Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Um embættið

Hlutverk umboðsmanns barna

fugl í hlutverki umboðsmanns barna stendur uppá stól og segir "öll börn eiga rétt á"

Staða í stjórnkerfinu

Embætti umboðsmanns barna var stofnað 1. janúar 1995. Umboðsmaður barna er stjórnvald og heyrir stjórnskipulega undir forsætisráðuneytið sem hefur eftirlit með fjárreiðum þess. Umboðsmanni barna ber að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.

Að öðru leyti er umboðsmaður sjálfstæður og óháður embættismaður, óháður boð- eða skipunarvaldi stjórnvalda, málsvari barna gagnvart stjórnvöldum og einkaaðilum.

Hlutverk

Hlutverk umboðsmanns barna er skilgreint í lögum um embættið nr. 83/1994. Meginhlutverk umboðsmanns barna að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Með börnum er átt við einstaklinga undir 18 ára aldri.

Umboðsmanni barna er ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum barna almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum. Honum ber að vinna að því að tekið sé tillit til hagsmuna barna við lagasetningu, ákvarðanatöku og skipulagningu í þjóðfélaginu.

Eins og allir vita eru börn ekki þrýstihópur í stjórnmálalegu tilliti og sú staðreynd liggur fyrir að sjónarmið þeirra gleymast oft á tíðum í heimi hinna fullorðnu þótt það sé auðvitað ekki algilt. Verkefni umboðsmanns barna er því ekki síst að hlusta á raddir barna og koma þeirra sjónarmiðum á framfæri áður en ákvarðanir, sem snerta börn, eru teknar.

Afskipti umboðsmanns barna eru ekki einskorðuð við barnaréttar- eða barnaverndarmál, heldur getur hann komið fram með ábendingar eða tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins, svo sem í skólamálum, byggingar- og skipulagsmálum, heilbrigðismálum, tryggingamálum o.s.frv. Málin sem berast umboðsmanni barna varða því allt milli himins og jarðar enda umbjóðendahópurinn stór og margbreytilegur, þ.e. börn og unglingar frá fæðingu til 18 ára aldurs.

Umboðsmanni barna er ætlað að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni barna en með hliðsjón af hinu almenna hlutverki sínu, þ.e. að tryggja bættan hag barna almennt, metur umboðsmaður sjálfur hvort og þá hvaða mál hann tekur til umræðu hverju sinni.

Þá er umboðsmanni barna ætlað að koma með tillögur til úrbóta á réttarreglum og fyrirmælum stjórnvalda, er varða börn sérstaklega. Telja verður að í þessu felist einnig heimild til að koma með tillögur til úrbóta ef framkvæmd þessara reglna og fyrirmæla af hálfu stjórnvalda fer að hans mati í bága við hagsmuni, réttindi eða þarfir barna. Umboðsmanni barna er ætlað að stuðla að því að virtir séu þeir þjóðréttarsamningar sem snerta réttindi og velferð barna og Ísland er aðili að.

Hverjir geta leitað til umboðsmanns barna?

Öllum er heimilt að leita til embættisins með erindi sín og umboðsmaður barna á að leiðbeina þeim er til hans leita um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum. Frá upphafi hefur verið kappkostað við að veita börnum greiðan aðgang að embættinu.

Þrátt fyrir að öllum sé heimilt að leita til embættisins er umboðsmanni barna ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga, t.d. milli barna og foreldra, forsjáraðila og stofnana eða hafa afskipti af málefnum einstakra barna sem eru nú þegar til meðferðar hjá öðrum stjórnvöldum og stofnunum, t.d. barnaverndarmál, lögreglumál, umgengnis- eða forsjármál.

Stór hluti þeirra erinda sem berast embættinu varða þó einstaklingsmál. Þó að þau séu ekki tekin til meðferðar sem slík er leitast við að veita þeim sem leita til umboðsmanns barna með sín mál greinargóðar upplýsingar, leiðbeiningar og ráð.

Umboðsmaður barna gerir sér grein fyrir því að það eru yfirleitt tvær eða fleiri hliðar á öllum málum. Þar sem embættinu er ekki ætlað að taka til meðferðar ágreining milli einstaklinga eru svör í slíkum málum einungis ráðgefandi og miða aðeins við þær upplýsingar sem spyrjandi veitir. 

Hér er umfjöllun um helstu verkefni umboðsmanns barna.