Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Verkefni

Börn alkóhólista

Skilaboð frá börnum alkóhólista

Árið 2014 gaf umboðsmaður barna út stutta skýrslu um reynslu barna sem búa við alkóhólisma. Efni skýrslunnar kemur frá litlum sérfræðihópi barna sem kom saman nokkrum sinnum og ræddi málin. Leitast er við að hafa skýrsluna einfalda og hnitmiðaða og láta þá punkta sem fram komu á fundum sérfræðihópsins tala sínu máli. Í lok skýrslunnar má finna aðalatriði þessarar vinnu sem eru tuttugu skilaboð sem hópurinn kemur með til fagfólks og fjölskyldu.

Mynd af skilabodum Fra Boernum Alkoholista

Tölum við sérfræðingana

Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í málum sem þau varða og til að hafa áhrif. Það er skylda fullorðinna að taka réttmætt tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Umboðsmaður barna leggur því ríka áherslu á að hlustað sé á það sem börn hafa að segja um nærsamfélagið sitt og reynslu sína.

Ein leið til að ná fram sjónarmiðum barna sem búa yfir sérþekkingu á ákveðnu sviði er að kalla saman hóp barna sem búa yfir sameiginlegri reynslu.

Á árinu 2013 kom umboðsmaður barna á fót sérfræðihópi barna sem eiga foreldra sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda. Um er að ræða tilraunaverkefni en markmiðið með þessari vinnu er að ná fram sjónarmiðum þessara barna og heyra frá þeim sjálfum hvernig það er að eiga foreldri sem á við áfengis- og vímuefnavandamál að stríða, hvers konar aðstoð hefur reynst þeim vel og hvaða þjónustu þarf helst að bæta.

Af hverju börn alkóhólista?

Ástæðan fyrir því að þessi hópur varð fyrir valinu sem fyrsti sérfræðihópur umboðsmanns barna er meðal annars sú að ofneysla áfengis- og vímuefna er vandamál sem snertir líf margra barna, bæði beint og óbeint. Þá ríkir oft mikil þöggun um neyslu innan veggja heimilisins og eru börn þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða oft falinn hópur sem upplifir mikla skömm. Börn alkóhólista eru þrátt fyrir allt venjuleg börn sem hafa upplifað mikla óvissu og álag í tengslum við mikla áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra. Það getur til lengdar haft margar tilfinningalegar og félagslegar afleiðingar fyrir þau og þannig markað líf þeirra til framtíðar.

Börn alkóhólista eru sérfræðingar í eigin aðstæðum og geta ein deilt upplifun sinni á sínum aðstæðum og þeim úrræðum sem reynd voru til að hjálpa þeim.

Samstarf við SÁÁ

SÁÁ, samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, hefur unnið gott starf fyrir börn og bjóða upp á sálfræðiþjónustu fyrir þau börn sem búa við slæmar aðstæður vegna foreldra sem glíma við áfengis- og
vímuefnavanda. Það lá því beinast við að umboðsmaður barna myndi leita til SÁÁ eftir samstarfi við þetta mikilvæga verkefni.

Starfsmenn umboðsmanns barna og sálfræðingar SÁÁ unnu saman að því að undirbúa sérfræðihópinn. Þá var sálfræðingur SÁÁ til staðar fyrir þau börn sem tóku þátt í sérfræðihópnum bæði á fundum hópsins og utan þeirra. Fundirnir sjálfir voru skipulagðir með hliðsjón af handbók umboðsmanns barna í Noregi
um sérfræðihópa barna, en hann býr yfir góðri reynslu af vinnu með sérfræðihópum barna á ýmsum sviðum.

Sálfræðingar SÁÁ sáu um að finna átta ungmenni á aldrinum 14 – 18 ára til að taka þátt í hópnum. Þátttakendur áttu það sameiginlegt að vera börn alkóhólista og hafa fengið stuðning og ráðgjöf á vegum SÁÁ. Kynjaskipting hópsins var jöfn. Sérfræðihópurinn starfaði frá október 2013 til apríl 2014 og hittist í sjö skipti á því tímabili.

Afrakstur verkefnisins

Skýrsla um verkefnið var gefin út í apríl 2014.  Í skýrslunni er trúnaður við þátttakendur virtur og koma nöfn þeirra hvergi fyrir. Umboðsmaður barna vonast til þess að sú vinna sem hefur átt sér stað með sérfræðihópnum geti varpað ljósi á það hvernig hægt er að bæta líf þeirra barna sem eiga foreldra sem glíma við áfengis og vímuefnavanda. Sú vinna sem hér liggur að baki er út frá reynslu fárra barna sem búa við alkóhólisma  og því erfitt að alhæfa út frá henni. Engu að síður gefa niðurstöðurnar góða vísbendingu um viðhorf og reynslu barna alkóhólista.