Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Skyldur stjúpforeldra

Hverjar eru skyldur stjúpforeldris gagnvart barni sem það býr með?

Svar umboðsmanns barna:

Í 29. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um forsjá stjúp- og sambúðarforeldra, en þar segir:

Ef foreldri, sem er ekki í hjúskap og fer eitt með forsjá barns síns, gengur í hjúskap með öðrum en hinu foreldrinu, þá geta foreldri og stjúpforeldri samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Hið sama á við ef foreldri hefur tekið upp sambúð með öðrum en hinu foreldrinu enda hafi skráð sambúð í þjóðskrá staðið samfleytt í eitt ár.

Samningur öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Leita skal umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns og um samning gilda að öðru leyti ákvæði 32. gr. eftir því sem við á.

Stjúpforeldri fer því ekki með forsjá barns nema samið sé um það sérstaklega og samningurinn staðfestur af sýslumanni. Ef aðilar ákveða að gera slíkan samning fær stjúpforeldri forsjá yfir barni en því fylgja ýmsar skyldur samkvæmt 28. gr. barnalaga. Stjúpforeldrinu ber þá meðal annars að tryggja hagsmuni og velferð barnsins og sjá til þess að grunnþarfir þess séu uppfylltar.

Sameiginleg forsjá foreldris og stjúpforeldrist helst eftir skilnað og sambúðarslit nema samið sé um annað, sbr. 5. mgr. 32. gr. barnalaga. Ef foreldrið fellur frá fer stjúpforeldrið eitt með forsjá, sbr. 3. mgr. 30. gr. laganna.

Ef forsjárforeldri og stjúpforeldri gera ekki samning um sameiginlega forsjá hefur stjúpforeldrið engar lagalegar skyldur gagnvart barninu. Stjúpforeldrinu ber þó að sjálfsögðu að virða réttindi barnsins og hafa hagsmuni þess að leiðarljósi, sbr. meðal annars 2. mgr. 1. gr. barnalaga.

 Nánari upplýsingar um fjölskyldumál er að finna hér