Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði og persónuvernd

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 6. nóvember 1998
Tilvísun: UB 9811/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði og persónuvernd

Vísað er til bréfs heilbrigðis- og trygginganefndar, dagsett 21. október 1998, þar sem farið er fram á umsögn mína um tillögu til þingsályktunar um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði og persónuvernd, 97. mál. Í þingsályktuninni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að láta gera vandaða úttekt á dreifðum gagngrunnum með það að markmiði að nýta þá betur en nú er gert í þágu rannsókna og bættrar heilbrigðisþjónustu að teknu tilliti til réttinda sjúklinga og ákvæða um persónuvernd.

Ég kýs að afmarka umsögn mína um tillögu þessa við 5. lið hennar, en þar segir að við vinnu á úttektinni verði meðal annars gert ráð fyrir að tryggður verði réttur ófullveðja barna til að afturkalla er viðkomandi verður fullveðja heimildir sem foreldrar kunna að hafa veitt til skráningar upplýsinga um viðkomandi.

Ég vil einungis lýsa yfir stuðningi mínum við það sjónarmið sem fram kemur í 5. lið tillögunnar. Sem umboðsmaður barna tel ég afar mikilvægt að þetta atriði sé haft með í tillögunni. Ég er þeirrar skoðunar að sá varnagli sem þarna er sleginn sé til þess fallinn að vernda hagsmuni barna, en í tilvikum sem þessum eru þau ekki fær um að gera það sjálf vegna æsku sinnar.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal