Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Verkefni

Lýðræði í skólastarfi

Ný viðhorf til barna

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kallar á ný viðhorf til barna og stöðu þeirra í samfélaginu. Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn sem myndað geta eigin skoðanir rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem þau varða og þeim fullorðnu ber að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Í 13. gr. sáttmálans segir að börn eigi rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Þar segir einnig að börn eigi rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Ástæða er til að undirstrika að hér er um rétt barna að ræða en ekki skyldu. Skylda hvílir aftur á móti á þeim fullorðnu að tryggja börnum raunveruleg tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku á þeirra eigin forsendum. Stjórnvöldum, þ.á.m. sveitarstjórnum og skólayfirvöldum, ber að hlusta á skoðanir barna og virða þær. Þessi réttur nær til allra mála er varða börn á einn eða annan hátt, s.s. málefna fjölskyldunnar, skólans, æskulýðs- og tómstundamála, forvarna og skipulags- og umhverfismála.

Til að bæta aðstæður barna og þjónustu við þau er þátttaka þeirra sjálfra mikilvæg. Rannsóknir á þroska og námi barna hafa leitt í ljós að börn hafa frá unga aldri getu og áhuga til að taka þátt í ákvarðanatöku um málefni sem þau varða. Börn eru sjálf sérfræðingarnir í eigin lífi og því er mikilvægt að nýta einstaka sýn barnanna og þá þekkingu sem þau búa yfir. Þátttaka barna eykur þannig skilning fullorðinna á lífi og reynslu barna. Þátttaka barna er þeim einnig mikilvæg svo að þau nái að þroskast sem best og verði ábyrgir borgarar. 

Nánar um leiðir barna til að hafa áhrif á aðstæður sínar og samfélagið, t.d. í fjölskyldunni, í skólanum, í sveitarfélaginu, hér á vef umboðsmanns barna.

Lýðræði í skólastarfi

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að börn kynnist lýðræði og grunnforsendum þess frá unga aldri. Umboðsmaður barna hefur sérstakan áhuga á hugmyndafræði og skólastefnum sem byggja á hugmyndum um að börn séu getumikil og hafi hæfileika til að hafa sjálf jákvæð áhrif á eigið líf sem þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi.

Hér má sjá tilraun umboðsmanns barna til að safna og koma á framfæri upplýsingum um vinnubrögð og verkefni sem styðja við hugmyndina um börn sem borgara í mótun og þátttakendur í lýðræði.