Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Spurt er ...

Barn fær ekki að tjá sig við sýslumann

Má foreldri koma í veg fyrir að barn fái að tjá sig við meðferð máls hjá sýslumanni?

Svar umboðsmanns barna:

Nei, ekki að mati umboðsmanns barna.

Börn eiga sjálfstæð mannréttinda, óháð réttindum foreldra sinna eða annarra fullorðinna. Þetta endurspeglast meðal annars í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn, sem myndað geta eigin skoðanir, rétt á að láta þær í ljós í öllum málum sem varða þau og skylt er að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Í 2. mgr. ákvæðisins er sérstaklega áréttað að veita skuli barni tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar. Sambærilega reglu er að finna í 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Í 3. mgr. 33. gr. a barnalaga er sérstaklega áréttað að barn, sem hefur náð nægilegum þroska, skuli eiga kost á að tjá sig við sáttameðferð, nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit máls. Sömuleiðis kemur fram í 47. gr. um úrskurð sýslumanns um umgengni að við ákvörðun sína taki sýslumaður m.a. mið af vilja barns í samræmi við aldur og þroska (sjá 43. gr. sbr. 71. gr. barnalaga).

Þar sem það teljast grundvallarréttindi barns að fá að tjá sig þarf að túlka undantekningar á þeim rétti þröngt og alltaf barninu í hag. Má í því sambandi benda á að Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans, hefur ítrekað bent á að mat fullorðinna á því hvað telst barni fyrir bestu eigi ekki að réttlæta brot á rétti þess til að tjá sig. Börn eiga því almennt rétt á því að sig við sáttameðferð hjá sýslumanni. Þar sem um sjálfstæðan rétt barna er að ræða eiga foreldrar ekki að geta komið í veg fyrir að börn fái tækifæri til að tjá sig.

Foreldrar sem fara með forsjá barna sinna ráða persónulegum högum þeirra og fara með lögformlegt fyrirsvar fyrir þau, sbr. 28. gr. barnalaga. Í því getur þó ekki falist réttur foreldra til þess að takmarka grundvallarréttindi barna sinna. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 5. gr. Barnasáttmálans ber að virða rétt foreldra til að veita börnum sínum tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu þegar það beitir réttindum sínum. Barnaréttarnefndin hefur bent á að með orðinu tilhlýðilega sé m.a. skírskotað til þess að þessi réttindi foreldra geta ekki falið í sér rétt til þess að koma í veg fyrir að barn njóti annarra réttinda samkvæmt sáttmálanum.

Í ljósi þess sem að framan greinir telur umboðsmaður barna það fela í sér brot á réttindum barna að gefa þeim ekki tækifæri til þess að tjá sig nema með samþykki foreldris.