Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 3. desember 1998
Tilvísun: UB 9812/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun 

Allsherjarnefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun, 75. mál. Tillagan er endurflutt þar sem hún varð ekki útrædd á síðasta löggjafarþingi.  Með bréfi dagsettu 13. febrúar 1997, til Steingríms J. Sigfússonar alþingismanns, sem er flutningsmaður tillögunnar ásamt Sigríði Jóhannesdóttur alþingismanni, fagnar umboðsmaður því að umrædd tillaga skuli fram komin, sjá meðfylgjandi ljósrit af bréfinu ásamt fylgigögnum þess.

Í tilefni af því að tillagan er nú endurflutt vill umboðsmaður barna einungis árétta þá skoðun sína sem fram kemur í meðfylgjandi bréfi og hvetja til þess að hún verði samþykkt. Þá vill umboðsmaður barna ennfremur vekja athygli allsherjarnefndar á nýlegri BA-ritgerð í uppeldis- og menntunarfræði eftir Unu Maríu Óskarsdóttur, þar sem hún gerir m.a. grein fyrir rannsókn sinni á ofbeldi í íslensku barnasjónvarpi, en rannsóknin þessi náði til barna- og unglingaefnis hjá Ríkissjónvarpinu og Stöð 2. Rannsóknin fór fram í marsmánuði á þessu ári og var hún unnin að höfðu samráði við umboðsmann barna, en undir handleiðslu dr. Sigrúnar Aðalbjarnardóttur prófessors og Ingibjargar Jónsdóttur, MSC. Umboðsmaður barna vill einkum vekja athygli allsherjarnefndar á eftirfarandi niðurstöðum framangreindrar rannsóknar:

·        Hlutfallslega meira ofbeldi er í barna og unglingaþáttum Stöðvar 2 en Ríkissjónvarpsins, eða 61,2% hjá Stöð 2 en 38,2% hjá Ríkissjónvarpinu.

·        Í 51 þætti af 71 sem skoðaðir voru, birtust 562 ofbeldisatriði, en 20 þættir voru án ofbeldisatriða.

·        Í morgunsjónvarpi sjónvarpsstöðvanna á laugardagsmorgnum voru sýnd 19,8 ofbeldisatriði að meðaltali á klukkustund.

·        Teiknimyndir eru sú gerð barna- og unglingaefnis sem innhélt flest líkamleg ofbeldisatriði.

·        Flestir ofbeldisþættirnir voru framleiddir í Bandaríkjunum, eða alls 21 þáttur af 22 sem þar voru framleiddir, og voru greind 337 ofbeldisatriði í þeim.

·        Fleiri karlkynspersónur eru bæði gerendur og þolendur ofbeldis en kvenkynspersónur.

·        Í 98,7% tilvika kom engin leiðbeining eða umvöndun fram veggna ofbeldisverknaðar gerandans.

 Umboðsmaður barna telur að BA-ritgerð Unu Maríu Óskarsdóttur sé þarft innlegg í umræðuna um ofbeldisdýrkun í þjóðfélaginu, einkum í ljósi þess að hún gefur vísbendingu um að ofbeldi sé einnig að finna í sjónvarpsefni sem ætlað er börnum sérstaklega.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal