Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Húðflúr og götun

Geta börn látið gera göt í eyrun eða fengið sér húðflúr án leyfis frá foreldrum?

Svar umboðsmanns barna:

Nei, til þess að láta gera göt í eyrun eða fá húðflúr þurfa börn undir 18 ára að framvísa skriflegu leyfi forsjáraðila.

Þessar reglur er nú að finna í 47. gr. reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002:

Rekstraraðila ber að afla vottorðs frá landlækni. Óheimilt er að flúra, húðgata eða beita nálarstungu á einstaklingi undir 18 ára aldri nema með skriflegu leyfi forráðamanns. Framvísa skal skilríkjum ef vafi leikur á um aldur. Engan má flúra, húðgata eða beita nálarstungu sem er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Viðskiptavinir og forráðamenn í viðeigandi tilvikum skulu fá munnlegar og skriflegar upplýsingar um húðflúr. Upplýsingarnar skulu m.a. fela í sér fræðslu um varanlega breytingu á húð, mögulega sýkingarhættu, eftirmeðferð á flúraða eða gataða húðsvæðinu og hugsanleg ofnæmisviðbrögð.

Eftirlit með því að reglugerðinni sé framfylgt liggur hjá heilbrigðisnefnd í hverju sveitarfélagi. Nánari upplýsingar um þetta ættir þú því að geta fengið hjá hjá Umhverfisstofnun eða hjá landlæknisembættinu.

Foreldrum er almennt ekki heimilt að flúra eða húðgata börn sín án þeirra samþykkis. Í framkvæmd virðist þó hafa tíðkast að foreldrar láti húðgata eyru barna þegar þau eru ung. Húðgötun í eyru telst ekki eins varanleg aðgerð og t.d. húðflúrun þar sem það tekur tiltölulega skamman tíma að gróa fyrir. Umboðsmaður barna telur þó að foreldrar ættu að forðast slíkt inngrip á börnum sem hafa ekki náð aldri eða þroska til þess að skilja og samþykkja slíkar aðgerðir. Eðlilegast er að slíkar aðgerðir séu ekki framkvæmdar nema að frumkvæði barna og er það þá foreldranna að meta hvort þeir leyfi slíkt. Við matið ber að taka tillit til vilja barns í samræmi við aldur og þroska. 

Húðgötun annars staðar á líkamanum og húðflúrun felur í sér töluvert meira og jafnvel varanlegra inngrip í líkama barna, auk þess sem slíkum aðgerðum fylgir oft meiri sársauki. Þar af leiðandi er foreldrum ekki heimilt að samþykkja slíkt inngrip á ungum börnum. Jafnframt þurfa foreldrar að fara varlega í að samþykkja slíkar aðgerðir á eldri börnum og tryggja að þau hafi náð nægilegum aldri og þroska til þess að skilja þýðingu þeirra.