Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Kynheilbrigði

Kaflar:  

  1. Réttur til friðhelgi einkalífs – réttur til verndar  
  2. Helstu lög og reglur um kynheilbrigði barna
  3. Getnaðarvarnir 
  4. Fóstureyðingar 
  5. Bólusetningar gegn HPV veiru
  6. Ábyrgð hinna fullorðnu
  7. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til friðhelgi einkalífs – réttur til verndar

Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna til 18 ára aldurs. Í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 er fjallað um forsjárskyldur foreldra. Þar segir m.a. að foreldrum ber að vernda barn sitt, afla því lögmætrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Foreldrar ráða persónulegum högum barns en á sama tíma eiga foreldrar að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

Rannsóknir sýna að börn verða fyrr kynþroska nú en áður.  Því er brýnt að börn hafi frá unga aldri þróað með sér sterka sjálfsmynd og átti sig á þeim breytingum sem fylgja kynþroskanum. Ljóst er að áhrif fjölmiðla og afþreyingarefnis, t.d. á netinu, á hugmyndir unglinga um kynlíf og kynjaðar staðalímyndir eru mjög mikil og sú kynfræðsla sem unglingar verða sér úti um sjálfir er því ekki alltaf sú heppilegasta að mati foreldra og fagfólks. Neðst á þessari síðu er að finna ábendingar um ýmis konar fræðsluefni.

Almennt  er talið að  foreldrar hafi rétt til að ákveða hvers konar uppeldi þeir veita börnum sínum en að of mikil íhlutun í málefni þeirra geti verið andstæð grundvallarreglum um sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og  friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Litið er svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt stjórnarskrárákvæði þessu þó að línan á milli þess hvað fellur undir skyldu foreldra til að vernda börn sín og hvað fellur undir of mikla afskiptasemi foreldra geti stundum verið óljós.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til friðhelgi einkalífs. Í 16. gr. Barnasáttmálans segir:

 1. Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð.
 2. Barn á rétt á vernd laganna fyrir slíkum afskiptum og árásum.

Í 24. gr. er svo fjallað um rétt barna til heilsugæslu:

1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.”

2. Helstu lög og reglur um kynheilbrigði barna

Enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir mögulegum afleiðingum þess andlega og líkamlega. Það er ekki löggjafans að kveða á um hegðun fólks í einkalífi sínu – svo framarlega sem ekki sé um að ræða þvingun, nauðung eða misnotkun á trausti eða sakleysi þeirra sem ekki geta varið sig. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er að finna ákvæði sem miðar að því að vernda börn og unglinga fyrir kynferðislegri misnotkun sér eldra fólks, sem vill nýta sér þroska- og reynsluleysi barnanna: 

202. gr.
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi. 

Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 6 árum. 

Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir ungmenni yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.

Hver sem greiðir barni yngra en 18 ára endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök skal sæta fangelsi allt að 2 árum.

Um sifjaspell og önnur kynferðisbrot gegn börnum er fjallað í 200. og 201. gr. ofangreindra laga. Um fyrningu sakar og fyrningarfrest er fjallað um í 81. og 82. gr. laganna. Sjá nánar í umfjöllun um kynferðisofbeldi hér á vef umboðsmanns barn .

3. Getnaðarvarnir

Í lögum er ekki kveðið á um að börn þurfi að hafa náð ákveðnum aldri til þess að kaupa eða fá afhentar getnaðarvarnir og eru sumar þeirra aðgengilegar í venjulegum verslunum. Á það til dæmis við um smokka, sem er sú getnaðarvörn sem fagfólk mælir helst með fyrri unglinga, enda veitir hún vörn gegn bæði kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum.

Ekki eru heldur til nein lagaákvæði sem beinlínis kveða á um það við hvaða aldur á að miða þegar læknar  ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum eins og  pillunni fyrir stúlkur.  Lögin hafa verið túlkuð á þann veg að fyrst ekki er refsivert að börn 15 ára og eldri stundi kynlíf (séu þau jafningjar og geri það bæði af fúsum og frjálsum vilja) þá ættu þau að hafa aðgang að hormónatengdum getnaðarvörnum, þ.m.t. pillunni. Þess má geta að ekki eru allir sammála þessari túlkun og margir telja að stúlkur ættu að vera orðnar 16 ára til að fá lyfseðil fyrir pillunni, í samræmi við lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir nr. 25/1975 og lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1994.

4. Fóstureyðingar

Í 13. gr. laga nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir segir að sé kona yngri en 16 ára eða svipt sjálfræði skuli foreldrar eða lögráðamaður taka þátt í umsókn um fóstureyðingu með henni nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Því má segja að ef ósjálfráða stúlka, 16 eða 17 ára, óskar eftir því við lækni að framkvæmd verði hjá henni fóstureyðing þurfi hann ekki að hafa samráð við forsjáraðila stúlkunnar áður en slíkt er gert. Réttindi stúlkna 16 ára og eldri til að láta framkvæma fóstureyðingu hafa því verið talin ganga því framar rétti foreldra/forsjáraðila til að ráða yfir  persónulegum högum þeirra, sbr. fyrrgreint lagaákvæði.

Hins vegar er mjög eðlilegt að foreldrar vilji fá að vera með í ráðum þegar ákvörðun um fóstureyðingu er tekin, enda bera foreldrar ábyrgð á velferð og líðan barna sinna og geta í flestum tilfellum gefið börnum sínum góð ráð og stuðning. Því fylgir mikið álag að láta framkvæma fóstureyðingu og það getur haft ýmiss konar afleiðingar, bæði líkamlegar og andlegar. Þeir sem ganga í gegn um þessa lífsreynslu þurfa á miklum stuðningi að halda frá sínum nánustu. Það er yfirleitt best að foreldrar setjist niður með stúlkunni (og drengnum þegar það á við) og ræði þetta. Foreldrunum ber að sjálfsögðu að hlusta á stúlkuna, taka réttmætt tillit til skoðana hennar og virða rétt hennar til að ráða yfir líkama sínum.

Fyrrnefnt ákvæði hefur almennt verið túlkað þannig að stúlkur undir 16 ára aldri þurfi samþykki foreldra sinna til að fara í fóstureyðingu. Í ljósi þess að börn eiga sjálfstæðan rétt til friðhelgi einkalífs og þeirrar ábyrgðar sem felst í því að eignast barn telur umboðsmaður barna þó óeðlilegt að foreldrar geti meinað stúlku undir 16 ára aldri að fara í fóstureyðingu. Telur umboðsmaður því rétt að túlka ákvæðið með hliðsjón af rétti barna til friðhelgi einkalífs þannig að það felur einungis í sér að foreldrar þurfi að vera upplýstir um umsókn stúlku undir 16 ára aldri um fóstureyðingu en að endanlegt ákvörðunarvald sé ávallt hjá stúlkunni sjálfri. Samkvæmt ákvæðinu þurfa foreldrar auk þess ekki að koma að slíkri umsókn ef sérstakar ástæður mæla gegn því. Geta heilbrigðisstarfsmenn því ákveðið að láta foreldra stúlku undir 16 ára aldri ekki vita um umsókn hennar um fóstureyðingu í ákveðnum tilvikum, til dæmis ef ástæða er til að ætla að vitneskja foreldra geti haft verulega skaðleg áhrif á velferð stúlkunnar.

5. Bólusetningar gegn HPV veiru

HPV eða Human Papiloma Virus er mjög útbreidd veira meðal ungs fólks. Veiran smitast við kynmök og því er nauðsynlegt að bólusetja áður en kynlíf hefst. HPV-bólusetning kemur í veg fyrir flestar forstigs­breytingar í leg­hálsi og minnkar þannig hættuna á að fá leg­háls­krabbamein.

Heilbrigðisyfirvöld hófu HPV-bólusetningu gegn leghálskrabbameini haustið 2011. HPV-bólusetning er nú hluti af almennum bólusetningum barna. Stúlkur í 7. bekk eru bólusettar þrisvar sinnum á 6 - 12 mánaða tímabili í skólanum eða á heilsugæslustöð. Til að fá bestu vörnina er mikilvægt að fá alla þrjá skammtana innan árs. Sjá nánar hér á vef landlæknis

6. Ábyrgð hinna fullorðnu

Hlutverk foreldra er að sjá til þess að börn þeirra fái fræðslu um kynþroska, kynlíf, heilbrigð samskipti, kynsjúkdóma og getnaðarvarnir frá ábyrgum aðilum. Foreldrar hafa auk þess mikilvægt  verndarhlutverk þegar kemur að samböndum og kynheilbrigði barna. Sem dæmi má nefna að það getur verið nauðsynlegt fyrir foreldra að grípa inn í þegar barn er í sambandi með einhverjum sem er miklu eldri eða stefnir velferð barns í hættu með öðrum hætti. Á sama tíma er mikilvægt að huga rétti barna til friðhelgi einkalífs og til að ráða líkama sínum sjálf.

Umboðsmaður barna vill einnig undirstrika ábyrgð fjölmiðla, aðila markaðarins og þeirra fyrirmynda sem börn og unglingar líta upp til. Nauðsynlegt er að samfélagið í heild hjálpist að við að bjóða unga fólkinu upp á góð uppeldisskilyrði þar sem hlúð er að siðferðisvitund og virðingu.

7. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

#FÁÐU_JÁ 
Fáðu já er 20 mínútna stuttmynd sem ætlað er að skýra mörkin á milli kynlífs og ofbeldis, vega upp á móti áhrifum klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum. Slóðin er www.faduja.is.

Tölum saman – Samskipti foreldra og barna um kynlíf
Bæklingar landlæknis og Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir. Smellið hér til að skoða bæklinginn sem ætlaður er foreldrum. Smellið hér til að skoða bæklinginn sem ætlaður er unglingum.

Skólahjúkrunarfræðingurinn
Grunnskólanemar geta leitað til skólahjúkrunarfræðings með spurningar um kynlíf, getnaðarvarnir eða kynsjúkdóma.

Heilsugæslan
Hægt er að fara á heilsugæslustöðina í hverfinu/bænum og ræða við hjúkrunarfræðing þar. Hér á vef landlæknis er hægt að leita að heilsugæslustöðvum um allt land og fá nánari upplýsingar um þær. 

6H.is
Vefur heilsugæslunnar http://www.6h.is en þar er að finna fróðleik um hamingju, hugrekki, hollustu, hreyfingu, hreinlæti, hvíld og kynheilbrigði.  Sjá t.d. umfjöllun um kynheilbrigði fyrir unglinga hér á 6H og fyrir foreldra hér á 6H.

Ástráður – Félag læknanema um forvarnir
Á heimasíðu félags læknanema um forvarnir, www.astradur.is, má finna upplýsingar um ýmislegt sem tengist kynlífi, kynsjúkdómum, þungunum, getnaðarvörnum og nauðgunum. Hægt er að senda læknanemunum tölvupóst í fullum trúnaði á netfangið leyndo@astradur.is.

Tótalráðgjöfin - Áttavitinn
Tótalráðgjöfin er ætluð ungu fólki sem vantar aðstoð og ráðgjöf fagfólks til að leysa úr alls kyns vandamálum. Hægt er að hringja í síma 520-4600, koma (í Hitt húsið, Pósthússtræti í Reykjavík) eða senda tölvupóst. Meðal þeirra sem standa að Tótalráðgjöfinni eru fræðslusamtök um kynlíf og barneignir sem hafa mikla reynslu í að ráðleggja ungu fólki og miðla til þess upplýsingum í tengslum við kynlíf og ýmislegt sem tengist því. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.attavitinn.is. 

Kvennasvið Landspítalans
Á kvennasviði Landspítala – háskólasjúkrahúss starfa félagsráðgjafar sem veita símaráðgjöf alla virka daga kl. 9:00-10:00. Félagsráðgjafarnir veita fræðslu, stuðning og ráðgjöf varðandi þunganir, fóstureyðingar, kvensjúkdóma og félagsleg réttindi. Hringja þarf í síma 543-1000 og biðja um samband við félagsráðgjafa Kvennadeildar. Á Kvennasviðinu veita hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og læknar einnig ráðgjöf um getnaðarvarnir.

Félagsþjónusta sveitarfélaganna
Á vegum sveitarfélaganna er veitt ýmiss konar félagsleg ráðgjöf (fjölskylduráðgjöf). Hér á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á viðkomandi sveitarfélag er hægt að komast inn á heimasíðu viðkomandi sveitarfélags.

Þjónustumiðstöðvarnar í Reykjavík
Á þjónustumiðstöðvunum er alhliða upplýsingamiðlun um þjónustu borgarinnar. Þar er veitt ýmiss konar félagsleg ráðgjöf. Nánar á www.reykjavik.is.

Landlæknir
Landlæknisembættið annast fræðslu til almennings um heilsueflingu, forvarnir og lýðheilsu. Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni: www.landlaeknir.is.

Göngudeild húð- og kynsjúkdóma
Göngudeild húð- og kynsjúkdóma er á Landspítalanum í Fossvogi. Síminn þar er 543-6050. Tímapantanir eru milli kl. 8:15-15:45 alla virka daga en hjúkrunarfræðingar veita líka ráðgjöf og fræðslu um húð- og kynsjúkdóma í síma.

Stattu með þér
Stattu með þér! er 20 mínútna stuttmynd ætluð nemendum á miðstigi grunnskóla. Myndinni er ætlað að spyrna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu með sjálfsvirðingu og jákvæðni að leiðarljósi. Nánar um myndina hér

Samtökin 78
Á heimasíðu Samtakanna 78, félags hinsegin fólks á Íslandi, er að finna ýmsar upplýsingar um málefni hinsegin fólks, t.d. um tví- og samkynhneigð. Ungliðahópur Samtakanna 78 er ætlaður hinsegin ungmennum á aldrinum 14-20 ára. Nánari upplýsingar um starf hópsins er að finna hér á vefsvæði ungliðahópsins.

Alnæmissamtökin á Íslandi
Alnæmissamtökin vinna að því að auka þekkingu og skilning á alnæmi og að styðja sjúka og aðstandendur þeirra. Skrifstofa félagsins er til húsa að Hverfisgötu 69, 101 Reykjavík og er hún opin frá kl. 12:00-16:00 mán.-fim. Síminn þar er 552-8586. Félagsráðgjafi er í húsinu til viðtals á miðvikudögum kl. 13:00-15:00. Heimasíða alnæmissamtakanna er www.hiv-island.is og tölvupóstfangið er hiv-island@hiv-island.is.

Doktor.is
Á heilsuvefnum doktor.is er að finna greinargóðar upplýsingar um ýmislegt sem tengist kynlífi, kynsjúkdómum og þungun og hægt er að senda fyrirspurnir til sérfræðinga.

Leiðin áfram
Á vefnum leidinafram.is er að finna fræðsluefni og myndbönd fyrir þá sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og aðstandendur þeirra. 


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.