Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Leikskóli

Kaflar: 

 1. Réttur til umönnunar og menntunar
 2. Helstu lög og reglur um leikskóla
 3. Aðalnámskrá leikskóla — skólanámskrá
 4. Uppeldismarkmið leikskóla
 5. Yfirstjórn leikskóla
 6. Ábyrgð sveitarfélaga
 7. Leikskólanefnd
 8. Starfsfólk leikskólans og skyldur þess
 9. Foreldrar
 10. Samstarf leikskóla og grunnskóla
 11. Upplýsingar um barn
 12. Upplýsingaskylda skóla við forsjárlausa foreldra
 13. Meðferð trúnaðarupplýsinga
 14. Tilkynningarskylda til barnaverndaryfirvalda
 15. Túlkun upplýsinga til foreldra
 16. Húsnæði og fjöldi barna í leikskóla
 17. Sérfræðiþjónusta og stoðkerfi leikskóla
 18. Aldur þeirra sem sækja barn í leikskóla
 19. Dvalartími barna í leikskólum
 20. Leyfi til reksturs leikskóla, samrekstur og þróunarskólar
 21. Innritun og gjaldtaka
 22. Lok leikskólagöngu
 23. Boðleiðir — ágreiningsmál
 24. Kæruheimild
 25. Kærustig innan sveitarfélags
 26. Stjórnsýslulög
 27. Mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur umönnunar og menntunar

Leikskólinn er fyrsta stigið í skólakerfinu sem annast að ósk foreldra uppeldi og menntun barna. Æ ríkari áhersla hefur verið lögð á menntunarþátt leikskólans hin síðari ár. Nú er litið svo á að eitt af hlutverkum leikskólans sé að búa börn undir grunnskólagöngu. Hlutfall barna sem sækja leikskóla hérlendis er með því hæsta sem gerist innan ríkja OECD og langflest börn dvelja í leikskólanum 7 klukkustundir á dag eða lengur. Meðalaldur barna í leikskólum hefur færst niður á undanförnum árum, auk þess sem samsetning barnahópsins hefur breyst töluvert að því leyti að nú eru fleiri börn en áður af erlendum uppruna í leikskólum landsins. Leikskólinn veitir samfélaginu því einstakt tækifæri til að jafna stöðu barna. Í leikskólanum er unnt að veita þeim börnum sem standa höllum fæti félagslega eða heilsufarslega viðeigandi umönnun og atlæti án tillits til fjárhagsaðstæðna eða félagslegrar stöðu foreldra. Jafnframt er hægt að greina hvers konar þroskafrávik barna snemma og veita þeim sérstakan stuðning. 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til umönnunar og verndar. Í 3. grein hans segir:

1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.
2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.
3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón.

Í 18. gr. barnasáttmálans er svo talað um að foreldrar beri ábyrgð á uppeldi barna sinna en ríkinu beri að aðstoða þá í því hlutverki með því að byggja upp stofnanir sem sinna umönnun barna: 

1. Aðildarríki skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar, eða lögráðamenn, ef við á, bera aðalábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.
2. Til þess að tryggja og efla réttindi þau sem kveðið er á um í samningi þessum skulu aðildarríki veita foreldrum og lögráðamönnum viðeigandi aðstoð við að rækja uppeldisskyldur sínar og sjá til þess að byggðar séu upp stofnanir og aðstaða og þjónusta veitt til umönnunar barna.
3. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að börn foreldra sem stunda atvinnu fái notið góðs af þjónustu og aðstöðu til umönnunar barna sem þau kunna að eiga rétt á.

Ísland fullgilti barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

2. Helstu lög og reglur um leikskóla

Samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum, svo sem barnasáttmálanum, hvílir meginábyrgðin á uppeldi og umönnun barna á herðum foreldra. Börn eiga því fyrst og fremst rétt gagnvart foreldrum sínum. Foreldrar og börn eiga síðan sameiginlega rétt á því að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, styðji foreldrana í því mikilvæga hlutverki sem uppeldi barna er.

Sérstök lög, nr. 90/2008, gilda um starfsemi leikskóla og eru þau grundvöllur leikskólastarfs. Reglugerðir settar með heimild í leikskólalögum fjalla um afmarkaðri viðfangsefni leikskólans. Þeir sem reka leikskóla eru bundnir af þessum reglum og mega ekki taka við börnum nema þeir fullnægi þeim kröfum sem þær setja.

3. Aðalnámskrá leikskóla — skólanámskrá

Aðalnámskrá leikskóla er gefin út af menntamálaráðuneytinu og er ígildi reglugerðar. Í henni er að finna faglega stefnumörkun um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans. Námskráin er leiðarvísir fyrir alla sem vinna að uppeldi og menntun barna í leikskólum auk þess að vera upplýsandi fyrir foreldra og forsjáraðila þeirra um hlutverk og starfsemi leikskóla. 

Í aðalnámskrá skal m.a. leggja áherslu á gildi leiks í öllu leikskólastarfi. Þetta segir í 13. gr. leikskólalaga. Einnig skal fjallað um markmið fyrir námssvið leikskólans, foreldrasamstarf, þróunarstarf, mat á leikskólastarfi og tengsl leikskóla og grunnskóla. Í aðalnámskrá skal skilgreina hæfniþætti á námssviðum leikskólans í samræmi við aldur og þroska barna. Aðalnámskráin er því sveigjanlegur rammi um leikskólanám en síðan getur sérhvert sveitarfélag mótað eigin skólastefnu út frá því. Menntamálaráðuneytið endurskoðar aðalnámskrá leikskóla reglulega. Núgildandi aðalnámskrá er frá 2011 og í henni er birt menntastefna sem reist er á sex grunnþáttum menntunar sem eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þessir grunnþættir eiga að fléttast inn í allt skólastarf.

í 14. gr. leikskólalaga er fjallað um skólanámskrá og starfsáætlun leikskóla. Í hverjum leikskóla skal gefa út skólanámskrá og er leikskólastjóri ábyrgur fyrir gerð hennar. Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá leikskóla og felur í sér uppeldis- og námsáætlun leikskóla þar sem markmið eru sett og skilgreindar leiðir að þeim markmiðum. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu skóla og skólastefnu viðkomandi sveitarfélags. Skólanámskrá skal endurskoða reglulega. Leikskólastjóri gefur árlega út sérstaka starfsáætlun. Í starfsáætlun er gerð grein fyrir árlegri starfsemi leikskóla, svo sem skóladagatali, foreldrasamstarfi, sjálfsmati og umbótaáætlunum, tengslum leikskóla og grunnskóla, stoðþjónustu, fyrirkomulagi öryggis- og slysavarnamála, móttökuáætlun fyrir leikskólabörn sem hafa annað móðurmál en íslensku, félagslífi og ýmsum hagnýtum upplýsingum um skólahald hvers leikskóla. Skólanámskrá og starfsáætlun skulu staðfestar af nefnd skv. 2. mgr. 4. gr. (leikskólanefnd), að fenginni umsögn foreldraráðs, og skulu þær kynntar foreldrum. Þrátt fyrir mikilvægi þess að skólanámskrá endurspegli sérstöðu og séreinkenni hvers leikskóla útilokar ákvæðið þó ekki möguleikann á því að leikskólar innan sama sveitarfélags eða sjálfstætt reknir leikskólar sem starfa á sama grunni, geti að einhverju leyti sameinast um gerð skólanámskrár.

4. Uppeldismarkmið leikskóla

Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla er að tryggja börnum sem best náms-, uppeldis- og leikskilyrði sem komi til móts við einstaklingsþarfir hvers og eins og örvi alhliða þroska hvers nemanda. Öllum leikskólum ber að vinna að því að tryggja velferð og hagsmuni barna í öllu starfi. Leikskólum ber að horfa til snemmtækrar íhlutunar og þeirrar aðferðafræði sem hún byggist á en með því er hægt að hindra eða draga úr áhrifum ýmissa þroskafrávika. Mikilvægt er að starfsfólk leikskóla fylgist með og efli alhliða þroska barna og grípi strax til viðeigandi aðgerða ef þörf krefur þannig að öll börn fái sem best notið sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. Í 2. gr. leikskólalaga er fjallað um uppeldismarkmið leikskóla. Greinin er svohljóðandi: 

Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.

Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera:
a. að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
b. að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku, 
c. að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
d. að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
e. að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
f. að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.

Markmiðin eru nánar útfærð og skilgreind í aðalnámskrá leikskóla, sjá bls. 23-24 þar sem fjallað er um leiðarljós leikskóla.

5. Yfirstjórn leikskóla

Starfsemi leikskóla heyrir undir menntamálaráðuneyti. Ráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála sem leikskólalög taka til, fyrir utan stofnun og rekstur leikskóla og það gætir þess að farið sé eftir ákvæðum sem leikskólalög og reglugerðir mæla fyrir um. Þá skal ráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í leikskólum landsins á þriggja ára fresti skv. 3. gr. leikskólalaga.

6. Ábyrgð sveitarfélaga

Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 er kveðið á um skyldur sveitarfélaga til að tryggja framboð á leikskólarýmum „eftir föngum“ og skulu þau láta fara fram mat á þörfinni eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Sá réttur sem íbúum sveitarfélaga er tryggður með lögum þessum er þó almenns eðlis en útfærsla réttarins í einstökum tilvikum er á forræði hvers sveitarfélags.

Ábyrgð sveitarfélaga er skilgreind í 1. mgr. 4. gr. leikskólalaga:

Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla. Sveitarfélög hafa forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélags, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Sveitarfélög setja almenna stefnu um leikskólahald í sveitarfélagi og kynna fyrir íbúum þess. 

7. Leikskólanefnd

Nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Leikskólastjórar, starfsfólk leikskóla og foreldrar í sveitarfélagi kjósa hver úr sínum hópi aðal- og varamann til setu á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Þetta segir í 2. mgr. 4. gr. leikskólalaga

Heitið „leikskólanefnd“ hefur verið fellt úr lögum og í staðinn notað „Nefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar“. Ástæða þess er m.a. sú að undanfarin ár hefur sú þróun orðið að mörg sveitarfélög hafa kosið að fela einni nefnd að fara með málefni fleiri en eins málaflokks, þ.m.t. málefni leikskóla, og því er talið óeðlilegt að lögbinda að nefndin skuli heita leikskólanefnd. Það er mjög algengt að sveitarfélög hafi eina nefnd sem fjallar um málefni allra skólastiga sem undir þau heyra og er það gert m.a. til að undirstrika mikilvægi samfellu og samstarfs á milli skólastiga.

8. Starfsfólk leikskólans og skyldur þess

Ábyrgð leikskólastjóra er skilgreind í 5. gr. leikskólalaga:

Við leikskóla skal vera leikskólastjóri sem stjórnar starfi hans í umboði rekstraraðila. Leikskólastjóri stjórnar daglegum rekstri og starfi leikskóla og gætir þess að leikskólastarf sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá leikskóla, skólanámskrá og önnur gildandi fyrirmæli. Leikskólastjóri stuðlar að samstarfi milli foreldra, starfsfólks leikskóla og annars fagfólks með velferð barna að markmiði. Leikskólastjóri boðar til kennara- og starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir.
Leikskólastjóri gerir rekstraraðila og sveitarstjórn grein fyrir starfsemi leikskóla í ársskýrslu. 

Skylt er að foreldraráð starfi við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið og starfa með því. Þetta segir í 11. gr. leikskólalaga. Leikskólastjóri gefur árlega út sérstaka starfsáætlun skv. 14. gr. leikskólalaga og er hann einnig ábyrgur fyrir gerð skólanámskrár.

Í 7. gr. leikskólalaga er fjallað um starfsfólk leikskóla. Þar segir að starfsfólk leikskóla skuli rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki. Að frumkvæði leikskólastjóra skal móta áætlun um hvernig símenntun starfsfólks skuli hagað svo að hún sé í sem bestu samræmi við áherslur leikskóla, sveitarfélags og skólanámskrár. Í greininni er einnig fjallað um símenntun starfsfólks.

Í aðalnámskrá leikskóla segir að allt starfsfólk leikskóla eigi að koma fram við börn af virðingu, taka tillit til þeirra og hlusta á þau. Starfsfólk skal leitast við að vera í gefandi samskiptum við börn, samverkafólk og fjölskyldur barna og vera góð fyrirmynd í hvívetna. Á bls. 22 er sérstaklega fjallað um hlutverk leikskólastjóra og hlutverk leikskólakennara.

Í 6. gr. leikskólalaga er fjallað um ráðningu starfsliðs leikskóla. Leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólakennarar skulu hafa menntun leikskólakennara, sbr. lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008. Heimilt er að starfsfólk án leikskólakennaramenntunar taki þátt í að annast uppeldi og menntun barna, enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins. Óheimilt er að ráða til starfa við leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla (kynferðisbrotakafla) almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Hér er átt við fullt sakavottorð og tekur heimildin til allra starfsmanna leikskóla. Komi fram upplýsingar um refsiverða háttsemi einstaklings verður leikskólastjóri að meta með málefnalegum hætti að hve miklu leyti þau brot sem um er að ræða séu líkleg til þess að valda því að umsækjandi teljist ekki verðugur til þess að gegna starfinu. Við það mat verður að líta til þess hvenær brot var framið, eðlis þess og alvarleika.

Sjá nánar lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008. Sjá einnig Siðareglur kennara á vef Kennarasambands Íslands, reglugerð um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara og reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, nr. 872/2009.

Til eru sérstakar verklagsreglur um tilkynningarskyldu starfsfólks leik- grunn og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda (pdf). Sjá nánar í kaflanum um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda neðar á síðunni.

9. Foreldrar

Í 1. gr. leikskólalaga er hugtakið foreldrar skilgreint þannig að þeir teljast foreldrar sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna og eiga þeir að gæta hagsmuna þeirra. Til að foreldrar geti gætt hagsmuna barna sinna vegna skólastarfsins þurfa þeir að hafa náið samráð við starfsfólk leikskóla og upplýsingagjöf foreldra til skóla og frá skóla til foreldra þarf að vera greið Í IV. kafla leikskólalaga er fjallað um foreldra. Í 9. gr. segir:

Foreldrar leikskólabarna skulu gæta hagsmuna barna sinna. Þeir skulu hafa náið samráð við starfsfólk leikskóla og fylgjast með skólagöngu barna sinna og veita þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð barna. Foreldrar skulu jafnframt eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og stöðu barna sinna.
Eigi í hlut foreldrar sem tala ekki íslensku eða nota táknmál skal skóli leitast við að tryggja þeim túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein. 

Við hvern leikskóla skal starfa foreldraráð og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið skv. 11. gr. leikskólalaga. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði. Leikskólastjóri getur sótt um undanþágu til sveitarfélags um stofnun foreldraráðs ef gildar ástæður eru fyrir hendi, svo sem vegna fámennis í leikskóla. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr. (leikskólanefndar), um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.

Í 10. gr. segir að leikskólastjóri skuli stuðla að samstarfi milli foreldra og starfsfólks leikskóla með velferð barna að markmiði. Sé óskað eftir stofnun foreldrafélags skal leikskólastjóri aðstoða við stofnun þess. Foreldrar ákveða fyrirkomulag og starfssvið slíks félags. Með því að lögfesta stofnun foreldraráða er því ekki verið að koma í veg fyrir að foreldrafélög starfi áfram við leikskóla. Það er í höndum foreldra að taka ákvörðun um hvort starfandi sé foreldrafélag samhliða foreldraráði eða ekki.

Í aðalnámskrá leikskóla er fjallað um samstarf leikskóla og fjölskyldunnar á bls. 33, t.d. upphaf leikskólagöngu, dagleg samskipti, reglubundin samtöl foreldra og leikskólakennara og þátttöku foreldra í leikskólastarfi. 

10. Samstarf leikskóla og grunnskóla

Í 1. mgr. 16. gr. leikskólalaga segir að sveitarstjórn skuli koma á gagnvirku samstarfi leikskóla og grunnskóla. Í skólanámskrá skal gera grein fyrir samstarfi milli leikskóla og grunnskóla og hvernig skuli standa að færslu og aðlögun barna milli skólastiga.

Í athugasemdum með frumvarpinu er þetta útskýrt nánar:

Skylda er lögð á sveitarstjórn að koma á gagnvirku samstarfi á milli leik- og grunnskólastigsins. Til að unnt sé að koma á samstarfi sem þessu þurfa sveitarstjórnir að skapa viðeigandi aðstæður og setja fram framkvæmda- og starfsáætlun um tengsl leik- og grunnskóla þar sem m.a. er sett fram hvernig skuli stuðla að færslu og aðlögun nemenda milli skólastiga. Mikilvægt er að þessi áætlun komi fram í skólanámskrá. Nauðsynlegt er að tryggja að samstarf og gagnkvæmt flæði sé milli leik- og grunnskóla sem tekur til nemenda, kennara og ekki síst kennsluaðferða. Tilgangur þessarar breytingar er að tryggja samstarf og samvinnu milli leik- og grunnskóla til að aðlögun og undirbúningur leikskólabarna að grunnskólanámi verði sem best. Einnig er mikilvægt að grunnskólanám byggist m.a. á þeirri reynslu og menntun sem leikskólabörn hafa öðlast innan leikskólastigsins. 

Í aðalnámskrá leikskóla er fjallað um tengsl skólastiga á bls. 34.

11. Upplýsingar um barn

Samkvæmt barnalögum ráða forsjáraðilar nemenda persónulegum högum þeirra, bera ábyrgð á velferð þeirra og fara með lögformlegt forsvar þeirra. Foreldrar eða forsjáraðilar nemenda eiga því almennt rétt á mikilvægum upplýsingum um börn sín. Í 1. gr. leikskólalaga er hugtakið foreldrar skilgreint þannig að þeir teljist foreldrar sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Til þess að leikskólaganga barns geti gengið sem eðlilegast fyrir sig verða stjórnendur grunnskóla að hafa réttar og sem bestar upplýsingar um barn og líðan þess. Foreldrar skulu eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og leikskólagöngu barna sinna.

Í 2. og 3. mgr. 16. gr. leikskólalaga segir:

Persónuupplýsingar, sem fyrir liggja um hvert einstakt barn í leikskóla og nauðsynlegar eru fyrir velferð og aðlögun þess í grunnskóla, skulu fylgja barninu, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessari upplýsingamiðlun. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi leikskólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess.
Ráðherra setur reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla þar sem m.a. skal kveðið á um hvaða upplýsingar falla undir grein þessa, um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga milli skólastiga og um stöðu og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum sem varða börn þeirra. 

Í athugasemdum með frumvarpinu er 2. mgr. útskýrð svona:

Undirstrika verður að hér er eingöngu átt við upplýsingar sem teljast nauðsynlegar fyrir skólagöngu barns í grunnskóla og stuðlað geta að því að grunnskóli geti mætt þörfum þess. Grundvallaratriði er að gott og náið samstarf sé milli skólastiganna hvað þetta varðar og að þagnarskylda sé í heiðri höfð. Þá er grundvallaratriði að málsmeðferð sé í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og áhersla lögð á þagnarskyldu. Markmiðið er að tryggja að byggt sé á fyrra námi og reynslu leikskólabarna þegar þau koma í grunnskólann og að aðlögun þeirra verði eins og best verður á kosið. Eðlilegt þykir að mat upplýsinga, frumkvæði og ábyrgð á slíkri upplýsingagjöf sé á hendi leikskólastjóra og/eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins og að foreldrar séu upplýstir um málið. Almennt verður að gera ráð fyrir því að við lok dvalar í leikskóla liggi fyrir þær upplýsingar sem fylgi barni í grunnskóla. Mikilvægt er að foreldrar fái vitneskju um þær upplýsingar sem fylgja munu barni, en með þeim hætti geta þeir komið að leiðréttingum og eftir atvikum athugasemdum. 

Dæmi um nauðsynlegar upplýsingar teljast skv. 3. gr. reglugerðar um skil og miðlun upplýsingar upplýsinga milli leik- og grunnskóla nr. 896/2009 eru:

Almennar upplýsingar um félagslega stöðu og þroska barna.
Kennslufræðilegar, læknisfræðilegar, sálfræðilegar, sérkennslufræðilegar greiningar og aðrar greiningar og sérúrræði fyrir börn, sérkennsluumsóknir, námsáætlanir vegna sérúrræða, einstaklingsnámskrár og aðrar bakgrunnsupplýsingar sem að gagni geta komið fyrir velferð og aðlögun barna í grunnskóla.
Hvers konar skrifleg eða stafræn gögn svo sem skýrslur, greinargerðir og umsagnir er varða velferð og skólagöngu barns.

Með breytingu á reglugerð 896/2009 árið 2011 kom inn ný grein: 5. gr. a. um skráningu og samskipti. Þar segir:

Leikskólum er heimilt að nota rafrænt upplýsingakerfi til skráningar og miðlunar upplýsinga um börn samkvæmt þessari reglugerð. Ennfremur getur leikskóli notað slíkt kerfi til þess að veita foreldrum aðgang að upplýsingum og til samskipta við þá. Komi fram rökstudd beiðni frá foreldrum um að aðgangur að upplýsingum verði jafnframt veittur með öðrum hætti, s.s. með tölvupósti, símleiðis eða bréfleiðis, skal starfsfólk skóla leitast við að verða við slíkum beiðnum, enda þjóni það hagsmunum og þörfum barnsins. Tillit skal tekið til eðlis og mikilvægis þeirra upplýsinga sem um ræðir hverju sinni og hvort sérþarfir barns eða sérstakar aðstæður kalli á að samskipti séu með tilteknum hætti.

Eins og fyrr segir skulu foreldrar skv. 9. gr. leikskólalaga, hafa náið samráð við starfsfólk leikskóla og fylgjast með skólagöngu barna sinna og veita þær upplýsingar sem kunna að skipta máli fyrir skólastarfið og velferð barnanna. Foreldrar skulu jafnframt eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og stöðu barna sinna.

12. Upplýsingaskylda skóla við forsjárlausa foreldra

Um upplýsingaskyldu skóla við forsjárlausa foreldra gildir ákvæði 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem hljómar svona:

Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá frá hinu munnlegar upplýsingar um hagi þess, þar á meðal varðandi heilsufar þess, þroska, dvöl á leikskóla, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengsl.
Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris. Stofnunum og stjórnvöldum, sem nefnd eru í 2. mgr., er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn. Skjóta má synjun um upplýsingar um barn skv. 3. mgr. til sýslumanns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun sýslumanns samkvæmt þessari málsgrein verður ekki kærð til ráðuneytisins.
Þegar sérstaklega stendur á getur sýslumaður ákveðið að ósk forsjárforeldris að svipta hitt foreldrið heimild til að fá upplýsingar skv. 2. mgr. Um kæru slíkrar ákvörðunar sýslumanns fer skv. 78. gr.

13. Meðferð trúnaðarupplýsinga

Ákvæði um þagnarskyldu starfsstétta er víða að finna í löggjöf. Meginrökin fyrir lögbundinni þagnarskyldu starfsmanna ríkis og sveitarfélaga byggist annars vegar á grundvallarrétti manna til friðhelgi einkalífs og hins vegar á því trúnaðarsambandi sem nauðsynlegt er að sé á milli borgaranna og starfsmanna hins opinbera.

Í 8. gr. leikskólalaga segir að segir að starfsfólk leikskóla skuli gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna og foreldra þeirra, sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum. Þagnarskylda starfsfólks leikskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Skal leikskólastjóri brýna skyldur þessar fyrir starfsfólki og sérstaklega tilkynningarskyldu þess samkvæmt barnaverndarlögum, sjá næsta kafla.

14. Tilkynningarskylda til barnaverndaryfirvalda

Tekið er fram í 3. mgr. 17. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem fjallar um tilkynningarskyldu þeirra sem stöðu sinnar og starfa vegna hafa afskipti af málefnum barna, að tilkynningaskyldan samkvæmt barnaverndarlögum gangi framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Undanþága frá þagnarskyldu er talin réttlætanleg vegna hagsmuna barns og þeirra verndarsjónarmiða sem liggja að baki barnaverndarstarfi. 

Tilkynningarskylda gengur því framar trúnaðarskyldu ef um er að ræða atvik sem benda til að aðbúnaður og uppeldisaðstæður barns séu óviðunandi, barn sé í hættu eða grunur er um að barn hafi framið refsiverðan verknað eða refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni. Við slíkar aðstæður eru þeir hagsmunir sem í húfi eru, ef tilkynningarskyldu er ekki fullnægt, mun meiri og ríkari en hagsmunir sem tengjast trúnaði við barnið og fjölskyldu þess. Þegar atvik eru með þessum hætti er mikilvægt að starfsmaðurinn upplýsi aðstandendur (og barnið ef við á) um að á honum hvíli skylda til að tilkynna barnaverndarnefnd um málið vegna alvarleika þess. Hann verður að útskýra vel ástæðuna og þær afleiðingar sem tilkynning kynni að hafa fyrir barnið og fjölskyldu þess. Það er ótvíræður réttur barns að starfsmaður segi barni frá því ef hann verður að rjúfa trúnað við það vegna fyrirmæla um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda. 

Til eru sérstakar verklagsreglur um tilkynningarskyldu starfsfólks leik- grunn og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda (pdf)

15. Túlkun upplýsinga til foreldra

Í 9. gr. leikskólalaga segir að þegar foreldrar sem tala ekki íslensku eða nota táknmál eiga í hlut skuli skóli leitast við að tryggja þeim túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt þessari grein. Hér er bæði átt við upplýsingar sem tengjast hagsmunagæslu foreldra fyrir börn sín vegna skólastarfsins, sem og túlkun vegna upplýsingaskyldu foreldra og skóla.

Vitaskuld getur reynst erfitt að tryggja túlkun fyrir útlendinga sem koma frá fjarlægum löndum og einnig kann í sumum tilvikum að duga að túlkað sé á tungumál sem foreldrar skilja, þótt ekki sé um túlkun á móðurmáli þeirra að ræða. Er því lagt til að leitast skuli við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt greininni. Umfang túlkunar er því háð mati hverju sinni, en ábyrgð á henni hvílir á viðkomandi skóla. Gera verður ráð fyrir því að sveitarfélög geti einnig gripið til annarra úrræða til að koma á framfæri upplýsingum um skólastarf án beinnar túlkunar, svo sem með skriflegum upplýsingum á viðkomandi tungumálum. 

16. Húsnæði og fjöldi barna í leikskóla

Við skipulagningu og hönnun á starfsumhverfi leikskóla þarf að horfa til atriða eins og samsetningar barnahópsins, aldurs barnanna, lengdar dvalartíma þeirra, öryggis, hljóðvistar, lýsingar, loftræstingar, húsbúnaðar, mikilvægis sérkennsluaðstöðu, starfs- og hvíldaraðstöðu fyrir starfslið og tækjabúnaðar. Í 12. gr. leikskólalaga eru ákvæði um húsnæði og fjölda barna í leikskóla:

Gerð leikskólahúsnæðis skal taka mið af þörfum barna og þeirri starfsemi sem fram fer í leikskóla. Leggja skal áherslu á öruggt og rúmgott náms- og starfsumhverfi. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan barna og starfsfólks, svo sem hvað varðar húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Gert skal sérstaklega ráð fyrir rými fyrir sérfræðiþjónustu vegna barna með sérþarfir og vinnuaðstöðu starfsfólks. 
Við ákvörðun fjölda barna í leikskóla skal m.a. tekið tillit til aldursdreifingar barna og sérþarfa, lengdar dvalartíma þeirra, stærðar leik- og kennslurýmis og samsetningar starfsmannahóps. 
Ráðherra setur reglugerð um starfsumhverfi leikskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um öryggi barna og slysavarnir, um lágmarkskröfur til húsnæðis og aðbúnaðar barna og starfsfólks, um lengd daglegs dvalartíma barna og um aðstöðu vegna þjónustu við börn með sérþarfir. 

Reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009 er hér birt að stórum hluta:

...

 2. gr. Ábyrgð og samráð.

 Sveitarfélag annast undirbúning og framkvæmd byggingar leikskólahúsnæðis og annarrar aðstöðu fyrir leikskóla á þeirra vegum svo og kaup á tækjum og búnaði fyrir skólana. Við undirbúning nýrra leikskóla og meiriháttar breytinga á eldra húsnæði skal leitað eftir samráði við foreldra og starfsfólk leikskóla.

 Þegar um er að ræða rekstur leikskóla á vegum annarra aðila en sveitarfélaga er undirbúningur, gerð nýs skólahúsnæðis, viðhald þess og endurnýjun og viðhald búnaðar á ábyrgð og kostnað hlutað-eigandi rekstraraðila.

...

 5. gr. Lágmarksaðstaða.

 Til nauðsynlegrar lágmarksaðstöðu í leikskólum telst:

 deildarrými og viðeigandi aðstaða, búnaður og tækjakostur fyrir leik, nám og hvíld barna samkvæmt lögum um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla,

 rými fyrir sérfræðiþjónustu vegna barna með sérþarfir,

 fjölnotarými til hreyfileikja, þjálfunar, listsköpunar og annarra viðburða,

 aðstaða til að neyta málsverða,

 aðskilin hreinlætisaðstaða fyrir börn og starfsfólk,

 þurrkaðstaða fyrir fatnað barna og starfsfólks,

 afmörkuð og skipulögð skólalóð með áherslu á sem mesta fjölbreytni í leik- og námsaðstöðu með tilliti til mismunandi aldurshópa og þarfa, þ.m.t. þarfa fatlaðra barna,

 vinnurými fyrir leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og annað starfsfólk,

 setustofa fyrir starfsfólk.

 6. gr. Fjöldi barna.

 Leikskólastjóri, að höfðu samráði við sveitarstjórn eða nefnd sveitarfélags sem fer með málefni leikskóla í sveitarfélaginu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla og starfsfólk leikskóla, tekur ákvörðun um fjölda barna í leikskóla hverju sinni. Ákvörðun um fjölda barna og skipulag skólastarfs skal taka mið af samsetningu barnahópsins, dvalartíma barna dag hvern, aldri þeirra og þörfum, samsetningu starfsmannahóps og umfangi sérfræðiþjónustu.

 Til að ná markmiðum laga um leikskóla og aðalnámskrár skal þess gætt að nægilegt rými sé fyrir hvert barn á hverri deild þar sem meginhluti umönnunar, náms og uppeldis fer fram. Huga ber sérstaklega að því að börn með sérþarfir geti eftir atvikum þurft aukið rými svo sem vegna nauðsynlegra stoðtækja.

 Sveitarfélögum er heimilt að binda leyfi sveitarfélags til annarra rekstraraðila við ákveðinn hámarksfjölda barna, sbr. 15. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla. Að öðru leyti fara rekstararaðilar með ákvörðun um fjölda barna, sbr. 1. mgr.

 7. gr. Fjöldi starfsfólks.

 Sveitarstjórn eða annar rekstaraðili tekur ákvörðun um fjölda og samsetningu starfsmannahóps í samráði við leikskólastjóra. Ákvörðunin skal byggjast á mati og tillögum leikskólastjóra og miðast við aldur, þarfir og fjölda barna. Sé um að ræða börn með sérþarfir skal leita álits viðkomandi greiningaraðila.

...

 9. gr. Öryggi og slysavarnir.

 Húsnæði, lóð, aðstaða, búnaður og öll starfsemi sem börn taka þátt í á vegum leikskóla skal miðast við að öryggi barna sé sem tryggast.

 Barn er á ábyrgð skólans á meðan það dvelur þar, þegar það tekur þátt í skipulögðu skólastarfi hvort sem er innan skólans, á lóð skólans eða í ferðum á vegum skólans. Þegar um er að ræða vettvangsferðir leikskólabarna með hópbifreiðum eða í tilvikum skólaaksturs bera sveitarfélög eða aðrir rekstraraðilar ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um umferðaröryggi.

 10. gr. Handbók um öryggi barna og slysavarnir í leikskólum.

 Sveitarstjórn skal útbúa handbók fyrir starfsfólk leikskóla með leiðbeinandi reglum um öryggi barna og slysavarnir í leikskólum. Leiðbeiningar þessar skulu grundvallaðar á gildandi lögum og reglugerðum um öryggis-, skipulags- og byggingarmál og samræmdum starfsleyfisskilyrðum fyrir leikskóla, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Leiðbeiningar þessar skulu staðfestar af sveitarstjórn sem jafnframt skal sjá um að þær séu aðgengilegar almenningi á heimasíðu skólans eða sveitarfélagsins eða með öðrum hætti og kynntar í skólasamfélaginu.

 Sambandi íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneyti ber að móta leiðbeiningar um gerð slíkrar handbókar.

...

Öryggishandbók leikskóla  sem fjallað er um í 10. gr. hér að ofan var gefin út árið 2014 og endurskoðuð 2015 .

Í reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim er m.a. fjallað um umhverfi, hreinlæti, öryggi og hönnun leiksvæða og leikvallatækja. Lesa nánar um leiksvæði og leikföng hér á vefsíðu umboðsmanns barna.

17. Sérfræðiþjónusta og stoðkerfi leikskóla

Skóli án aðgreiningar er opinber skólastefna hér á landi og tekur hún til leikskólans jafnt og annarra skólastiga. Í henni felst að börn eiga rétt á að sækja leikskóla án tillits til líkamlegs og andlegs atgervis þeirra. Leikskólum ber að horfa til snemmtækrar íhlutunar og þeirrar aðferðafræði sem hún byggist á en með því er hægt að hindra eða draga úr áhrifum ýmissa þroskafrávika. Aðalnámskrá leikskóla kveður nánar á um snemmtæka íhlutun og mikilvægi hennar.

Mikilvægt er að starfsfólk leikskóla fylgist með og efli alhliða þroska barna og grípi strax til viðeigandi aðgerða ef þörf krefur þannig að öll börn fái sem best notið sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. Þetta kemur fram í athugasemd frumvarps til leikskólalaga (2. gr.) um markmið leikskólastarfs.

Í 12. gr. leikskólalaga eru ákvæði um húsnæði og fjölda barna í leikskóla. Þar segir m.a. að húsnæði og allur aðbúnaður skuli taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan barna og starfsfólks, svo sem hvað varðar húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Gert skal sérstaklega ráð fyrir rými fyrir sérfræðiþjónustu vegna barna með sérþarfir og vinnuaðstöðu starfsfólks.

VIII. kafli leikskólalaga fjallar um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla:

21. gr. Skipulag sérfræðiþjónustu.
Á vegum sveitarfélaga skal rekin sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við leikskólabörn og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi leikskóla og starfsfólk þeirra. Sveitarfélög ákveða fyrirkomulag sérfræðiþjónustu en skulu stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskóla.
Sérfræðiþjónusta fyrir leikskóla getur verið rekin sameiginlega með sérfræðiþjónustu grunnskóla. Þá geta sveitarfélög sameinast um slíkan rekstur eða gert þjónustusamninga við önnur sveitarfélög, stofnanir eða aðila sem veita þá þjónustu sem þörf er fyrir hverju sinni.
Ráðherra setur reglugerð um sérfræðiþjónustu leikskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. 

22. gr. Framkvæmd sérfræðiþjónustu.
Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eiga rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans. Þjónusta þessi skal fara fram undir handleiðslu sérfræðinga samkvæmt ákvörðun leikskólastjóra og sérfræðiþjónustu skv. 21. gr. í samráði við foreldra.
Leikskólastjóri skal samræma innan hvers leikskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra barna skv. 21. gr. Jafnframt skal hafa samráð við félagsþjónustu sveitarfélaga vegna málefna einstakra barna eftir því sem þurfa þykir.
Við framkvæmd sérfræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á góð tengsl leikskóla og grunnskóla með samfellu í skólastarfi að leiðarljósi. 

23. gr. Sérfræðingar í leikskólamálum.
Á vegum sveitarfélaga skulu starfa sérfræðingar í leikskólamálum er veita leikskólum ráðgjöf og stuðning við nýbreytni og skólaþróun. Þeir sinna einnig eftirliti með starfsemi leikskóla og stuðla að samstarfi þeirra innbyrðis og milli skólastiga. 

Um 22. gr. segir í frumvarpi að gert sé ráð fyrir að þjónustan byggist á þeim einstaklingsþörfum sem liggja fyrir hverju sinni. Þessi aðstoð og þjálfun getur því verið af ýmsu tagi og fer eftir því um hvaða sérþarfir er að ræða í hverju tilfelli. Þar af leiðir að ýmsir sérfræðingar aðrir en leikskólakennarar geta átt í hlut varðandi aðstoð og þjálfun við þessa nemendur. Undanfarin misseri hefur krafa um nærþjónustu verið að aukast, þ.e. að öll sú þjónusta sem leikskólabarn kann að þarfnast fari fram innan leikskólans. Ákveðnar hindranir geta verið í vegi fyrir því að slíkt sé unnt í dag. Ber þar sérstaklega að nefna að aðstaða innan margra leikskóla er ekki fyrir hendi og leikskólar því oft ekki færir um að sinna slíku hlutverki.

Í reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010 er nánar kveðið á um skipulag, framkvæmd og starfshætti sérfræðiþjónustunnar. Þar segir m.a. að foreldrar nemenda í leik- og grunnskóla geta óskað eftir athugun, greiningu og ráðgjöf fyrir börn sín. Auk þess geta skólastjórnendur, kennarar, náms- og starfsráðgjafar, eða eftir atvikum annað starfsfólk skólans eða skólaheilsugæslu, lagt fram ósk um slíka sérfræðiaðstoð í samráði við og með samþykki foreldra. Beina skal beiðnum til skólastjóra. Telji skólastjóri og foreldrar að barn þarfnist sérstakrar aðstoðar eða þjálfunar til að geta notið leikskóla- eða grunnskólagöngu sem best, ber þeim að hafa samráð um hvort unnt sé að leysa málið innan skólans og/eða hvort leitað skuli til sérfræðiþjónustu sveitarfélags eða annarra sérfræðinga. Verði aðilar sammála um að leita eftir slíkri þjónustu hlutast skólastjóri til um að sú þjónusta sé veitt. Skólastjóri ábyrgist að gerð sé áætlun sem byggir á markmiðum aðalnámskrár í samræmi við metnar sérþarfir.

Allar greiningar á nemendum og námsaðstæðum þeirra skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og skulu þeir upplýstir um niðurstöðuna. Að fenginni athugun eða greiningu gerir starfsfólk sérfræðiþjónustu sveitarfélags tillögu um viðeigandi úrræði með starfsfólki skóla, svo sem ráðgjöf og fræðslu til kennara og foreldra og viðeigandi stuðning við nemendur eða nemendahópa. Eftirfylgni og mat á árangri er í höndum sérfræðiþjónustu í samstarfi við viðkomandi skóla. Sérfræðiþjónusta sveitarfélaga skal eftir því sem aðstæður leyfa gefa foreldrum kost á almennri ráðgjöf og fræðslu, svo sem vegna skólagöngu barna þeirra, samstarfs heimila og skóla og hegðunar barna þeirra. Jafnframt skal sérfræðiþjónusta sveitarfélaga veita foreldrafélögum, foreldraráðum leikskóla og skólaráðum grunnskóla ráðgjöf og stuðning vegna lögbundinnar starfsemi þeirra.

Sveitarfélög skulu stuðla að því að þjálfun sem nemendur þurfa reglulega fari sem mest fram innan leik- og grunnskóla hjá viðeigandi sérfræðingum þótt aðrir aðilar en sveitarfélög veiti þjónustuna. Sveitarstjórn gerir sérstakan samning um þjónustuna. Ofangreindar upplýsingar eru úr 10.- 14. gr. reglugerðar um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010.

18. Aldur þeirra sem sækja barn í leikskóla

Engar reglur er að finna í lögum eða reglugerðum um aldur þeirra sem mega sækja börn í leikskóla. Það er alfarið á valdi sveitarfélaga eða einstakra leikskóla að ákveða við hvaða aldur er miðað í slíkum reglum. Ótvírætt er að foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum á leið í og úr leikskólanum. Leikskólar bera ábyrgð á öryggi og velferð þeirra meðan þau dvelja í leikskólanum eða eru á ferð á hans vegum. Starfsmönnum leikskóla ber í öllum störfum sínum að sýna ábyrgð og aðgæslu. Starfsmenn mega því ekki setja barn í hendurnar á hverjum sem er að skóladegi loknum. 

Með tilliti til öryggis þeirra ungu barna sem í hlut eiga telur umboðsmaður barna eðlilegt að leikskólar setji sér viðmiðunarreglur í þessu efni. Þær hljóta að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað. Almennt er ekki rétt að leggja þá ábyrgð á börn yngri en 12 ára að tryggja öryggi og velferð yngri barna á leið til og frá leikskóla. Þó mætti í undantekningartilvikum gera það og þá m.a. að teknu tilliti til nálægðar heimilis barnsins við leikskólann. Í þessu sambandi má benda á að Vinnueftirlitið túlkar reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga á þann veg að börn yngri en 15 ára ættu ekki að starfa við barnagæslu. Umboðsmaður telur að rétt sé og heppilegt að leikskólastjórar hafi samráð við foreldrafélag viðkomandi leikskóla við gerð viðmiðunarreglna um ofangreint.

19. Dvalartími barna í leikskólum

Dvalartími barna í leikskólum hefur verið að lengjast á undanförnum árum og meðalaldur barna í leikskólum hefur færst niður. Stór hópur barna dvelur í skólanum sínum vel fram yfir þann tíma sem vinnudagur fullorðinna er almennt miðaður við. Í 9. gr. reglugerðar um starfsumhverfi í leikskóla nr. 655/2009 segir:

Starfsemi og skipulag leikskólastarfs skal taka mið af aldri, þörfum og hagsmunum barna með sérstöku tilliti til daglegs dvalartíma. Æskilegt er að dvalartími barna í leikskóla sé að jafnaði ekki lengri en níu klst. á dag. Gera skal ráð fyrir að börn fái a.m.k. 4 vikna sumarleyfi.

20. Leyfi til reksturs leikskóla, samrekstur og þróunarskólar

Sjálfstætt reknum leikskólum hefur fjölgað talsvert undanfarin ár. Sveitarstjórn getur leyft öðrum aðilum að byggja og reka leikskóla í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Þetta segir m.a. í 25. gr. leikskólalaga. Um slíka leikskóla gilda sömu lög og reglur og um aðra leikskóla. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 30. gr. leikskólalaga (lesa nánar um kæruheimild neðar á síðunni). Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku. Sveitarfélög skulu setja sér reglur um veitingu rekstrarleyfa. Í 25. gr. er fjallað um þau atriði sem kveðið skal á um í rekstrarleyfi.

Sveitarfélögum, tveimur eða fleiri, er heimilt að hafa með sér samvinnu um rekstur leikskóla. Sveitarfélögum er einnig heimilt að reka saman leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn nefndar skv. 2. mgr. 4. gr. (leikskólanefnd). Hinn samrekni skóli starfar að öðru leyti samkvæmt lögum um viðkomandi skólastig. Um samrekstur er fjallað í 28. gr. leikskólalaga.

Ráðherra getur veitt sveitarfélögum og sjálfstætt reknum leikskólum heimild til að reka þróunarleikskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga þessara, reglugerða settra á grundvelli þeirra og aðalnámskrár leikskóla. Þetta segir í 29. gr. leikskólalaga. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.

21. Innritun og gjaldtaka 

Sveitarstjórn er heimilt að setja reglur um innritun í leikskóla í sveitarfélaginu, skv. 26. gr. leikskólalaga, enda njóti viðkomandi leikskóli framlags úr sveitarsjóði. Þessar reglur eru annars vegar settar með tilliti til aðstæðna barna og foreldra og hins vegar með tilliti til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins. Með þessu er ekki verið að draga úr skyldum sveitarfélaga til að bjóða börnum á leikskólaaldri leikskólanám, sbr. 4. gr., óski foreldrar þess. Einungis er verið að heimila sveitarfélögum ákveðið svigrúm á þessu sviði ef nauðsynlegt reynist að forgangsraða umsóknum. Reglur sveitarstjórnar samkvæmt þessari grein skulu birtar opinberlega og vera aðgengilegar íbúum sveitarfélagsins.

Stundum óska foreldrar eftir því að barn þeirra fái leikskólapláss utan lögheimilissveitarfélags. Um slíka mál gilda viðmiðunarreglur vegna leikskóladvalar utan lögheimilissveitarfélags sem samþykktar voru af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 2012. Reglurnar eru hér á vef Sambandsins.

Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða gjaldtöku fyrir börn í leikskóla, skv. 27. leikskólalaga. Gjaldtaka fyrir hvert barn má þó ekki nema hærri fjárhæð en nemur meðalraunkostnaði við dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélagsins. Með þessu ákvæði er að sjálfsögðu ekki girt fyrir að sveitarfélag bjóði upp á gjaldfrjálsa leikskóla. Ákvæði þessarar greinar taka ekki til leikskóla sem fengið hafa rekstrarleyfi skv. 25. gr. nema kveðið sé á um slíkt í þjónustusamningi við sveitarfélagið.

22. Lok leikskólagöngu

Samkvæmt 1. gr. leikskólalaga er leikskólinn fyrir börn undir skólaskyldualdri. Sú breyting er gerð frá eldri lögum að tekin er út viðmiðunin að nemendur hefji grunnskólanám 1. september það ár sem þeir verða 6 ára. Í athugasemdum við þessa grein frumvarpsins segir að áhersla sé lög á sveigjanleika og að þessi grein hindri það ekki að nemendur geti hafið grunnskólanám fyrr eða síðar séu fyrir því gild rök. Grundvallaratriði er að við ákvörðun um slíkt sé vandað mjög vel til verka og horft bæði til félagsþroska og námsframvindu. Að þeirri ákvörðun þurfa að koma starfsfólk leikskóla og grunnskóla, foreldrar og þeir fagaðilar sem þurfa þykir. Tilgangur þessarar breytingar er að lögin veiti nauðsynlegan sveigjanleika sem þarf til að skólastigin myndi eina samfellu þannig að nemendur geti hafið nám og lokið námi á misjöfnum aldri og á þeim hraða sem best hæfir einstaklingsbundnum þörfum og getu hvers og eins. Þó er lögð áhersla á að miðað verði við að börn séu að öllu jöfnu í leikskóla upp að skólaskyldualdri og horft sé í auknum mæli til þess að samræma og tengja kennsluaðferðir á mótum skólastiga.

23. Boðleiðir — ágreiningsmál

Ef upp koma álitamál varðandi starfið í leikskólanum eða ágreiningsmál milli foreldra og starfsfólks leikskólanna er mikilvægt að málið rati rétta leið innan kerfisins. Réttast er að deildarstjóra berist málið fyrst. Leikskólastjóri er æðsti yfirmaður hvers leikskóla. Næst er eðlilegt að málið berist þeirri skrifstofu sveitarfélagsins sem fer með leikskólamálin (skóla- eða fræðsluskrifstofa- fjölskyldu- eða félagsmálaskrifstofa eða skóla- og frístundasvið í Reykjavík, sjá nánar hér). Næsta stjórnsýslustig í sveitarfélaginu er svo pólitískt kjörin leikskólanefnd eða sú nefnd sveitarfélagsins sem fer með málefni leikskóla (skóla- eða fræðslunefnd fölskyldu- eða félagsmálanefnd eða skóla- og frístundaráð í Reykjavík). Leikskólanefndin starfar í umboði sveitarstjórnar (bæjarstjórnar eða borgarstjórnar eftir því sem við á) sem er æðsta yfirvald sveitarfélagsins. Bæjarstjóri/sveitarstjóri/borgarstjóri starfar líka í umboði sveitarstjórnar. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn mennta-, æskulýðs- og menningarmála á Íslandi og hefur eftirlit með leikskólalögum.

-> Deildarstjóri
-> Leikskólastjóri
-> Skrifstofa eða stofnun sveitarfélagsins sem fer með leikskólamál
-> Sveitarstjóri/bæjarstjóri/borgarstjóri
-> Nefnd/ráð sveitarfélagsins sem fer með leikskólamál
-> Sveitarstjórn/bæjarstjórn/borgarstjórn

Sveitarfélögin hafa sjálfstæða stöðu gagnvart öðrum stjórnvöldum. Þar sem ekki er fyrir sams konar stjórnsýslusambandi að fara á milli sveitarfélaga og ráðherra, og er á milli æðra og lægra settra stjórnvalda ríkisins, teljast ákvarðanir sveitarstjórna almennt ekki kæranlegar til ráðherra, nema sérstaklega sé mælt svo fyrir um í lögum. Sjá næsta kafla. 

24. Kæruheimild

Hægt er að kæra eftirfarandi ákvarðanir til menntamálaráðuneytisins skv. 30. gr. leikskólalaga : 

• 22. gr. um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar:

 22. gr. Framkvæmd sérfræðiþjónustu.
Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eiga rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans. Þjónusta þessi skal fara fram undir handleiðslu sérfræðinga samkvæmt ákvörðun leikskólastjóra og sérfræðiþjónustu skv. 21. gr. í samráði við foreldra.
Leikskólastjóri skal samræma innan hvers leikskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra barna skv. 21. gr. Jafnframt skal hafa samráð við félagsþjónustu sveitarfélaga vegna málefna einstakra barna eftir því sem þurfa þykir. Við framkvæmd sérfræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á góð tengsl leikskóla og grunnskóla með samfellu í skólastarfi að leiðarljósi. 

Nánar hér  um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla.

Verði ákvörðun sem tekin er af hálfu sveitarfélags skv. 22. gr. um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar ekki talin í samræmi við lög getur ráðherra, í úrskurði í tilefni af stjórnsýslukæru, kveðið á um að viðkomandi sveitarfélag skuli sjá barni fyrir slíkri þjálfun eða aðstoð eða aðgangi að leikskóla.

• 4. og 26. gr. um aðgang að skóla:

4. gr.  Sveitarfélög.
Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla. Sveitarfélög hafa forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélags, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Sveitarfélög setja almenna stefnu um leikskólahald í sveitarfélagi og kynna fyrir íbúum þess.
...

26. gr. Reglur um innritun.
Sveitarstjórn er heimilt að setja reglur um innritun í leikskóla í sveitarfélaginu, enda njóti viðkomandi leikskóli framlags úr sveitarsjóði. Þessar reglur eru annars vegar settar með tilliti til aðstæðna barna og foreldra og hins vegar með tilliti til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins.
Reglur sveitarstjórnar samkvæmt þessari grein skulu birtar opinberlega og vera aðgengilegar íbúum sveitarfélagsins.

Nánar hér um ábyrgð sveitarfélaga og innritun og gjaldtöku.

Verði ákvörðun sem tekin er af hálfu sveitarfélags um aðgang að skóla, sbr. 4. og 26. gr., ekki talin í samræmi við lög getur ráðherra, í úrskurði í tilefni af stjórnsýslukæru, kveðið á um að viðkomandi sveitarfélag skuli sjá barni fyrir slíkri þjálfun eða aðstoð eða aðgangi að leikskóla. 

• 27. gr., um gjaldtöku fyrir vist í leikskóla:

27. gr. Gjaldtaka.
Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða gjaldtöku fyrir barn í leikskóla. Gjaldtaka fyrir hvert barn má þó ekki nema hærri fjárhæð en nemur meðalraunkostnaði við dvöl hvers leikskólabarns í leikskólum á vegum sveitarfélagsins.
....

Nánar hér um ábyrgð sveitarfélaga og innritun og gjaldtöku.

Um meðferð kærumála fer að ákvæðum stjórnsýslulaga.

25. Kærustig innan sveitarfélags

Í 30. gr. leikskólalaga segir einnig að sveitarstjórn geti í samþykktum ákveðið um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélags að áður en hægt er að kæra ákvörðun skv. 1. mgr. til ráðherra skuli fyrst beina kæru til nefndar skv. 2. mgr. 4. gr. (leikskólanefndar) eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélags. Sé heimild þessari beitt skal sveitarstjórn ákveða hvort þessi kæruréttur eigi við um hluta ákvarðana skv. 1. mgr. eða um þær allar. Um málsmeðferð á kærustigi innan sveitarfélags fer að ákvæðum stjórnsýslulaga. Það er því mismunandi eftir sveitarfélögum hvernig þessum málum er háttað.

26. Stjórnsýslulög

Víða í lögum segir að við tilteknar ákvarðanir skuli farið að ákvæðum stjórnsýslulaga. Stjórnsýslulög nr. 37/1993 gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu einstaklinga en það er kallað stjórnvaldsákvörðun.

Í stjórnsýslulögum er að finna lágmarksreglur sem þarf að fylgja við málsmeðferð, s.s. andmælarétt, meðalhófsreglu, leiðbeiningarskyldu, rannsóknarreglu og jafnræðisreglu. Ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lög þessi mæla fyrir um, halda gildi sínu. Um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga fer þó eftir sveitarstjórnarlögum. Rétt er að taka fram að skv. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga getur aðili máls krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.

27. Mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs

Í 17.—20. gr. leikskólalaga (VII. kafla) er fjallað um mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs. Hver leikskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, barna og foreldra eftir því sem við á. Leikskólar skulu birta opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.

Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar og áætlanir um umbætur. Menntamálaráðuneyti annast greiningu og miðlun upplýsinga um starf leikskóla á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum og með sjálfstæðri gagnaöflun. Ráðuneytið gerir einnig áætlun um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd leikskólalaga, aðalnámskrár leikskóla og aðra þætti skólastarfs.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.

Helstu lög og reglur

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944

Barnasáttmálinn sbr. lög nr. 19/2013

Lög um leikskóla, nr. 90/2008

Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008

Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr.  40/1991

Reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009

Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010

Reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla, nr. 896/2009

Reglugerð nr. 856/2011 um breytingu á reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla nr. 896/2009

Reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, nr. 872/2009

Reglugerð um mat og eftirlit í leikskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald, nr. 893/2009

Reglugerð um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara

Reglugerð um öryggi leikfanga og hættulegar eftirlíkingar nr. 408/1994

Reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002

Reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002

Aðalnámskrá leikskóla

 

Tenglar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Velferðarráðuneytið

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

RannUng

Leikskólar landsins

Heimili og skóli

Rannung - Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna

Verklagsreglur um tilkynningaskyldu starfsmanna leik- grunn og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda

Öryggishandbók leikskóla

Fagráð eineltismála

Olweusarverkefnið gegn einelti

Ritið Ofbeldi gegn börnum - hlutverk skóla