Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Barn vill ekki umgengni

Hvað geri ég ef barnið mitt vill ekki fara í umgengni til hins foreldrisins?

Svar umboðsmanns barna:

Samkvæmt barnalögum nr. 76/2003 eiga börn rétt á að þekkja báða foreldra sína og umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki talið andstætt hagsmunum þess. Á sama hátt á foreldri bæði rétt og skyldu foreldris til að rækja þessa umgengni við barn sitt, sbr. 46. gr. laganna. Það foreldri sem barn býr hjá á sömuleiðis og stuðla að því að þessi grundvallarréttur barns sé virtur.

Þó að barnalögin kveði á um að umgengni barns við foreldri skuli vera reglubundin er ekki beinlínis tekið fram hversu mikil hún eigi að vera. Inntak umgengninnar ræðst því fyrst og fremst af samkomulagi milli foreldra. Ef foreldrar geta ekki komið sér saman um umgengnina er hægt að leita til sýslumanns og óska eftir úrskurði. Sýslumaður tekur þá ákvörðun um hvernig umgengni skuli háttað úr frá því sem er barninu fyrir bestu hverju sinni. 

Við ákvörðun um umgengni þurfa foreldrar ávallt að hlusta á barnið og taka tillit til vilja þess. Þetta kemur meðal annars fram í 28. gr. barnalaga, en þar segir: „Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.”

Þegar barn lýsir yfir skýrum vilja til þess að fara ekki í umgengni getur verið erfitt fyrir það foreldri sem barnið býr hjá að neyða það í umgengni. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að ræða málin og komast að því af hverju barnið vill ekki fara í umgengni.

Þegar ástæða þess að barn vill ekki umgangast foreldri má rekja til samskiptavanda er oft hægt að leysa hann, til dæmis með aðstoð fagfólks eða einhverra nákominna. Þegar barn vill alls ekki fara í umgengni getur verið ástæða til þess að koma til móts við barnið og breyta umgengnisfyrirkomulaginu tímabundið, til dæmis þannig að barnið hitti foreldrið í styttri tíma í einu og/eða gisti ekki hjá því. Með tímanum er þá vonandi hægt að byggja upp betra samband milli foreldris og barns og koma á rýmri umgengni. 

Þegar barn vill ekki fara í umgengni vegna þess að því líður illa á heimili umgengnisforeldris, svo sem vegna ofbeldis og/eða óreglu, er mikilvægt að taka tillit til þess. Við slíkar aðstæður getur verið nauðsynlegt að takmarka umgengni með einhverjum hætti. Þegar ástæða er til þess að óttast um velferð barns á heimili umgengnisforeldris getur sýslumaður til dæmis ákveðið að umgengni skuli fara fram undir eftirliti sérfræðings í málefnum barna.

Við ákveðnar aðstæður getur umgengni talist andstæð högum og þörfum barnsins en í slíkum tilvikum getur sýslumaður ákveðið að umgengni skuli ekki fara fram, sbr. 47. gr. barnalaga. Á það við í þeim tilvikum sem öryggi og velferð barns er stefnt í hættu á heimili umgengnisforeldris og barn vill enga umgengni.

Eftir því sem börn eldast og þroskast er eðlilegt að þau ráði meiru um það hvernig umgengni er háttað. Þegar um unglinga er að ræða er mjög erfitt að þvinga þá í umgengni ef þeir vilja alls ekki fara. Er því oftast betra að reyna koma til móts við þá og komast að samkomulagi.

Ef umgengni samkvæmt úrskurði, staðfestum samningi, dómsátt eða dómi er hindruð getur sá sem rétt á til umgengni við barn farið fram á að umgengnin verði knúin fram með álagningu dagsekta á það foreldri sem hindrar umgengnina. Þetta á eingöngu við ef það foreldri sem barn býr hjá hindrar umgengni án þess að hafa fullnægjandi ástæðu fyrir því.  Ef umgengni er hindruð þrátt fyrir álagningu dagsekta getur héraðsdómari heimilað að umgengni verði komið á með beinni aðfarargerð. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að fara varlega við beitingu slíks úrræðis þar sem það getur valdið börnum miklu álagi.