Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Forsjá, umgengni og ofbeldi

Er æskilegt að foreldrar fari með sameiginlega forsjá eða að barn búi viku og viku hjá foreldrum sínum þegar annað foreldrið hefur beitt hitt ofbeldi?

Svar umboðsmanns barna:

Mikilvægt er að gera greinamun á forsjá annars vegar og umgengni hins vegar. Forsjá snýst fyrst og fremst réttarstöðu foreldra og lagalega ábyrgð og skyldur gagnvart barni. Umgengni snýr hins vegar að samvistum og öðrum samskiptum barns og foreldris sem barn á ekki lögheimili hjá. Það að forsjá sé sameiginleg þýðir því ekki að barn dvelji jafnmikið hjá báðum foreldrum.

Áhrif ofbeldis á forsjá

Þegar foreldrar fara með sameiginlega forsjá bera þeir sameiginlega ábyrgð á barni sínu og þurfa að taka saman allar meiriháttar ákvarðanir sem varða barnið. Er því ljóst að gott samkomulag er forsenda þess að sameiginleg forsjá geti gengið vel. Hentar slík tilhögun því mjög illa þegar ofbeldi hefur átt sér stað á milli foreldra. Sameiginleg forsjá við slíkar aðstæður getur veitt því foreldri sem beitt hefur ofbeldi tækifæri til áframhaldandi valdbeitingar og kúgunar og um leið skapað mikla togstreitu í lífi barns.

Í samræmi við þetta er sérstaklega tekið fram í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 að við mat á því hvernig forsjá barns skuli háttað skuli meðal annars líta til þess hvort hætta sé á að barnið, foreldrið eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi. Ennfremur kemur fram í 4. mgr. sama ákvæðis að við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg skuli dómari taka sérstakt tillit til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Í athugasemdum með umræddu ákvæði segir meðal annars: „Leggja verður áherslu á að ofbeldi og vanvirðandi háttsemi á heimili barns hefur almennt skaðlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu barns og þroska þess í víðum skilningi. Þetta á ekki einungis við um ofbeldi sem hefur beinst eða beinist að barninu sjálfu heldur einnig allt ofbeldi milli einstaklinga í nánum lífssamböndum á heimili barnsins, svo sem ofbeldi milli foreldra eða ofbeldi gagnvart systkini barnsins.“

Áhrif ofbeldis á umgengni

Barn getur aðeins átt lögheimili á einum stað. Hins vegar getur umgengni verið rúm og barn til dæmis dvalið viku og viku hjá foreldrum sínum. Þetta kallast jöfn umgengni.

Við ákvörðun um umgengni þarf ávallt að skoða aðstæður heildstætt. Þarf því meðal annars að líta til þess hvort umgengnisforeldri hafi beitt hitt foreldrið, barnið eða annan á heimili barns ofbeldi. Í 1. mgr. 47. gr. barnalaga er sérstaklega tekið fram við við ákvörðun um umgengni skuli sýslumaður meta hættuna á að barnið, foreldri eða aðrir á heimilis barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og líta sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Í athugasemdum með þessu ákvæði segir meðal annars:

Með sama hætti og á við um forsjá verður að leggja áherslu á að ofbeldi og vanvirðandi háttsemi á heimili barns hefur almennt skaðlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu barns og þroska þess í víðum skilningi. Mikilvægt er að sýslumaður meti áhrif þessa á hvort umgengni skuli vera til staðar, inntak umgengni og skilyrði fyrir því hvernig umgengnisrétti verði beitt þegar það á við.

Er því ljóst að taka ber tillit til ofbeldis þegar umgengni er ákveðin.

Með sama hætti og gildir um sameiginlega forsjá er gott samkomulag á milli foreldra grundvallarforsenda þess að jöfn umgengni geti gengið vel. Í athugasemdum með 3. mgr. 47. gr. barnalaga er tekið fram að jöfn umgengni geri miklar kröfur til samvinnu foreldra og komi þannig aldrei til álíta þegar samstarfsgrundvöllur er ekki fyrir hendi. Ennfremur kemur fram að líta beri til persónulegra eiginleika foreldra og „getu þeirra til að tryggja að ágreiningur eða samskipti þeirra komi ekki í veg fyrir, hindri eða dragi úr möguleikum barns til að alast upp við bestu þroskavænlegu skilyrðin“. 

Ofbeldi milli foreldra stefnir velferð barns í mikla hættu og getur falið í sér andlegt ofbeldi gegn barninu. Er því ljóst að jöfn umgengni hentar mjög illa þegar ofbeldi hefur átt sér stað innan veggja heimilisins. 

 Nánari upplýsingar um fjölskyldumál er að finna hér