Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Umgengni við ömmur og afa

Hvaða rétt hafa afar og ömmur varðandi umgengni við barnabörn?

Svar umboðsmanns barna

Í lögum er ekki beinlínis kveðið á um umgengnisrétt barns við afa og ömmur. Litið er á rétt þeirra, sem og annarra fjölskyldumeðlima, sem afleiddan af rétti foreldra til umgengni við börn sín.  Mikilvægt er að barn þekki fjölskyldu sína og nánustu ættingja og umgangist þau ef foreldri telur slíka umgengni ekki vera andstæða hagsmunum barns af einhverjum ástæðum.  Foreldrar, eða þeir sem fara með forsjá barns, geta ákveðið að ung börn þeirra umgangist ekki ákveðna aðila í fjölskyldunni en þegar börnin eldast og þroskast eiga þau að fá meira að segja um samskipti sín við ættingja sína. 

Í sérstökum tilvikum, t.d. þegar umgengnisforeldrið er látið, er af einhverjum ástæðum ófært um að sinna umgengni (t.d. vegna veikinda, dvalar erlendis eða fíkniefnaneyslu) eða nýtur verulega takmarkaðrar umgengni getur barn átt rétt á umgengni við afa og ömmur eða aðra nána vandamenn. 

Um þetta er fjallað í 46. gr. a barnalaga en þar segir:

Ef annað foreldra barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.

Ef ágreiningur er um umgengni er það sýslumaður í því sveitarfélagi sem barn á lögheimili sem tekur ákvörðun.

 Nánari upplýsingar um umgengni og önnur fjölskyldumál er að finna hér