Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Verkefni

Börn með sérþarfir

Fjölbreyttur hópur

Árlega berast umboðsmanni erindi og ábendingar um börn sem eru með ýmiss konar sérþarfir en fá ekki fullnægjandi þjónustu, t.d. í skólakerfinu, barnaverndarkerfinu, heilbrigðiskerfinu eða innan félagsþjónustunnar. Um er að ræða fjölbreyttan hóp barna með mismunandi þarfir, s.s. börn með ýmiss konar fatlanir, veikindi eða raskanir, s.s. þroska-, hegðunar- og geðraskanir en einnig börn sem stefna eigin velferð í hættu, t.d. með vímuefnaneyslu og afbrotum.

Ástæður þess að sum þessara barna fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa eru margar og ber þar fyrst að nefna fjárvöntun, aukið álag og breytingar á skipulagi. Dæmi eru um að stofnanir og opinberir aðilar skilgreini sig frá vandanum þannig að börn njóti ekki þeirrar þjónustu sem þau þurfa á að halda. Það virðist skorta á heildstæða stefnumótun um það hvaða hlutverki mismunandi stofnanir og opinberir aðilar gegna þegar börn glíma við fjölþættan vanda. Umboðsmaður barna hefur miklar áhyggjur af velferð þessara barna.

Könnun umboðsmanns barna

Á árinu 2013 voru málefni barna með sérþarfir skoðuð sérstaklega hjá embættinu. Til að afla frekari upplýsinga um málið heimsótti umboðsmaður eða fékk á fund til sín ýmsa aðila sem vinna að málefnum barna með sérþarfir og búa yfir reynslu og mikilvægum upplýsingum á þessu sviði. Umræddum fundum var skipt í þrennt eftir áherslum: barnavernd, skólamál og heilsu og líðan. Umboðsmaður barna ræddi við ýmsa aðila, þ.m.t. frá Þroska- og hegðunarstöðinni, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, barna- og unglingageðdeild (BUGL), Barnaverndarstofu, Kennarasambandinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Heimili og skóla, Brúarskóla, Klettaskóla og Sjónarhóli. Markmið umboðsmanns barna með samvinnu við fyrrgreinda aðila var að leita eftir upplýsingum um það sem betur mætti fara og hvernig málefnum barna með sérþarfir væri best komið fyrir þannig að öll börn fengju þá þjónustu sem þau þurfa.

Á fundi umboðsmanns með starfsfólki barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) kom margt áhugavert fram varðandi börn með sérþarfir. Reglulega berast umboðsmanni ábendingar um að börn sem þurfa á þjónustu BUGL að halda þurfi að bíða lengi eftir að fá þjónustu, í allt að 2 ár. Var það staðfest á fundinum. Slíkur biðtími kemur í veg fyrir snemmtæka íhlutun sem fagfólk telur skipta miklu máli fyrir heilsu og líðan barna til lengri tíma. Ef börn fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa eins snemma og hægt er geta þau þróað með sér mun alvarlegri vanda sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir að einhverju leyti. Á fundinum kom einnig fram að verulega skorti á heildstæða stefnumótun og að mörg börn falla á milli stofnana og fá enga þjónustu eða þurfa að bíða mjög lengi.

Umboðsmaður fundaði einnig með Þroska- og hegðunarstöðinni og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Í kjölfar þeirra funda sendi umboðsmaður bréf á framangreinda aðila þar sem hann leitaðist eftir að fá staðfestingu á því sem um var rætt á fundum þeirra. Vegna þess hve langur biðtími er eftir þjónustu á barna- og unglingageðdeild Landspítalans er málum oft vísað til Þroska- og hegðunarstöðvarinnar. Hins vegar er ljóst að hana skortir fjármagn til þess að sinna öllum þeim málum sem hún myndi vilja sinna. Eins og staðan er núna sinnir hún einungis börnum með ADHD og skyldar raskanir fram að 12 ára aldri. Mörg börn eldri en 12 ára fá því ekki þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöðinni. Þeim er vísað til barna- og unglingageðdeildarinnar en þar er einungis hægt að taka við alvarlegustu tilfellunum. Því er til staðar þjónustugat sem erfitt er að fylla upp í vegna skorts á fjármagni á báðum stöðum. Þessi börn fá því ekki þjónustu við hæfi. Afleiðingar þess geta verið margskonar og eru þetta oft börn sem þurfa á aðstoð barnaverndar að halda. Með því að veita börnum þá þjónustu sem þau þurfa vegna ADHD og skyldra raskana væri hægt að koma í veg fyrir ýmis stærri vandamál og draga úr álagi á barnaverndarnefndir.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur þrengt starfsvið sitt og tekur nú ekki við ákveðnum hópi barna sem hún sinnti áður. Á það t.d. við um börn á einhverfurófi sem eru ekki greindarskert (háttstandandi börn með einhverfu). Þroska- og hegðunarstöðin telur sig hafa þekkingu til að sinna þessum börnum en hefur hvorki til þess mannafla né fjármagn. Eins og staðan er núna fá þessi börn því ekki þjónustu við hæfi.

Umboðsmaður hefur verulegar áhyggjur af stöðu þessara mála og hefur hann komið því á framfæri við ýmis tækifæri, s.s. á fundi með velferðarráðherra, félagsmálaráðherra, velferðarnefnd, Alþingi o.fl. Hann mun halda áfram að fylgja málefnum umræddra barna eftir og vekja athygli ráðamanna á stöðunni.