Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Öryggi

 Kaflar:

 1. Réttur til verndar
 2. Helstu lög um öryggi og slysavarnir barna
 3. Slysavarnir barna
 4. Umferðin
 5. Heimilið
 6. Leikföng
 7. Skóli og leiksvæði
 8. Gæsla barna í frítíma og skemmtigarðar
 9. Íþróttir, frístundir og sund
 10. Ábyrgð hinna fullorðnu
 11. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla. 
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til verndar

Öll börn eiga rétt á að búa við gott og öruggt umhverfi og í flestum menningarsamfélögum telst það bæði sjálfsagt og eðlilegt að standa vörð um líf og heilsu barna. Á síðustu áratugum hefur í auknum mæli verið lögð áhersla á rétt barna til að búa við örvandi en um leið örugg uppvaxtarskilyrði. Aukin tæknivæðing og hraði samfélaga nútímans rennir einnig stoðum undir kröfuna um að þessi réttindi séu virt. Til að geta verndað börnin og fyrirbyggt slys er mikilvægt að þekkja líkamlega getu barna og þroskastig. 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar m.a. um rétt barna til öryggis, heilsuverndar og hæfra umsjónaraðila. Í 3. grein Barnasáttmálans segir:

1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. 

2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu. 

3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón.

Í 24. gr. Barnasáttmálans er lögð sú skylda á herðar aðildarríkjum sáttmálans að sjá svo um að allir, einkum þó börn og foreldrar, séu vel upplýstir um almennt öryggi barna ekki síst slysavarnir þeirra. Einnig að börn og foreldrar eigi aðgang að fræðslu, m.a. í slysavörnum. Í þessu ákvæði er lögð áhersla á ábyrgð sem hinar ýmsu stofnanir samfélagsins bera á sviði slysavarna.

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

2. Helstu lög um öryggi og slysavarnir barna

Ákvæði um öryggi og slysavarnir barna er að finna í ýmsum lögum, reglugerðum og reglum. Sem dæmi má nefna umferðarlög nr. 50/1987, reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010, reglugerð um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar nr. 408/1994 og reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002. Í köflunum að neðan er skýrt frá þeim helstu.

3. Slysavarnir barna

Eitt af mörgum mikilvægum verkefnum sveitarstjórna er að sjá um slysavarnir í sveitarfélögum. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 segir í 30. gr:

Félagsmálanefnd er skylt, í samvinnu við foreldra, forráðamenn og aðra þá aðila sem hafa með höndum uppeldi, fræðslu og heilsugæslu barna og ungmenna, að gæta velferðar og hagsmuna þeirra í hvívetna.
Félagsmálanefnd skal sjá til þess að börn fái notið hollra og þroskavænlegra uppvaxtarskilyrða, t.d. leikskóla og tómstundaiðju. Einnig skal félagsmálanefnd gæta þess að aðbúnaði barna sé ekki áfátt og ekki séu þær aðstæður í umhverfi barna sem þeim stafar hætta af.

Sveitarfélög sinna slysavörnum í formi fræðslu til barna, foreldra og annarra er starfa með börnum, en ekki síður með úrbótum, þar sem þeirra er talin þörf, til að tryggja betra og öruggara umhverfi fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Að sjálfsögðu ætti það að vera metnaður hverrar sveitarstjórnar að búa sem best að öryggi yngstu íbúa sinna. Mikilvægt er í þessu sambandi að minna á ákvæði 12. gr. Barnasáttmálans en samkvæmt því eiga börn rétt á að segja skoðun sína í öllum málum er þau varða og ber hinum fullorðnu að taka réttmætt tillit til skoðana barna með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Sveitarfélögin ættu að nýta sér reynsluheim barna í þessum efnum sem öðrum og gera þau þannig að virkari þátttakendum innan sveitarfélagsins

Góðar upplýsingar um slysavarnir barna er að finna á vef Miðstöðvar slysavarna barna.

4. Umferðin

Börn eiga erfitt með að meta hraða, fjarlægð og hvaðan hljóð berast. Þau eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og átta sig á hvað ökumenn bíla hyggjast gera. Eins eiga þau erfitt með að sjá aðstæður í heild eða samhengi á milli smáatriða. Ung börn eiga sérstaklega erfitt með að einbeita sér að mörgum atriðum í einu. Þar sem börn sjá ekki vel í kringum sig er mikilvægt að þau sjáist vel. Þegar börn eru á ferðinni í umferðinni er því nauðsynlegt að þau beri endurskinsmerki. Víða (t.d. í apótekum) fást endurskinsborðar og -merki. Brýnt er að nota þau bæði á skólatöskur og fatnað barna þannig að þau verði vel sýnileg ökumönnum í myrkrinu. 

Í umferðarlögum nr. 50/1987 er fjallað um atriði sem mikilvægt er fyrir foreldra og forsjáraðila barna og unglinga að kynna sér, t.d. hjólreiðar, notkun öryggisbelta og hlífðarhjálma. Lögreglustjóri og veghaldari skulu í samráði við viðkomandi skólayfirvöld gera ráðstafanir til að vernda börn gegn hættu í umferðinni á leið þeirra til og frá skóla.

Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla eiga leikskólar að leggja áherslu á reglur sem gilda um umferð og að gæta varúðar á götum. Börn þurfa að kynnast umferðinni og læra hegðunar- og umferðarreglur jafnskjótt og þau hafa þroska til. Einnig er umferðarfræðsla nefnd í Aðalnámskrá grunnskóla sem ein af skyldum grunnskólans.

Umferðarstofa (sem er hluti af Samgöngustofu) fer með stjórnsýslu á sviði umferðarmála, t.d. varðandi umferðarreglur, umferðarfræðslu, slysaskráningar og fleira. Hér á vef Samgöngustofu er að finna fræðsluefni um börn í umferðinni. Samgöngustofa ásamt sveitarfélögunum í landinu bjóða börnum og foreldrum þeirra umferðarfræðsluefnið Ungir vegfarendur endurgjaldslaust.

5. Heimilið

Algengustu slys á börnum á aldrinum 0-4 ára eiga sér stað í heimahúsum. Flest slys á börnum verða á milli kl. 16 og 21, þegar börnin eru farin að þreytast og missa athygli. Mikilvægt er að skoða heimilið með augum barnsins, líkamlegrar getu þess og þroskastigs; hvað getur verið spennandi að opna, toga í, pota í, stinga upp í sig, klifra upp í o.s.frv. Ekki ætti að líta af ungu barni nema tryggt sé að aðstæður og umhverfið sé þannig að það geti ekki farið sér að voða. Oft þarf ekki nema einfaldar breytingar eða tilfæringar til að gera heimilið barnvænna. Með því að þekkja þroska barnsins geta foreldrar verið skrefi á undan barninu í forvörnum. Í bæklingi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar "Er öryggi barna tryggt á þínum heimili?" er að finna gagnlegar upplýsingar um þann búnað sem hægt er að fá til að minnka líkurnar á slysum á börnum í heimahúsum. Einnig er fjallað um ýmsa útbúnað á heimasíðu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem gera heimilið öruggara fyrir smábörn. 

6. Leikföng

Leikfang er neytendavara, sem ætluð er börnum að 14 ára aldri til leikja. Óheimilt er að setja leikföng á markað hér á landi ef hætta er á að þau geti stofnað öryggi eða heilsu notenda og annarra í voða þegar þau eru notuð eins og til er ætlast eða fyrirsjáanlegt er miðað við eðlilega hegðun barna. Reglugerð um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar nr. 408/1994 fjallar um þær reglur sem gilda hér á landi um öryggi leikfanga. Í viðauka við reglugerðina eru taldar upp vörur sem ekki falla undir leikfangahugtakið auk þess sem fjallað er um grunnkröfur um öryggi leikfanga, sérstakar hættur, evrópska staðla um leikföng o.fl. Eingöngu er heimilt að setja á markað leikföng sem merkt eru með CE-merki. Á leikfanginu eða í notkunarleiðbeiningum sem því fylgir skal varað við hættu sem fylgir tilteknum leikföngum, ásamt upplýsingum um hvernig skuli brugðist við þeirri hættu. Eftirlit með reglugerðinni um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar hefur NeytendastofaHér á vefsvæði Neytendastofu eru upplýsingar um leikföng. Ítarlegri umfjöllun um leikföng er að finna hér á vef umboðsmanns barna. 

7. Skóli og leiksvæði

Skólinn er vinnustaður barna og því er mikilvægt að nemendur njóti þar öryggis og þeirrar verndar sem velferð þeirra krefst. Reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða er sett á grundvelli 20. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Þar segir í 4. gr.:

Við hönnun nýs skólahúsnæðis skal taka mið af áætluðum hámarksfjölda nemenda í skólanum. Við skipulag einstakra vinnurýma skal m.a. taka mið af fjölbreyttum kennsluháttum og sveigjanleika í kennslufyrirkomulagi svo sem hvað varðar samkennslu árganga. Sérstaklega skal þess gætt að nægilegt rými sé fyrir hvern nemanda svo hann geti sinnt námi sínu. Þannig skal vinnurými að jafnaði vera a.m.k. 60 fermetrar fyrir 22-28 nemendur, 52 fermetrar fyrir 18-21 nemenda, 44 fermetrar fyrir 13-17 nemendur, 36 fermetrar fyrir 12 nemendur og aldrei minni en 16 fermetrar.

Í reglugerð nr. 655/2009 um starfsemi leikskóla er fjallað í 3. gr. um skólahúsnæði, skólalóð og búnað en samkvæmt fyrrnefndu ákvæði skal húsnæði, skólalóð og allur búnaður uppfylla kröfur laga um leikskóla nr. 90/2008, reglugerðar nr. 655/2009, aðalnámskrá leikskóla og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Einnig ber að uppfylla kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja.

Reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002 gildir fyrir öll leiksvæði innan dyra sem utan, skipulögð fyrir leik barna svo sem í eða við leikskóla, skóla eða gæsluvelli. Hún gildir jafnframt fyrir leiksvæði sem börn eiga greiðan aðgang að eða ætluð eru börnum, svo sem í eða við fjölbýlishús, frístundahús, tjaldsvæði, verslunarhúsnæði og samkomustaði. Reglugerðinni er ætlað að stuðla að öryggi barna og annarra með því að tryggja að leikvallatæki og leiksvæði séu hönnuð, frá þeim gengið og þeim haldið við á öruggan og viðurkenndan hátt. 

Neytendastofa hefur eftirlit með því að leikvallatæki á markaði uppfylli kröfur um öryggi, en heilbrigðisnefndir sveitafélaga hafa eftirlit með leiksvæðum og leikvallatækjum í notkun. Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja hættuleg leikvallatæki ef ástæða þykir til. Það er því hægt að hafa samband við heilbrigðiseftirlitið á viðkomandi svæði til að óska eftir því að leikvellir verði skoðaðir og ábendingum um endurbætur sinnt. Heilbrigðisfulltrúi skal hafa aðgang að öllu skráðu og skjalfestu efni er eftirlitið varðar. Heilbrigðiseftirlitið á að afhenda þeim sem um það biðja, svo sem foreldrum eða foreldrafélögum, þau gögn (svo sem eftirlitsskýrslur) um viðkomandi leiksvæði sem eru opinber á grundvelli upplýsingalaga.

Gerð er krafa um að rekstraraðili setji upp innra eftirlit á leiksvæðum og er það þrískipt: 1) Reglubundin yfirlitsskoðun sem fram fer daglega eða vikulega, fer eftir álagi og felst í að greina strax hættu vegna skemmdarverka, veðrunar og slits. 2) Rekstrarskoðun á eins til þriggja mánaða fresti felst í verklegri yfirferð og viðhaldi. 3) Árleg aðalskoðun fagaðila þar sem gerð er heildarúttekt á öryggi leikvallatækja, yfirborðsefna og leiksvæðinu öllu. Sjá Handbók um rekstrarskoðun á leiksvæðum barna. Heilbrigðisnefnd er þó heimilt að láta fjarlægja hættuleg leikvallatæki ef ástæða þykir til. Engar reglur eru til um tómstundastarfsemi almennt. 

Á vef Menntamálastofnunar má finna Öryggishandbók leikskóla og Öryggishandbók grunnskóla. Ítarlegri umfjöllun um leiksvæði er að finna hér á vef umboðsmanns barna

8. Gæsla barna í frítíma og skemmtigarðar

Foreldrar bera ábyrgð á því að þeir aðilar sem þeir fá til að gæta barna sinna séu hæfir til þess og geti sinnt hverju barni í samræmi við það sem er því fyrir bestu.

Víða er boðið upp á barnagæslu gegn gjaldi og ómönnuð barnahorn í verslunarmiðstöðvum, verslunum og líkamsræktarstöðvum. Einnig eru til staðir sem bjóða upp á skemmtun fyrir börn með foreldrum eða á meðan þeir bíða fyrir utan leiksvæðið. Þá má nefna ýmis konar námskeið og frístundastarf sem útfært er á marga vegu.

Ekki eru til opinberar reglur um þessa starfsemi og það er mismunandi hvort og þá hvaða hluta starfseminnar eftirlitsaðilar eins og heilbrigðiseftirlit, vinnueftirlit og eldvarnaeftirlit taka út. Í því sambandi má benda á að Vinnueftirlitið sér um úttektir á vinnuvélum, þ.m.t. tívolítækjum. Vinnuvéladeild Vinnueftirlitsins skoðar tækin og búnaðinn m.t.t. öryggis og uppsetningar og tekur við ábendingum um öryggismál tækjanna. Það er hins vegar á ábyrgð heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags að hafa eftirlit með öryggi þeirra sem fara í tækin, t.d. með því að hafa áhrif á aldurs- og hæðarmörk þeirra sem í tækin mega fara. Um leiksvæðin sjálf og hefðbundin leikvallatæki sem eru ekki vélknúin gildir reglugerð um um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002, sjá nánar hér á vef umboðsmanns barna.

Þeir þjónustuaðilar sem bjóða upp á gæslu eða skemmtun fyrir börn verða því að setja sínar eigin reglur um starfsemina sjálfa, s.s. kröfur til starfsfólks, fjölda barna á svæðinu, fjölda barna á hvern starfsmann, öryggisskipulag, neyðaráætlun og tryggingamál.

Ljóst er að víða er vel staðið að verki en umboðsmaður barna hvetur foreldra til að spyrja þjónustuaðilana um mönnun, aðbúnað og öryggismál áður en þeir ákveða að skilja barnið sitt eftir í umsjá þeirra eða án gæslu á svæðinu. Þetta á við hvort sem um er að ræða leikrými með leikvallatækjum og mannaðri gæslu, herbergi eða sal með leikföngum, opið barnahorn, leiksvæði innan- eða utanhúss sem greitt er inná eða lista-, íþrótta- eða annars konar frítímanámskeið fyrir börn.

9. Íþróttir og sund

Mörg börn verja töluverðum tíma í leiki, íþróttir og skipulagt frístundastarf sem fer fram í íþróttamannvirkjum eins og íþróttahúsum og sundlaugum. Hér er að finna reglur og gátlista sem gagnlegt er fyrir foreldra og aðra sem hafa börn í sinni umsjá að kynna sér:

Reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010 gildir um búnað, hreinlæti, aðbúnað, öryggi og mengunarvarnir á sund - og baðstöðum. Í henni er fjallað um aldurstakmörk gesta í 14. gr. og um kröfur til starfsfólks í 15. gr:

14. gr. 
Börnum sem ekki hafa náð 10 ára aldri, sbr. 4. ml., er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri. Þeim sem er 15 ára og eldri er óheimilt að hafa fleiri en tvö börn með sér yngri en 10 ára, sbr. 4. ml., nema um sé að ræða foreldri eða þann sem fer með forsjá barnanna lögum samkvæmt. Ber viðkomandi að gæta í hvívetna að öryggi þeirra barna sem eru með honum á meðan þau eru í eða við laug. Ákvæði 1. og 2. ml. hvað varðar 10 ára aldursmörk gilda til 1. júní það ár sem barnið verður 10 ára.

Um sundkennslu fer samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Dýpi þess svæðis laugar sem notað er við sundkennslu yngri barna en 8 ára og ósyndra skal vera á bilinu 0,70-1,05 m.

Þar sem hópar barna undir 10 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers kennara eða ábyrgðarmanns hóps sem, ásamt laugarverði, er ábyrgur fyrir hópnum. Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Til að auðvelda kennara eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt. Fyllsta öryggis skal gætt þegar komið er með hóp af börnum og unglingum í sund. Kennarar og ábyrgðarmenn hópa skulu kynna sér reglur sund- og baðstaða og aðstoða starfsfólk sund- og baðstaða við gæslu.

Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ávallt gæta þess í samvinnu við starfsfólk sund- og baðstaða að nemendur fari ekki að laug á undan þeim. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu aldrei víkja frá laug fyrr en allir nemendur/iðkendur yngri en 15 ára eru farnir inn í búnings- eða baðklefa. Þau varúðaratriði sem hvíla á laugarverði hvíla einnig á kennara, þjálfara og leiðbeinanda varðandi nemendur og iðkendur.

Laugar í einkaeigu með takmarkaðan aðgang eru undanþegnar ákvæði um stöðuga laugargæslu sbr. 1. mgr. 11. gr. Eiganda eða eftir atvikum rekstraraðila slíkra lauga ber að setja skýrar reglur um notkun laugar þegar laugargæsla er ekki til staðar. Ekki skulu færri en tveir syndir einstaklingar fara saman í laugina. Ekki má veita börnum og ósyndum einstaklingum aðgang að laug án fylgdar ábyrgðarmanns. Við þessar aðstæður skal vera til staðar búnaður til skyndihjálpar, sími eða neyðarrofi tengdur Neyðarlínu.

Einstaklingum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er ekki heimill aðgangur að sund- og baðstöðum.

Gestir sund- og baðstaða skulu í hvívetna hlýða fyrirmælum starfsmanna sundstaða varðandi öryggi og hollustuhætti. Laugarverði er heimilt að vísa gesti úr laug eða meina honum aðgang að laug telji laugarvörður það nauðsynlegt til að tryggja öryggi eða þegar gestur fer ekki að lögum og reglum.

15. gr. 
Eiganda sund- og baðstaðar er skylt að sjá til þess að starfsfólk fái reglulega starfsþjálfun eigi sjaldnar en árlega, þar með talin þjálfun í sérhæfðri skyndihjálp sem sérstaklega er ætluð sund- og baðstöðum og fræðslu um hreinlæti og hollustuhætti. Þeir starfsmenn sem vinna við meðferð tækja, þar með talin mælitæki, búnaðar og efna vegna hreinsunar vatnsins skulu árlega fá viðeigandi þjálfun í meðferð þeirra.

Starfsmenn sem sinna laugargæslu, sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu hafa náð 18 ára aldri. Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu árlega standast hæfnispróf samkvæmt III. viðauka. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu standast hæfnispróf samkvæmt III. viðauka á tveggja ára fresti.

Leiðbeinendur með gild réttindi til að leiðbeina í skyndihjálp og björgun skulu annast hæfnispróf skv. III. viðauka. Slík réttindi öðlast þeir sem hafa lokið leiðbeinendanámskeiði í skyndihjálp og tveggja daga leiðbeinendanámskeiði í björgun. Til að viðhalda réttindum sínum skal leiðbeinandi sækja endurmenntun fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp og björgun á þriggja ára fresti. Heimilt er að leiðbeinendur leiti til íþróttakennara til að framkvæma prófatriði 1-3 í hæfnisprófi skv. III. viðauka.

Að loknu námskeiði í sérhæfðri skyndihjálp fyrir sund- og baðstaði og hæfnisprófum skv. III. viðauka, skulu leiðbeinendur senda lista yfir þátttakendur sem hafa lokið sérhæfðu skyndihjálparnámskeiði fyrir sund- og baðstaði og þá er hafa staðist hæfnispróf samkvæmt III. viðauka, til viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis og til viðkomandi rekstraraðila sundstaðar þar sem starfsmaðurinn starfar.

Listi frá leiðbeinendum um þá sem staðist hafa hæfnispróf skv. III. viðauka og starfa á sund- og baðstað, skulu vera starfsmönnum heilbrigðiseftirlits aðgengileg við eftirlit.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fara með eftirlit með öryggi leiktækja annarra en vatnsrennibrauta.

10. Ábyrgð hinna fullorðnu

Börn þarfnast verndar, leiðsagnar og öruggs umhverfis. Foreldrar bera ábyrgð á öryggi barna sinna. Foreldrum ber skylda til að vernda heilsu barna sinna og búa þeim gott og öruggt umhverfi. Það á við á öllum sviðum; í umferðinni, á heimilinu, úti á leiksvæðum, á ferðalögum og í tómstundum. Það fer síðan eftir ýmsu hversu færir þeir eru til að rækja þessa skyldu sína. Þar geta skipt máli þættir eins og þekking foreldra, lífsviðhorf þeirra og áhugi, en einnig ýmsir þættir af bæði félagslegum og efnahagslegum toga. Vissulega geta slysin komið fyrir hvar og hvenær sem er en þau er hægt að forðast með aðgát og réttu vinnulagi. 

Samfélagið allt ber einnig ábyrgð á því að börn búi við góð uppvaxtarskilyrði, þar á meðal öryggi í leikumhverfi sínu. Ýmis lög og reglur eru til sem er ætlað að tryggja að börn njóti réttinda til þess að alast upp í örvandi og öruggu umhverfi. Lög og reglur veita þó ekki nægilegan stuðning nema þeim sé vel og markvisst fylgt eftir í framkvæmd. Framkvæmdin skiptir hér sköpum og ekki síst sá þáttur er lýtur að eftirlitinu sem oft og tíðum er veikasti hlekkurinn hvað þetta varðar. Ábyrgðin er því mikil og liggur hún auk foreldra hjá starfsfólki skóla og leikskóla, lögreglu, veghaldara og sveitarfélaginu.

11. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Landlæknir
Embætti landlæknis sinnir fræðslu og ráðgjöf um slysavarnir barna. Nánar á www.landlaeknir.is.

Miðstöð slysavarna barna
Miðstöð slysavarna barna veitir almenningi ráðgjöf um slysavarnir, heldur námskeið um öryggi og slysavarnir barna o.fl. Nánar á www.msb.is

Samgöngustofa
Á vef Samgöngustofu er að finna fræðsluefni um börn í umferðinni.

Neytendastofa
Neytendastofa veitir upplýsingar og fræðslu um leikföng. Nánar á www.neytendastofa.is.

Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun veitir upplýsingar og leiðbeiningar um eftirlit með leiksvæðum. Nánar á www.ust.is

Umhverfisráðuneytið
Reglugerðir um öryggi og hollustuhætti eru gefnar út af umhverfisráðuneytinu. Nánar á www.umhverfisraduneyti.is. 

Slysavarnafélagið Landsbjörg
Á vef er að finna fræðsluefni um öryggi barna. Nánar á www.landsbjorg.is.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.