Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1994 um umboðsmann barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. nóvember 1997
Tilvísun: UB 9711/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1994 um umboðsmann barna 

Með bréfi hinn 23. október  var óskað eftir umsögn minni um  frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna.  Með þessu frumvarpi er lögð til sú breyting að taka skuli til umræðu á Alþingi skýrslu umboðsmanns barna, en samkvæmt núgildandi lögum segir einungis að skýrslu þessa skuli prenta og birta opinberlega fyrir 1. september ár hvert.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með frumvarpið. Ég tel það vera fagnaðarefni fyrir þetta unga embætti, umboðsmann barna, og um leið mikinn virðingarvott við tæpan þriðjung þjóðarinnar, þ.e. börn yngri en 18 ára, verði frumvarp þetta að lögum.

Börn og ungmenni eru einstaklingar í mótun. Þetta eru þeir þjóðfélagsþegnar sem framtíð landsins byggist á. Það ber því að búa þeim öllum eins góð skilyrði til uppvaxtar og þroska og framast er unnt. Það ætti að vera aðalsmerki hverrar ríkisstjórnar og hverrar sveitarstjórnar að tryggja öllum börnum og ungmennum sem best og jöfnum lífsskilyrði. Þessu markmiði verður fyrst og fremst náð með því að mótuð verði skýr opinber heildarstefna í málefnum þeirra og aðgerðir samræmdar af hálfu stjórnvalda á hinum ýmsu sviðum er varða börn og ungmenni, hvort sem er á sviði barnaverndarmála, skólamála, heilbrigðismála, menningarmála og öryggismála, svo nokkrir mikilvægir málaflokkar séu nefndir. Með þessu móti tel ég að velferð umbjóðenda minna, fjölmennasta aldurshópsins í íslensku samfélagi, verði best borgið til lengri tíma litið.

Ég er ekki í vafa um að umræður um skýrslu umboðsmanns barna til forsætisráðherra myndi styrkja það mikla grundvallarstarf sem óunnið er hér á landi í málefnum barna og ungmenna. Börn og ungmenni eru einstaklingar með sín sérstöku réttindi og þeim ber að sýna virðingu, ekki aðeins í orði heldur og á borði. Þess vegna er mikilvægt, að mínum dómi, að umræður um málefni barna og ungmenna verði fastur liður í störfum Alþingis, en mér hefur fundist skorta á umræður um þessi mál á breiðum grundvelli.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal