Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um grunnskóla - fulltrúar nemenda

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 18. mars 1998
Tilvísun: UB 9803/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um grunnskóla - fulltrúar nemenda 

Vísað er til bréfs menntamálanefndar Alþingis, dagsett 23. febrúar 1998, þar sem óskað er eftir umsögn minni um frumvarp til laga um grunnskóla, 199. mál, fulltrúar nemenda.

Sem umboðsmaður barna hlýt ég að fagna heilshugar þeim tillögum til breytinga á lögum nr. 66/1995 um grunnskóla, sem frumvarp þetta lýtur að. Ég er þeirrar skoðunar að breytingar þessar séu löngu tímabærar, einkum með hliðsjón af 12. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Eins og flutningsmenn benda réttilega á í greinargerð með frumvarpinu ber íslenskum yfirvöldum, samkvæmt nefndri grein, að tryggja barni sem getur myndað eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur barns og þroska.

Í 2. gr. grunnskólalaga segir m.a. að grunnskólinn eigi að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skuli því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Á börnum hvílir lögboðin skólaskylda án þess að þau hafi nokkurn formlegan farveg til þess að hafa áhrif á skipulag skólastarfs né nokkuð annað er að innra starfi skólans lýtur. Ég tel því sterk rök hníga að því að með þessu sé verið að brjóta gegn 12. gr. Barnasáttmálans og tel af þeim sökum brýnt að ákvæði sem þetta verði samþykkt.

Það er jafnframt skoðun mín að við þetta tækifæri beri að hugleiða alvarlega hvort ekki skuli stíga skrefið til fulls þannig að fulltrúar nemenda fái einnig atkvæðisrétt á kennarafundum innan sérhvers skóla, sem og á fundum skólanefndar sveitarfélagsins, þegar verið er að fjalla um þau mál sem með beinum hætti snerta hagsmuni nemenda almennt séð.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á að það hefur verið yfirlýst stefna stjórnvalda í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, og í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans, að leita beri leiða til þess að efla ákvörðunarrétt barna og unglinga í málum sem varða þau sjálf á öllum sviðum samfélagsins. Þar hefur m.a. verið unnið að því að auka nemendalýðræði í grunnskólum með því að kalla nemendur til þátttöku í ákvarðanatöku sem varðar málefni þeirra sjálfra.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal