Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Lýðræði í skólastarfi

Lýðræði í leikskólastarfi

Lýðræði í leikskólastarfi – verkefni og vinnulag

Kaflar:

  1. Lýðræði og menntastefnan
  2. Lýðræði í leikskólastarfi
  3. Könnun umboðsmanns barna 2011

1. Lýðræði og menntastefnan 

Sú menntastefna sem birtist í lögum um leikskóla nr. 90/2008, lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 er reist á sex grunnþáttum menntunar. Einn af þessum grunnþáttum sem ber að hafa að leiðarljósi í öllu skólastarfi er lýðræði og mannréttindi. Starfshættir leikskóla skulu samkvæmt 2. gr. leikskólalaga nr. 90/2008 m.a. mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð og virðingu fyrir manngildi. Meðal meginmarkmiða uppeldis og kennslu í leikskóla er að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi. Í aðalnámskrá leikskóla (2011) er fjallað almennt um lýðræði og mannréttindi í skólastarfi á bls. 13-14. Í aðalnámskránni er svo sérstaklega fjallað um lýðræði og jafnrétti í leikskólastarfi. Þar segir m.a. á bls. 25:

Leikskóla ber að vera vettvangur þar sem allir:
• Taka virkan þátt í samræðum um almenn málefni.
• Hlusta hver á annan og skiptast á skoðunum.
• Bera ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum.
• Vinna saman og aðstoða hver annan.
• Hafa val um verkefni og vinnubrögð.
• Hafa áhrif á leikskólastarfið.
• Taka þátt í heimspekilegum umræðum.
• Vinna að jöfnum tækifærum kynjanna til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni.

Barnahópurinn í leikskólanum er fjölbreyttur og hefur ólíkar forsendur til þátttöku og að láta til sín taka. Því er mikilvægt að veita börnum frá unga aldri tækifæri til að tjá sig á þann hátt sem hentar þeim best og taka mark á þeim.

2. Lýðræði í leikskólastarfi 

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að börn kynnist lýðræði og grunnforsendum þess frá unga aldri. Það liggur beinast við að viðmót og viðhorf þeirra sem sinna börnunum og ala þau upp skipti þar mestu máli. Í leikskólum gefst ómetanlegt tækifæri til að jafna það félagslega misrétti sem börn búa óneitanlega við. Áherslur í starfi leikskóla landsins eru mismunandi þannig að foreldrar hafa val um hvernig þroskaumhverfi þeir kjósa fyrir börnin sín. Í leikskólanum gefst börnum kostur á að tileinka sér ákveðna færni í samskiptum og lífsviðhorf sem byggir á virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum, umhverfinu og fjölbreytileika samfélagsins. Þannig læra börn að lifa í lýðræði frá unga aldri. Vandað starf í leikskólum sem byggir á virðingu fyrir mannhelgi barnanna og þörfum þeirra sem og traustum fræðilegum grunni getur því skipt sköpum í lífi barns.

Umboðsmaður barna hefur sérstakan áhuga á hugmyndafræði og skólastefnum sem byggja á hugmyndum um að börn séu getumikil og hafi hæfileika til að hafa sjálf jákvæð áhrif á eigið líf sem þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Hér að neðan má sjá tilraun umboðsmanns barna til að safna og koma á framfæri upplýsingum um vinnubrögð og verkefni sem styðja við hugmyndina um börn sem borgara í mótun og þátttakendur í lýðræði. Margir leikskólar aðhyllast vinnubrögð og taka þátt í verkefnum sem ætlað er að efla börn í lýðræðislegum vinnubrögðum, þjálfa þau í að tjá sig, eiga góð samskipti, kynna sér mál og taka afstöðu til þeirra. Mörg góð dæmi eru um starfshætti leikskóla þar sem börnin fá að hafa bein áhrif á starf leikskólans með einum eða öðrum hætti. Starfsfólk leikskóla sem hefur hug á að kynna sér nýjar hugmyndir eða vinnubrögð til að efla lýðræðisstarf í leikskólum getur skoðað samantektirnar hér að neðan og e.t.v. fundið verkefni sem hentar þeirra skólum.

3. Könnun umboðsmanns barna 2011

Til að geta safnað saman upplýsingum frá leikskólum um verkefni þar sem sérstaklega er unnið út frá hugmyndum um grunngildi lýðræðis og lýðræðislegs samfélags sendi umboðsmaður barna bréf til allra leikskóla vorið 2011. Bréfið má sjá hér. Svör bárust frá tælega 20 leikskólum. Hér að neðan er hægt að lesa útdrætti umboðsmanns barna úr svörum leikskólanna um verkefni og vinnulag sem ætlað er að undirbúa börn undir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Þá er hægt að smella á upplýsingar frá skólunum sjálfum til að nálgast nánari upplýsingar.

Leikskólinn Arnarsmári, Kópavogi
Vinátta er eitt af einkunnarorðum skólans sem nánar er skilgreint sem vinsemd, samkennd, samvinna og samhjálp og markmiðið er að laða fram þessa þætti. Áhersla á dyggðir eins og virðingu og tillitssemi, þ.e. að bera virðingu fyrir öðru fólki, dýrum og náttúrunni. Unnið er með lýðræðið út frá því að semja um valkosti og að taka sameiginlegar ákvarðanir auk þess sem lögð er áhersla á að hlusta á aðra og virða skoðanir þeirra, læra að takast á við vandamál og leysa ágreining. Hlustað er á skoðanir barnanna og skoðanakannanir fara reglulega fram þar sem kennarar spyrja börnin um viðhorf þeirra og áhuga á ýmsum þáttum leikskólastarfsins. Út frá svörum barnanna er innra starfs skólans m.a. skipulagt. Virtur er réttur barnanna til ákvarðanatöku. Börnunum er kennt hvað hugtakið lýðræði þýðir. Í leikskólanum er val og börnin ákveða hvað er í boði hverju sinni. Elstu börnin fara á Gulldeildina síðasta sumarið en þar fá þau aukið frelsi og val. Börnin velja á lýðræðislegan hátt t.d. hvaða efnivið og leikföng þau vilja hafa og hvort þau borða í matsal eða inni á Gulldeild. Þau koma með hugmyndir að vettvangsferðum og velja sjálf nesti fyrir þær.
Sjá hér samantekt frá Brynju Björk Kristjánsdóttur í Arnarsmára.
Sjá einnig http://arnarsmari.kopavogur.is/.

Leikskólinn Álfaheiði, Kópavogi
Í leikskólanum er unnið með Barnasáttmálann í leikskólastarfinu og með námsefnið Lífsmennt (Living Values) sem byggir á 12 grundvallarlífsgildum og hefur Barnasáttmálann að leiðarljósi. Meginmarkmið er að örva jákvæða sjálfsmynd nemenda, siðvit og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, auk þess að byggja upp heilbrigt samband við foreldra. Lífsmenntastundir og vinna með gildin stuðla að samvinnu og kærleika og getu til að taka lýðræðislegar ákvarðanir. Þátttaka barnanna í daglegum störfum, virðing fyrir hverju öðru og sameiginleg ákvarðanataka eru mikilvæg þættir, þannig læra börnin að vera virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Leikskólinn er með styrktarbarn sem heitir Lucas og býr hann í SOS barnaþorpi í Argentínu. Börnin læra mikið um réttindi, samkennd og ábyrgð og fræðast um hagi Lucasar. Greinar 8. 9. og 10 í Barnasáttmálanum fjalla um rétt barna til að halda tengslum við fjölskyldu sína, báða aðila, og að fjölskyldan fái að vera saman. Börnin velta m.a. fyrir sér spurningunum: Hvað er fjölskylda? Hvar búa fjölskyldur? Af hverju þurfa allir að eiga fjölskyldur? Hvernig er mín fjölskylda samsett? Hvernig er fjölskylda Lucasar samsett? Leikskólinn hefur gefið út þróunarverkefnið „Barnasáttmálinn í leikskólastarfi í Álfaheiði 2009-2010“ og nýtt þróunarverkefni frá HÍ „Barnasáttmálinn í leikskólastarfi“ sem hugmyndabanka.
Sjá hér samantekt frá Steinunni Erlu Sigurgeirsdóttur í Álfaheiði Sjá einnig http://alfaheidi.kopavogur.is.

Leikskólinn Gimli, Reykjanesbæ
Unnið eftir Hjallastefnunni. Leitað kerfisbundið eftir áliti barnanna á reglum sem þau vilja breyta. Rætt er við þau og kallað eftir áliti á réttlæti og réttmæti reglnanna. Eru með pontu. Mikil tengsl við grenndarsamfélagið, sbr. samstarfsverkefnið „Gaman saman“ þar sem markmiðið er að brúa bil á milli kynslóða og njóta samvista við eldri borgara og samstarfsverkefnið „Hlið við hlið í námi“ sem ætlað er að styrkja samstarf milli skólastiga. Skólinn hefur hlotið hvatningarverðlaun Reykjanesbæjar og foreldraverðlaun Heimilis og skóla. Jógakennslu er ætlað að auka lífsleikni barnanna. Fjölskylduframlag er verkefni sem ætlað er að elfa samstarf fjölskyldna nemendanna og leikskólans. Taka þátt í Grænfánaverkefninu og verkefninu „Skólar á grænni grein“ á að auka umhverfisvitund og skapa jákvætt viðhorf til umhverfismála.
Sjá hér samantekt frá Karen Valdimarsdóttur í Gimli. Sjá einnig http://www.hjalli.is/gimli/.

Leikskólinn Hlíðarendi, Hafnarfirði
Vinna í grundvallaratriðum samkvæmt Framfarastefnunni (John Dewey). Lífsleikni fléttast inn í allt starf – í samverustundum, hópastarfi, frjálsum leik og daglegum samskiptum. Unnið er með dyggðir og er ein dyggð tekin fyrir á önn þó að ennþá sé unnið með þær eldri. Dyggðirnar eru samofnar daglegu starfi. Í vali eiga börnin m.a. að venjast því að taka tillit hvert til annars, vinna saman og venjast því að standa við val sitt. Í samverustundum fá börnin tækifæri til að tjá sig og segja frá upplifunum sínum. Fjallað er um veður, klæðnað, samfélagið, vináttu, hefðir, kyn, kynþætti o.m.fl. Þar gefst tækifæri til að fylgjast með samskiptamynstri barnanna þannig að hægt sé að gæta þess að jafnvægi og jafnrétti ríki í samskiptum. Starfandi er umhverfisnefnd barna úr elsta árganginum sem kemur saman einu sinni í mánuði og ræðir um umhverfismál. Þar koma fram hugmyndir og ábendingar frá börnunum um hvað má betur fara o.fl. Í fyrsta hópavinnutíma á haustin kjósa börnin nafn á hópinn sinn og svo kjósa börn í útskriftarhópnum nafn á „bæinn sinn“ sem er lokaverkefni þeirra.
Sjá hér samantekt frá Oddfríði Steindórsdóttur í Hlíðarenda. Sjá einnig www.leikskolinn.is/hlidarendi/.

Leikskólinn Hulduheimar, Reykjavík
Í leikskólanum Hulduheimum er markmiðið að barnið læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, öðlist jákvæða sjálfsmynd og tilfinningu fyrir eigin getu. Einkunnarorð leikskólans eru Virðing - Gleði - Vinátta. Unnið er í anda Reggio Emilia þar sem lögð er áhersla á virðingu fyrir börnum, getu þeirra og þroska. Leikgleði barna og áhugi fyrir líðandi stund er í fyrirrúmi, jákvætt andrúmsloft og góð samskipti milli heimilis og skóla. Mikilvægt er að börnin fái verkefni til að vinna úr og festa í minni reynslu sína og því er mikil áhersla á sköpun. Jafnframt er unnið eftir hugmyndafræði og uppeldiskenningum John Dewey sem lagði áherslu á að virkja áhuga og athafnaþörf barnsins og að börn lærðu mest með því að framkvæma sjálf. Lykilhugtök í menntunarfræðum Dewy eru áhugi, virk reynsla, eigin hugsun og könnun, samfeldni í vinnubrögðum og þroski. Í leikskólanum er m.a. unnið verkefnið,, Barn vikunnar“ á öllum deildum leikskólans. Á hverri deild er eitt barn í einu í sviðsljóðinu, í eina viku. Börnin skiptast á, þannig að allir fái að njóta sín. Með verkefninu teljum við að unnið sé samkvæmt leikskólalögum og 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Auk þess markmiðum leikskólans og þeim uppeldiskenningum sem við styðjumst við.
Sjá hér samantekt frá Bryndísi Markúsdóttur í Hulduheimum. Sjá einnig http://www.hulduheimar.is.

Leikskólinn Hvammur, Hafnarfirði
Styðjast við Hjallastefnuna og hugmyndafræði Diane Grossen „Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga“ (Uppbyggingarstefnan). Einkunnarorð leikskólans eru: Jákvæð samskipti, jafnrétti og vinátta. Börnin velja sér viðfangsefni með því læra þau lýðræðisleg vinnubrögð. Í skólanum er unnið með heimspeki með börnum. Í öllu starfi er hlustað eftir skoðunum barnanna og þeim gefin tækifæri á að tjá hugmyndir sínar og hafa áhrif á eigið umhverfi. Kennarar eru meðvitaðir um mikilvægi þess að börnin geti og þori að tjá sig um upplifanir sínar, skoðanir og langanir. Börnin skiptast á skoðunum og velta fyrir sér hugtökum og áhersla er lögð á hlustun ekki síður en tjáningu. Þannig læra börnin að hlusta á og virða skoðanir hvers annars. Litið svo á að mistök séu til að læra af og í samskiptum er unnið út frá lausnaleit. Rætt er um gildi þar sem hvert barn tjáir sig um hvað sé mikilvægt í þeirra augum. Hópurinn kemur sér saman um umgengnisreglur. Börnum er gefið svigrúm til að leysa málin og stafsmenn grípa ekki of fljótt inn í. Leikskólinn Hvammur er forystuskóli í markvissri málörvun og tvítyngi í Hafnarfirði. Unnið að því að efla tjáningu, samskiptahæfni og samvinnuhæfni barnanna en einnig er lögð áhersla á gagnrýna hugsun. Börnin læra að setja orð á tilfinningar sínar og þarfir. Börnin þjálfast í að endursegja stutta sögu og æfa þannig tjáningu og framsögn.
Sjá hér samantekt frá Ástu Maríu Björnsdóttur í Hvammi. Sjá einnig www.leikskolinn.is/hvammur.

Leikskólinn Jörfi, Reykjavík
Stuðst er við kenningar John Dewey og unnið mikið með tilfinningatjáningu og lífsleikni, t.d. í tengslum við þróunarverkefnið „Tilfinningatjáning – Lífsleikni“. Börnin læra að þau tilheyra öllum leikskólanum og í framhaldi af því, hverfinu, borginni og samfélaginu öllu. Elstu börnin eru í miklu og góðu samstarfi við Breiðagerðisskóla og eldri borgara í félagsmiðstöðinni sem er í næsta húsi. Unnið er með námsefnið „Taming the Dragon“, „Stig af stigi“ og „Du og jeg og vi to!“. Börnin læra um grunntilfinningar og æskileg og óæskileg viðbrögð við þeim. Þau læra að koma orðum á tilfinningar, setja sig í spor annarra og leysa deilur af réttlæti og virðingu. Þau læra samvinnu, sjálfsstjórn og hjálpsemi og verða færari að sýna samkennd. Sjálfsmynd þeirra batnar og sjálfstraustið eykst. Elstu börnin kynnast líka námefninu „Lífsmennt“. Börnin skoða eigin ábyrgð og annarra, mikilvægi umburðarlyndis og samvinnu. Einnig er lögð áhersla á fjölbreytileikann í samfélaginu í vinnu með öllum börnum. Börnin hafa áhrif á starfið í skólanum með því að taka þátt í reglusetningu, velja sér verkefni og með því að segja sitt álit á starfinu og því hvað mætti betur fara þegar starfið er metið. Þau læra að taka ábyrgð á sér og gjörðum sínum og eldri börn aðstoða þau yngri í leik og starfi. Einnig vinna þau að mörgum sameiginlegum verkefnum þar sem lýðræði, réttsýni og virðing einkenna samstarfið til að farsæl niðurstaða náist.
Sjá hér samantekt frá Ástu Júlíu Hreinsdóttur í Jörfa. Sjá einnig http://www.jorfinn.is/.

Leikskólinn Kirkjuból, Garðabæ
Vinna eftir fjölgreindarkenningu Howards Gardner. Taka þátt í Grænfánaverkefninu. Unnið með lýðræðisleg vinnubrögð með fjölbreyttri aðkomu barnanna og auknu sjálfstæði þeirra. Áhersla á að starfsfólk vinni út frá sama grunni og kynni sér efni um lýðræði í leikskólum, s.s. meistararitgerð Sesselju Hauksdóttur „É sjáll“, bókina Sjónarmið barna og lýðræði í leikskólastarfi og þróunarverkefni í Hofi „Mér finnst það bara svo skemmtilegt“. Dæmi um þætti í starfinu: Samráð varðandi matseðil, veðurfræðingar dagsins, umsjónarmenn með borðhaldi, frjáls leikur og val, hópastarf þar sem unnið er með lífsleikni, eldvarnareftirlitsmenn, börnin ráða hvert skal haldið í gönguferðum í hrauninu, börnin velja lög á söngfundum á föstudögum og kynnir stendur uppi í púlti. Mat og viðhorf barnanna eru könnuð reglulega til þátta í starfinu og tillit tekið til skoðana. Dæmi um þetta er barn sem nefndi að það vildi hafa tónlist í útiveru og næst þegar það var gott veður var geislaspilari hafður úti.
Sjá hér samantekt frá Önnu Bjarnadóttur í Kirkjubóli. Sjá einnig http://www.kirkjubolid.is.

Náttúruleikskólinn Krakkakot, Álftanesi
Skólinn er Grænfánaskóli með mikla áherslu á umhverfismennt. Allir taka þátt og láta skoðanir sínar í ljós. Áhersla er lögð á að hlusta á börnin og fá þau sjálf til að meta eigin verðleika, huga að þörfum sínum án þess að ganga á þarfir annarra. Vinátta og samvinna, hvött til að rétta hjálparhönd. Allir taka þátt og nemendur og kennarar sitja saman fundi og báðir aðilar koma sínu á framfæri og leitast við að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Markviss málörvun þar sem börn fá tækifæri til að tjá sig og segja frá upplifunum. Hefð er fyrir því að kynna börnunum menningararfleifð okkar og menningu annarra land. Áhersla er lögð á að börnin temji sér umburðarlyndi og beri virðingu fyrir sér og öðrum, dýrum, náttúrunni og að börnin læri og temji sér almennar reglur samfélagsins. Rík áhersla lögð á sköpun og börnum gert kleift að tjá sig daglega ef þau sækjast eftir því. Öflug og góð foreldrasamvinna er í hávegum höfð og foreldrafélagið stendur þétt við bakið á skólastarfinu.
Sjá hér samantekt frá Hjördísi Ólafsdóttur í Krakkakoti. Sjá einnig http://www.alftanes.is/krakkakot.

Leikskólinn Lundarsel, Akureyri
Um árabil hefur aðferð barnaheimspekinnar verið notuð til að virkja þátttöku barnanna í Lundarseli Börnin eru þjálfuð í að hugsa á gagnrýnan, skapandi og umhyggjusaman hátt. Gengið er út frá þremur atriðum: Að setja fram spurningar, kanna þær og komast að niðurstöðu. Börnin læra að hlusta, íhuga og taka afstöðu. Þau læra einnig að vera þátttakendur og að skoðanir þeirra skipti máli. Unnið er með jafnrétti og að börnin átti sig á því að allir eru jafnir og að kyn á aldrei að hamla. Lausnaleit er aðferð tengd SMT skólafærni sem Lundarsel nýtir mikið til að fá börnin til að komast að samkomulagi um hvernig leysa megi vandamál þannig að allir geti við unað. Fyrst er vandamálið skilgreint og síðan sett markmið. Umræður eru notaðar til að leggja mat á lausnir og kostir og gallar ræddir. Börnin taka virkan þátt í daglegu starfi t.d. leggja á borð, velja lög, velja hvað lesið er, velja hvað þau drekka, hvað er í matinn, velja sér leikfélaga, velja sér námsgögn og viðfangsefni. Kosning fer þannig fram að fyrst er óskað eftir tillögum og síðan kjósa börnin leynilega með því að setja strik við mynd af tillögunum í heimatilbúnum kjörklefa.
Sjá hér samantekt frá Björgu Sigurvinsdóttur í Lundarseli. Sjá einnig http://www.lundarsel.akureyri.is.

Leikskólinn Marbakki, Kópavogi
Skólinn starfar í anda Reggio Emilia og einkunnarorð skólans eru: Sjálfstæð, glöð og skapandi börn. Börnin eru hvött til virkni og lögð er áhersla á að viðhalda forvitni og áhugahvöt þeirra. Þau eru hvött til að virða mannréttindi og lýðræði gagnvart hvort öðru, þá eru þau hvött til samábyrgðar, meðvitundar og virkni. Lögð er áhersla á að þau taki sjálf ákvarðanir að svo miklu leiti sem hægt er, að samið sé um valkosti og málamiðlunum beitt. Þau læra að taka tillit til skoðana annarra og virða þær. Lýðræði er frelsi sem háð er ákveðnum takmörkunum sem ríkjandi rammi og reglu skapa. Lagt er upp úr því að slíkur rammi og reglur séu settar með þátttöku allra, barna og fullorðinna.
Sjá hér samantekt frá Hólmfríði Sigmarsdóttur á Marbakka. Sjá einnig http://marbakki.kopavogur.is/.

Leikskólinn Sólborg, Ísafirði
Skólinn starfar í anda Reggio Emilia. Sérstaklega er unnið með vináttu og samkennd sem eru góður undirbúningur undir virka þátttöku í félagslífi og samstarfi síðar í lífinu. Sérstaklega er unnið að því að efla og styrkja frumkvæði hjá börnunum til að gera þau hæfari til að takast á við að lifa í lýðræðissamfélagi.
Sjá hér samantekt frá Helgu Björk Jóhannsdóttur í Sólborg. Sjá einnig http://www.leikskolinn.is/solborgin/.

Leikskólinn Stekkjarás, Hafnarfirði
Skólinn starfar í anda Reggio Emilia. Einkunnarorð skólans eru: „Hugmyndir barnsins, verkefni dagsins“.Stöðvavinna er einn af hornsteinum starfsins á Stekkjarási og tengist beint einkunnarorðum skólans. Farið er í stöðvavinnu allt að þrisvar í viku og námsstöðvarnar unnar út frá áhuga barnanna. Kennarar eru virkir í að fylgjast með leiknum og skrá hjá sér hvað vekur áhuga, gleði og er námshvetjandi. Út frá þessum skráningum eru stöðvarnar unnar. Starfsfólk deildarinnar heldur fund einu sinni í viku þar sem stöðvarnar eru ákvarðaðar. Með stöðvavinnu teljum við okkur ná megininntaki Reggio starfsaðferðarinnar þar sem notuð eru lýðræðisleg vinnubrögð, kennarinn er samverkamaður sem hlustar á rödd barnsins og einstaklingnum er gefið svigrúm til að uppgötva hæfni sína og getu.
Í skólanum er flæðandi dagsskipulag með fáum skiptingum í skipulaginu. Aldursblandaðar deildir gefa barni fleiri tækifæri til mismunandi þátttöku og hlutverkum innan hópsins, t.d. að læra að setja sig í spor annarra og upplifa sig sem leiðtoga. Unnið er að því að börnin verði frumkvöðlar en ekki fylgjendur. Sett hefur verið upp skapandi efnisveita. Í henni er endurnýtanlegur efniviður sem hægt er að nota á fleiri en einn hátt. Það kallar á hugmyndaflug og ýtir undir sköpun.
Sjá hér samantekt frá Öldu Agnesi í Stekkjarási Sjá einnig http://www.leikskolinn.is/stekkjaras/.

Leikskólinn Sæborg, Reykjavík
Leikskólinn starfar undir áhrifum frá Reggio Emilia. Markmiðið er að hvetja börnin til að nota öll skilningarvit sín, spyrja spurninga og leita sjálf svara við þeim. Rauði þráðurinn í starfsemi leikskólans er að vinna með hið sjálfsprottna hjá barninu og að hugmyndir þess séu ofan á. Börnin tjá uppgötvanir sínar í skapandi efnivið og tónlist. Vinna að sjálfstæði, virðingu og lýðræði. Mikil áhersla á sköpun, listir, tjáningu og túlkun.
Sjá hér samantekt frá Soffíu Þorsteinsdóttur í Sæborg. Sjá einnig http://www.saeborg.is/.

Leikskólinn Tjarnarsel, Reykjanesbæ
Í leikskólanum er umhverfismennt notuð sem leið til að efla og fræða börnin um lýðræði. Skólinn hefur þrívegis fengið alþjóðlega viðurkenningu Skóla á grænni grein.Vettvangsferðir hafa einkennt starfið í meira en áratug. Verkefnið “Útinám í vettvangsferðum: Lýðræðisleg þátttaka barna í sínu nærsamfélagi“ sem verið er að vinna með í dag nýtur styrks úr Sprotasjóði. Það miðar að því að aðstoða börnin við að láta gott af sér leiða og að þau finni að borin sé virðing fyrir framlagi þeirra. Börnin hafa áhrif á nærumhverfi sitt með ýmsum hætti og geta fylgst með minni og stærri verkefnum sem þau hafa komið á framfæri við bæjaryfirvöld og ýmsar stofnanir. Þessi verkefni hafa borið árangur. Til dæmis bentu þau á, sem ungir vegfarendur, á lausn og sendu bæjarstór bréf„... Þegar við erum í vettvangsferð um sjávarsíðuna í Reykjanesbæ sjáum við aldrei sjóinn og fuglana fyrir stóru steinunum. Við erum með skemmtilega tillögu sem erfitt er að hafna. Mætti ekki gera fallegan útsýnispall svo við getum notið útsýnisins betur...“. Einnig hafa börnin bent á ýmislegt fleira sem betur má fara út frá þeirra sjónarhorni. Önnur verkefni eru t.d. „Hver er ég“, menningartengd verkefni, „varðliðar bæjarins; (Edelstein). Grenndarfræðsla er falin börnum þannig að þau annast móttöku gesta í leikskólanum. Leikskólinn hefur hlotið margvíslega viðurkenningar eins og foreldraverðlaun Heimilis og skóla, hvatningarverðlaun umhverfis- og fræðslusviðs Reykjanesbæjar og notið styrkja úr Sprotasjóði og Þróunarsjóði námsgagna.
Sjá hér samantekt frá Ingu Maríu Ingvarsdóttur í Tjarnarseli. Sjá einnig http://www.tjarnarsel.is/.

Leikskólinn Vesturberg, Reykjanesbæ
Virðing fyrir frjálsum sjálfsprottnum leik barna er lögð til grundvallar í öllu námi leikskólans. Í Vesturbergi er lýðræði virt, börnin stjórna sínum tíma sjálf í leikskólanum og leitast er við að barnið upplifi sig frjálst og allt kapp við tímann er í lágmarki. Vesturberg er opinn leikskóli þar sem svokölluð svæðaskipting fer fram. Hugmyndin með svæðaskipulagi er að gefa börnum leikskólans raunverulegt val um með hverjum þau eru og hvernig þau verja tíma sínum í leikskólanum. Börnin fara frjálst um húsið þar sem hvert svæði gegnir ákveðnu hlutverki. Leitast er við að efla frumkvæði, sköpunarþörf og ímyndunarafl barnanna. Aldursblöndun er í Vesturbergi þar sem við teljum það mikilvægan þátt að eldri börn miðli menningu sinni til þeirra yngri og að ólíkir aldurshópar miðli til annarra aldurshópa siði, leiki, venjur og þekkingu á milli sín. Þó að börnin ráðstafi tíma sínum í leikskólanum þá er þeim gert að fara eftir þeim reglum er ríkja í leikskólanum.
Sjá hér samantekt frá Brynju Aðalbergsdóttur í Vesturbergi. Sjá einnig http://www.vesturberg.is/.