmd heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 mun verða hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, og er það von mín, að ég fái að fylgjast með gangi mála, sérstaklega hvað varðar málefni sem tengjast beint börnum og unglingum.

12.2 Frumvörp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, 242. mál, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, 241. mál og réttindagæslu fatlaðra, 331. mál

Með bréfi, dagsettu 13. desember 2000, óskaði félagsmálanefnd Alþingis umsagnar minnar um frumvörp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og um réttindagæslu fatlaðra. Veitti ég eina umsögn um frumvörpin þrjú, dagsetta 23. janúar 2001 og er hún svohljóðandi:

I.

Vísað er til bréfs félagsmálanefndar Alþingis, dagsett 13. desember 2000, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreind frumvörp.

Samkvæmt 1. gr. laga um umboðsmann barna, nr. 83/1994, er það hlutverk umboðsmanns barna að vinna að réttinda- og hagsmunamálum barna yngri en 18 ára, þ.á m. fatlaðra barna. Vegna mikilla starfsanna hefur mér því miður ekki reynst unnt að kynna mér til hlítar efni framangreindra frumvarpa, þó eru nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að koma á framfæri við félagsmálanefnd Alþingis.

II.

Samkvæmt 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, hér eftir nefndur Barnasáttmálinn,  segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld  eða  löggjafarstofnanir  gera ráðstafanir sem varða börn.

Slíkt forgangsákvæði, þar sem segir að við úrlausn mála er varða börn, skuli ávallt gæta þess að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi, tel ég að afdráttarlaust eigi heima í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um réttindagæslu fatlaðra, sem og lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Í frumvörpin vantar að mínum dómi ákvæði sem mælir fyrir um, að við ráðstafanir sem varða börn, skuli það sem þeim er fyrir bestu, ávallt hafa forgang.

III.

Í 8. gr. frumvarps til laga um réttindagæslu fatlaðra er fjallað um starfshætti trúnaðarmanna, sem starfa samkvæmt lögunum. Þar segir m.a. að við meðferð máls skuli trúnaðarmaður ávallt hafa samvinnu við hinn fatlaða eða talsmann hans. Í greinargerð segir nánar um þetta, að með talsmanni sé m.a. átt við lögráðamann eða ráðsmann samkvæmt lögræðislögum og forráðamann barna yngri en 18 ára samkvæmt barnalögum.

Í c-lið 10. gr. frumvarps til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um að félagsmálanefnd skuli virða sjónarmið einstaklings eða talsmanns hans um hvaða þjónusta er veitt og í d-lið segir jafnframt, að veita skuli þjónustu að höfðu samráði og með samþykki viðkomandi einstaklings eða talsmanns hans. Í athugasemdum með 10. gr. fyrrnefnds frumvarps segir m.a. að einn mikilverðasti siðferðilegi grunnur félagsþjónustunnar sé virðing fyrir fólki og tillitssemi. Því sé í frumvarpinu lögð rík áhersla á samráð við einstakling, eða talsmann hans, þegar þjónusta er veitt og um það hvernig hún skuli veitt. Þá segir, að með talsmanni sé átt við lögráðamann eða ráðsmann samkvæmt lögræðislögum og forráðamann barna yngri en 18 ára samkvæmt barnalögum.

Í framangreindum  ákvæðum er ekki mælt sérstaklega fyrir um rétt barna yngri en 18 ára til að tjá sig um málefni, sem falla undir lögin, eða að samráð skuli haft við börnin sjálf um veitta þjónustu samkvæmt þeim. Orðalag ákvæðanna bendir til þess að fram til 18 ára aldurs skuli talsmaður barns alfarið taka ákvarðanir fyrir það varðandi þjónustu sem veitt er og að þau sjónarmið sem virða skuli samkvæmt lögunum, séu sjónarmið talsmannsins. Af þessu tilefni vil ég taka fram:

 Í 12. gr. Barnasáttmálans segir m.a. að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur barns og þroska. Í ýmsum lögum hefur verið tekin sú stefna að miða við ákveðin aldursmörk barna, iðulega 12 ár, við mat á því hvernær þau eigi rétt á að tjá sig um mál, og hvenær tillit skuli tekið til skoðana þeirra. Þeirri skoðun hefur þó vaxið fylgi í seinni tíð, að ekki eigi að tilgreina ákveðinn aldur í þessu sambandi, heldur miða fyrst og fremst við þroska hvers og eins barns. Í frumvörpunum, sem hér eru til umfjöllunar, tel ég nauðsynlegt að sjónarmið 12. gr. Barnasáttmálans birtist með augljósum hætti, til að staðfesta það að í þjóðfélagi okkar njóti börn virðingar og tillitssemi til jafns við aðra borgara. Jafnframt tel ég rétt, í þessu sambandi,  að minna á að í 2. gr. sáttmálans er kveðið á um bann við mismunun. Um það segir, að aðildarríki skuli virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum, án mismununar af nokkru tagi, þar á meðal án tillits til fötlunar. Fötluð börn eiga því jafnan rétt og önnur á því að tjá sig um mál, sem þau varðar og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við þroska þeirra og aðstæður að öðru leyti.

Í frumvörpin vantar sérstaka meginreglu, sem mælir fyrir um rétt barna til að tjá sig í öllum málum er þau varða, og að réttmætt tillit skuli taka til skoðana þeirra í samræmi við þroska þeirra o.fl.

 IV.

Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps til laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins segir m.a. að á Greiningarstöðina séu samkvæmt 1. gr. frumvarpsins lagðar auknar skyldur, um þjónustu við börn og ungmenni sem hafa veruleg frávik í þroska og aðlögun, en geta með mikilli aðstoð náð sjálfstæði á fullorðinsárum. Skilningur minn er sá að hér sé meðal annars átt við að þjónusta við einhverf börn verði efld verulega og því vil ég fagna sérstaklega. 

V.

Með bréfi til félagsmálaráðherra, dagsettu 22. nóvember 1999, lagði ég til að við endurskoðun á lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, yrði tekið inn í lögin ákvæði, sem mælti fyrir um starfsleyfi til handa þeim, er annast barnagæslu gegn gjaldi eða þar sem hún er liður í annarri þjónustu, svo sem eins og á líkamsræktarstöðvum og í stórverslunum, sbr. nánar skýrslu um störf umboðsmanns barna árið 1999. Jafnframt benti ég á mikilvægi þess, að í lögunum yrði að finna heimild til að setja reglugerð, þar sem meðal annars yrði tekin afstaða til aldurs og menntunar þess starfsfólks sem annast gæsluna, aldursmarka og fjölda barna auk aðbúnaðar barnanna almennt séð. Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem mælir fyrir um starfsleyfi vegna gæslu barna á vegum ýmissa aðila.

Þá er þess að geta að ég hef ítrekað bent á nauðsyn þess, að settar verði almennar lágmarksreglur um starfsemi sumarnámskeiða fyrir börn á vegum sveitarfélaga. Beindi ég erindi þessa efnis til Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar á árinu 1996. Sambandið hefur nú loks svarað því á þann veg, að það sé ekki hlutverk þess, að setja reglur um starfsemi eða framkvæmd einstakra verkefna er sveitarfélögin sinna. Þessi námskeið, sem sveitarfélög bjóða upp á fyrir börn eru fjölbreytt, og má sem dæmi nefna leikjanámskeið, ævintýranámskeið og siglinganámskeið. Stór hluti ungra grunnskólabarna tekur þátt í þessum námskeiðum í sumarleyfum sínum. Í dag háttar þannig til að ekki eru til neinar almennar samræmdar lágmarksreglur um slík námskeið, t.d. hvað varðar hæfi leiðbeinenda, kröfur til húsnæðis og aðbúnaðar barnanna almennt. Það er eindregin skoðun mín að mjög brýnt sé að um námskeið þessi gildi almennar lágmarksreglur, sem öll sveitarfélög fylgi, til þess fyrst og fremst að tryggja öryggi og velferð þeirra barna, sem sækja námskeiðin. Ég vil því leggja til, að við 2. mgr. 54. gr. fumvarps til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga verði bætt inn nýrri heimild fyrir félagsmálaráðherra til að setja reglugerð um sumarnámskeið barna.

 Lýst er yfir ánægju með að í frumvarpinu er að finna heimild til setningar reglugerðar um starfsleyfi til handa þeim, er annast barnagæslu gegn gjaldi eða þar sem hún er liður í annarri þjónustu.

Þá er  lagt til að bætt verði við 2. mgr. 54. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, ákvæði er heimili félagsmálaráðherra að setja reglugerð um sumarnámskeið barna á vegum sveitarfélaga.

Mín skoðun er sú að heimild til handa ráðherra um setningu reglugerða þessara muni stuðla að öruggara og um leið betra þjóðfélagi fyrir börnin.

VI.

Í nágrannalöndum okkar hefur þróunin verið í þá átt, að líta á börn sem sjálfstæða einstaklinga með eigin réttindi, óháð réttindum hinna fullorðnu, sbr. þau grundvallarviðhorf sem Barnasáttmálinn byggir á. Samhliða því að börn skuli njóta umhyggju og sérstakrar verndar er þannig í sáttmálanum lögð rík áhersla á að þau verði virkir þátttakendur í þjóðfélaginu. Í þessum síðustu orðum birtist ný sýn á réttarstöðu barna.

Á umliðnum árum hafa mér borist erindi frá börnum á aldrinum 15-18 ára, sem eru flutt að heiman, jafnvel brottrekin, og sum þeirra komin með ungbarn á framfæri sitt. Þessi ungmenni kvarta yfir því að geta ekki, við þessar sérstöku aðstæður, í eigin persónu leitað eftir og fengið aðstoð félagsmálayfirvalda. Ég tel það íhugunarefni fyrir félagsmálanefnd, hvort ekki eigi að tryggja börnum í tilvikum sem þessum, sjálfstæðan rétt til að vera aðili máls hjá félagsmálayfirvöldum frá 15 ára aldri, eins og þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar.

Vriðingarfyllst,
Þórhildur Líndal