Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Netnotkun

Kaflar:

  1. Réttur til upplýsinga – réttur til verndar
  2. Helstu lög og reglur um netnotkun
  3. Upplýsingar um börn á netinu
  4. Niðrandi ummæli, myndbirtingar og hótanir
  5. Klám og kynferðisofbeldi á netinu 
  6. Merkingar á tölvuleikjum
  7. Tölvufíkn
  8. Ábyrgð hinna fullorðnu
  9. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til upplýsinga – réttur til verndar

Þær öru breytingar sem hafa átt sér stað í fjölmiðlun og netsamskiptum á síðustu árum hafa í för með sér nýjar áskoranir fyrir börn, foreldra og samfélagið allt. Netið er uppspretta fróðleiks og skemmtunar sé það notað á jákvæðan hátt. Með netinu fá börn þó greiðari aðgang en áður að alls kyns óæskilegu efni, sem þau hafa e.t.v. ekki alltaf forsendur til að vega, meta og hafna.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til uppbyggjandi upplýsinga sem og rétt barna til verndar gegn skaðlegu efni. Í 17. grein Barnasáttmálans segir:

Aðildarríki viðurkenna mikilvægi fjölmiðla, og skulu þau sjá um að barn eigi aðgang að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna frá eigin landi og erlendis frá, einkum því sem ætlað er að stuðla að félagslegri, andlegri og siðferðislegri velferð þess, og líkamlegu og geðrænu heilbrigði. Aðildarríki skulu í þessu skyni:
a) Hvetja fjölmiðla til að dreifa upplýsingum og efni sem börn njóta góðs af félagslega og menningarlega og samræmist anda 29. gr.
b) Stuðla að alþjóðlegri samvinnu við undirbúning, skipti og dreifingu á slíkum upplýsingum og efni af fjölbreyttum uppruna, menningarlegum, þjóðlegum og alþjóðlegum.
...
e) Stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningareglur um vernd barns fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þess ... Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992. Staðfesting hans felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði samningsins. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.”

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: "Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst”.

2. Helstu lög og reglur um netnotkun

Ekki eru til nein sérstök lög eða opinberar reglur um netnotkun eða samskipti fólks á netinu sérstaklega. Lög og almennar kurteisisvenjur eiga að sjálfsögðu að gilda um samskipti fólks á netinu eins og annars staðar þar sem hugað er að virðingu fólks og friðhelgi einkalífs.

Í einstaka tilvikum þarf að líta til almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en í XXV. kafla laganna eru ákvæði um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þá er í 210. gr. fjallað um birtingu, innflutning og dreifingu á klámi. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995 og lögum um persónuvernd og verndun persónuupplýsinga nr. 77/2000 er kveðið á um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

3. Upplýsingar um börn á netinu

Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995, segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Friðhelgi einkalífs er skilgreint á eftirfarandi hátt í athugasemd með 9. gr. frumvarps til stjórnskipunarlaga nr. 97/1995:

Í friðhelgi einkalífsins felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu.

Fleiri atriði falla tvímælalaust undir vernd einkalífs svo sem réttur manna til trúnaðarsamskipta við aðra. Börn jafnt sem fullorðnir eiga að njóta þeirrar verndar sem ákvæðið kveður á um í einka- og fjölskyldulífi, enda segir í ákvæðinu að „allir“ skuli njóta réttar til friðhelgi.

Foreldrar sem ákveða að halda úti heimasíðu um börn sín eða birta myndir af þeim eða aðrar upplýsingar um þau á netinu verða að fara varlega og huga að því að barnið hefur sinn sjálfstæða rétt til friðhelgi einkalífs. Það verða því að vera einhver takmörk fyrir því hvaða upplýsingar um barnið eru settar á netið. Ýmsar upplýsingar um börn eiga alls ekki heima á netinu fyrir allra augum og ekki er víst að barnið verði sátt við birtingu slíkra upplýsinga þegar það sjálft verður eldra.

Varðandi netnotkun barna verður að hafa í huga að börn og unglingar hafa í mörgum tilfellum óraunsæjar hugmyndir um það hverjir lesa skrif þeirra á netinu. Þó að sumum börnum finnist ólíklegt að fullorðið fólk lesi nokkurn tíma skrif þeirra á netinu er mikilvægt að ræða þessi mál þannig að öllum sé ljóst að það sem fer á netið eru opinber gögn sem allir hafa aðgang að; foreldrar, ömmur, afar, kennarar o.fl. Einnig þarf að brýna fyrir börnum að efni og myndir sem sett er á netið getur hver sem er skoðað og tekið afrit af og geymt eða sent áfram, jafnvel löngu seinna. Foreldrar og aðrir sem koma að uppeldi barna verða því að kenna börnum ábyrga meðferð upplýsinga.

Persónuvernd sem starfar samkvæmt lögum um persónuvernd og verndun persónuupplýsinga nr. 77/2000 getur gefið leiðbeining og álit um ýmislegt sem tengist birtingu og miðlun persónuupplýsinga. Heimasíða Persónuverndar er www.personuvernd.is

4. Niðrandi ummæli, myndbirtingar og hótanir

Svo virðist sem börn og ungmenni (og reyndar fullorðið fólk líka) átti sig ekki alltaf á þeim skaða og sárindum sem þau geta valdið með því að birta eitthvað ósæmilegt um annan einstakling eða hafa í hótunum við annað fólk á netinu eða með SMS-skilaboðum. Því er mikilvægt að allir átti sig á því að við njótum tjáningarfrelsis en við erum jafnframt ábyrg orða okkar. Réttur okkar til að tjá okkur takmarkast af rétti annarra til að njóta friðhelgi einkalífs.

Oft tengjast niðrandi ummæli og hótanir á netinu eða með SMS-skilaboðum eineltismálum. Ef bæði gerandi og þolandi eru grunnskólanemendur er skólinn góður vettvangur til að fá ráðleggingar varðandi næstu skref.  Þá er hægt að taka á málinu í samræmi við eineltisáætlun viðkomandi skóla. Ef alvarlegt einelti og hótanir eiga sér stað á netinu skal hafa samband við lögreglu. Félagsmiðstöðvarnar og félagsþjónustan geta líka komið að þessum málum.

Í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er fjallað um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þar segir m.a.:

233. gr. Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

233. gr. b. Sá sem móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem er nákominn geranda, og verknaður verður talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, skal sæta fangelsi allt að tveimur árum.

234. gr Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

235. gr. Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

236. gr. Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.
>Sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

237. gr. Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.

Lögreglan á þeim stað þar sem barnið býr eða sýslumannsembættið eftir því sem við á veitir upplýsingar um farveg málsins telji forsjáraðili að brotið hafi verið gegn ofangreindum ákvæðum. Forsenda þess að lögreglan taki á málinu er að forsjáraðili fórnarlambsins kæri ummælin. Á www.logreglan.is er að finna helstu upplýsingar um embættin í landinu. Ef barn hefur haft í hótunum eða skrifað alvarleg niðrandi ummæli um annað barn á netið eða sent þau með SMS–skilaboðum er oft talin ástæða til þess að kalla gerandann (sé vitað hver hann er) ásamt foreldrum í viðtal hjá lögreglu til að gera þeim grein fyrir alvarleika málsins. Barnaverndarnefnd fær alltaf upplýsingar ef barn er grunað um refsivert athæfi.

5. Klám og kynferðisofbeldi á netinu

Í 210. gr., 210. gr. a. og 210. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir:

210. gr. Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.
Það varðar ennfremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.

210. gr. a. Hver sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt. Sama gildir um ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna einstaklinga 18 ára og eldri á kynferðislegan eða klámfenginn hátt, enda séu þeir í hlutverki barns, eða ef líkt er eftir barni í slíku efni þó að það sé ekki raunverulegt, svo sem í teiknimyndum eða öðrum sýndarmyndum.
Hver sem skoðar myndir, myndskeið eða aðra sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni skal sæta sömu refsingu og greinir í 1. mgr.

210. gr. b Hver sem ræður barn til að taka þátt í nektar- eða klámsýningu, skipuleggur eða veldur því með öðrum hætti eða hefur ávinning af því að barn tekur þátt í slíkri sýningu skal sæta fangelsi allt að 2 árum, en allt að 6 árum ef brot er stórfellt.
Sá sem sækir nektar- eða klámsýningu þar sem börn eru þátttakendur skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Lögreglan gefur upplýsingar í sambandi við kærur á grundvelli þessarar lagagreinar.

Barnaheill - Save the Children á Íslandi er með ábendingarhnapp, þar sem hægt er að senda inn ábendingar um vefsíður sem innihalda myndir þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Ábendingarnar eru áframsendar til Ríkislögreglustjóra, þar sem þær eru rannsakaðar.

6. Merkingar á tölvuleikjum 

Bannað er að sýna ungmennum undir lögræðisaldri ofbeldiskvikmyndir og -tölvuleiki eða kvikmyndir og tölvuleiki sem ógna velferð barna, skv. 2. gr. lagaeftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006.

Skylt er að meta eða láta meta alla tölvuleiki sem ætlaðir eru til notkunar fyrir börn undir lögræðisaldri. Skylt er að láta þess getið alls staðar, þar sem það á við, ef tölvuleikur telst vera ofbeldistölvuleikur eða tölvuleikur telst ógna velferð barna.

Ábyrgðaraðilar samkvæmt lögunum eru þeir sem framleiða kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar eða notkunar hér á landi, hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar eða notkunar hér á landi, hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar í atvinnuskyni, eftir því sem við á í hverju tilviki. Ábyrgðaraðilarnir bera ábyrgð á framkvæmd laganna undir eftirliti fjölmiðlanefndar og lögreglu. Þeim ber m.a. að setja sér verklagsreglur sem taka til mats á kvikmyndum og tölvuleikjum að fyrirmynd viðurkenndra erlendra skoðunarkerfa.

7. Tölvufíkn

Tölvufíkn (tölvuleikjafíkn) er árátta sem tengist vaxandi tölvunotkun og vandamál sem í síauknum mæli hrjáir börn og ungmenni. Einstaklingar með tölvufíkn missa stjórn á hegðun sinni og fara að vanrækja aðra hluti í lifi sínu, eins og t.d. nám, starf og samveru með fjölskyldu og vinum. Langt leiddir einstaklingar fara að sleppa svefni, hreyfingu, hollum máltíðum og þrifum. Þetta getur leitt til félagslegrar einangrunar, veruleikafirringar og þunglyndis. Börn og unglingar með alvarlegan vanda geta leitað eftir aðstoð hjá barna- og unglingageðdeild (BUGL). Hér á vef Náum áttum eru áhugaverðar upplýsingar um tölvufíkn, þ.á m. glærukynningu frá félagsráðgjafa BUGL.

8. Ábyrgð hinna fullorðnu 

Foreldrar bera aðalábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna. Það er ákaflega mikilvægt að foreldrar séu vakandi yfir því efni sem börnin þeirra setja á netið, skoða á netinu og ekki síst tölvuleikjunum sem þau spila. Börn og ungmenni hafa verið fljót að tileinka sér nýjungar og standa oft foreldrum sínum langtum framar í þessum efnum. Einmitt af þeim sökum verður aðhald og ráðgjöf foreldra e.t.v. ekki eins markviss og á öðrum sviðum. Því er foreldrum ráðlagt að setja sig inn í þessa tækni til þess að geta leiðbeint börnum sínum og fylgst með því hvers konar efni þau sækja í á netinu. 

Á meðan kostirnir við tæknina og netsamskipti eru ótal margir er einnig ýmislegt sem þarf að huga að. Auðvelt er að finna efni á netinu sem inniheldur klám, ofbeldi og annað efni sem ekki er við hæfi barna. Fræðsla og eftirlit foreldra er mjög mikilvægt í þessum efnum auk þess sem sjálfsagt er að nýta sér þau verndarúrræði sem tæknin býður upp á, s.s. eftirlitsforrit. Þá er mikilvægt að samfélagið í heild hjálpist að við að bjóða unga fólkinu upp á góð uppeldisskilyrði þar sem hlúð er að siðferðisvitund og virðingu. Mikilvægt er að kenna börnum að umgangast netið á gagnlegan og uppbyggjandi hátt þannig að þau verði hæfari til að komst hjá neikvæðum upplifunum. Einnig þarf að brýna fyrir börnum að efni og myndir sem sett er á netið getur hver sem er skoðað og tekið afrit af og geymt eða sent áfram, jafnvel löngu seinna.

Menntakerfið hefur líka ákveðnum skyldum að gegna þegar kemur að fjölmiðlalæsi. Í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla 2011 er fjallað um grunnþætti menntunar sem fléttast eiga inn í allt skólastarf. Einn af sex grunnþáttum er læsi. Í umfjöllun um læsi segir m.a.:

Hugtakið miðlamennt vísar til skólastarfs þar sem nemendur nota ýmsa miðla við nám sitt og læra í leiðinni sitthvað um notagildi þeirra og áhrif á menningu og lýðræði. Markmiðið er að þeir læri að leggja mat á miðlað efni en fái einnig þjálfun í að nota ýmsa miðla við efnisgerð og þekkingarsköpun. Orðið miðlalæsi er haft um þá færni og kunnáttu sem þeir öðlast við það nám sem í þessu felst.

Þó að netið og tölvuleikir geti verið þroskandi og skemmtileg finnst ýmsum aðilum að börn verji of miklum tíma í tölvuleikjum, á netinu og í símanum. Mikilli tölvunotkun fylgja langar kyrrsetur sem ekki eru taldar heppilegar fyrir börn og unglinga. Foreldrar bera ábyrgð á líkamlegri og andlegri heilsu barna sinna. Þess vegna er mikilvægt að styðja unga fólkið í að halda öðrum áhugamálum og stunda heilbrigt líferni. Æskilegt er að börn og foreldrar þeirra komist að samkomulagi um það hve miklum tíma sé varið í kyrrsetur fyrir framan símann eða tölvuskjáinn. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að foreldrar eru fyrirmyndir varðandi notkun síma- og tölvunotkun og því er heppilegt að þeir sýni gott fordæmi, t.d. með því að takmarka notkun þessara tækja, slökkva á þeim eða lækka í þeim stöku sinnum til að fá næði með fjölskyldunni.

9. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Fjölmiðlanefnd
Fjölmiðlanefnd tekur við ábendingum um hugsanleg brot á fjölmiðlalögum og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum. Sjá nánar á www.fjolmidlanefnd.is.

SAFT
SAFT – Samfélag – fjölskylda og tækni er vakningarátak um örugga netnotkun barna og unglinga. Veitt er ráðgjöf varðandi netið og tölvuleiki í síma 562 7475. Ýmsan fróðleik og leiðbeiningar er að finna á www.heimiliogskoli.is og www.saft.is, m.a. gátlista fyrir foreldra og börn.

Lögreglan
Á lögregluvefnum er að finna ábendingar til foreldra um örugga netnotkun barna. Lögreglan getur líka aðstoðað þá sem vilja leggja fram kærur vegna brota á almennum hegningarlögum eða öðrum refsilögum.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.