Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Skemmdarverk ósakhæfra barna

Hvernig á að bregðast við þegar ósakhæft barn eða unglingur á grunnskólaaldri brýtur rúðu eða fremur annað skemmdarverk á skólalóð?

Svar umboðsmanns barna:

Afbrot 

Það fyrsta sem þarf að huga að er hvort um viljaverk eða óhapp er að ræða. Þegar barn brýtur viljandi rúðu eða fremur annað skemmdarverk viljandi er um að ræða lögbrot. Samkvæmt 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er börnum ekki refsað fyrir brot sem þau fremja áður en þau verða 15 ára. Þetta þýðir að börn teljast sakhæf þegar þau verða 15 ára gömul, þ.e. við lok 15. afmælisdags.

Samkvæmt reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins skal í hverum grunnskóla setja skólareglur sem skylt er að fara eftir. Slíkar reglur þurfa að vera skýrar og afdráttarlausar og í þeim skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim. Það getur því verið mismunandi eftir atvikum máls hverju sinni og skólareglum hvernig brugðist er við skemmdarverkum barna.Viðbrögðin þurfa þó alltaf að vera markviss og vera til þess fallin að stuðla að jákvæðum skólabrag, bættri hegðun nemenda, aukinni ábyrgð og áhuga á menntun og miða að því að styrkja sjálfsmynd nemenda.

Þegar nemandi fremur skemmdarverk er fyrsta skrefið oft að skólastjóri eða annar starfsmaður skólans ræði við viðkomandi nemanda og meti svo framhald málsins í ljósi skólareglna. Einnig getur verið nauðsynlegt að ræða við aðra nemendur til að leiða í ljós atvik málsins. Ef brotið er ekki talið svo alvarlegt að nauðsynlegt er að kalla til lögreglu er hægt að bregðast við með öðrum hætti. Skólastjóri getur t.d. samið við viðkomandi nemanda um að hann bæti á einhvern hátt fyrir skemmdarverkið (s.s. með því að þrífa veggjakrot eða lagfæra minniháttar skemmdir). Yfirleitt er það gert í samráði við foreldra eða forsjáraðila barnsins. Þegar um alvarleg brot er að ræða getur verið nauðsynlegt að hafa samband við barnavernd og lögreglu. Hlutverk lögreglu í málum ósakhæfra barna er fyrst og fremst eins konar hjálpar- eða aðstoðarhlutverk við börnin og fjölskyldur þeirra.

Þegar lögregla er kölluð til að rannsaka grun um afbrot ósakhæfs barns er henni skylt að hafa samband við barnavernd. Rannsóknin beinist þá að því að afla nánari upplýsinga t.d. um umfang brotsins og hverjir tóku þátt í því. Ef talið er nauðsynlegt að yfirheyra barn skal barnaverndarnefnd senda fulltrúa sinn á staðinn. Einnig ber að hafa samband við foreldra og geta þeir einnig verið viðstaddir yfirheyrsluna nema hagsmunir barnsins eða rannsóknarhagsmunir standa í vegi fyrir því. Ekki er um sakamál að ræða heldur barnaverndarmál. Þegar búið er að rannsaka mál getur barnavernd tekið ákvörðun um það hvernig best er að bregðast við gagnvart barninu, í samráði við foreldra. Mikilvægt er að viðbrögð barnaverndar séu í samræmi við það sem er barni fyrir bestu og miði að því að hafa uppbyggileg áhrif og koma í veg fyrir frekari brotahegðun.

Þó að barn sé ósakhæft getur það borið bótaábyrgð. Samkvæmt íslenskum rétti er ekki miðað við ákveðinn aldur þegar metið er hvort börn getið orðið skaðabótaskyld, heldur er miðað við hvort ætla megi að barn á sama aldri og tjónvaldur hefði skilið að hegðun sú sem um er að ræða væri hættuleg eða líkleg til að valda tjóni. Yngsta barn sem dæmt hefur verið bótaskylt í Hæstarétti var 10 ára gamalt er það olli tjóni. 

Óhapp — bótaábyrgð 

Þegar barn veldur eignarspjöllum í skóla án þess að það sé viljandi gert, þarf að meta afleiðingar þess hverju sinni. Ef barnið sýndi ekki af sér gáleysi og um hreint óhappatilvik er að ræða ber það ekki ábyrgð. Ef það hefur hins vegar gengið ógætilega um og sýnt af sér gáleysi getur hann borið bótaábyrgð samkvæmt hinni almennu skaðabótareglu. Bótahæfi ræðst af því hvort ætla megi að barn á sama aldri og tjónvaldur hefði skilið að um hættulega hegðun væri að ræða sem væri líkleg til að valda tjóni.

Foreldrar eru ekki ábyrgir fyrir skaðaverkum sem börn þeirra vinna. Foreldrar sem og aðrir sem bera ábyrgð á börnum, s.s. skólar, geta þó borið sjálfstæða skaðabótaábyrgð ef um saknæman eftirlitsskort er að ræða. Hins vegar ná fjölskyldu­tryggingar oft til skaðaverka barna. Ef barn vátryggingartaka veldur tjóni sem ekki er bótaskylt að lögum bætir vátryggingarfélög tjónið ef barnið er yngra en 10 ára. Ef tjónið er hins vegar bótaskylt að lögum, þ.e. barnið hefur sýnt af sér gáleysi, bætir tryggingin það tjón sem börn á heimili vátryggingartaka vinna. Tryggingarnar bæta ekki tjón sem unnið er af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi

Hér er fjallað um börn og afbrot.