Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Frumvarp til laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, janúar 1995
Tilvísun: UB 9501/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum 

Við yfirlestur frumvarpsins virðist mér ljóst að þar er fyrst og fremst verið að sameina í eina heildstæða löggjöf ákvæði núgildandi laga um bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 33/1983 og ákvæði VI. kafla eldri laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966, sbr. og ummæli í athugasemdum er fylgja nefndu frumvarpi. Þótt í frumvarpinu sé að finna nokkur nýmæli er það ákvæði, sem að mínu áliti er hvað mikilvægast, þ.e. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins, tekið svo til óbreytt upp úr eldri lögum þrátt fyrir að breytt viðhorf á þessu sviði endurspeglist í ákvæði 1. mgr. 22. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins frá 3. október 1989 (89/552/EBE), sem vísað er til og birt, í athugasemdum með frumvarpinu. Í 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er sérstaklega um skoðun kvikmynda, sem sýna á í dagskrá sjónvarpsstöðva, vantar að mínu mati í frysta lagi tilvísnum til 2. mgr. 3. gr. og í öðru lagi þyrfti að samræma ákvæði 2. mgr. 3. gr. fyrrgreindu ákvæði tilskipunar Evrópubandalagsins frá 3. október 1989.

Samkvæmt ákvæði 11. gr. frumvarpsins, er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja reglur um skoðun tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki. Hér er um heimildarákvæði að ræða. Ég tel hins vegar að full þörf sé á að mæla fyrir um skyldu menntamálaráðherra til að setja reglur um skoðun tölvuleikja og mæli eindregið með því að ákvæði þessu verði breytt á þann veg.

Að öðru leyti vil ég leggja áherslu á að mikilvægt er að framkvæmd þessa frumvarps, ef að lögum verður, takist sem best. Í því sambandi er sérstök athygli vakin á ákvæðum 8. gr., en þar segir að forstöðumaður kvikmyndahúss og sá, sem rekur myndbandaleigu, beri ábyrgð á að banni Kvikmyndaskoðunarnefndar sé framfylgt. Í ákvæðinu segir hins vegar ekkert um  það hvernig banninu skuli framfylgt.

Sú skylda þyrfti að hvíla á forsvarsmönnum kvikmyndahúsa og myndbandaleiga að gera starfsmönnum sínum sérstaka grein fyrir banninu, í hverju það sé fólgið og hvernig starfsmönnum beri að fylgja því eftir, t.d. með því að krefja börn um persónuskilríki. Til að ákvæði laganna nái tilgangi sínum verður að mínu áliti að kveða nánar á um framangreind atriði annaðhvort í frumvarpinu sjálfu eða í reglugerð, sem sett verður á grundvelli 12. gr. þess.

Í 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að barnaverndarnefndir og löggæslumenn skuli “hafa reglubundið eftirlit með því að úrskurðum Kvikmyndaskoðunarnefndar sé framfylgt og aðeins séu sýndar kvikmyndir eða þeim dreift sem merktar eru af Kvikmyndaskoðunarnefnd.”  Í ákvæðinu kemur ekki fram hvað felist í orðunum “reglubundið eftirlit”. Mín skoðun er sú að þetta atriði þurfi að skilgreina nákvæmlega svo framkvæmdin verði markviss. Atriði þessa efnis þyrfti að koma inn í reglugerð, sbr. fyrrgreinda 12. gr.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal