Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Tillaga til þingsályktunar um öryggismiðstöð barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 18. nóvember 1997
Tilvísun: UB 9711/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um öryggismiðstöð barna

Vísað er til bréfs heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis, dagsett 20. október 1997, þar sem óskað er eftir umsögn minni um tillögu til þingsályktunar um öryggismiðstöð barna.  Af þessu tilefni vil ég upplýsa um eftirfarandi:

Þegar ég tók við embætti umboðsmanns barna ákvað ég meðal annars að beita mér fyrir eflingu slysavarna barna almennt, en eins og til dæmis kemur fram í fyrrnefndri tillögu til þingsályktunar, eru slys á börnum mun tíðari hér en í nágrannalöndum okkar. Þegar ég kannaði þessi mál á sínum tíma varð ég þess fljótlega áskynja að skráning slysa á börnum er engan veginn fullnægjandi, sbr. nánar fyrirliggjandi skýrslur mína til forsætisráðherra 1995 og 1996, um þetta efni.

Ég er þeirrar skoðunar að kerfisbundin og samræmd slysaskráning, sem nær til landsins alls, sé ein aðalforsenda þess að unnt verði að fækka slysum á börnum með markvissum, fyrirbyggjandi aðgerðum. Ýmislegt fleira þarf þó að koma til, svo sem ráðgjöf opinberra aðila um slysavarnir barna og ekki síður fræðsla og upplýsingar til einstaklinga, það er til foreldra, til þeirra sem starfa með börnum og ekki síst til barnanna sjálfra. Ég er einnig þeirrar skoðunar að stjórnvöldum beri að ganga fram fyrir skjöldu og sýna frumkvæði í því að efla og samhæfa slysavarnir í þágu barna.                             

Í ljósi þessa ritaði ég bréf til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hinn 17. júlí 1997, í samvinnu við barnaslysafulltrúa Slysavarnafélags Íslands, Herdísi Storgaard og barnalæknana Ólaf Gísla Jónsson og Sævar Halldórsson, en í bréfinu segir m.a.: “Við erum öll sammála um og teljum afar brýnt að stjórnvöld leggi þunga áherslu á að efla og samhæfa slysavarnir í þágu barna. Af þeim sökum viljum við leyfa okkur að leggja til við yður, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, eftirfarandi tillögu að tilraunaverkefni, sem við nefnum: Eflum forvarnir - fækkum slysum á börnum.” Efni tillögu okkar fylgir hér með á minnisblaði dagsett í júlí 1997.

Tillaga til þingsályktunar um stofnun öryggismiðstöðvar barna fellur að tillögum að tilraunaverkefninu ”Eflum forvarnir - fækkum slysum á börnum”, og því ber að fagna henni sérstaklega.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal