Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Umfjöllun á netinu

Er leyfilegt fyrir foreldra að birta myndir eða aðrar upplýsingar um börn sín á netinu, til dæmis á facebook, bloggsíðum eða öðrum sambærilegum síðum?

Svar umboðsmanns barna:

Það er ekkert í lögum sem beinlínis bannar foreldrum að birta myndir eða aðrar upplýsingar um börn sín á netinu. Myndbirting eða umfjöllun má þó að sjálfsögðu ekki brjóta í bága við lög, til að mynda barnaverndarlög, almenn hegningarlög eða lög persónuvernd og verndun persónuupplýsinga

Mikilvægt er að hafa í huga að börn eiga sjálfstæðan rétt til friðhelgi einkalífs. Foreldrar mega því ekki birta myndir eða upplýsingar sem geta verið skaðlegar fyrir börn.  Foreldrar þurfa að setja sig í spor barna sinna og ekki birta myndir eða upplýsingar sem geta á einhvern hátt verið meiðandi eða niðrandi. Auk þess er ekki rétt að birta viðkvæmar upplýsingar sem líklegt er að barnið kæri sig ekki um að aðrir viti. 

Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og ber ávallt að taka ákvarðanir í samræmi við það sem er þeim fyrir bestu. Foreldrar þurfa að hafa í huga að allt sem er birt á netinu eru opinber gögn sem margir eða jafnvel allir hafa aðgang að, geta vistað hjá sér og dreift. Ef einhver verður var við að foreldrar séu að birta myndir eða umfjöllun sem mögulega fer í bága við lög er hægt að láta þann sem hýsir síðuna vita og þá er hugsanlega hægt að loka fyrir síðuna. Einnig er hægt að kæra slíkt til lögreglu. 

Börn njóta stigvaxandi réttinda til þess að taka sjálf ákvarðanir um eigið líf. Er því mikilvægt að foreldrar hafi samráð við börn sín og taki tillit til vilja þeirra þegar kemur að birtingu efnis á netinu, í samræmi við aldur og þroska. Börn njóta tjáningafrelsis og eftir því sem þau eldast og þroskast er rétt að þau fái aukið svigrúm til þess að birta sjálf myndir og upplýsingar um sig á netinu. Foreldrar gegna þó ákveðnu verndarhlutverki og þurfa að bregðast við ef um er að ræða myndir eða upplýsingar sem geta stefnt velferð barnanna í hættu.

Umboðsmaður barna telur sérstaklega mikilvægt að foreldrar og aðrir, svo sem fjölmiðlar, sem birta myndir eða upplýsingar um börn á netinu fari varlega og hugi að réttindum og hagsmunum barna.  Ýmsar upplýsingar um börn eiga alls ekki heima á netinu og ekki er víst að barnið verði sátt við birtingu slíkra upplýsinga þegar það sjálft verður fullorðið.

Umboðsmaður barna leggur ríka áherslu á að fjölmiðlar geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera gagnvart börnum. Að mati umboðsmanns ætti samþykki foreldra eitt og sér ekki að duga þegar birta á myndir eða upplýsingar um börn, heldur þurfa fjölmiðlar að meta sjálfstætt hvort umfjöllun sé í samræmi við réttindi og hagsmuni barna. Sjá nánar um fjölmiðla hér. 

Að lokum má benda á Persónuvernd, sem starfar samkvæmt lögum um persónuvernd og verndun persónuupplýsinga nr. 77/2000. Heimasíða Persónuverndar er www.personuvernd.is.

Uppfært 08.07.2019

Hér má nálgast viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum sem umboðsmaður barna, Barnaheill, Fjölmiðlanefnd, Heimili og skóli, Unicef og SAFT gáfu út í tilefni af netöryggisdegi 2018. 

Foreldrar og aðrir aðstandendur eru hvattir til að hafa þessi viðmið í huga næst þegar kemur að því að deila efni á facebook. 

Guidelines for parents and guardians in Iceland on public discussion about children on social media in english.