Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Verkefni

Stjórnlög unga fólksins

Samstarfsverkefni

Haustið 2010 leitaði Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF á Íslandi) til umboðsmanns barna og óskaði eftir samstarfi við að tryggja það að skoðanir barna og ungmenna fengju að heyrast við endurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Í kjölfarið var einnig leitað eftir samstarfi við Reykjavíkurborg. Verkefnið fékk heitið Stjórnlög unga fólksins. Endurskoðun á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er grundvallarmál sem getur haft víðtæk áhrif á skipulag samfélagsins í heild sinni. Því var talið mikilvægt að leita eftir skoðunum barna og ungmenna sem ættu eftir að lifa lengst með nýrri stjórnarskrá.

Myndbönd og vefur um stjórnarskrána

Í apríl 2011 var opnuð vefsíðan www.stjornlogungafolksins.is en þar er að finna skemmtileg og nýstárleg myndbönd um grunnþætti stjórnarskrárinnar sem unnin voru fyrir börn og ungmenni en þar voru flókin umfjöllunarefni einfölduð og sett fram í máli og myndum. Á vefsíðunni geta börn og ungmenni horft á myndböndin og sett fram eigin skoðanir í tengslum við stjórnarskrá lýðveldisins og framtíðarsýn sína. Þar geta skólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og ungmennaráð einnig nálgast verkefni um stjórnarskrána. Útbúið var kennsluefni og kennsluleiðbeiningar fyrir öll stig grunnskólans sem og leikskóla.

Þing í Iðnó

Laugardaginn 16. apríl 2011 var þing ungmennaráða haldið í Iðnó, Reykjavík undir yfirskriftinni Stjórnlög unga fólksins. Þangað var fulltrúum ungmennaráða sveitarfélaga boðið til að vinna álit út frá spurningum tengdum umfjöllunarefnum stjórnarskrárinnar. Þátttakendur á þinginu voru rúmlega fjörutíu og komu þeir frá ungmennaráðum sveitarfélaga víðs vegar af landinu. Á þinginu voru ræddar ýmsar spurningar varðandi hlutverk þjóðhöfðingja, mörk framkvæmdar- og löggjafarvalds, dómsvald, mannréttindaákvæði auk þess sem unglingarnir höfðu sjálfir frumkvæði að ýmsum umræðuefnum. Umræðurnar voru mjög líflegar og unglingarnir höfðu sterkar skoðanir á ýmsum grundvallaratriðum.

Niðurstöður

Að þinginu loknu var unnið úr niðurstöðum þess ásamt því efni sem var á vefsíðu verkefnisins og gefin út skýrsla. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að stjórnarskráin skipti verulegu máli og mannréttindakafli hennar sé sá mikilvægasti. Forsetinn er mikilvægt sameiningartákn þjóðarinnar en hann má aldrei vera sjálfkjörinn – sitjandi forseti verður því að hljóta ákveðið hlutfall greiddra atkvæða til að ná endurkjöri. Ráðherrar verða að hafa menntun og reynslu á því sviði sem ráðuneyti þeirra annast og auðlindir skulu vera í eigu þjóðarinnar. Ekki má gleymast að hlusta á raddir unga fólksins en ungmennin töluðu mikið um að þau vildu taka virkan þátt í lýðræðislegri mótun samfélagsins og koma að ákvarðanatöku, sérstaklega í málum sem snerta þau beint. Einnig kom ítrekað fram í máli ungmennanna að þau teldu sig heppin að búa hérlendis; hér væru skilyrði barna og ungmenna betri en í flestum öðrum löndum og mannréttindi þeirra væru virt. Lýðræðislegt stjórnarfar væri mikils virði og að því yrði að hlúa. Að lokum þótti flestum þingfulltrúum stjórnarskráin að grunninum til nokkuð vel úr garði gerð og margir töluðu fyrir endurskoðun, lagfæringum og smávægilegum umbótum fremur en róttækum breytingum. Hins vegar væri endurskoðun tímabær og þörf á að uppfæra stjórnarskrána og gera nútímalegri, sér í lagi hvað orðalag og framsetningu varðaði. Nánar er hægt að lesa um verkefnið á heimasíðu verkefnisins, www.stjornlogungafolksins.is.

Skýrsla kynnt stjórnlagaráði

Skýrslan var afhent Salvöru Nordal, formanni stjórnlagaráðs, við táknræna athöfn við styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli. Það var Hildur Hjörvar, formaður ungmennaráðs UNICEF á Íslandi, sem flutti erindi og viðstöddum var veittur innblástur með útblæstri þegar skilaboðum ungmenna var dreift yfir hópinn. Auk þess var Alþingi og fjölmiðlum afhent skýrslan.

Kynning í Mónakó

Stjórnlög unga fólksins vakti athygli út fyrir landsteinana en verkefnið var í forgrunni á ráðstefnu Evrópuráðsins í nóvember í Mónakó. Þar voru samankomnir ráðherrar Evrópuráðsins og ræddu þeir um hvernig byggja megi upp barnvænni Evrópu. Evrópuráðið bauð fulltrúum frá Stjórnlögum unga fólksins að kynna verkefnið og þótti það mikill heiður. Þess utan var framlag Íslands í pallborði strax á eftir setningu ráðstefnunnar. Það var prinsessa af Hannover sem bauð til ráðstefnunnar en hún á að hafa stefnumótandi áhrif á sviði barnaréttar. Kristinn Jóhannsson, fulltrúi ungmennaráðs Miðborgar og Hlíða, sat fyrir svörum fyrir hönd Íslands en hann var einn af þeim sem sóttu þingið í Iðnó. Honum til halds og traust voru fulltrúi frá UNICEF og fulltrúi frá Reykjavíkurborg.