Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Umgengni tálmuð

Hvað get ég gert ef barnsmóðir/barnsfaðir tálmar umgengni?

Svar umboðsmanns barna:

Í barnalögum nr. 76/2003 er kveðið á um umgengnisrétt en hann felur í sér rétt til samveru og annarra samskipta foreldris og barns. Í lögunum er gengið út frá því að börn eigi rétt að að umgangast báða foreldra reglulega nema það sé talið andstætt hagsmunum þess. Foreldrar eiga bæði rétt og er skylt að rækja umgengni, sbr. 46. gr. laganna.

Samkvæmt 46. gr. barnalaga ber því foreldri sem barn býr hjá að stuðla að því að grundvallarréttur barns til umgengni sé virtur. Engar reglur eru í barnalögum um hversu mikil umgengni á að vera heldur ræðst hún yfirleitt af samkomulagi milli foreldra. Geti foreldrar ekki náð samkomulagi um umgengnina er sá möguleiki fyrir hendi að leita til sýslumanns og óska eftir úrskurði hans um hana. Sýslumaður metur þá inntak umgengninnar út frá aðstæðum og hagsmunum barnsins. 

Ef umgengni samkvæmt úrskurði, staðfestum samningi, dómsátt eða dómi er hindruð getur umgengnisforeldri farið fram á að umgengnin verði knúin fram með álagningu dagsekta á það foreldri sem hindrar umgengnina. Þetta á eingöngu við ef það foreldri sem barn býr hjá hindrar umgengni með ólögmætum hætti. Ef umgengni er hindruð þrátt fyrir álagningu dagsekta getur héraðsdómari heimilað að umgengni verði komið á með beinni aðfarargerð. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að fara varlega við beitingu slíks úrræðis þar sem það getur valdið börnum miklu álagi.

Aftur á móti eru ekki lagaúrræði til að knýja fram umgengni samkvæmt munnlegum samningi foreldra eða samkvæmt óstaðfestum skriflegum samningi þeirra.

Við ákvörðun um umgengni er foreldrum skylt að taka réttmætt tillit til vilja barns. Þetta kemur meðal annars fram í 28. gr. barnalaga en þar segir: „Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast."

Ef barn hefur skýran vilja um að fara ekki í umgengni þarf það foreldri sem barn býr hjá að taka tillit til þess í samræmi við aldur og þroska barns. Þá er mikilvægt að ræða málin og komast að ástæðum þess að barnið vill ekki fara í umgengni. Ef til vill er þá hægt að breyta umgengnisfyrirkomulaginu til reynslu, t.d. þannig að barnið gist ekki hjá hinu foreldrinu. Fólki er alltaf í sjálfsvald sett að breyta umgengnissamningi. Sýslumaður getur aðstoðað við þess háttar breytingar og veitt foreldrum ráðgjöf.

Svona mál er auðvitað alltaf best að reyna að leysa í góðu, annaðhvort innan fjölskyldunnar eða með aðstoð fagaðila eins og fjölskylduráðgjafa eða sálfræðings. Í flestum tilvikum býður félagsþjónusta sveitarfélaga upp á fjölskylduráðgjöf fyrir þá sem búsettir eru í sveitarfélaginu.

Óleyst tilfinningamál hafa oft áhrif á afstöðu og hegðun foreldra hvað varðar umgengni. Þó að foreldrarnir séu ekki sáttir við hvort annað er mikilvægt að allir aðilar reyni alltaf að haga málum á þann veg sem er barninu fyrir bestu. Barn sem lendir á milli í ósætti foreldra gæti þurft á aðstoð fagaðila að halda til að vinna úr vanlíðan sem fylgir þessu mikla álagi og því er mikilvægt að vera vakandi yfir líðan barnsins og hegðun.

 Nánari upplýsingar um umgengni og önnur fjölskyldumál er að finna hér