Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Grunnskóli

Kaflar:

 1. Réttur til menntunar
 2. Helstu lög og reglur um grunnskóla
 3. Aðalnámskrá grunnskóla
 4. Hlutverk grunnskólans og markmið náms
 5. Yfirstjórn grunnskóla
 6. Ábyrgð sveitarfélaga
 7. Skólanefnd
 8. Skólanámskrá og starfsáætlun skóla
 9. Ábyrgð og skyldur starfsfólks
 10. Umsjónarkennari
 11. Náms- og starfsráðgjöf
 12. Nemendaverndarráð
 13. Skólaráð
 14. Ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra
 15. Foreldrasamstarf — foreldrafélag
 16. Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda
 17. Nemendafélag og áhrif nemenda
 18. Skólabragur
 19. Skólareglur og brot á þeim
 20. Einelti í skólum
 21. Forvarnir í skólum
 22. Skólaskylda og undanþágur
 23. Val á skóla
 24. Skólaganga barna í fóstri
 25. Kennslutími
 26. Frístundastarf og lengd viðvera (heilsdagsskóli)
 27. Jöfn tækifæri til náms
 28. Nemendur með sérþarfir
 29. Sérfræðiþjónusta og stoðkerfi
 30. Sérúrræði (sérdeildir) og sérskólar
 31. Heilsuvernd skólabarna
 32. Sjúkrakennsla
 33. Nemendur með annað móðurmál en íslensku
 34. Valgreinar, nám á framhaldsskólastigi og þátttaka í atvinnulífi
 35. Kostnaður í skyldunámi
 36. Vettvangsferðir
 37. Skólaakstur
 38. Matur
 39. Húsnæði, skólalóð og öryggi
 40. Námsmat
 41. Upplýsingar um barn
 42. Upplýsingaskylda skóla við forsjárlausa foreldra
 43. Meðferð trúnaðarupplýsinga
 44. Tilkynningarskylda til barnaverndaryfirvalda
 45. Túlkun upplýsinga til foreldra
 46. Lok grunnskóla
 47. Vinna með skóla
 48. Boðleiðir — ágreiningsmál
 49. Kæruheimild
 50. Kærustig innan sveitarfélags
 51. Stjórnsýslulög
 52. Mat og eftirlit
 53. Viðurkenning grunnskóla, samrekstur og þróunarskólar 

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til menntunar

Samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum, svo sem Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem í daglegu tali nefnist Barnasáttmálinn, hvílir meginábyrgðin á uppeldi og umönnun barna á herðum foreldra. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Þetta sameiginlega verkefni heimila og skóla kallar á náin tengsl, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til menntunar. Þar segir í 28. og 29. gr.:

28. gr.
1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum:
a) Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis.
b) Stuðla að þróun ýmiss konar framhaldsmenntunar, þar á meðal almennrar menntunar og starfsmenntunar, veita öllum börnum kost á að njóta hennar, og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga, svo sem með því að veita ókeypis menntun og bjóða fjárhagslega aðstoð þeim sem hennar þurfa með.
c) Veita öllum kost á æðri menntun eftir hæfileikum, með hverjum þeim ráðum sem við eiga.
d) Sjá til þess að upplýsingar og ráðgjöf um nám og starfsval séu fyrir hendi og aðgengilegar öllum börnum.
e) Gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi.
2. Aðildarríki skulu gera allt það sem við á til að tryggja að námsaga sé haldið uppi með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og í samræmi við samning þennan.
3. Aðildarríki skulu stuðla að og hvetja til alþjóðasamvinnu um menntamál, einkum í því skyni að leggja fram skerf til útrýmingar á vanþekkingu og ólæsi hvarvetna í heiminum, og greiða fyrir aðgangi að vísinda- og tækniþekkingu og nútímakennsluaðferðum. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarríkja.

29. gr.
1. Aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli beinast að því að:
a) Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess.
b) Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða.
c) Móta með því virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs.
d) Undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa, og fólks af frumbyggjaættum.
e) Að móta með því virðingu fyrir náttúrulegu umhverfi mannsins.
2. Eigi skal líta svo á að í grein þessari eða í 28. gr. sé fólgin nein íhlutun í rétt manna og hópa til að koma á fót og stjórna menntastofnunum, enda sé ávallt gætt þeirra meginreglna, sem fram koma í 1. tölul. þessarar greinar, og lágmarkskrafna sem ríkisvaldið kann að gera til menntunar sem slíkar stofnanir veita.

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnum. Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 en lögfesti hann árið 2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

2. Helstu lög og reglur um grunnskóla

Lög um grunnskóla nr. 91/2008 gilda um starfsemi grunnskóla og eru þau í rauninni grundvöllur skólastarfs í grunnskólum. Lögin taka til grunnskóla á vegum sveitarfélaga, til sjálfstætt rekinna grunnskóla sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt lögunum og til viðurkennds náms á grunnskólastigi, s.s. heimakennslu, fjarkennslu eða dreifnáms. Þegar frumvarpið var lagt fyrir Alþingi fylgdu með því athugasemdum við einstakar greinar. Þær athugasemdir geta verið gagnlegar við að skýra betur ákvæðin.

Ýmsar reglugerðir hafa verið settar með heimild í grunnskólalögum og fjalla þær um afmarkaðri viðfangsefni grunnskólans. Á vefsvæðinu www.reglugerd.is er hægt að nálgast allar reglugerðir en hér til hliðar má sjá þær reglugerðir sem sérstaklega tengjast grunnskólum.

3. Aðalnámskrá grunnskóla

Aðalnámskrá grunnskóla, sem gefin er út af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, kveður nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan. Í 24. gr. grunnskólalaga eru talin upp atriði sem skal leggja áherslu á í aðalnámskrá. Aðalnámskrá er sett af mennta- og menningarmálaráðherra með sama hætti og reglugerðir og gegnir margvíslegu hlutverki. Hún er allt í senn stjórntæki til að fylgja eftir ákvæðum laga, fyrirmæli fræðsluyfirvalda um skólastefnu og safn sameiginlegra markmiða skólastarfs í landinu. Aðalnámskrá er ætlað að samræma nám og kennslu að því marki sem þörf er talin á og tryggja rétt allra nemenda til tiltekinnar lágmarksmenntunar og jafnrétti til náms. Í fyrsta kafla aðalnámskrár - almennum hluta (2011) er fjallað um hlutverk hennar. Hér er hægt að nálgast aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011.

4. Hlutverk grunnskólans og markmið náms

Hlutverk grunnskólans er skilgreint í 2. gr. grunnskólalaga:

Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. 

Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra. 

Grunnskóli skal stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda.

Samkvæmt 25. gr. grunnskólalaga skal í aðalnámskrá kveðið á um meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina í grunnskóla. Í greininni segir einnig m.a. að í aðalnámskrá skuli skilgreina þekkingar- og hæfniþætti á hverju námssviði. Nemendur skulu eiga þess kost að uppfylla námsmarkmið einstakra námsgreina og námssviða með mismunandi hætti.

Við skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái jöfn tækifæri til náms og eigi þess kost að velja sér viðfangsefni og nálgun í námi. Þetta segir í 24. gr. grunnskólalaga sem fjallar um aðalnámskrá. Þar segir einnig að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti. Í öllu skólastarfi skal stuðla að heilbrigðum lífsháttum og taka mið af persónugerð, þroska, hæfileikum, getu og áhugasviðum hvers og eins.

Í aðalnámskrá - almennum hluta (2011) segir í kafla 7.4:

Skólinn á að vera griðastaður barna þar sem þau finna til öryggis, fá tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína og njóta bernsku sinnar.

5. Yfirstjórn grunnskóla

Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem grunnskólalög taka til, setur aðalnámskrá, leggur til námsgögn, hefur eftirlit með gæðum skólastarfs, annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga, styður þróunarstarf í skólum og hefur úrskurðarvald í ákveðnum ágreiningsmálum. Ráðuneyti hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem grunnskólalög, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Þetta segir í 4. gr. grunnskólalaga. 

6. Ábyrgð sveitarfélaga

Rekstur grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaganna skv. 5. gr. grunnskólalaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Sveitarfélög setja almenna stefnu um grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess. Sveitarstjórn skal koma á samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar. Sveitarfélög bera ábyrgð á samstarfi skóla við aðila utan hans.

Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn skv. 3. gr., sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar.

Í aðalnámskrá - almennum hluta (2011) segir:

Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt. Samkvæmt lögum eiga allir nemendur rétt á námi við hæfi í grunnskólum, bæði bóklegu námi, verk- og listnámi og sveitarfélögum er skylt að sjá nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um öll börn, fötluð og ófötluð, langveik, afburðagreind og börn með þroskaröskun, börn úr afskekktum byggðarlögum og börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu.
...
Skýr ábyrgð, réttindi og skyldur barna og foreldra stuðla að aukinni velferð nemenda. Því ber að leggja áherslu á þátttöku foreldra í skólastarfi og góð tengsl þeirra við stjórn skóla, kennara og skólasamfélagið. Auknum réttindum foreldra fylgir aukin ábyrgð sem gerist með virkri þátttöku foreldra og vönduðu ferli við val á fulltrúum í skólaráð ásamt virku flæði upplýsinga og samráði þeirra við aðra foreldra.

Skólaskrifstofur starfa og hafa verksvið samkvæmt ákvörðun þeirra sveitarfélaga, sem eiga aðild að þeim. Hér er listi yfir skólaskrifstofur.

7. Skólanefnd

Hlutverk skólanefnda í sveitarfélögunum er skilgreint í 6. gr. grunnskólalaga:

Í hverju sveitarfélagi skal í umboði sveitarstjórnar vera skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni.
Meginhlutverk skólanefndar er sem hér segir:
a. að sjá til þess að öll skólaskyld börn sem rétt eiga á skólavist í sveitarfélaginu njóti lögboðinnar fræðslu,
b. að staðfesta starfsáætlun skóla ár hvert og skólanámskrá einstakra skóla,
c. að fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í sveitarfélaginu og gerð skólanámskrár og gera tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi,
d. að fylgjast með og stuðla að því að nemendum og skólum sé tryggður aðgangur að sérfræðiþjónustu,
e. að sjá til þess að jafnan sé fyrir hendi viðeigandi húsnæði fyrir kennslu og annar aðbúnaður, þ.m.t. útivistar- og leiksvæði nemenda,
f. að hafa eftirlit með að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt og gera tillögur til sveitarstjórnar um úrbætur,
g. að stuðla að tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar.
Skólanefnd skal kosin af hlutaðeigandi sveitarstjórn í upphafi hvers kjörtímabils. Um kosningu í skólanefnd og starfshætti fer samkvæmt sveitarstjórnarlögum og samþykktum viðkomandi sveitarfélags. Varamenn í skólanefndum skulu vera jafnmargir aðalmönnum og kosnir á sama hátt.
Skólastjórar, grunnskólakennarar og foreldrar í sveitarfélagi kjósa hver úr sínum hópi aðal- og varamann til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétt.
Þegar skólanefnd fær til meðferðar kærumál samkvæmt ákvæðum laga þessara gilda um meðferð kærumálsins reglur stjórnsýslulaga. Um sérstakt hæfi nefndarmanna og annarra fulltrúa sem rétt hafa til að sitja fundi nefndarinnar gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga.

8. Skólanámskrá og starfsáætlun skóla

Hver skóli skal birta stefnu sína með tvennum hætti. Annars vegar er almenn stefnumörkun birt í skólanámskrá og hins vegar eru upplýsingar, sem eru breytilegar frá ári til árs, birtar í árlegri starfsáætlun. Samkvæmt 29. grunnskólalaga skal árlega gefa út skólanámskrá í hverjum skóla og er skólastjóri ábyrgur fyrir því að hún sé unnin, gefin út og kynnt. Skólanámskrá er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu grunnskóla og aðstæðum og skal endurskoða reglulega. Skólaráð í hverjum grunnskóla á að fjalla um skólanámskrá skólans en skólanefnd sveitarfélagsins á að staðfesta hana.

Í 12. kafla aðalnámskrár - almennum hluta (2011) er fjallað um skólanámskrár og starfsáætlanir skóla og hvað þær skulu innihalda.

9. Ábyrgð og skyldur starfsfólks

Um skólastjóra er fjallað um í 7. gr. grunnskólalaga. Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Skólastjóri stuðlar að samstarfi allra aðila skólasamfélagsins. Skólastjóri boðar til kennarafunda svo oft sem þurfa þykir á starfstíma grunnskóla. Kennarafundi skulu sækja kennarar og aðrir sérfræðingar skólans. Skólastjóri boðar til starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir. Skólastjóri ábyrgur fyrir því að skólanámskrá sé unnin, gefin út og kynnt.

Nemendur í vanda eiga að geta leitað til hvaða starfsmanns grunnskóla sem er í fullum trúnaði og vissu um aðstoð. Starfsmönnum ber þá að finna vandamálunum réttan farveg til lausnar eftir eðli máls hverju sinni. Starfsfólk grunnskóla skal, skv. 12. gr. grunnskólalaga, rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Það skal gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki. Starfsfólk grunnskóla skal gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna og foreldra þeirra, sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum. Þagnarskylda starfsfólks grunnskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Skal skólastjóri brýna skyldur þessar fyrir starfsfólki og sérstaklega tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum. Til eru sérstakar verklagsreglur um tilkynningarskyldu starfsfólks leik- grunn og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda. Sjá nánari umfjöllun í kaflanum tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda neðar á síðunni.

Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 segir í 3. gr.:

Starfsfólk skóla skal ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar. Starfsfólki ber að stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu skólastarfi og góðri umgengni.
Starfsfólk skal sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsfólki og gæta þagmælsku, nema þegar um er að ræða tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarlögum. Stjórnendum skóla ber að vinna markvisst að því að stuðla að jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti allra í skólanum og í þeirri vinnu skal taka sérstaklega mið af aldri og þroska nemenda. Ef mál koma upp í skólanum sem tengjast óæskilegri hegðun og framkomu nemenda skal fara með slík mál skv. 6. kafla reglugerðar þessarar.
Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Umsjónarkennarar skulu upplýsa foreldra reglulega um skólabrag og bekkjarbrag og leita eftir uppbyggjandi samstarfi við foreldrahópinn um hvorutveggja. Starfsfólki skóla ber að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi í skólanum. Ef slík tilvik koma upp skal bregðast við þeim samkvæmt stefnu skólans, sbr. 3. kafla reglugerðar þessarar.
Skólastjórnendum og kennurum ber að upplýsa foreldra ef ítrekað er fundið að hegðun eða framkomu nemanda í öllu starfi á vegum skóla, þ. á m. í útiveru á skólatíma og í ferðum utan skólalóðar á vegum skólans.

Um fagmennsku kennara er fjallað í kafla 1.3 í aðalnámskrá - almennum hluta (2011). Þar segir m.a.:

Kennarar gegna lykilhlutverki í öllu skólastarfi. Kennarastéttin spannar mörg hlutverk í skólakerfinu, s.s. kennslu, stjórnun, uppeldi, ráðgjöf, rannsóknir og þróunarstörf. Þannig teljast t.d. skólastjórnendur, sérkennarar og námsráðgjafar til kennarastéttarinnar. Gæði menntunar og árangur skólakerfisins byggist fyrst og síðast á vel menntaðri og áhugasamri fagstétt kennara á öllum skólastigum.
Fagmennska kennara byggist á sérfræðilegri starfsmenntun, þekkingu, viðhorfum og siðferði starfsins. Fagmennska kennara snýst um nemendur, menntun þeirra og velferð. Markviss samskipti og góð kennsla stuðlar að námi og aukinni hæfni barna og ungmenna. Á kennurum hvílir ekki aðeins sú skylda að miðla þekkingu til nemenda heldur einnig að veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni, örva starfsgleði þeirra og efla frjóa hugsun. Kennarar leiðbeina börnum og ungmennum í námi og mati á því og vinna að því að þeir tileinki sér heilbrigða lífshætti. Þeir leitast við að skapa góðan skólabrag, réttlátar vinnureglur og hvetjandi námsumhverfi.

Sjá nánari upplýsingar um starfsfólk grunnskóla í 7., 11. og 12. gr. grunnskólalaga og í lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008. Sjá einnig Siðareglur kennara á vef Kennarasambands Íslands, reglugerð um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara og reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, nr. 872/2009.

10. Umsjónarkennari

Umsjónarkennarar hafa veigamiklu hlutverki að gegna skv. 2. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla, sem fjallar um rétt nemenda:

Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.

Umsjónarkennarar geta líka vísað nemendum sínum til fagfólks innan skólans, s.s. hjúkrunarfræðings eða námsráðgjafa. Um hlutverk umsjónarkennara segir í aðalnámskrá — almennum hluta 2011 (kafli 7.5):

Umsjónarkennari tekur öðrum starfsmönnum fremur ábyrgð á námi nemenda sinna, þroska þeirra, líðan og velferð. Umsjónarkennari leggur sig fram um að kynnast nemendum sínum sem best, foreldrum þeirra og aðstæðum. Hann vinnur náið með þeim kennurum sem kenna nemendum í hans umsjá, safnar saman upplýsingum og kemur þeim áleiðis innan skóla og til foreldra í þeim tilgangi að gera foreldrum kleift að taka þátt í ákvörðunum sem varða barn þeirra og skólastarfið. Umsjónarkennari gegnir lykilhlutverki í farsælu samstarfi heimila og skóla og er megintengiliður milli skóla og heimila.

11. Náms- og starfsráðgjöf

Í 3. mgr. 13. gr. grunnskólalaga, sem fjallar um rétt nemenda, segir að nemendur eigi rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa. Það er mismunandi hvernig fyrirkomulag náms- og starfsráðgjafar er. Í flestum skólum starfa náms- og starfsráðgjafar en minni skólar sækja þessa þjónustu á skrifstofur sveitarfélagsins. Sumir skólar eru líka með skólafélagsráðgjafa eða sálfræðing en í flestum tilvikum sækja skólarnir þjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa til skólaskrifstofu sveitarfélagsins.

Þessir sérfræðingar geta hjálpað og ráðlagt nemendum sem eiga í alls kyns erfiðleikum í skólanum, heima hjá sér eða í sambandi við vini sína. Dæmigerð mál sem námsráðgjafi vinnur að með nemendum eru t.d. námsörðugleikar, fötlun, geðraskanir eða hegðunarraskanir. Einnig hjálpar hann nemendum að takast á við vanlíðan, erfiðleika á heimilinu og félagslega erfiðleika. Námsráðgjafinn vinnur þá oft í samstarfi við aðra starfsmenn skólans, eins og t.d. sérkennsluráðgjafa, stuðningsfulltrúa og umsjónarkennara eða starfsfólk sveitarfélagsins, s.s. sálfræðing eða barnaverndarstarfsmenn.

Fjallað er um hlutverk náms- og starfsráðgjafar í grunnskólum í aðalnámskrá — almennum hluta 2011 (kafli 7.11):

Náms- og starfsráðgjöf er lögbundin hluti af sérfræðiþjónustu skóla. Náms- og starfsráðgjöf í grunnskóla felst í því að vinna með nemendum, foreldrum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skólans að ýmiss konar velferðarstarfi er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum nemenda. Náms- og starfsráðgjöf felst í því að liðsinna nemendum við að finna hæfileikum sínum, áhugasviðum og kröftum farveg. Mikilvægt er að nemendur fái aðstoð við að leita lausna ef vandi steðjar að í námi þeirra eða starfi í skólanum. Náms- og starfsráðgjafar geta aðstoðað nemendur við að vinna úr upplýsingum um nám sitt og leiðbeint þeim við áframhaldandi nám og starf. Jafnrétti ber að hafa að leiðarljósi í náms- og starfsfræðslu með því að kynna piltum og stúlkum fjölbreytt námsframboð að loknum grunnskóla og störf af ýmsu tagi. Leitast skal við að kynna báðum kynjum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla eða kvennastörf. Nauðsynlegt er að kynna fyrir nemendum ný störf og þróun starfa sem fylgja breytingum í nútímasamfélagi.

12. Nemendaverndarráð

Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur. Í 4. mgr. 40. gr. laga um grunnskóla segir:

Skólastjóri skal samræma innan hvers skóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, námsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs. Jafnframt skal stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eftir því sem þurfa þykir. Heimilt er, með rökstuddri greinargerð, að sækja um tímabundna undanþágu frá einstökum ákvæðum í reglugerð um nemendaverndarráð til ráðuneytis. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir veitingu undanþágu, svo sem fámenni eða sérstaða.

Í V. kafla reglugerðar nr. 584/2012 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum eru ákvæði um nemendaverndarráð:

V. KAFLI
Starfsemi nemendaverndarráða grunnskóla.
16. gr. Samræmingarhlutverk skólastjóra grunnskóla.
Skólastjóri grunnskóla skal samræma innan hvers grunnskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, náms- og starfsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs skv. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.
Jafnframt skal skólastjóri grunnskóla stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eða nemendahópa eftir því sem þurfa þykir.

17. gr. Hlutverk nemendaverndarráðs.
Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs.

18. gr. Skipan nemendaverndarráðs.
Skólastjóri skipar nemendaverndarráð til eins árs í senn og er ábyrgur fyrir starfrækslu ráðsins sem skal taka mið af aðstæðum í hverjum skóla. Skólastjóri eða fulltrúi hans stýrir starfi nemendaverndarráðs.
Í nemendaverndarráði grunnskóla eiga sæti skólastjóri og/eða fulltrúi sem hann tilnefnir, umsjónaraðili kennslu nemenda með sérþarfir, fulltrúi skólaheilsugæslu, fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags og náms- og starfsráðgjafi. Einnig geta fulltrúar frá félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöldum tekið þátt í starfi nemendaverndarráðs þegar tilefni er til.

19. gr.
Vísun mála til nemendaverndarráðs.
Fái nemandi ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til nemendaverndarráðs.
Fulltrúar í nemendaverndarráði geta haft frumkvæði að því að mál einstakra nemenda séu tekin upp í ráðinu.
Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.
Að jafnaði skal upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sé formlega vísað til skólastjóra eða nemendaverndarráðs og leita eftir samstarfi við foreldra um lausn mála eftir því sem framast er kostur.
Nemendaverndarráð skal taka fyrir málefni sem vísað er til ráðsins eins fljótt og auðið er.

20. gr. Starfshættir nemendaverndarráðs.
Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, umbætur eða aðgerðir getur skólastjóri falið aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.
Fara skal með persónuupplýsingar í samræmi við fyrirmæli um þagnarskyldu og gildandi lög um persónuvernd. Þeir sem sitja í nemendaverndarráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem þeir fá vitneskju um og leynt eiga að fara. Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum.
Nemendaverndarráð setur sér starfs- og verklagsreglur þar sem m.a. er kveðið á um tíðni funda ráðsins. Halda skal fund í nemendaverndarráði ef a.m.k. tveir fulltrúar í ráðinu óska þess. Fundir skulu færðir til bókar.

13. Skólaráð

Skylt er að starfrækja skólaráð við hvern grunnskóla og hefur það mikilvægu hlutverki að gegna sem samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélagsins um skólahald. Skólastjóri ber ábyrgð á stofnun skólaráðs og stýrir starfi þess sem skilgreint er í 8. gr. grunnskólalaga. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólanefnd getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 1157/2008 um skólaráð við grunnskóla er fjallað nánar um verkefni skólaráðs:

Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans í samræmi við stefnu sveitarfélags um skólahald.

Skólaráð:
fjallar um skólanámskrá, rekstraráætlun, starfsáætlun og aðrar áætlanir um skóla­starfið,
fjallar um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla og gefur umsögn áður en endanlegar ákvarðanir um þær eru teknar,
tekur þátt í að móta stefnu og sérkenni skóla og tengsl hans við grenndar­samfélagið,
fylgist með öryggi, húsnæði, aðstöðu, aðbúnaði og almennri velferð nemenda,
fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum,
fjallar um erindi frá skólanefnd sveitarfélags, foreldrafélagi, kennarafundi, al­menn­um starfsmannafundi, nemendafélagi, einstaklingum, mennta­mála­ráðuneyti, öðrum aðilum varðandi málefni sem talin eru upp í þessari málsgrein og veitir umsögn sé þess óskað,
tekur þátt í öðrum verkefnum á vegum skólanefndar að fengnu samþykki sveitar­stjórnar.

Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla.

Í 3. gr. sömu reglugerðar er að finna ákvæði um skipun skólaráðs.

Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn. Í skólaráði skulu eiga sæti
- skólastjóri,
- tveir fulltrúar kennara, sem kosnir eru á kennarafundi,
- einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, sem kosinn skal á starfsmannafundi,
- tveir fulltrúar nemenda, sem skulu kosnir samkvæmt starfsreglum nemendafélags,
- tveir fulltrúar foreldra, sem skulu kosnir samkvæmt starfsreglum foreldrafélags,
- einn fulltrúi grenndarsamfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra, sem skal valinn úr hópi foreldra af skólaráði sjálfu.

Heimilt er, samkvæmt 2. mgr. 8. gr. grunnskólalaga, að sækja tímabundið um undanþágu frá skipun skólaráðs með þeim hætti sem er gerð grein fyrir í 2. mgr. 8. gr. grunnskólalaga með rökstuddri greinargerð. Í greinargerð þarf að koma fram með hvaða hætti verkefnum skólaráðs verði sinnt. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir veitingu undanþágu, svo sem fámenni eða sérstaða.

Skólastjóri skal boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags a.m.k. einu sinni á ári. Ráðherra setur reglugerð um starfsemi skólaráða í samráði við samtök sveitarfélaga, kennara og foreldra.

Nánar er fjallað um skólaráð í reglugerð nr. 1157/2008 um skólaráð við grunnskóla.

14. Ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra

Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi og menntun barna sinna og eiga að gæta hagsmuna þeirra. Áhrif foreldra vega hvað þyngst þegar litið er á mótun, viðhorf, vellíðan, hegðun og árangur nemenda. Samkvæmt 3. gr. grunnskólalaga er hugtakið foreldrar skilgreint þannig að þeir teljast foreldrar sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Í V. kafla grunnskólalaga er fjallað um foreldra. Í 3. mgr. 18 gr. segir:

Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Þeir skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt.

Með þessu eru settar þær skyldur á foreldra að börnin sinni t.d. því heimanámi sem skólinn ákveður og að frístundastarf og annað starf utan skóla komi ekki niður á námi barnanna. Í 19. gr. segir um ábyrgð foreldra:

Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið. Skólastjóri skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. 
Í úrskurði getur ráðuneyti lagt fyrir sveitarfélag að tryggja nemanda tiltekin kennsluúrræði, þ.m.t. að veita honum aðgang að tilteknum skóla innan sveitarfélagsins.

Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 er nánar kveðið á um ábyrgð foreldra í 5. gr.:

Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla.
Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Þannig bera foreldrar einnig ásamt börnum sínum ábyrgð á hegðun þeirra og framkomu gagnvart samnemendum og starfsfólki skóla og eiga að bregðast við afleiðingum hegðunar barna sinna í skóla.
Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna og ber að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Þeim ber að fylgjast með námsframvindu í samvinnu við þau og kennara. Foreldrar skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna, sem og í skólastarfinu almennt í samráði við umsjónarkennara og skólastjórnendur.
Foreldrum ber að greina skólanum frá þeim þáttum sem kunna að hafa áhrif á námsframvindu, ástundun og hegðun, s.s. um vanlíðan barna sinna og áföll sem gætu haft áhrif á skólagönguna, sem og þegar breytingar verða á högum þeirra og aðstæðum.
Foreldrum er skylt að vinna að lausn mála í samstarfi við skóla, sérfræðiþjónustu og fræðslu-yfirvöld sveitarfélaga þegar misbrestur verður á hegðun og framkomu barna þeirra.
Foreldrum ber ásamt barni að taka þátt í meðferð máls, en telji foreldrar eða stjórnendur skóla að ekki ríki trúnaður eða traust í tengslum við umfjöllun um mál barns er æskilegt að leita aðstoðar óvilhalls aðila.

Þá má ætla að skyldur foreldra séu fleiri en þær sem beinlínis er fjallað um í lögunum. Í þessu sambandi má nefna mikilvægi þess að regla sé á lífi barna og að foreldrar gæti þess að börn þeirra fái nægan svefn, hafi reglu á máltíðum og heimanámi, hreyfi sig nóg, séu klædd í samræmi við veður og að skólanesti sé hollt. Þetta eru allt atriði sem stuðla að því að nám í grunnskóla komi börnunum að sem bestum notum. Börn sem eru að hefja skólagöngu í grunnskóla þurfa einnig að vera að búin að tileinka sér færni í að leysa sjálf ýmis dagleg viðfangsefni án aðstoðar, s.s. að borða, fara í sturtu og klæða sig, fara á salerni og kunna á klukku. Þá má nefna mikilvægi þess að foreldrar ræði við börn sín um skólareglur grunnskólans og hjálpi þeim almennt að njóta sín í skólanum. Sjá einnig kafla um upplýsingar um barn og meðferð trúnaðarupplýsinga.

Umboðsmaður mælir með því að foreldrar kynni sér 14. kaflann í aðalnámskrá - almennum hluta 2011 en hann fjallar um tengsl heimila og skóla.

15. Foreldrasamstarf — foreldrafélag

Foreldrar bera höfuðábyrgð á börnum sínum og þótt skólinn ásamt fjölskyldunni sé mikilvægasti mótunaraðili barnsins getur hann aldrei tekið á sig að fullu uppeldisstarf foreldra og fjölskyldna. Foreldrar eru ásamt nemendum stærsti hagsmunahópur sem skólakerfið þjónar og er því rétt og eðlilegt að þeir hafi áhrif á það mikilvæga starf sem fram fer í skólum.

Samkvæmt 2. gr. grunnskólalaga um markmið skólastarfs skal grunnskólinn stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiðið að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda.

Stofnun og starfsemi foreldrafélaga er lögbundin skv. 9. gr. grunnskólalaga. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun foreldrafélags og að það fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Enn fremur er foreldrafélagið bakhjarl fulltrúa foreldra í skólaráði. Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð. Víða eru starfandi sérstakir bekkjarfulltrúar foreldra sem hafa það hlutverk að leiða samstarfið í hverjum árgangi, bekkjardeild eða námshópi. Saman mynda bekkjarfulltrúar foreldra víða fulltrúaráð í skólum og slíkt fyrirkomulag er æskilegt, m.a. til að samræma starfið og gera það skilvirkara, og það er einnig kjörið til að tryggja að fulltrúar foreldra í skólaráði hafi traust bakland.

Heimili og skóli - landssamtök foreldra, eru frjálst félagasamtök sem veita foreldrum og foreldrasamtökum ráðgjöf, gefa út tímarit og ýmiss konar efni um foreldrastarf. Starfsmenn Heimilis og skóla veita ráðgjöf í síma 516-0100, sjá nánar á www.heimiliogskoli.is.

16. Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda

Í 13. gr. grunnskólalaga eru helstu réttindi nemenda tekin saman og skilgreind:

Grunnskóli er vinnustaður nemenda. Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan.
Grunnskóli skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Þess skal gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs, svo sem með samfelldu jóla- og páskaleyfi. Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er. 
Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.
Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af til þess bærum sérfræðingum.

Réttindum fylgja skyldur og ábyrgð fylgir hvoru tveggja. Mikilvægt er að nemendur hafi ekki einungis skyldur gagnvart eigin námi heldur einnig allri framkomu sinni og hegðun í skóla. Þetta á við um ýmsa þætti í umgengni við félaga, starfsfólk og fjölmarga aðra sem þeir umgangast innan skóla sem utan. Í aðalnámskrá er fjallað um ábyrgð nemenda á eigin námi og framkomu sinni og samskiptum í 13. kafla.

Í 4. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 segir:

Nemendur skulu sækja grunnskóla nema veikindi eða önnur forföll hamli.
Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkin og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun með hliðsjón af aldri og þroska þeirra.
Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig ef fundið er að hegðun hans vegna brota á skólareglum.

17. Nemendafélag og áhrif nemenda

Í 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Þá má nefna að í 13. gr. sáttmálans segir að börn eigi rétt á að tjá sig, fá upplýsingar og koma þeim á framfæri.

Í aðalnámskrá - almennum hluta 2011 segir að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði. Með virkri starfsemi nemendafélags fá nemendur tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku í hagsmunamálum sínum og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum. Fulltrúar nemenda í skólaráði geta borið upp erindi um hagsmunamál nemenda við skólaráð og haft þannig áhrif á starfið í skólanum. Í 10. gr. laga um grunnskóla er fjallað um nemendafélög (sem í fyrri lögum grunnskóla voru nefnd nemendaráð):

Við grunnskóla skal starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum.
Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð skv. 2. mgr. 8. gr.

Í athugasemd um þessa grein segir í frumvarpinu að eðlilegt sé að hver skóli þrói skipan mála eftir því sem hentar í skólanum með nemendalýðræði og þátttökulýðræði að leiðarljósi. Ekki er sérstaklega bundið í lögum að stjórn skuli skipuð fulltrúum úr öllum árgöngum skólans en eðlilegt er að fulltrúar allra árganga geti tekið þátt í starfi félagsins eftir því sem þroski nemenda leyfir.

Nemendafélag er þó ekki eini vettvangur nemenda til að koma hugmyndum sínum um betri skóla á framfæri. Í kafla 7.4 í aðalnámskrá - almennum hluta (2011) segir:

Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eftir föngum. Nemendur eiga að geta komið á framfæri sjónarmiðum sínum í öllu almennu skólastarfi, t.d. með reglulegum umræðum í kennslustundum undir stjórn umsjónarkennara þegar tilefni gefast til. Einnig eiga nemendur að geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri í gegnum fulltrúa sína í stjórn nemendafélags og skólaráði.

18. Skólabragur

30. gr. grunnskólalaga hefur fyrirsögnina Skólabragur:

Öllum aðilum skólasamfélagsins ber að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag.
Skólastjórum og kennurum ber að eiga samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Foreldrum ber með sama hætti að eiga samráð við skólann um skólagöngu barna sinna. Sama á við um aðra forsjáraðila barna í viðkomandi skóla.
Grunnskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun. Áætlun skal m.a. framfylgt með því að hver skóli setji sér skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Þá skal í skólareglum koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.
...

Í 6. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 er fjallað um skólabrag og starfsanda í skólum:

Í grunnskólum skal skilgreina í hverju jákvæður skólabragur felist og móta leiðir til að viðhalda honum.
Starfsfólk grunnskóla, nemendur og foreldrar skulu í sameiningu leggja áherslu á að viðhalda góðum starfsanda í skólanum og jákvæðum skólabrag.
Mikilvægt er að í grunnskólum sé fjallað um mál sem kunna að hafa áhrif á skólabrag, þ.m.t. mál sem koma upp utan skólatíma og í rafrænum samskiptum.
Mat á skólabrag skal tengjast öðru innra mati skólans.
Nánar er fjallað um skólabrag í aðalnámskrá grunnskóla.

19. Skólareglur og brot á þeim

Skólabragur og reglur um umgengni eru veigamikill þáttur í umgjörð skólastarfs. Lögbundið er að setja skólareglur í hverjum grunnskóla skv. 30. gr. grunnskólalaga. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Í reglunum skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð skólareglna og kynningu þeirra og skulu þær unnar í samráði við skólaráð og fulltrúa nemenda í skólaráði.

Í athugasemd sem fylgdi 30. gr. í frumvarpinu segir m.a. um gerð skólareglna:

Skólaráð skal koma að samningu skólareglna og skulu fulltrúar nemenda einnig taka þátt í gerð þeirra. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð skólareglna og hann hefur síðasta orðið um orðalag skólareglna ef ágreiningur er fyrir hendi. Mikilvægt er að allir aðilar skólasamfélagsins kosti kapps um að starfsandi sé sem bestur í skólum og vinnufriður til að tími nemenda nýtist sem best til náms og stuðlað sé að almennri velferð nemenda í öllu starfi á vegum skólans og öryggi.

Eitt af grundvallarréttindum nemenda er að þeir hafi vinnufrið í skólanum svo að þeir geti náð sem bestum tökum á náminu og að kennslan nýtist þeim sem best. Því þarf að leggja mikla áherslu á að skapa góðan vinnuanda í hverjum skóla og í einstökum bekkjardeildum. Í 14. gr. grunnskólalaga er fjallað um ábyrgð nemenda, hegðunarbrot og afleiðingar þeirra:

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska.
Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. 
Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda.
Meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólanefnd er skylt innan hæfilegs tíma að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði.
Ákvörðun skv. 4. mgr. er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Hafi sveitarfélag ekki séð nemanda fyrir kennslu getur ráðuneytið í úrskurði sínum lagt fyrir sveitarfélag að tryggja nemanda nánar tiltekin kennsluúrræði innan tilskilins tíma.
Ráðherra mælir nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð.

Reglulega koma upp álitamál hvernig rétt sé að bregðast við nemendum sem eru með síma í kennslustundum. Skólar eða einstaka kennarar geta að sjálfsögðu ákveðið að óheimilt sé að vera með ákveðna muni í kennslustundum, svo sem síma. Ef nemandi virðir ekki skólareglur eða fer ekki eftir fyrirmælum kennara er heimilt að bregðast við í samræmi við skólareglur. Þannig gæti kennari til dæmis byrjað á því að bjóðast til að geyma símann fyrir nemanda á meðan kennslustund stendur. Ef nemandi vill ekki afhenda símann er hægt að áminna hann en ef það dugar ekki til er hægt að vísa honum úr kennslustund eða senda hann til skólastjóra. Þegar brugðist er við broti nemanda þarf alltaf að gæta meðalhófs, en það þýðir meðal annars að velja verður vægasta úrræðið sem kemur til greina. Börn njóta eignarréttar eins og aðrir. Hvorki í lögum um grunnskóla né reglugerðum er að finna heimildir grunnskóla til að taka eignir af nemendum. Það þýðir að kennurum eða öðrum er almennt óheimilt að taka eignir nemenda, nema um sé að ræða muni sem geta stefnt þeim sjálfum eða öðrum í hættu.

Hér er hægt að lesa álit umboðsmanns barna um reglur um snjallsíma í skólum.  

Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 er fjallað um skólareglur og brot á þeim í IV., V. og VI. kafla sem eru birtir hér í heild:

IV. KAFLI
Skólareglur og hlutverk þeirra.
8. gr.
Gerð skólareglna og innleiðing.
Í hverjum grunnskóla skal setja skólareglur sem skylt er að fara eftir.
Skólastjóri hefur forgöngu um og ber ábyrgð á að skólareglur séu settar og þeim fylgt. Reglurnar skulu unnar í samvinnu við skólaráð. Leitast skal við að ná sem víðtækastri sátt um þær í skólanum. Skólastjóri hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um orðalag skólareglna ef ágreiningur kemur upp, að teknu tilliti til umsagnar fræðsluyfirvalda í sveitarfélaginu.
Ár hvert skulu skólareglurnar kynntar nemendum og foreldrum þeirra og birtar í starfsáætlun.
Umsjónarkennarar skulu fjalla um skólareglurnar, þýðingu þeirra og hlutverk með nemendum sínum eins oft og þurfa þykir.
Skólareglur skal endurskoða reglulega.

9. gr.
Inntak skólareglna.
Skólareglur skulu vera skýrar og afdráttarlausar, í samræmi við grunnskólalög og aðalnámskrá grunnskóla og í samræmi við réttindi barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Við samningu skólareglna skal hafa markmið og efni þessarar reglugerðar að leiðarljósi svo og ákvæði stjórnsýslulaga.
Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, háttsemi, stundvísi, ástundun náms, hollustu og heilbrigðar lífsvenjur, ábyrgð, réttindi og skyldur. Í reglunum skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.
 Ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga skulu í samráði við aðila skólasamfélagsins útbúa almenn viðmið um skólareglur.

10. gr.
Viðbrögð við brotum á skólareglum.
Viðbrögð við brotum á skólareglum skulu unnin á sama hátt og skólareglurnar og kynnt nemendum og foreldrum þeirra.
Viðbrögð skulu vera markviss og til þess fallin að stuðla að jákvæðum skólabrag, bættri hegðun nemenda, aukinni ábyrgð og áhuga á menntun og miða að því að styrkja sjálfsmynd nemenda.
Viðbrögð við brotum á skólareglum skulu vera í samræmi við brotið og ávallt skal velja vægasta úrræðið sem er til þess fallið að ná fram settu markmiði. Gæta skal jafnræðis og samræmis í viðbrögðum og taka tillit til aðstæðna hvers og eins. Óheimilt er að nota skráningarkerfi á þann hátt að uppsafnaðir refsipunktar leiði sjálfvirkt til agaviðbragða.

V. KAFLI
Brot á skólareglum.
11. gr.
Misbrestur á hegðun nemenda.
Brjóti nemandi af sér skal kennari ræða við nemanda um hegðun hans til þess að hann geri sér grein fyrir eðli brotsins og afleiðingum þess og átti sig á ábyrgð sinni. Kennari skal hafa samráð við foreldra í samræmi við eðli máls og leita aðstoðar skólastjórnenda og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. Leggja skal áherslu á að leitað sé eftir samkomulagi og sáttaleiðum.
Veita skal nemendum stuðning sýni þeir af sér óæskilega hegðun og/eða slaka ástundun og leitast við að koma skólagöngu þeirra í viðunandi horf í samstarfi við foreldra. Taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
Nýta skal til fullnustu allar þær leiðir sem skólinn hefur tiltækar til að leita lausna og ráða bót á hegðun nemenda, að teknu tilliti til þroska þeirra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða aðstæðna að öðru leyti. Hegði nemandi sér í ósamræmi við skólareglur utan skólatíma telst það almennt ekki brot á skólareglum, nema þegar t.d. er um að ræða einelti eða annað ofbeldi sem á sér stað á leið nemanda til og frá skóla. Fer þá um viðbrögð í samræmi við skólareglur.
Foreldrum skal ætíð svo fljótt sem auðið er gerð grein fyrir brotum barna sinna á skólareglum og viðbrögðum skólans og gefa skal foreldrum kost á að tjá sig ef börn þeirra brjóta skólareglur.

12. gr.
Ítrekuð brot nemenda á skólareglum.
Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber umsjónarkennara hans að leita orsaka og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans og eftir atvikum með samningum. Sérstaklega skal skoða þroska nemanda, náms- og kennsluhætti, skólabrag, samsetningu námshópa, aðstæður í nemenda- og félagahópnum, samskipti kennara og nemenda og samstarf heimila og skóla.
Verði samt ekki breyting á til batnaðar skulu kennarar leita aðstoðar skólastjórnenda og sér-fróðra ráðgjafa skólans á vegum sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, sem skulu leita leiða til úrbóta, að teknu tilliti til hlutverks nemendaverndarráðs, skv. reglugerð nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum og hlutverks barnaverndaryfirvalda.
Gagnvart nemanda sem virðir ekki skólareglur, þrátt fyrir undangengnar aðvaranir og áminningar, má grípa til þeirra viðbragða að taka nemanda úr kennslu og láta hann fást við önnur viðfangsefni það sem eftir lifir skóladags. Einnig er heimilt að vísa nemanda tímabundið úr kennslustundum í ákveðinni námsgrein. Jafnframt er heimilt að meina nemanda þátttöku í félags- og tómstundastarfi á vegum skólans vegna agabrota í félags- og tómstundastarfi. Tryggja skal að nemandi sé í umsjón starfsfólks á vegum skólans á skólatíma eða í öðru kennsluúrræði innan skólans. Einnig er hægt að kalla eftir því að foreldri sæki viðkomandi nemanda í skólann.
Ef nemandi virðir enn ekki skólareglur og ítrekuð brot hans á skólareglum eru alvarleg má vísa nemanda um stundarsakir úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans, að hámarki eina kennsluviku. Ef allt um þrýtur og brot nemanda eru mjög alvarleg, s.s. ef hann veldur öðrum skaða eða eignatjóni, er heimilt að víkja honum ótímabundið úr skóla. Það skal þó ekki gert fyrr en allar aðrar leiðir hafa verið reyndar.

13. gr.
Líkamlegt inngrip í mál nemenda vegna óásættanlegrar og/eða skaðlegrar hegðunar.
Starfsfólki skóla er óheimilt að beita líkamlegum refsingum og líkamlegu inngripi í refsingarskyni.
Ef starfsfólk skóla metur að háttsemi nemenda leiði af sér hættu fyrir samnemendur og/eða starfsfólk skóla ber starfsfólki skylda til að bregðast tafarlaust við slíku með líkamlegu inngripi til að stöðva nemanda. Líkamlegu inngripi skal aðeins beitt í ítrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir duga ekki til að forða nemanda frá því að skaða sig og/eða aðra. Starfsfólki skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Skal þess ávallt gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Láta skal tafarlaust af inngripi er hættu hefur verið afstýrt. Skólastjóri skal sjá til þess að atvik samkvæmt þessari málsgrein séu skráð og varðveitt í skólanum svo og ferill máls og ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið, í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000. Atvikaskráning skal fela í sér lýsingu á aðdraganda, atburðinum sjálfum og mati á þeirri hættu sem orsakast hefði af athafnaleysi.
Mikilvægt er að starfsfólk vinni ekki eitt við slíkar aðstæður og kalli eftir aðstoð annars starfs-fólks skólans eða viðeigandi utanaðkomandi aðstoð, t.d. frá lögreglu, heilsugæslu eða öðrum eftir atvikum.
Skólastjóri getur synjað nemanda um að sækja skóla tímabundið þegar rökstuddur grunur leikur á að hann sé undir áhrifum vímuefna á skólatíma og/eða stuðlar að dreifingu slíkra efna meðal nemenda. Heimilt er við slíkar aðstæður að höfðu samráði við foreldra að láta þar til bæra aðila meta reglulega ástand viðkomandi nemanda og meina honum að sækja skóla þar til fyrir liggur að hann sé ekki lengur undir áhrifum vímuefna.
Í hverjum grunnskóla skulu vera til verklagsreglur unnar af starfsfólki skóla vegna tilvika þegar nauðsynlegt er að grípa til tafarlausra aðgerða þegar stöðva þarf óásættanlega hegðun nemanda, bregðast við hótunum eða rökstuddur grunur er um að nemandi sé undir áhrifum vímuefna. Í verklagsreglum skal kveðið á um málsmeðferð skv. 14. gr. Verklagsreglurnar skulu vera hluti af starfsáætlun hvers skóla.
Sambandi íslenskra sveitarfélaga er heimilt að taka saman leiðbeiningar fyrir skóla þar sem m.a. er nánar kveðið á um verklagsreglur og viðbragðsáætlun innan skóla og viðeigandi utanaðkomandi aðstoð samkvæmt þessari grein.

VI. KAFLI
Málsmeðferðarreglur.
14. gr.
Málsmeðferð vegna brota nemenda á skólareglum.
Væg viðbrögð og úrræði sem skólar beita til að halda uppi aga og almennum umgengnisvenjum teljast almennt ekki til stjórnvaldsákvarðana og falla því ekki undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Hið sama gildir þegar nemanda er vikið úr skóla það sem eftir lifir skóladags eða úr einstökum kennslustundum eða úr tilteknu félags- og tómstundastarfi á vegum skólans.
Brottvísun úr skóla telst stjórnvaldsákvörðun og gilda stjórnsýslulög um málsmeðferðina. Einnig skal gæta stjórnsýslulaga þegar nemanda er tímabundið eða ótímabundið meinað að sækja kennslustundir í tiltekinni námsgrein eða taka þátt í tilteknu félags- og tómstundastarfi á vegum skólans Við meðferð máls samkvæmt 4. mgr. 12. gr. og 4. mgr. 13. gr. reglugerðar þessarar og beitingu viðurlaga samkvæmt þeim málsgreinum skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upplýsingaskyldu. Um 2. mgr. 13. gr. gildir jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga.
Ávallt skal leita samstarfs við foreldra nemanda um úrlausn máls. Skólastjóri skal sjá til þess að atvik sem skipta máli vegna úrlausnar mála séu skráð og varðveitt í skólanum, ferli máls og ákvarðanir sem teknar eru vegna brota á skólareglum, í samræmi við lög um persónuvernd og reglugerð nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín.

15. gr.
Brottvísun um stundarsakir og ótímabundin brottvísun.
Áður en ákvörðun um brottrekstur nemanda skv. 4. mgr. 12. gr. er tekin skal gefa foreldrum kost á að kynna sér gögn sem liggja til grundvallar fyrirhugaðri ákvörðun og koma á framfæri athugasemdum og andmælum, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.
Meðan mál skv. 4. mgr. 12. gr. er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann formlega og tafarlaust þá ákvörðun foreldrum nemanda og skólanefnd.
Nemanda skal að jafnaði ekki vikið úr skóla lengur en eina viku sé um að ræða tímabundna brottvísun. Ef fyrirsjáanlegt er að skólastjóra takist ekki að leysa mál nemanda á þeim tíma skal hann vísa því til skólanefndar sem beitir sér eins fljótt og við verður komið fyrir lausn málsins í samráði við sérfræðiþjónustu sveitarfélaga í samstarfi við foreldra.
Sé nemanda vikið ótímabundið úr skóla skv. 4. mgr. 12. gr. skal skólastjóri strax tilkynna skólanefnd þá ákvörðun. Eftir að máli hefur verið vísað til skólanefndar ber hún ábyrgð á því að nemanda sé tryggð skólavist eða önnur viðeigandi kennsluúrræði eins fljótt og auðið er og aldrei síðar en innan þriggja vikna.
Óheimilt er að víkja nemanda að fullu úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað kennsluúrræði.
Takist ekki að leysa málið getur hvor aðili, foreldri eða skólanefnd, vísað ágreiningi til úrlausnar og úrskurðar ráðuneytisins.

16. gr.
Kæra til mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Ákvörðun skólastjóra skv. 4. mgr. 12. gr. er kæranleg til ráðuneytisins á grundvelli 47. gr. laga um grunnskóla. Við meðferð kærumáls er ráðuneytinu heimilt að afla sér álits sérfræðinga.
Hafi sveitarfélag ekki séð nemanda fyrir kennslu getur ráðuneytið í úrskurði sínum lagt fyrir sveitarfélag að tryggja nemanda nánar tiltekin kennsluúrræði innan tilskilins tíma.

Í febrúar 2012 svaraði mennta- og menningarmálaráðuneytið fyrirspurn um túlkun á 4. mgr. 10. gr. ofangreindrar reglugerðar um orðin "undir áhrifum vímuefna á skólatíma". Álit mennta- og menningarmálaráðuneytisins má sjá hér.

20. Einelti í skólum

Nauðsynlegt er að viðurkenna að einelti á sér stað í skólum, óháð stærð þeirra og staðsetningu. Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 segir í 7. gr.:

Allir skólar skulu hafa heildstæða stefnu fyrir skólann til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum.
Áætlunin skal ná til allrar starfsemi og alls starfsfólks skóla og skal kveða á um skyldur þess til að vinna gegn einelti með ábyrgum og virkum hætti. Áætlunin skal ná til allra nemenda og styrkja þá til að bera virðingu hver fyrir öðrum, sýna tillitssemi og samkennd og taka afstöðu gegn einelti. Áætlunin beinist einnig að foreldrum með það að markmiði að þeir séu virkir í samstarfi við skólann í að vinna gegn einelti og vinna með starfsfólki skóla að úrvinnslu eineltismála, eftir atvikum með formlegum samningi milli heimilis og skóla. Einnig skal í áætluninni vikið að aðilum í grenndarsamfélaginu sem starfa með börnum og unglingum og þeir upplýstir um vinnu skólans gegn einelti og óskað eftir samráði við þá eftir því sem þörf krefur.
Aðgerðir skóla gegn einelti taka til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerðaáætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft.
Kanna þarf reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta.
Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og er kynnt sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og skal birt opinberlega. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða skóla í tengslum við aðgerðir gegn einelti og úrlausn einstakra mála eftir því sem þörf krefur.
Foreldrar eða skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu. Ráðuneytið gefur út verklagsreglur um vísun mála til fagráðsins, málsmeðferð og eftirfylgni að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Á grundvelli 7. gr. reglugerðarinnar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra verklagsreglur um starfsemi fagráðs eineltismála í grunnskólum. Í 5. gr. verklagsreglnanna er að finna mikilvægt ákvæði fyrir foreldra og stjórnendur grunnskóla þegar kemur að því að leysa úr eineltismálum:

5. gr. Vísun mála til fagráðs
Foreldrar og stjórnendur grunnskóla geta vísað til fagráðsins eineltismálum sem þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu hefur ekki tekist að leysa innan skóla og sveitarfélags. Tilvísun eða ósk um að taka mál fyrir í ráðinu skal fylgja greinargerð ásamt afritum af gögnum málsins.

Í fagráðinu eru Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir náms- og starfsráðgjafi, Páll Ólafsson félagsráðgjafi sem jafnframt er formaður ráðsins og Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur. Fagráðið hefur nú útbúið sérstakt eyðublað um vísun mála til ráðsins og er það aðgengilegt á heimasíðunni www.gegneinelti.is. Til fagráðsins eiga ekki erindi önnur mál en þau sem ekki hefur náðst að leysa innan skóla eða sveitarfélags þrátt fyrir aðkomu allra hlutaðeigandi aðila í heimabyggð. Öll mál sem send verða til fagráðsins með hjálögðu eyðublaði verða skoðuð og metin og síðan tekin fyrir í fagráði að uppfylltum skilyrðum um málsmeðferð eða frekari gagna aflað. Hægt er að senda viðbótargögn vegna mála á netfangið gegneinelti@gegneinelti.is Fagráðið mun síðan afgreiða öll erindi eins fljótt og auðið er í samræmi við eðli máls. Nánari upplýsingar auk verklagsreglna fagráðsins má finna hér.

Nánari umfjöllun um einelti er hér á síðu umboðsmanns barna.

21. Forvarnir í skólum

Jákvæður skólabragur er í eðli sínu forvarnarstarf og getur dregið úr neikvæðum samskiptum, s.s. einelti og öðru ofbeldi. Í 2. mgr. 40 gr. grunnskólalaga segir:

Í grunnskólum skal frá upphafi skólagöngu nemenda unnið að forvarnastarfi með skimunum og athugunum á nemendum til að tryggja þeim kennslu og námsaðstoð við hæfi. Auk þess skal fara fram greining á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Allar athuganir á vegum skóla sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og óheimilt er að taka gjald fyrir slíkar athuganir. Greina skal foreldrum frá niðurstöðum slíkra athugana.

Í 10. gr. reglugerðar um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum er fjallað um forvarnarstarf:

10. gr. Stuðningur við forvarnarstarf.
Í forvarnarstarfi leik- og grunnskóla felst m.a. fræðsla, mat og verkefni fyrir nemendur, starfsfólk skóla og foreldra með það að markmiði að skólaganga nemenda gangi sem best og að skólabragurinn verði sem jákvæðastur. Nemendur sem kunna að eiga í líkamlegum, sálrænum eða félagslegum vanda fái viðeigandi stuðning og námsaðstoð við hæfi til að þeir geti tekið virkan þátt í skólastarfi.
Í leik- og grunnskólum skal starfsfólk skóla meta hvaða nemendur kunna að eiga í erfiðleikum með lestrarnám eða lestur, eða aðra námsörðugleika, með viðeigandi matstækjum, bregðast við því með kerfisbundnum hætti og sjá til þess að allir nemendur fái nauðsynlega aðstoð. Fylgst skal reglulega með framförum og brugðist við jafnóðum.
Sé þörf á nánari athugun og greiningu á grundvelli mats, skv. 2. mgr., skal skólastjóri eða fulltrúi hans óska eftir sérfræðiaðstoð. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða starfsfólk leik- og grunnskóla við greiningu á nemendum sem kunna að eiga í líkamlegum, sálrænum eða félagslegum vanda sem geta haft áhrif á námsframvindu. Einnig skal sérfræðiþjónusta aðstoða starfsfólk leik- og grunnskóla við greiningu á námsaðstæðum, veita ráðgjöf um hvernig brugðist skuli við og vísa á viðeigandi úrræði.
Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal fylgjast með að viðeigandi matstæki séu tiltæk, útvega slík matstæki eftir því sem þörf krefur og aðstoða við framkvæmd og eftirfylgni í samstarfi við fræðsluyfirvöld.
Allar athuganir á vegum sérfræðiþjónustu sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með formlegu samþykki foreldra og óheimilt er að taka gjald fyrir slíkar athuganir.

Í almenna hluta aðalnámskrár (2011) er fjallað um forvarnir í kafla 7.8:

Grunnskólinn skal vinna markvisst að forvörnum og heilsueflingu þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda skólans. Lögð skal áhersla á almennar forvarnir, s.s. gagnvart tóbaki, áfengi, öðrum vímuefnum og annars konar fíkn, t.d. net- og spilafíkn. Mikilvægt er að allir grunnskólar komi sér upp forvarnaráætlun sem birt er í skólanámskrá. Í forvarnaráætlun skal m.a. vera áætlun skólans í fíknivörnum og áfengis- og tóbaksvörnum, áætlun gegn einelti og öðru ofbeldi, áætlun í öryggismálum og slysavörnum og stefna í agastjórnun. Einnig skal koma fram með hvaða hætti skólasamfélagið hyggst bregðast við ef mál koma upp. Kynna skal forvarnaráætlun skólans öllum aðilum skólasamfélagsins, starfsfólki skóla, foreldrum og nemendum og birta í skólanámskrá.

22. Skólaskylda og undanþágur

Skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði tíu ár, en getur verið skemmri. Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6-16 ára, er skylt að sækja grunnskóla skv. 3. gr. grunnskólalaga. Nemendur geta útskrifast úr grunnskóla eftir níu ára nám eða jafnvel níu og hálft ár í stað tíu ára, en það er grunnskólans að meta hvenær nemandi telst hafa lokið skyldunámi. Ekki er gert ráð fyrir að nemendur geti verið lengur í grunnskóla en tíu ár þar sem allir nemendur eiga rétt á námi við hæfi í framhaldsskóla að loknu tíu ára skyldunámi.

Fjallað er um skólaskyldu og undanþágur frá henni í 15. gr. laganna. Skólaskyldu er unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viðurkenndum hætti. Hér er einkum átt við möguleika á heimakennslu eða fjarkennslu og netnámi sem nánar er kveðið á um í 46. gr. laganna, sjá hér að neðan. Einnig getur verið um að ræða tilraunaskóla á vegum sveitarfélaga.

Skólaskylda barns hefst að jafnaði við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára. Foreldrar barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar. Einnig er mögulegt að byrja skólagönguna við áramót á því ári sem barnið verður sex ára og miða við að barnið geti þá t.d. lokið skyldunámi um áramót tíu árum síðar eða jafnvel fyrr. Skólastjóri getur veitt slíka heimild að fenginni umsögn sérfræðinga, kennara og stjórnenda skóla. Skólastjóra er heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms. Í þessari grein er einnig ákvæði um tímabundna undanþágu nemenda frá skólasókn en skólastjóra er heimilt að veita slíkar undanþágur telji hann til þess gildar ástæður.

Ekki eru settar í lögum eða reglugerðum frekari leiðbeiningar um hvað teljist gildar ástæður, en í öllum tilvikum er ábyrgðin sett á foreldrana að sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Gildar ástæður geta t.d. tengst þátttöku í landsliðsverkefnum á sviði íþrótta, við æskulýðsstarf, ferðalög fjölskyldu og sjálfboðastarf. Um ákvörðun um veitingu undanþágu eða synjun hennar gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Ef ekki næst samkomulag milli forráðamanna og skólastjóra um slíka undanþágu geta foreldrar kært synjun skólastjóra samkvæmt fyrirmælum 47. gr. grunnskólalaga. Í úrskurði getur ráðherra mælt fyrir um að undanþága verði veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að af hálfu sveitarfélags hafi ekki verið fallist á slíka beiðni.

Í 46. gr. grunnskólalaganna er fjallað um heimakennslu, viðurkenningu grunnskóla sem starfa eftir viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan og undanþágu frá skólaskyldu skv. 3. gr. Markmiðið með þessari grein er að skapa svigrúm til aukins sveigjanleika fyrir annars konar nám en fram fer í grunnskólum á vegum sveitarfélaga eða í sjálfstætt reknum skólum til að geta komið betur til móts við sérstakar aðstæður eða óskir foreldra:

Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan.
Foreldrar, sem óska eftir undanþágu frá 3. gr. til að geta kennt börnum sínum heima, að hluta eða öllu leyti, skulu sækja um slíka heimild til síns sveitarfélags. Skólastjóri getur veitt undanþágu að höfðu samráði við skólanefnd og sérfræðiþjónustu. Börn sem hljóta heimakennslu eru undanþegin skólaskyldu skv. 3. gr., en skulu lúta eftirliti og reglulegu mati og þreyta könnunarpróf samkvæmt lögum þessum.
Ákvörðun sveitarstjórnar skv. 2. mgr. er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Ráðuneyti getur í úrskurði sínum lagt fyrir sveitarfélag að veita foreldrum barns heimild skv. 2. mgr.
...

Nánar er kveðið á um skilyrði og fyrirkomulag heimakennslu í reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi nr. 531/2009.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið lítur svo á að fermingarfræðsla eigi að fara fram utan lögbundins skólatíma nemenda og að ekki sé heimilt að veita nemendum í 8. bekk leyfi til að fara í eins til tveggja daga ferð á vegum kirkjunnar í tengslum við fermingarundirbúning. Slíkt samrýmist ekki grunnskólalögum eða aðalnámskrá grunnskóla.

23. Val á skóla

Foreldrar eiga rétt á að velja grunnskóla innan sveitarfélags fyrir börn sín samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Svo segir í 1. mgr. 18. gr. grunnskólalaga. Ekki er hægt að binda skilyrðislaust rétt foreldra um val á skóla en æskilegt þykir að sveitarfélög stuðli að slíku vali eftir fremsta megni. Þetta ákvæði á ekki við í fámennum sveitarfélögum þar sem einungis er rekinn einn grunnskóli.

Þegar ákvörðun er tekin um umsókn í grunnskóla ber foreldrum að sjálfsögðu að taka réttmætt tillit til vilja barna sinna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Forsjáraðili nemanda getur óskað eftir því að nemandi fái að stunda nám í grunnskóla utan síns lögheimilissveitarfélags. Meginreglan er að komi fram ósk frá lögheimilissveitarfélagi um skólavist í öðru sveitarfélagi skal orðið við slíkri ósk. Viðmiðunarreglur um greiðslur vegna nemenda sem stunda nám utan lögheimilissveitarfélags ásamt gjaldskrá eru að finna hér á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt 5. gr. grunnskólalaga er sveitarfélögum skylt að sjá til þess að skólaskyld börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar. Sjá næsta kafla.

Reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010 fjallar um sérúrræði í IV. kafla. Þar segir í 13. gr.:

Sveitarstjórn, þar sem barn á lögheimili, getur samið við annað sveitarfélag, sem rekur sérskóla eða sérúrræði innan grunnskóla, um að það veiti barni skólavist, óski foreldrar þess. Viðtökusveitarfélag hefur þá sömu skyldur um skólavist þess og ætti það þar lögheimili.

24. Skólaganga barna í fóstri

Í 3. - 5. mgr. 5. gr. grunnskólalaga segir um skyldur sveitarfélaga þegar kemur að skólagöngu fósturbarna:

Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn skv. 3. gr., sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, og börn sem hefur verið ráðstafað í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, njóti skólavistar eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Áður en barni er ráðstafað í fóstur skal barnaverndarnefnd kanna aðstæður í samráði við skólayfirvöld á viðkomandi stað og leggja mat á möguleika viðkomandi grunnskóla til að koma til móts við þarfir barnsins.
 Liggi ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lögheimili barns kveður sveitarstjórn á um skólaskyldu þess, enda búi barnið í sveitarfélaginu og leitað hafi verið eftir innritun þess í skóla, sbr. 19. gr. Synjun sveitarstjórnar er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur ráðuneytið lagt fyrir sveitarfélag að tryggja barni skólavist innan sveitarfélagsins.
 Sveitarstjórn í sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili getur samið við annað sveitarfélag um að veita barninu skólavist þannig að viðtökusveitarfélag hafi sömu skyldur gagnvart skólavist þess og ætti það lögheimili þar.

Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskólum nr. 585/2010 segir m.a. í 18. gr.:

Í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga ber einnig að gera ráð fyrir því að það standi straum af viðbótarkostnaði við skólagöngu barns með sérþarfir sem stundar nám í öðru sveitarfélagi. Við uppgjör þess kostnaðar er heimilt að nota viðmiðunarreglur sem Samband íslenskra sveitarfélaga setur um greiðslur vegna nemenda sem stunda nám utan lögheimilissveitarfélags.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út reglugerð nr. 547/2012 um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum til þess að taka öll tvímæli af því hvernig kostnaði milli sveitarfélaga skuli skipt þegar kemur að skólagöngu fósturbarna. Reglugerðin tekur skýrt á því hvaða sveitarfélag skuli bera kostnað vegna skólagöngu fósturbarna og einnig er kveðið á um útfærsluna.

9. gr. Ábyrgð á kostnaði.
Almennur kostnaður vegna skólagöngu barna sem reglugerð þessi tekur til skal greiddur af því sveitarfélagi sem ráðstafar barni í fóstur, á meðan fósturráðstöfunin varir, á grundvelli viðmiðunarfjárhæða sem Samband íslenskra sveitarfélaga gefur út, nema um annað hafi verið samið. Viðbótarkostnaður vegna skólaaksturs og sérstaks stuðnings sem fósturbarni er nauðsynlegur, greiðist einnig af sveitarfélagi sem ráðstafar barni í fóstur, að því leyti sem hann fæst ekki greiddur af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Skulu sveitarfélög ganga frá skriflegu samkomulagi um þær greiðslur. Ef tilefni er til getur hvort sveitarfélag óskað eftir endur­skoðun samkomulags.
Sveitarfélög geta vísað ágreiningsmálum um kostnað skv. reglugerð þessari til úrskurðar­nefndar sem ráðherra skipar skv. 6. mgr. 5. gr. grunnskólalaga.

Í 10. gr. reglugerðarinnar er að finna ákvæði um meðferð ágreiningsmála og ákvæði um skipun þriggja manna úrskurðarnefndar sem heimilt er a vísa til ágreiningsmálum milli sveitarfélaga um stuðningsþörf og kostnað samkvæmt reglugerðinni.

10. gr. Meðferð ágreiningsmála. Úrskurðarnefnd. 
Ráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd sem heimilt er að vísa til ágreiningsmálum milli sveitarfélaga um stuðningsþörf og kostnað samkvæmt reglugerð þessari. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en Samband íslenskra sveitarfélaga og Barnaverndarstofa tilnefna hvort einn fulltrúa. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
Einstök sveitarfélög geta vísað málum til nefndarinnar. Erindi til úrskurðarnefndar skal vera skriflegt og í því skal skilmerkilega greina hvert sé ágreiningsefnið, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni. Nefndinni er heimilt að kalla sérfróða aðila til ráðgjafar og aðstoðar ef hún telur þörf á. Um meðferð mála hjá úrskurðarnefndinni fer að öðru leyti eftir VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarnefndin skal leitast við að ljúka afgreiðslu mála á grundvelli reglugerðar þessarar eins fljótt og auðið er og eigi síðar en tveimur mánuðum frá því að erindi berst henni. Áður en til úrskurðar kemur skal nefndin reyna að leita sátta hjá málsaðilum. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi.
Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
Nefndin setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir. 

Í reglugerðinni má einnig finna ákvæði um könnun barnaverndar á skólamálum og lýst framkvæmd hennar.

25. Kennslutími

Allir grunnskólar eiga að vera einsetnir, þ.e. sami hópur nemenda á að vera í skólanum allan daginn. Í 28. gr. laga um grunnskóla segir að starfstími nemenda í grunnskóla skuli á hverju skólaári vera að lágmarki níu mánuðir. Skóladagar skulu ekki vera færri en 180. Með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum getur mennta- og menningarmálaráðherra þó veitt tímabundna undanþágu frá framangreindum ákvæðum. Um þessa lagagrein segir í athugasemdum við frumvarp til laga um grunnskóla: „Brýnt er að nýta árlegan starfstíma grunnskóla betur en verið hefur. Með því að skilgreina starfstíma skóla sem vinnutíma nemenda er þess freistað að starfstíminn sé betur nýttur til skipulags starfs nemenda undir leiðsögn kennara.“

Í 28. gr. laga um grunnskóla er fjallað um lágmarksviðmið um kennslutíma í grunnskóla:.

Vikulegur kennslutími hvers nemanda í grunnskóla skal að lágmarki vera:
a. 1.200 mínútur í 1.–4. bekk,
b. 1.400 mínútur í 5.–7. bekk,
c. 1.480 mínútur í 8.–10. bekk.
Skólastjóri ákveður nánari útfærslu vikulegs kennslutíma í samráði við skólaráð. Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að hann sé samfelldur með eðlilegum hléum og fari ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska.
Sveitarstjórnum er heimilt að samræma tiltekna leyfisdaga innan skólaársins fyrir alla skóla í sveitarfélaginu, að höfðu samráði við hagsmunaaðila.

Í eldri lögum voru nákvæm ákvæði um lengd stundarhléa og matarhléa sem nú hafa verið felld brott þar sem eðlilegt er talið að skólar hafi svigrúm til að skipuleggja skóladaginn eins og best þykir henta. Heimilt er að víkja frá vikulegum lágmarkskennslutíma tímabundið, en nemendum skal þá tryggð viðbótarkennsla sem nemur frávikinu innan sama skólaárs.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um grunnskóla segir m.a. um þessa lagagrein:

[Heimilt er] að víkja tímabundið frá lágmarks vikulegum kennslutíma en tryggja nemendum viðbótarkennslu sem nemur frávikinu innan sama skólaárs. Þetta er hugsað til að auka möguleika á sveigjanlegu skólastarfi miðað við aðstæður á hverjum stað. Einstakir skólar gætu t.d. tekið þá ákvörðun að hafa styttri vikulegan skólatíma í svartasta skammdeginu en lengja skóladaginn á móti að hausti og vori. Vikulegur kennslutími getur því orðið breytilegur náist um það samkomulag innan skólans, skólaráðs og skólanefndar.

Einstaka sinnum boða grunnskólar nemendur sína í skólann utan hefðbundins skólatíma, t.d. vegna hátíða. Það er ekki leyfilegt nema allir aðilar skólasamfélagsins hafi samþykkt það og það hafi verið sett í starfsáætlun skólans.

Menntamálaráðuneytið gaf út álit (20.4.2012) sem fjallar m.a. um þetta. Þar segir:

Ekki er heimilt að telja sem skóladaga samkomur á vegum skólans um helgar, t.d. vorhátíðir, íþróttahátíðir eða afmælishátíðir nema tryggt sé að allir starfsmenn skólans og nemendur taki þátt í skólastarfinu á umræddum dögum og að slíkt fyrirkomulag hafi verið samþykkt í starfsáætlun skólans. Ráðuneytið lítur svo á að ekki sé hægt að skylda nemendur til að mæta í skólann um helgar eða á helgidögum, en í undantekningartilvikum sé hægt að skipuleggja skólahald um helgar ef um það er sátt í skólasamfélaginu, t.d. vegna sérstakra aðstæðna.

Sjá álit í heild hérÍ kjölfar álitsins bárust ráðuneytinu athugasemdir og óskað var eftir því að ráðuneytið myndi endurskoða álitið. Það var gert 31.8.2012 en í þessum efnum stóð ráðuneytið við fyrra álit.

Sérstaklega hefur verið spurt um möguleika skóla til að skipuleggja árlega skólahald á laugardögum á skóladagatali í ljósi fyrra álits. Ráðuneytið stendur við fyrra álit hvað varðar skólahald á laugardögum, en telur engu að síður að í vissum tilvikum geti skólar skipulagt skólahald af einhverju sérstöku tagi um helgar, sé gætt að lögbundu samráði og að allir aðilar skólasamfélagsins séu samþykkir slíku fyrirkomulagi. Ráðuneytið telur hins vegar æskilegt að halda slíku í algjöru lágmarki, enda er gert ráð fyrir því að skólahald fari almennt fram á virkum dögum skólaársins.

Hér má sjá umfjöllun um nánari skilgreiningu á skóladögum í grunnskólum.

26. Frístundastarf og lengd viðvera (heilsdagsskóli)

Í öllum grunnskólum skal nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi skv. 33. gr. grunnskólalaga. Tómstunda- og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma.

Sveitarstjórn getur enn fremur boðið grunnskólanemendum lengda viðveru utan daglegs kennslutíma. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir lengda viðveru utan daglegs kennslutíma og tómstundastarf samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr. grunnskólalaganna.

Víðast er boðið upp á lengda viðveru fyrir nemendur í fyrstu árgöngum grunnskóla og greiða foreldrar fyrir þjónustuna. Sveitarfélög setja sjálf viðmiðanir um umgjörð þessarar þjónustu, mönnun, aðbúnað og starfshætti þar sem ekki eru ákvæði um þessa þætti í lögum. Rétt þykir að skólaráð fjalli um slíkt. Í athugasemd við 33. gr. frumvarpsins segir að heimildin eigi ekki síður við um eldri nemendur. Þannig væri t.d. unnt að bjóða eldri nemendum upp á þjónustu utan daglegs kennslutíma. Slík þjónusta gæti m.a. verið stuðningur við heimanám og þjónusta vegna fatlaðra nemenda.

Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010 segir í 15. gr.:

15. gr. Kennsla og lengd viðvera í sérskólum og sérúrræðum.
Í sérskólum og sérúrræðum innan grunnskóla skulu nemendur fá kennslu skv. 2., 24. og 25. gr. laga um grunnskóla. Sveitarstjórn getur ákveðið að jafnframt bjóðist önnur þjónusta, svo sem lengd viðvera utan daglegs kennslutíma, óski foreldrar þess. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald vegna slíkrar þjónustu, sbr. 33. gr. laga um grunnskóla.

27. Jöfn tækifæri til náms

Skóli án aðgreiningar með jöfnum tækifærum til náms er bundinn í lög. Samkvæmt 24. gr. grunnskólalaga skal í aðalnámskrá, við skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái jöfn tækifæri til náms og eigi þess kost að velja sér viðfangsefni og nálgun í námi sínu. Þar segir einnig:

Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti. 
Í öllu skólastarfi skal stuðla að heilbrigðum lífsháttum og taka mið af persónugerð, þroska, hæfileikum, getu og áhugasviðum hvers og eins.

Í 1. mgr. 2. gr. laga um grunnskóla segir m.a. að grunnskólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Þetta er útskýrt nánar í aðalnámskrá - almennum hluta (2011) í kafla 7.1:

Nám í grunnskóla tekur mið af þroska, persónugerð, hæfileikum, getu og áhugasviði hvers og eins. Við allt skipulag skólastarfs og kennslu ber að leggja þessi atriði til grundvallar. Það gerir kröfur um að kennari leggi sig fram um að kynnast hverjum þeim nemanda sem hann kennir, meti stöðu hans í námi og hafi bæði nemanda og foreldra hans með í ráðum um þau markmið sem stefnt skal að hverju sinni. Leggja skal áherslu á að foreldrar fylgist með námsframvindu barna sinna.

28. Nemendur með sérþarfir

Í lögum um grunnskóla er í 17. gr. fjallað um nemendur sem þurfa sérstakan stuðning eða sérkennslu:

Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.
Nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags.
Telji foreldrar barns, skólastjórar, kennarar eða aðrir sérfræðingar að það fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla geta foreldrar sótt um skólavist fyrir barnið í sérúrræði innan grunnskóla eða í sérskóla.
Verði ágreiningur um fyrirkomulag skólavistar barns skal við úrlausn hans gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Skal ákvörðun tekin með hliðsjón af áliti sérfræðinga og með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ákvörðun er kæranleg samkvæmt fyrirmælum 47. gr.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar og málsmeðferð. Þegar ráðuneytið kveður upp úrskurð í málum sem því berast á grundvelli þessarar greinar er því heimilt að mæla nánar fyrir um fyrirkomulag skólavistar nemanda og skyldur sveitarfélags í því efni.

Í greinargerð með frumvarpinu er þessi grein útskýrð nánar:

Meginatriðið í stefnunni um skóla án aðgreiningar er að skóli sé með þjónustu fyrir alla nemendur sína, bæði fatlaða og ófatlaða. Gert er ráð fyrir að hver skóli sé fær um að sinna öllum nemendum sínum, svo sem kostur er, og taka á sérkennsluþörfum og erfiðleikum sem upp kunna að koma í skólanum með viðeigandi stuðningi. Um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi grunnskóla er fjallað í IX. kafla. Hér er einnig gert ráð fyrir að foreldrar geti áfram sótt um skólavist í sérúrræði innan grunnskóla eða í sérskóla. ... Þótt meginsjónarmiðið sé að foreldrar geti ákveðið skólavistun í almennum skóla eða sérúrræði geta komið upp þau tilvik að skoða þurfi málið með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi og því eru sett ákvæði um framangreinda málsmeðferð. Samkvæmt ákvæðinu setur menntamálaráðuneyti reglur þar sem m.a. er kveðið á um meðferð kæra sem því berast samkvæmt grein þessari. Við úrskurð getur ráðuneytið kvatt til sérfræðinga á þeim sviðum sem varða tilefni ágreinings.

Í aðalnámskrá - almennum hluta (2011) er fjallað um nám í skóla án aðgreiningar í kafla 7.3. Þar segir t.d. að í skóla án aðgreiningar sé gengið út frá því að allir fái jöfn eða jafngild tækifæri til náms og að námið sé á forsendum hvers einstaklings. Þar segir einnig:

Bráðgerir nemendur og nemendur, sem búa yfir sérhæfileikum á vissum sviðum, eiga rétt á að fá námstækifæri við sitt hæfi. Þeir eiga að fá tækifæri til að þroska sérhæfileika sína og nýta tímann til hins ýtrasta með því að glíma við fleiri og flóknari markmið og krefjandi nám á eigin forsendum sem er þeim merkingarbært.

29. Sérfræðiþjónusta og stoðkerfi

Í 40. gr. grunnskóla er kveðið á um að sveitarfélög eigi að tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra. Í 40. gr. segir einnig:

Í grunnskólum skal frá upphafi skólagöngu nemenda unnið að forvarnastarfi með skimunum og athugunum á nemendum til að tryggja þeim kennslu og námsaðstoð við hæfi. Auk þess skal fara fram greining á nemendum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum sem hafa áhrif á nám þeirra. Allar athuganir á vegum skóla sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og óheimilt er að taka gjald fyrir slíkar athuganir. Greina skal foreldrum frá niðurstöðum slíkra athugana.
Foreldrar nemenda geta óskað eftir greiningu samkvæmt þessari grein, auk þess sem skólastjóri, kennarar eða starfsmenn heilsugæslu geta lagt fram ósk um greiningu í samráði við og með samþykki þeirra. Sérfræðiþjónusta sér um að greining fari fram, skilar tillögu til skólastjóra um hvernig við skuli bregðast, fylgist með úrbótum og metur árangur.
Skólastjóri skal samræma innan hvers skóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, námsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs. Jafnframt skal stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eftir því sem þurfa þykir. Heimilt er, með rökstuddri greinargerð, að sækja um tímabundna undanþágu frá einstökum ákvæðum í reglugerð um nemendaverndarráð til ráðuneytis. Gildar ástæður þurfa að vera fyrir veitingu undanþágu, svo sem fámenni eða sérstaða.
Sveitarfélög sem reka grunnskóla skulu hafa frumkvæði að samstarfi sérfræðiþjónustu, félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda og heilbrigðisþjónustu innan sveitarfélagsins vegna nemenda með sérþarfir og langvinn veikindi. Sveitarfélög skulu einnig hafa frumkvæði að samstarfi sérfræðiþjónustu við aðila sem annast sérhæfð greiningar- og meðferðarúrræði á vegum ríkisins vegna einstakra nemenda.
Við framkvæmd sérfræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á góð tengsl leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla með samfellu í skólastarfi að leiðarljósi.
Ráðherra setur reglugerð um sérfræðiþjónustu og starfsemi nemendaverndarráða í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Sé foreldri synjað um beiðni um greiningu skv. 3. mgr. verður sú ákvörðun kærð samkvæmt fyrirmælum 47. gr. Ráðuneytið getur í úrskurði mælt fyrir um að tilteknum nemanda skuli veitt greining í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Í athugasemdum við 40. gr. laganna segir m.a. að sveitarfélög skuli stuðla að því að sérfræðiþjónustan fari sem mest fram innan grunnskólans og að þau hafi forgöngu um samstarf þeirra aðila sem koma að velferðarmálum nemenda:

Hér er ekki síst átt við að nemendur fái stuðning, ráðgjöf og þjálfun innan grunnskóla en þurfi ekki að sækja slíkt út fyrir veggi skólans, nema nauðsyn beri til. Hér er einnig átt við að sveitarfélög skuli stuðla að því að ýmis þjálfun fari fram innan grunnskóla hjá sérfræðingum sem ekki eru starfsmenn sveitarfélaga en hér er m.a. átt við iðjuþjálfun, talþjálfun og sjúkraþjálfun sem ýmsir nemendur þurfa reglulega. Æskilegt er að slík þjálfun geti að mestu farið fram innan grunnskóla þótt greiðslur fyrir þjónustuna komi frá öðrum aðilum en sveitarfélögum. Sérstök nefnd skipuð af menntamálaráðherra er starfandi sem hefur það verkefni að fara yfir þessi mál til að skýra ákvæði um kostnaðarskiptingu.
Mikilvæg breyting á ákvæðum um sérfræðiþjónustu felast í því að sveitarfélög sem reka grunnskóla skulu hafa forgöngu um samstarf sérfræðiþjónustu, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu innan sveitarfélagsins vegna nemenda með sérþarfir en mikilvægt er að samhæfa sem best þjónustu við nemendur til að hún verði markviss. Þar sem sérfræðiþjónusta á vegum sveitarfélaga telst einkum til fyrsta og annars stigs sérfræðiþjónustu er brýnt að sveitarfélögin hafi forgöngu um samstarf sérfræðiþjónustu við aðila sem annast sérhæfð greiningar- og meðferðarúrræði á vegum ríkisins vegna einstakra nemenda. Þar er m.a. átt við Greiningar- og ráðgjafarmiðstöð ríkisins, BUGL, Sjónstöð og Heyrnar- og talmeinastöð og sambærileg úrræði. Í gildandi lögum eru ákvæði um að sérfræðiþjónusta vinni að forvarnarstarfi og athugunum og greiningu á nemendum sem eiga í sálrænum og félagslegum erfiðleikum hafi þessir erfiðleikar áhrif á nám nemenda og geri tillögur til úrbóta. Hér er lagt til að auk þessa hlutverks skuli sérfræðiþjónustan tryggja að viðkomandi nemendur fái kennslu og námsaðstoð við hæfi og viðeigandi íhlutun, þ.e. ekki einungis gera tillögur til úrbóta heldur fylgja þeim eftir. Einnig eigi sérfræðiþjónustan að meta árangurinn af íhlutun.

Í reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010 er nánar kveðið á um skipulag, framkvæmd og starfshætti sérfræðiþjónustunnar. Þar segir m.a. að foreldrar nemenda í leik- og grunnskóla geta óskað eftir athugun, greiningu og ráðgjöf fyrir börn sín. Auk þess geta skólastjórnendur, kennarar, náms- og starfsráðgjafar, eða eftir atvikum annað starfsfólk skólans eða skólaheilsugæslu, lagt fram ósk um slíka sérfræðiaðstoð í samráði við og með samþykki foreldra. Beina skal beiðnum til skólastjóra. Telji skólastjóri og foreldrar að barn þarfnist sérstakrar aðstoðar eða þjálfunar til að geta notið leikskóla- eða grunnskólagöngu sem best, ber þeim að hafa samráð um hvort unnt sé að leysa málið innan skólans og/eða hvort leitað skuli til sérfræðiþjónustu sveitarfélags eða annarra sérfræðinga. Verði aðilar sammála um að leita eftir slíkri þjónustu hlutast skólastjóri til um að sú þjónusta sé veitt. Skólastjóri ábyrgist að gerð sé áætlun sem byggir á markmiðum aðalnámskrár í samræmi við metnar sérþarfir.

Allar greiningar á nemendum og námsaðstæðum þeirra skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra og skulu þeir upplýstir um niðurstöðuna. Að fenginni athugun eða greiningu gerir starfsfólk sérfræðiþjónustu sveitarfélags tillögu um viðeigandi úrræði með starfsfólki skóla, svo sem ráðgjöf og fræðslu til kennara og foreldra og viðeigandi stuðning við nemendur eða nemendahópa. Eftirfylgni og mat á árangri er í höndum sérfræðiþjónustu í samstarfi við viðkomandi skóla. Sérfræðiþjónusta sveitarfélaga skal eftir því sem aðstæður leyfa gefa foreldrum kost á almennri ráðgjöf og fræðslu, svo sem vegna skólagöngu barna þeirra, samstarfs heimila og skóla og hegðunar barna þeirra. Jafnframt skal sérfræðiþjónusta sveitarfélaga veita foreldrafélögum, foreldraráðum leikskóla og skólaráðum grunnskóla ráðgjöf og stuðning vegna lögbundinnar starfsemi þeirra.
Sveitarfélög skulu stuðla að því að þjálfun sem nemendur þurfa reglulega fari sem mest fram innan leik- og grunnskóla hjá viðeigandi sérfræðingum þótt aðrir aðilar en sveitarfélög veiti þjónustuna. Sveitarstjórn gerir sérstakan samning um þjónustuna. Ofangreindar upplýsingar eru úr 10.- 14. gr. reglugerðar um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010.

Sjá ákvæði um nemendaverndarráð hér.

Reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010 kveður nánar á um réttindi nemenda og fleira:

...

4. gr. Skyldur sveitarfélaga og réttindi nemenda.
Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu eða eru vistuð hjá fósturforeldrum sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, fái sérstakan stuðning í skólastarfi í samræmi við metnar sérþarfir þeirra og eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.
Nemendur eiga rétt á:
að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í skóla án aðgreiningar án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis,
að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur miðað við aldur þeirra og þroska og þeim veitt aðstoð, þar sem tekið er tillit til sérþarfa þeirra og aldurs,
að þeir geti nýtt sér viðeigandi samskiptamáta, s.s. táknmál, blindraletur og viðeigandi tækjabúnað, aðlöguð námsgögn, aðstöðu og kennslu til að stuðla að sem bestri menntun, sjálfstyrkingu og félagsþroska.

II. KAFLI
Þörf fyrir sérstakan stuðning.
5. gr. Upplýsingar frá leikskóla til grunnskóla.
Persónuupplýsingar og greiningargögn sem fyrir liggja um hvert einstakt barn í leikskóla og nauðsynleg eru fyrir velferð og aðlögun þess í grunnskóla skulu fylgja því, enda sé krafist þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessari upplýsingamiðlun.
Um miðlun upplýsinga fer nánar eftir því sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn þeirra og reglugerð nr. 896/2009 um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla.

6. gr. Ábyrgð skólastjóra grunnskóla.
Skólastjóri skal hlutast til um að metið sé hvort í skólanum séu nemendur sem þurfa á sérstökum stuðningi í námi að halda. Jafnframt ber skólastjóri ábyrgð á því að brugðist verði við skjótt í samræmi við metnar sérþarfir og einnig stöðu nemenda að öðru leyti eftir því sem tilefni gefst til.
Skólastjóri hefur forgöngu um að skipuleggja stuðning í námi fyrir nemendur sem hefja nám og hafa sérþarfir samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.
Skólastjóri ber ábyrgð á því að mat á sérþörfum og skipulagning stuðnings fari ávallt fram í samráði við foreldra og kennara, þ.m.t. umsjónarkennara og sérkennara. Ennfremur að leitað sé til annarra fagaðila og skólaheilsugæslu eftir því sem við á.

7. gr. Beiðni frá foreldrum.
Telji foreldrar að börn þeirra hafi sérþarfir og þurfi á sérstökum stuðningi í námi að halda geta þeir komið slíkri beiðni á framfæri við umsjónarkennara barnsins eða skólastjórnendur. Hver skóli skal setja sér starfsreglur um meðferð slíkra mála, m.a. um skráningu og varðveislu beiðna foreldra, annað verklag, samstarf og málshraða.

III. KAFLI
Skipan náms og kennslu.
8. gr. Stuðningur - námsumhverfi.
Stuðningur við nemendur eða nemendahópa felst í sveigjanlegu og margbreytilegu námsumhverfi og kennsluháttum sem ætlað er að mæta þörfum allra nemenda.
Við skipulag stuðnings við einstaka nemendur eða nemendahópa skal stuðla að því að hann fari fram innan skólans án aðgreiningar. Við sérstakar aðstæður, svo sem vegna dvalar barns á heilbrigðisstofnun eða í úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda, skal í því ljósi ákveða hvernig stuðningi verði háttað.
Stuðningi við nemendur með sérþarfir skal sinnt af umsjónarkennara, sérkennara eða öðrum kennurum eftir því sem við verður komið. Skólastjóri getur jafnframt ráðið aðra aðila til stuðnings nemendum telji hann það nauðsynlegt að fengnu samþykki sveitarstjórnar.
Heimilt er að skipuleggja og meta tímabundna þátttöku nemenda í atvinnulífi að hluta sem nám að höfðu samráði við foreldra og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga.

9. gr. Móttökuáætlun.
Auk almennrar móttökuáætlunar skv. 16. gr. laga um grunnskóla skulu grunnskólar útbúa móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir. Í slíkri áætlun skal m.a. gera grein fyrir samstarfi innan skólans um skipulag kennslunnar, aðbúnaði, aðstöðu, notkun hjálpartækja, skipulagi einstaklingsnámskrár, kennsluháttum og námsmati, hlutverki umsjónarkennara, sérkennara og annarra fagaðila innan skólans og samstarfi við foreldra. Tilgreina skal áform skólans um stuðning við nemendur til félagslegrar þátttöku og virkni í skólasamfélaginu, svo sem í félagslífi og tómstundastarfi skólans. Í slíkri áætlun skal einnig gera grein fyrir samstarfi við aðra aðila utan skólans.

10. gr. Áætlun um stuðning í námi.
Í grunnskólum skal árlega vinna áætlun um stuðning í námi og kennslu í samræmi við metnar sérþarfir nemenda. Skólastjóri ber ábyrgð á að áætlunin sé samin og felur umsjónarkennara, sérkennara eða öðrum fagaðila það verkefni í samvinnu við nemendaverndarráð.
Áætlunin skal taka til heildarskipulags náms og stuðnings við nemendur með sérþarfir. Ennfremur skal áætlunin taka til annarrar þjónustu við nemendur með fötlun.
Áætlunin skal grundvölluð á upplýsingum um heildaraðstæður nemenda og mati á stöðu þeirra í námi.

11. gr. Sérstakur stuðningur og einstaklingsnámskrá.
Sérstakur stuðningur getur falið í sér breytingu á námsmarkmiðum aðalnámskrár grunnskóla, námsgögnum, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum. Stuðningurinn er skipulagður til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans.
Gera skal rökstudda einstaklingsnámskrá fyrir hvern einstakling sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemanda og athugun og mati á stöðu hans í námi og þroska. Námskráin skal reglulega endurskoðuð í samstarfi við foreldra og að höfðu samráði við nemendur eftir því sem við verður komið.

...

30. Sérúrræði (sérdeildir) og sérskólar

Í 42. gr. grunnskólalaga segir um sérúrræði (áður nefnt sérdeildir):

Sveitarfélög geta beitt sér fyrir sérúrræðum innan grunnskóla eða stofnað til reksturs sérskóla þegar almennt nám og kennsluhættir hæfa ekki þörfum eða hag nemenda. Slíkum úrræðum er ætlað að veita nemendum sérhæft umhverfi til náms í lengri eða skemmri tíma þar sem jafnframt skal lögð áhersla á að veita starfsfólki almennra grunnskóla stuðning og kennslufræðilega ráðgjöf.

Reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010 fjallar um sérúrræði í IV. og VI. kafla:

IV. KAFLI
Sérúrræði innan grunnskóla og sérskólar.
12. gr. Skipulag þjónustunnar.
Sveitarstjórn ákveður fyrirkomulag þjónustu við nemendur með sérþarfir og getur stofnað sérskóla eða sérúrræði innan grunnskóla á vegum sveitarfélagsins, sbr. 42. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Skipulag þjónustunnar skal ákveðið í samráði við skólastjórnendur og fræðsluyfirvöld í sveitarfélaginu. Þjónusta sem fram fer í sérúrræði innan grunnskóla lýtur stjórn skólastjóra samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar.
Sveitarstjórn setur starfsreglur fyrir sérskóla og sérúrræði innan grunnskóla þar sem m.a. er kveðið á um ráðgjöf og stuðning við starfsfólk og fyrirkomulag þjónustunnar. Starfsreglurnar skulu áður teknar fyrir í skólaráði viðkomandi skóla.

13. gr. Skólavist utan lögheimilissveitarfélags.
Sveitarstjórn, þar sem barn á lögheimili, getur samið við annað sveitarfélag, sem rekur sérskóla eða sérúrræði innan grunnskóla, um að það veiti barni skólavist, óski foreldrar þess. Viðtökusveitarfélag hefur þá sömu skyldur um skólavist þess og ætti það þar lögheimili.

14. gr. Skólanámskrá og starfsáætlun.
Sérskólar og sérúrræði innan grunnskóla starfa eftir markmiðum aðalnámskrár grunnskóla.
Sérskólar og grunnskólar, sem veita úrræði fyrir nemendur með sérþarfir, skulu setja sér skólanámskrá og starfsáætlun og skilgreina með hvaða hætti aðalnámskrá er aðlöguð þörfum nemenda, sbr. 29. gr. laga um grunnskóla.

15. gr. Kennsla og lengd viðvera í sérskólum og sérúrræðum.
Í sérskólum og sérúrræðum innan grunnskóla skulu nemendur fá kennslu skv. 2., 24. og 25. gr. laga um grunnskóla. Sveitarstjórn getur ákveðið að jafnframt bjóðist önnur þjónusta, svo sem lengd viðvera utan daglegs kennslutíma, óski foreldrar þess. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald vegna slíkrar þjónustu, sbr. 33. gr. laga um grunnskóla.

16. gr. Kennsluráðgjöf.
Einstakir sérskólar og grunnskólar sem annast sérúrræði geta veitt leiðbeiningar og kennsluráðgjöf til starfsfólks skóla og foreldra innan sveitarfélags eða á landsvísu vegna náms og kennslu nemenda með sérþarfir.
Fræðsluyfirvöld hafa samstarf um þá ráðgjöf sem hér um ræðir og gera samninga um framkvæmd hennar.

17. gr. Einstaklingsbundin tilfærsluáætlun.
Þegar nemandi nýtur sérúrræða, skv. ákvæðum þessa kafla, skulu kennarar, og aðrir fagaðilar ásamt nemandanum og foreldrum hans, taka þátt í mótun og gerð tilfærsluáætlunar sem byggir á einstaklingsáætlun og öðrum gögnum og skal miða við að undirbúningur hennar hefjist í 9. bekk.
Í áætluninni skulu vera upplýsingar um skólagöngu nemandans, núverandi aðstæður og stöðu og áform hans um frekara nám. Ennfremur aðrar upplýsingar vegna fyrirhugaðs náms hans við hæfi í framhaldsskóla og síðar fyrir þátttöku í atvinnulífi.

...

VI. KAFLI
Málsmeðferð.
19. gr. Umsókn foreldra og upplýsingar um úrræði.
Ef foreldrar, skólastjórnendur og sérfræðingar telja að barn fái ekki þjónustu við sitt hæfi með almennu námi í grunnskóla geta foreldrar sótt um sérúrræði innan grunnskóla eða sérskóla sem aðilar telja að veiti barninu þjónustu við hæfi.
Skólar skulu veita foreldrum upplýsingar og ráðgjöf um þau úrræði sem til boða standa vegna sérþarfa barns.

20. gr. Innritun í sérskóla eða sérúrræði og útskrift.
Áður en nemandi er innritaður í sérskóla eða sérúrræði innan grunnskóla skal meta stöðu hans í námi. Við slíkt mat skal tekið tillit til aðstæðna nemanda og heildarhagsmuna og þess gætt að hann eigi þess kost að tjá sig um þá ákvörðun eftir því sem aðstæður leyfa. Foreldrum skulu kynntar niðurstöður úr slíku mati áður en til innritunar kemur. Allar athuganir skulu gerðar í samráði við og með samþykki foreldra sem skulu hafa samráð við barn sitt að teknu tilliti til aldurs þess og þroska.
Sveitarfélög sem reka sérskóla eða önnur sérúrræði skulu setja reglur um innritun nemenda, svo og reglur um útskrift eða lok slíkrar aðstoðar þar sem gerð er grein fyrir aðkomu og mati fagaðila. Heimilt er að ákveða í slíkum reglum að ráð skipað fagaðilum skuli gera tillögu til skólastjóra um innritun og/eða útskrift nemanda úr sérskóla eða sérúrræði.

21. gr. Ágreiningur um skólavist.
Verði ágreiningur um skólavist barns eða sérúrræði því til handa skal við úrlausn hans gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Skal ákvörðun tekin með hliðsjón af áliti sérfræðinga og foreldra og með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ávallt skal reyna til þrautar að ná samkomulagi milli foreldra, skóla og sérfræðinga. Takist ekki að leysa málin með sameiginlegri niðurstöðu ber skólastjóra grunnskóla að taka ákvörðun í málinu í samræmi við ákvæði 5. mgr. 17. gr. laga um grunnskóla.
Skólastjóri getur synjað umsókn foreldra um skólavist fyrir barn í sérúrræði innan skólans eða í sérskóla. Ákvörðun um synjun verður ekki tekin nema á grundvelli metinna sérþarfa viðkomandi barns og að teknu tilliti til afstöðu foreldra og nemanda til málsins og álitsgerða sérfræðinga. Gefa skal foreldrum kost á að hafa áhrif á val á sérfræðingum. Synjun skal rökstudd ítarlega þar sem afstaða er tekin til allra þeirra sjónarmiða sem færð hafa verið fram í málinu og hvernig þau varða heildarhagsmuni barnsins. Í þeim tilvikum skal ávallt liggja fyrir hvaða sérskóli eða sérúrræði standa nemanda til boða. Áður en skólastjóri tekur endanlega ákvörðun skal liggja fyrir álit nemendaverndarráðs og sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins.

22. gr. Kæra til mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Ákvörðun skólastjóra skv. 21. gr. er kæranleg til mennta- og menningarmálaráðuneytis skv. 47. gr. laga um grunnskóla. Við meðferð kærumáls er ráðuneytinu heimilt að afla sér álits sérfræðinga. Ráðuneytið getur í úrskurði sínum mælt nánar fyrir um fyrirkomulag skólavistar nemanda og skyldur sveitarfélags í því efni.
Á meðan mál er óútkljáð skal skólanefnd tryggja nemanda viðeigandi kennsluúrræði.

31. Heilsuvernd skólabarna

Heilsuvernd skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Heilsugæslustöðvar annast heilsugæslu í grunnskólum skv. 15. gr. reglugerðar um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007. Þjónustan skal að jafnaði veitt í skólanum. Heilsugæslustöðvar skulu, í samræmi við lög um grunnskóla (41. gr.), hafa samráð við skólanefnd og skólastjóra um skipulagningu og fyrirkomulag heilsugæslunnar. Skólastjóra ber að fylgjast með því að nemendur njóti skólaheilsugæslu í skólanum í samræmi við þá tilhögun sem ákveðin hefur verið.

Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru fræðsla og heilsuefling, bólusetningar, skimanir og skoðanir og umönnun veikra og slasaðra barna ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans. Heilsuvernd skólabarna sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta, ýmist í hópfræðslu eða á einstaklingsgrunni. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6h heilsunnar, sjá nánar á www.6h.is. Á vef landlæknis er að finna leiðbeiningar um heilsuvernd grunnskólabarna og þau markmið sem unnið skal að.

Skólahjúkrunarfræðingar eru yfirleitt með fastan viðverutíma í grunnskólum en stundum starfa þeir einnig á heilsugæslustöðvum nálægt skólanum. Nemendur og foreldrar geta leitað til skólahjúkrunarfræðingsins með ýmis mál varðandi heilsu og líðan. Skólahjúkrunarfræðingurinn getur t.d. aðstoðað nemendur með mál sem varða vanlíðan, verki, næringu, útlit, húðvandamál, kynheilbrigði og getnaðarvarnir. Ef nemendur hafa áhyggjur af geðheilbrigði sínu er gott að byrja á því að ræða líðanina við hjúkrunarfræðinginn.

Í skólanum er veitt fyrsta hjálp og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins. Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm, ofnæmi eða annað sem stefnt getur heilsu þess í hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæslan viti af því. Sjá nánar hér á vef landlæknis.

Skólaheilsugæslan sinnir reglubundnum skoðunum, svo sem sjónprófum, hæðar- og þyngdarmælingum. Í 7. bekk eru börn bólusett er gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (ein sprauta) og stúlkur eru bólusettar gegn HPV veirunni (þrjár sprautur á 6-12 mánaða tímabili). Í 9. bekk eru börn bólusett er gegn mænusótt, barnaveiki, stífkrampa og kíghósta (ein sprauta).

Mikið er til af fræðsluefni um bólusetningar. Sjá t.d. hér á vef landlæknis, hér á vef heilsugæslunnar, hér á vefnum 6h.is og að lokum má benda á upplýsingabækling sóttvarnalæknis um bólusetningar barna.

Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra. Mikilvægt er að börn komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning á að fara fram. Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna. Ef foreldrar ákveða að þiggja ekki bólusetningar fyrir börn sín þá eru þeir beðnir um að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing viðkomandi skóla símleiðis eða með tölvupósti áður en bólusetningar fara fram í skólanum. Slíkt ber að skrá í heilsufarsskrá barns.

Þegar ákvarðanir eru teknar um bólusetningar er það skylda foreldra að hlusta á og virða sjónarmið barna sinna. Frá 16 ára aldri ráða börn sjálf hvort þau láta bólusetja sig.

Fjallað er nánar um heilsu og líðan barna og unglinga hér á heimasíðu umboðsmanns barna. Sjá einnig kaflann um meðferð trúnaðarupplýsinga.

Í flestum skólum eru einhver börn sem þurfa að taka inn lyf á skólatíma. Börn, sérstaklega í yngri bekkjum grunnskóla, geta yfirleitt ekki sjálf borið ábyrgð á lyfjatökunni. Ábyrgðin er foreldra en skólahjúkrunarfræðingar og starfsmenn skóla aðstoða barnið við lyfjatökuna. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlíngjafir sem barnið sér sjálft um. Foreldrar barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólaheilsugæslu sem skipuleggur lyfjagjafir á skólatíma. Árið 2010 gaf landlæknisembættið út tilmæli landlæknis um lyfjagjafir í skólum.

32. Sjúkrakennsla

Fjallað er um sjúkrakennslu í VII. kafla reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010:

23. gr. Sjúkrakennsla.
Nemandi, sem að mati læknis getur ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda, á rétt á sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Kennslan getur að hluta til farið fram sem fjarkennsla eða dreifnám undir leiðsögn kennara og eftirliti foreldra eða starfsmanna sjúkrastofnana að höfðu samráði við grunnskóla viðkomandi nemanda. Ákvæði þetta tekur ekki til tilfallandi veikinda nemenda sem standa skemur en viku.
Nemandi á rétt á sjúkrakennslu um leið og hann að mati læknis getur lagt stund á nám og skal lengd daglegrar eða vikulegrar sjúkrakennslu miðast við ástand hans og þrek. Markmið sjúkrakennslu er að nemandi missi sem minnst af kennslu og verði ekki af tækifærum til náms vegna slyss eða langvarandi veikinda.
Skólastjóri ákveður í samráði við lækni og foreldra, umfang og nánara fyrirkomulag kennslunnar. Hann ber ábyrgð á því að viðeigandi sjúkrakennsla sé veitt. Hann ber ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár til lengri eða skemmri tíma þar sem tekið er mið af aðstæðum, veikindum og þörfum nemanda.
Nýta skal upplýsinga- og samskiptatækni eins og kostur er þegar sjúkrakennsla er skipulögð. Þá skal nemandi eiga þess kost að tengjast skólanum sínum og umsjónarhópi sem best eftir því sem aðstæður og ástand hans leyfir.
Um kostnað af sjúkrakennslu nemenda fer samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og samnings sem gerður er á grundvelli þeirra.

33. Nemendur með annað móðurmál en íslensku

Í 16. gr. grunnskólalaga er kveðið á um rétt nemenda með annað móðurmál en íslensku og móttökuáætlun vegna þeirra:

Kennsla í grunnskólum skal fara fram á íslensku. Heimilt er að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar það leiðir af eðli máls eða aðalnámskrá.
Grunnskólar taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Foreldrum skulu á þeim tímamótum veittar upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu. 
Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja skal að þessir nemendur og foreldrar þeirra fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf.
Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Með kennslunni er stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda og að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Grunnskólum er heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli.

Í greininni er gert ráð fyrir að grunnskólar vinni sérstaka móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku í samræmi við aðalnámskrá. Slík áætlun ætti að miðast við móttöku þessara nemenda almennt í skólanum og jafnframt móttöku hvers nemanda. Sérstök móðurmálskennsla er hins vegar ekki lögbundin fyrir alla nemendur, enda er talið óframkvæmanlegt að koma slíku við á öllum tungumálum. Hins vegar er æskilegt að nemendur fái tækifæri til að rækta móðurmál sitt, t.d. sem valgrein eða í fjarnámi, og fái það metið í grunnskólum óski nemendur eða foreldrar þeirra þess. Því er gert ráð fyrir að grunnskólum verði heimilt að viðurkenna kunnáttu eða nám nemenda með annað móðurmál en íslensku í eigin móðurmáli sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms á erlendu tungumáli eða verði metið sem valgrein. Í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., og 7. og 10. bekk grunnskóla nr. 435/2009 er fjallað um framkvæmd, undanþágur og niðurstöður samræmdra könnunarprófa. Þar segir m.a. í 6. gr. að skólastjóri megi, að fengnu skriflegu samþykki foreldra, veita nemanda undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunarpróf. Heimild skólastjóra til undanþágu tekur m.a. til:

- nemenda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í íslensku,
- nemenda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í stærðfræði enda hafi nemandi dvalið skemur á landinu en eitt ár,
- nemanda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í ensku í 10. bekk enda hafi nemandi dvalið skemur á landinu en tvö ár.

34. Valgreinar, nám á framhaldsskólastigi og þátttaka í atvinnulífi

Í 8., 9. og 10. bekk mega námsgreinar vera að hluta til frjálst val nemenda skv. 26 gr. laga um grunnskóla. Nemendur skulu velja námsgreinar og námssvið í allt að fimmtung námstímans samkvæmt nánari viðmiðunum sem settar eru í aðalnámskrá grunnskóla. Skólum er heimilt að skipuleggja mismunandi hlutfall valtíma eftir árgöngum í 8.-10. bekk og binda valið að hluta tilteknum námssviðum. Heimilt er að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla, t.d. við tónlistarskóla, sem hluta af grunnskólanámi samkvæmt nánari útfærslu í aðalnámskrá grunnskóla. Stundi nemandi slíkt nám er viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þótt námið njóti viðurkenningar í stað skyldunáms. Jafnframt er heimilt að meta tímabundna þátttöku í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám, enda falli það að markmiðum skólastarfs.

Grunnskólanemendur eiga rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni. Gert er ráð fyrir að samkomulag liggi fyrir milli viðkomandi grunnskóla og framhaldsskóla um framkvæmdina. Gera þarf samning milli ríkis og sveitarfélaga um framkvæmdina þegar nemendur stunda samtímis nám í grunn- og framhaldsskóla. Í samningnum þarf m.a. að koma fram að nemandinn sé á ábyrgð grunnskólans og að samræming á námi nemandans sé á ábyrgð grunnskólans. Jafnframt þarf að skýra ákvæði um kostnaðarskiptingu, t.d. kennslukostnað, innritunarkostnað, bókakaup og gjaldtökuheimildir og að það sé á ábyrgð grunnskólans að útskrifa nemandann og meta hvort hann hafi lokið grunnskólanámi. Skólastjóri í grunnskóla veitir nemanda heimild til slíks náms utan skólans samkvæmt viðmiðum sem sett eru í aðalnámskrá. Ákvörðun skólastjóra samkvæmt þessari málsgrein lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga. Heimilt er að kæra synjun um mat á námi eða beitingu heimildar samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr. grunnskólalaganna. Í úrskurði getur menntamálaráðuneyti lagt fyrir skólastjóra grunnskóla að veita nemanda heimild til náms á framhaldsskólastigi.

35. Kostnaður í skyldunámi

Meginreglan er að menntun í grunnskóla er gjaldfrjáls. Í 31. gr. laga um grunnskóla segir:

Kennsla í skyldunámi í opinberum grunnskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Sama á við um nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum, enda sé námið skilgreint sem hluti náms í grunnskóla. Þó er opinberum aðilum ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír. 
Nú stundar grunnskólanemandi nám í framhaldsskóla sem skilgreint er sem hluti náms í grunnskóla, og fer þá um kostnað vegna kennslu á framhaldsskólastigi eftir ákvæðum laga um framhaldsskóla. Sveitarfélög greiða þá kostnað vegna námsgagna og innritunar og eftir atvikum efnisgjald. Um nánari framkvæmd og fyrirkomulag skal samið milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla. 
Ráðuneyti er skylt að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt aðalnámskrá.
Óheimilt er að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Þó er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda, að höfðu samráði við foreldra.
Ákvarðanir um gjaldtöku samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr.

Í september 2010 úrskurðaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að skólastjórnendum sé ekki heimilt að mæla sérstaklega með kaupum á ákveðinni tegund af skipulagsbók á innkaupalistum nemenda. Sjá nánar úrskurð í stjórnsýslumáli nr. 48/2009.

Í greinargerð með frumvarpinu er 2. mgr. um nám í framhaldsskóla útskýrð nánar með þessum hætti:

Nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum getur í eðli sínu verið þrenns konar. Í fyrsta lagi getur verið um að ræða nám sem skipulagt er af grunnskólum samkvæmt samkomulagi við framhaldsskóla. Þá greiðir ríkið kennslukostnað vegna áfanga sem nemandinn tekur og fær metna síðar sem hluta af framhaldsskólanámi. Sveitarfélögin greiða kostnað vegna námsgagna og innritunarkostnað nemenda í framhaldsskóla, enda er námið einnig metið sem hluti af skyldunámi, t.d. sem valgrein, og skal því vera nemendum að kostnaðarlausu, sbr. 3. og 4. mgr. 26. gr. Þegar um þetta er að ræða skulu sveitarfélag og framhaldsskóli gera með sér samkomulag. Í öðru lagi geta nemendur tekið einstaka námsáfanga í framhaldsskóla sem viðbót við grunnskólanám. Þá greiðir ríkið fyrir kennslukostnað og nemandinn greiðir fyrir námsgögn og innritunarkostnað, enda er námið ekki metið sem hluti af grunnskólanámi, en með þessum hætti getur nemandi flýtt fyrir sér í námi og fengið viðfangsefni við hæfi í einstökum greinum þótt hann að öðru leyti stundi nám í grunnskóla. Loks er möguleiki að nemandi óski eftir því að fá nám í einstökum framhaldsskólaáföngum metið sem valgrein, en að öðru leyti er námið ekki skipulagt í samstarfi grunnskóla og framhaldsskóla. Þá er sveitarfélögum ekki skylt að greiða kostnað sem af náminu hlýst, sbr. ákvæði 26. gr. frumvarpsins.

Samkvæmt 26. gr. grunnskólalaga er heimilt að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla, t.d. við tónlistarskóla, sem hluta af grunnskólanámi, samkvæmt nánari útfærslu í aðalnámskrá grunnskóla. Stundi nemandi slíkt nám er viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þótt námið njóti viðurkenningar í stað skyldunáms.

36. Vettvangsferðir

Eins og segir hér að ofan í 4. mgr. 31. gr. grunnskólalaga er óheimilt að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Þó er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda, að höfðu samráði við foreldra. Ákvarðanir um gjaldtöku vegna vettvangsferða eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr. Í athugasemdum sem fylgdu með 31. gr. segir um vettvangsferðir:

Þó er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda að höfðu samráði við foreldra. Víða í aðalnámskrá eru ákvæði um æskilegt vettvangsnám, t.d. í tengslum við náttúrufræði og samfélagsgreinar, svo sem ferðir á söfn og út í náttúruna. Nýtt ákvæði er þess efnis að heimilt er að taka gjald fyrir námsferðir nemenda vegna kostnaðar við uppihald enda er almenn gjaldtökuheimild vegna skólamáltíða. Sveitarfélög geta því tekið gjald af nemendum við uppihald t.d. vegna skólabúða og lengri námsferða innan lands og utan. Gert er ráð fyrir að ekki sé ráðist í námsferðir þar sem fyrirhuguð er gjaldtaka af nemendum án samráðs við foreldra.

37. Skólaakstur

Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi skólaaksturs þar sem hann á við og standa straum af kostnaðinum skv. 22. gr. grunnskólalaga. Skólaakstur skal vera nemendum að kostnaðarlausu.

Árið 2009 setti menntamálaráðherra reglur nr. 656/2009 um skólaakstur í grunnskóla. Efnislega fjalla reglurnar um ábyrgð á skólaakstri, fyrirkomulag, skipulag, öryggi og búnað skólabifreiða, bifreiðastjóra, fatlaða nemendur og meðferð ágreiningsmála.

38. Matur

Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið skv. 23. gr. laga um grunnskóla. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Almennt viðmið er að nemendur greiði hráefniskostnað vegna skólamáltíða. Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar eftir fyrirmælum 47. gr. grunnskólalaga.

39. Húsnæði, skólalóð og öryggi

Í 4. kafla í aðalnámskrá — almennum hluta (2011) segir að skólinn sé vinnustaður nemenda um tíu ára skeið á mikilvægu þroska- og mótunarskeiði þeirra. Í 20. gr. grunnskólalaga segir um skólahúsnæði:

Gerð skólamannvirkja er undirbúin af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd og skólaráð. Stofnkostnaður grunnskóla á vegum sveitarfélaga greiðist af viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarfélög annast einnig og kosta viðhald skólahúsnæðis og endurnýjun og viðhald búnaðar þess. Gert skal sérstaklega ráð fyrir rými fyrir sérfræðiþjónustu við börn með sérþarfir og vinnuaðstöðu starfsfólks. 
Í öllum grunnskólum skal gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns sem skal vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist námsgreinum og námssviðum aðalnámskrár grunnskóla.
Grunnskólahúsnæði og skólalóðir skulu uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögum þessum, lögum um vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks, svo sem hvað varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu.
Við hönnun, byggingu og endurnýjun skólahúsnæðis skulu sveitarfélög hafa samráð við hagsmunaaðila skólasamfélagsins og aðila í grenndarsamfélagi.
Ráðherra setur reglugerð um húsnæði og búnað grunnskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem nánar skal kveðið á um aðstöðu, búnað, slysavarnir og öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum.

Í 21. gr. grunnskólalaga segir að skólastjóri skuli sjá um daglega umsjón skólamannvirkja samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar og að sveitarstjórn geti í samráði við skólastjóra ráðstafað skólahúsnæði öllu eða hluta þess til annarrar starfsemi svo fremi sem það raskar ekki lögbundinni notkun húsnæðisins.

Í reglugerð nr. 657/2009 um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða eru ákvæði um hönnun, lágmarksaðstöðu, öryggi og slysavarnir. Þriðja grein reglugerðarinnar er svohljóðandi:

Húsnæði og skólalóðir skulu uppfylla kröfur laga nr. 91/2008 um grunnskóla, reglugerðar þessarar, aðalnámskrár grunnskóla og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Einnig ber að uppfylla kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja. Húsnæði, skólalóð og allur aðbúnaður þarf að vera þannig úr garði gerður að unnt sé að ná markmiðum laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Er þar sérstaklega átt við að nemendum og starfsfólki skóla sé tryggt öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi sem skapar öryggi og vellíðan þeirra svo sem varðandi hentugan húsbúnað, hljóðvist og lýsingu, fjölbreytni í náms- og leikaðstöðu og annan búnað. 

Í 7. gr. reglugerðarinnar segir:

Húsnæði, lóð, aðstaða, búnaður og öll starfsemi sem börn taka þátt í á vegum grunnskóla skal miðast við að öryggi nemenda sé tryggt.
Nemandi er á ábyrgð skólans meðan á daglegum starfstíma skólans stendur, þegar hann tekur þátt í skipulögðu skólastarfi innan skólans, á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans.

Í reglugerðinni segir ennfremur í 8. gr. að sveitarstjórn skuli útbúa handbók fyrir starfsfólk grunnskóla með leiðbeinandi reglum um öryggi nemenda og slysavarnir í grunnskólum. Öryggishandbók grunnskóla má finna hér.

Sjá einnig reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim en hún tekur til skólalóða. Hér er umfjöllun um leiksvæði barna og hér er umfjöllun um öryggi og slysavarnir barna.

í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 er í VIII. kafla fjallað um  kennslustaði, leikvelli o.fl. Þar  segir t.d. í 1. mgr. 38. gr. :

Heimilt er að krefjast þess að skólalóð við leikskóla og grunnskóla sé girt af að öllu leyti eða hluta vegna slysahættu í umhverfinu.

Ef foreldrar hafa áhyggjur af aðbúnaði í skólanum, t.d. vegna hávaða eða aðstöðu nemenda, er heimild til að láta kanna og bæta t.d. hljóðvist í 35. gr. grunnskólalaga:

Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum er að: 
a. veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda,
b. tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla,
c. auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
d. tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Öryggishandbók grunnskóla er hægt að nálgast hér á vef Menntamálastofnunar.

40. Námsmat

Í 27. gr. laga um grunnskóla er fjallað um námsmat:

Mat á árangri og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi. Tilgangur þess er að fylgjast með því hvernig nemendum tekst að mæta markmiðum aðalnámskrár og ná námsmarkmiðum sínum, örva nemendur til framfara og meta hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Nánari ákvæði um námsmat skulu sett í aðalnámskrá grunnskóla.
Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og foreldrum þeirra. Þó er heimilt að veita þessar upplýsingar vegna flutnings nemenda milli skóla og innritunar í framhaldsskóla, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Nemendur og foreldrar þeirra eiga rétt á upplýsingum um niðurstöður mats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þeir eiga jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Slík endurskoðun telst ekki ígildi stjórnsýslukæru í skilningi stjórnsýslulaga.
Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um meðferð niðurstöðu námsmats í grunnskólum og miðlun upplýsinga um námsmat vegna flutnings nemenda milli skóla og innritunar í framhaldsskóla og um rétt foreldra til þess að fá vitneskju um slíkar upplýsingar.

Í þessu sambandi gæti verið gott að skoða einnig kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga hér á síðunni. Um rökstuðning skóla fyrir námsmati segir í athugasemd við 27. gr. frumvarps til grunnskólalaga:

Rétt er að taka fram að skv. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, getur aðili máls krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt. Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. sama ákvæðis gildir þetta þó ekki ef um er að ræða einkunnir sem veittar eru fyrir frammistöðu á prófum. Almennt eiga nemendur því ekki rétt á rökstuðningi einkunnagjafar í skólum hér á landi. Þrátt fyrir þetta þykir rétt að kveða hér á um tiltekin réttindi nemenda um skýringar á niðurstöðum mats á prófúrlausnum og rétt til endurskoðunar þess mats innan grunnskólans. Slík endurskoðun felur samkvæmt ákvæðinu ekki í sér stjórnsýslukæru innan grunnskólans. Þannig verður til að mynda ekki um það að ræða að niðurstaða endurskoðunar feli í sér úrskurð í skilningi stjórnsýslulaga, t.d. með þeim áhrifum að niðurstöðuna beri að rökstyðja skriflega. Á skóla hvílir sú skylda að tryggja að endurskoðunarferli sé trúverðugt og hlutlaust. Ekki er gert ráð fyrir að niðurstöður grunnskóla um einkunnagjöf séu kæranlegar til annarra aðila í stjórnsýslunni utan viðkomandi skóla.

Í 39. gr. grunnskólalaga er fjallað um samræmt námsmat (áður nefnt samræmd próf) sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur fyrir. Í 2. - 3. mgr. 39. gr. segir:

Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði skulu lögð fyrir alla nemendur í 4. og 7. bekk grunnskóla. Nemendur í fyrri hluta 10. bekkjar skulu þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Önnur próf skal halda samkvæmt ákvörðun ráðherra. 
Skólastjóra er heimilt ef gildar ástæður mæla með því og samþykki foreldra liggur fyrir að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta könnunarpróf í einstökum prófgreinum 4., 7. og 10. bekkjar.

Í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., og 7. og 10. bekk grunnskóla nr. 435/2009 er fjallað um framkvæmd, undanþágur og niðurstöður samræmdra könnunarprófa. Þar segir m.a. í 6. gr. að skólastjóri megi, að fengnu skriflegu samþykki foreldra, veita nemanda undanþágu frá því að þreyta samræmd könnunarpróf. Heimild skólastjóra til undanþágu tekur til:

nemenda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í íslensku,

nemenda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í stærðfræði enda hafi nemandi dvalið skemur á landinu en eitt ár,

nemenda í sérskólum, sérdeildum og öðrum þeim nemendum á skyldunámsaldri sem taldir eru víkja svo frá almennum þroska að þeim henti ekki samræmd könnunarpróf,

nemenda sem hafa orðið fyrir líkamlegu eða andlegu áfalli sem gerir þeim ókleift að þreyta samræmt könnunarpróf.

nemanda með annað móðurmál en íslensku vegna prófs í ensku í 10. bekk enda hafi nemandi dvalið skemur á landinu en tvö ár.

41. Upplýsingar um barn

Til þess að skólaganga barns geti gengið sem eðlilegast fyrir sig verða stjórnendur grunnskóla að hafa réttar og sem bestar upplýsingar um barn og líðan þess. Foreldrar skulu eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna. Í 18. gr. grunnskólalaga segir að foreldrum sé skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Í 3. mgr. 18. gr. segir:

Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins. Um persónuupplýsingar sem þannig er aflað eða fylgt hafa barni úr leikskóla er krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessum upplýsingum. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi skólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess. Ráðherra setur reglugerð um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga og um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín.

Sjá reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín, nr. 897/2009.

Upplýsingar sem teljast nauðsynlegar við ákvörðun um rétt eða skyldu nemenda geta fallið hér undir og enn fremur upplýsingar sem teljast nauðsynlegar fyrir skólastjórnendur til þess að rækja skyldur sínar samkvæmt grunnskólalögum. Í þessu sambandi má benda á 16. gr. laga um leikskóla þar sem fjallað er um tengsl leikskóla og grunnskóla:

Sveitarstjórn skal koma á gagnvirku samstarfi leikskóla og grunnskóla. Í skólanámskrá skal gera grein fyrir samstarfi milli leikskóla og grunnskóla og hvernig skuli standa að færslu og aðlögun barna milli skólastiga. 
Persónuupplýsingar, sem fyrir liggja um hvert einstakt barn í leikskóla og nauðsynlegar eru fyrir velferð og aðlögun þess í grunnskóla, skulu fylgja barninu, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Foreldrum skal gerð grein fyrir þessari upplýsingamiðlun. Meðferð upplýsinga skal vera á hendi leikskólastjóra eða annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins samkvæmt nánari ákvörðun þess.
Ráðherra setur reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla þar sem m.a. skal kveðið á um hvaða upplýsingar falla undir grein þessa, um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga milli skólastiga og um stöðu og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum sem varða börn þeirra.

Flestir skólar nota upplýsinga- og námskerfið Mentor (eða svipað kerfi) til þess að miðla upplýsingum til bæði foreldra og nemenda. Notkun kerfisins virðist almennt hafa reynst vel. Umboðsmaður barna fær þó reglulega fyrirspurnir og ábendingar varðandi skráningu, varðveislu og aðgang að upplýsingum um nemendur í  Mentor. Í bréfi sínu til grunnskólanna frá 2015 tók umboðsmaður barna saman nokkur atriði sem hann telur mikilvægt að starfsfólk grunnskóla hafi í huga við notkun kerfisins. Þar má nefna friðhelgi einkalífs barna, eðli skilaboða til barna, aðgang foreldra og mikilvægi þess að skólar setji sér reglur um skráningu í Mentor eða sambærileg kerfi.

Sjá reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla, nr. 896/2009.

42. Upplýsingaskylda skóla við forsjárlausa foreldra

Um upplýsingaskyldu skóla við forsjárlausa foreldra gildir ákvæði 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem hljómar svona:

Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá frá hinu munnlegar upplýsingar um hagi þess, þar á meðal varðandi heilsufar þess, þroska, dvöl á leikskóla, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengsl.
Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris. Stofnunum og stjórnvöldum, sem nefnd eru í 2. mgr., er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn. Skjóta má synjun um upplýsingar um barn skv. 3. mgr. til sýslumanns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun sýslumanns samkvæmt þessari málsgrein verður ekki kærð til ráðuneytisins.
 Þegar sérstaklega stendur á getur sýslumaður ákveðið að ósk forsjárforeldris að svipta hitt foreldrið heimild til að fá upplýsingar skv. 2. mgr. Um kæru slíkrar ákvörðunar sýslumanns fer skv. 78. gr.

43. Meðferð trúnaðarupplýsinga

Nemendur eiga skv. lögum almennt rétt á því að fá upplýsingar frá skólayfirvöldum sem varða þá sjálfa. Nemendur eiga líka almennt rétt að fá vitneskju frá skólanum um það hvaða upplýsingar hefur verið, eða er, unnið með, um tilgang þeirrar vinnslu upplýsinga, hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingarnar, hvaðan þær koma og hvaða öryggisráðstafanir eru viðhafðar vegna þeirrar vinnslu.

Samkvæmt barnalögum ráða forsjáraðilar nemenda persónulegum högum þeirra, bera ábyrgð á velferð þeirra og fara með lögformlegt forsvar þeirra. Foreldrar eða forsjáraðilar nemenda eiga því almennt rétt á mikilvægum upplýsingum um börn sín. Þessi réttur takmarkast þó af rétti barnanna sjálfra til trúnaðar starfsmanna skólans.

Samkvæmt 27. gr. grunnskólalaga eiga nemendur og foreldrar þeirra rétt á upplýsingum um niðurstöður mats, matsaðferðir og matstæki, þar með talinn rétt á að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þeir eiga jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og foreldrum þeirra. Þó er heimilt að veita þessar upplýsingar vegna flutnings nemenda milli skóla og innritunar í framhaldsskóla, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og málsmeðferðar í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 9. gr. laga nr. 97/1995, segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Friðhelgi einkalífs er skilgreint á eftirfarandi hátt í athugasemd með 9. gr. frumvarps til stjórnskipunarlaga nr. 97/1995: „Í friðhelgi einkalífsins felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu.“ Fleiri atriði falla tvímælalaust undir vernd einkalífs svo sem réttur manna til trúnaðarsamskipta við aðra. Börn jafnt sem fullorðnir eiga að njóta þeirrar verndar sem ákvæðið kveður á um í einka- og fjölskyldulífi, enda segir í ákvæðinu að „allir“ skuli njóta réttar til friðhelgi.

Ákvæði um þagnarskyldu starfsstétta er víða að finna í löggjöf. Meginrökin fyrir lögbundinni þagnarskyldu starfsmanna ríkis og sveitarfélaga byggist annars vegar á grundvallarrétti manna til friðhelgi einkalífs og hins vegar á því trúnaðarsambandi sem nauðsynlegt er að sé á milli borgaranna og starfsmanna hins opinbera. Í 12. gr. grunnskólalaga segir að starfsfólk grunnskóla skuli gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna og foreldra þeirra, sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum. Þrátt fyrir þau mikilvægu rök sem búa að baki lögbundinni þagnarskyldu getur verið nauðsynlegt að takmarka þagnarskyldu starfsmanna. Þagnarskylda starfsfólks grunnskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt og skal skólastjóri brýna skyldur þessar fyrir starfsfólki, sérstaklega tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, sjá nánar í næsta kafla um tilkynningarskyldu til barnaverndar.

Nemandi í vanda á rétt á að leita til starfsfólks skóla eftir aðstoð að eigin frumkvæði, fá aðstoð og að aðstoðin sé veitt á trúnaðargrundvelli. Meta verður hvert einstakt tilvik, alvarleika þess og þá hagsmuni sem í húfi eru. Starfsmaður þarf að þekkja inntak tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda og hann þarf að virða rétt og vilja barns til að hafa trúnaðarsamskipti við aðra en foreldra sína að teknu tilliti til aldurs og þroska barns. Hafi starfsmaður þetta sjónarmið að leiðarljósi á barn að geta rætt við hann í trúnaði. Komi upp þær aðstæður að foreldrar þurfi að koma að máli síðar vegna þess að gera þurfi formlegar athuganir eða rannsóknir á barninu þarf að skýra vel út fyrir barninu ástæðu þess að afskipta foreldra er þörf.

Afar mikilvægt er að starfsfólk geri sér grein fyrir að hagsmunir barns og foreldra þurfa ekki að fara saman. Virða verður rétt barns til að koma fram sem sjálfstæður einstaklingur og tjá skoðanir sínar. Þá á starfsmaður að virða rétt barns til trúnaðarsamskipta á sama hátt og hann myndi gera ef fullorðinn maður ætti hlut að máli. Hafa verður þó í huga að erfitt er að gefa nákvæmar leiðbeiningar um mál sem þessi, hvað þá að lögfesta. Atvik geta þróast þannig að nauðsynlegt sé að foreldrar komi að málinu á einn eða annan hátt, jafnvel gegn vilja barnsins. Þegar málum er þannig háttað þarf starfsmaður að sýna barninu tillitssemi og skýra vel út ástæðu þess að nauðsynlegt er að foreldrar komi að málinu. Í samskiptum við foreldra þarf hann einnig að sýna barni fullan trúnað því ella er jafnvel hætta á að samband barns og foreldra skaðist.

Nánari umfjöllun er að finna í ritinu Friðhelgi einkalífs. Réttur barna til friðhelgi einkalífs. Réttur barna til trúnaðar af hálfu opinberra starfsmanna. sem umboðsmaður barna gaf út 2003. 

44. Tilkynningarskylda til barnaverndaryfirvalda

Tekið er fram í 3. mgr. 17. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem fjallar um tilkynningarskyldu þeirra sem stöðu sinnar og starfa vegna hafa afskipti af málefnum barna, að tilkynningarskyldan samkvæmt barnaverndarlögum gangi framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Undanþága frá þagnarskyldu er talin réttlætanleg vegna hagsmuna barns og þeirra verndarsjónarmiða sem liggja að baki barnaverndarstarfi. Til eru sérstakar verklagsreglur um tilkynningarskyldu starfsfólks leik-, grunn-, og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda.

Tilkynningarskylda gengur því framar trúnaðarskyldu ef um er að ræða atvik sem benda til að aðbúnaður og uppeldisaðstæður barns séu óviðunandi, barn sé í hættu eða grunur er um að barn hafi framið refsiverðan verknað eða refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni. Við slíkar aðstæður eru þeir hagsmunir sem í húfi eru, ef tilkynningarskyldu er ekki fullnægt, mun meiri og ríkari en hagsmunir sem tengjast trúnaði við barnið. Þegar atvik eru með þessum hætti er mikilvægt að starfsmaðurinn upplýsi barn um að á honum hvíli skylda til að tilkynna barnaverndarnefnd um málið vegna alvarleika þess. Hann verður að útskýra vel fyrir barni ástæðuna og þær afleiðingar sem tilkynning kunni að hafa fyrir barnið og fjölskyldu þess. Það er ótvíræður réttur barns að starfsmaður segi barni frá því ef hann verður að rjúfa trúnað við það vegna fyrirmæla um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda.

45. Túlkun upplýsinga til  foreldra

Í 18. gr. grunnskólalaga, sem fjallar um upplýsingaskyldu skóla og foreldra, segir að ef foreldrar nemanda tala ekki íslensku eða nota táknmál skuli skóli leitast við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt 18. greininni. Í greinargerð með frumvarpinu er þetta ákvæði útskýrt svona:

Til að foreldrar geti gætt hagsmuna barna sinna vegna skólastarfsins og að upplýsingagjöf foreldra til skóla og frá skóla til foreldra sé greið er nauðsynlegt að foreldrum sem ekki tala íslensku eða foreldrum sem nota táknmál sé tryggð túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla. Er þá bæði átt við upplýsingar sem tengjast hagsmunagæslu foreldra fyrir börn sín vegna skólastarfsins sem og túlkun vegna upplýsingaskyldu foreldra og skóla. Vitaskuld getur oft reynst erfitt að tryggja túlkun fyrir útlendinga sem koma frá fjarlægum löndum og einnig kann í sumum tilvikum að duga að túlkað sé á tungumál sem foreldrar skilja þótt ekki sé um túlkun á móðurmáli þeirra að ræða. Ekki þykir viðeigandi að börn af erlendum uppruna séu fengin til að túlka upplýsingar fyrir foreldra sína sem ekki skilja íslensku. Er því tekið fram í 3. mgr. að leitast skuli við að tryggja túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt greininni. Umfang túlkunar er því háð mati hverju sinni. Gera verður ráð fyrir því að sveitarfélög geti einnig gripið til annarra úrræða til að koma á framfæri upplýsingum um skólastarf án beinnar túlkunar, svo sem með skriflegum upplýsingum á viðkomandi tungumálum, eins og vikið er að í athugasemdum við 18. gr. Ljóst er á hinn bóginn að í þeim tilfellum þar sem teknar eru ákvarðanir um rétt eða skyldu nemenda, sbr. 47. gr., verður slíkt tæpast gert án aðstoðar túlks, þar sem það á við. Ábyrgð á túlkun upplýsinga í þessu sambandi hvílir á viðkomandi skóla.

46. Lok grunnskóla

Um lok grunnskóla segir í 32. gr. grunnskólalaga:

Er grunnskólanámi lýkur skal nemandi fá skírteini er votti að hann hafi lokið námi samkvæmt lögum þessum. Í skírteini skal skrá vitnisburð nemanda á lokaári í grunnskóla í því námi er hann lagði stund á.
Skólastjóri metur hvort nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla. Heimilt er að útskrifa nemanda úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið, enda uppfylli nemandi námskröfur grunnskóla í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár. Í aðalnámskrá grunnskóla skal nánar kveðið á um útfærslu þessarar greinar. Ákvörðun skólastjóra í þessu efni lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga. Foreldri getur kært synjun um útskrift úr grunnskóla samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr.

Um þessa grein segir m.a. í athugasemdum með frumvarpi til grunnskólalaga:

Nokkuð hefur borið á því að talið hefur verið nægjanlegt að nemendur ljúki samræmdum lokaprófum í grunnskóla í tilteknum námsgreinum og þá megi útskrifa nemendur úr grunnskóla. Samkvæmt þessari grein ber nemendum að ljúka öllu skyldunámi samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla áður en þeir útskrifast úr grunnskóla. Nemendur sem ekki hafa lokið grunnskólaprófi geta þá eingöngu hafið nám í framhaldsskóla á þeim grunni að um það sé samkomulag við viðkomandi grunnskóla, í samráði við viðkomandi sveitarfélag, þar sem ljóst sé með hvaða hætti nemendur verði formlega útskrifaðir úr grunnskóla.

47. Vinna með skóla

Í 13. gr. grunnskólalaga segir að grunnskólinn sé vinnustaður nemenda. Í lögunum er því gengið út frá því að nám í grunnskóla sé full vinna fyrir nemendur. Því er óbeint gert ráð fyrir því að nemendur stundi ekki aðra vinnu á grunnskólaaldri. Sjá nánar í umfjöllun um vinnu barna og unglinga hér á heimasíðu umboðsmanns barna. Sjá einnig ákvæði í X. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga. 

48. Boðleiðir — ágreiningsmál

Ef upp koma álitamál varðandi starfið í skólanum eða ágreiningsmál milli foreldra og starfsfólks er mikilvægt að málið rati rétta leið innan kerfisins. Skólastjóri er æðsti yfirmaður hvers grunnskóla. Næst er eðlilegt að málið berist þeirri skrifstofu sveitarfélagsins sem fer með málefni grunnskólans (skólaskrifstofa, fræðsluskrifstofa eða skóla- og frístundasvið í Reykjavík, sjá nánar hér). Næsta stjórnsýslustig í sveitarfélaginu er svo pólitískt kjörin skólanefnd eða sú nefnd sveitarfélagsins sem fer með málefni grunnskólans (skólanefnd, fræðslunefnd, félagsmálanefnd eða skóla- og frístundaráð í Reykjavík). Skólanefndin starfar í umboði sveitarstjórnar (bæjarstjórnar eða borgarstjórnar eftir því sem við á) sem er æðsta yfirvald sveitarfélagsins. Bæjarstjóri/sveitarstjóri/borgarstjóri starfar líka í umboði sveitarstjórnar. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn mennta-, æskulýðs- og menningarmála á Íslandi og hefur eftirlit með grunnskólalögum. Hér að neðan er að finna algengt fyrirkomulag boðleiða vegna skólamála í sveitarfélögum.

-> Umsjónarkennari
-> Deildarstjóri (ef við á)
 -> Skólastjóri
-> Skrifstofa eða stofnun sveitarfélagsins sem fer með skólamál
-> Sveitarstjóri/bæjarstjóri/borgarstjóri
-> Nefnd/ráð sveitarfélagsins sem fer með skólamál
-> Sveitarstjórn/bæjarstjórn/borgarstjórn

Sveitarfélögin hafa sjálfstæða stöðu gagnvart öðrum stjórnvöldum. Þar sem ekki er fyrir sams konar stjórnsýslusambandi að fara á milli sveitarfélaga og ráðherra og er á milli æðra og lægra settra stjórnvalda ríkisins, teljast ákvarðanir sveitarstjórna almennt ekki kæranlegar til ráðherra, nema sérstaklega sé mælt svo fyrir um í lögum. Þrátt fyrir að grunnskólalög kveði á um að menntamálaráðuneytið skuli fara með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taka til og hafa eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir við þau og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um, verður slík yfirstjórn eða eftirlit ekki talið taka til annarra atriða en þeirra sem tiltekin eru í grunnskólalögum.

49. Kæruheimild

Í 47. gr. grunnskólalaga eru talin upp þau ákvæði sem fjalla um ákvarðanir sem hægt er að kæra til menntamálaráðuneytisins. Hægt er að kæra eftirfarandi ákvarðanir til menntamálaráðuneytisins:

4. mgr. 5. gr. um synjun sveitarstjórnar á skólavist barns:

Liggi ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lögheimili barns kveður sveitarstjórn á um skólaskyldu þess, enda búi barnið í sveitarfélaginu og leitað hafi verið eftir innritun þess í skóla, sbr. 19. gr. Synjun sveitarstjórnar er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur menntamálaráðuneyti lagt fyrir sveitarfélag að tryggja barni skólavist innan sveitarfélagsins.

4. mgr. 14. gr. um brottvísun nemanda úr skóla:

Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda.
Meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólanefnd er skylt innan hæfilegs tíma að tryggja nemanda, sem vikið hefur verið úr skóla, viðeigandi kennsluúrræði.
Ákvörðun skv. 4. mgr. er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Hafi sveitarfélag ekki séð nemanda fyrir kennslu getur ráðuneytið í úrskurði sínum lagt fyrir sveitarfélag að tryggja nemanda nánar tiltekin kennsluúrræði innan tilskilins tíma.

3. og 4. mgr. 15. gr. sem fjalla um veitingu undanþágu frá skyldunámi eða synjun hennar: 

Skólastjóra er heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms.
Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.
Um ákvörðun um veitingu undanþágu eða synjun hennar, sbr. 3. og 4. mgr., gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Slík ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur ráðherra mælt fyrir um að undanþága verði veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að af hálfu sveitarfélags hafi ekki verið fallist á slíka beiðni.

5. mgr. 17. gr. en í 17. gr. er fjallað um réttindi nemenda með námsörðugleika: 

Verði ágreiningur um fyrirkomulag skólavistar barns skal við úrlausn hans gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Skal ákvörðun tekin með hliðsjón af áliti sérfræðinga og með heildarhagsmuni barnsins að leiðarljósi. Ákvörðun er kæranleg samkvæmt fyrirmælum 47. gr.

1. mgr. 19. gr. um ábyrgð foreldra:

Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar skólaskylds barns bera ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skóla. Verði misbrestur á skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið. Skólastjóri skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Ákvörðun er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr.

1. mgr. 23. gr. um gjaldskrá skólamötuneyta:

Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja.
Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar eftir fyrirmælum 47. gr.

4. mgr. 26. gr. um rétt nemenda til að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi: 

Grunnskólanemendur eiga rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni. Skólastjóri í grunnskóla veitir nemanda heimild til slíks náms utan skólans samkvæmt viðmiðum sem sett skulu í aðalnámskrá. Ákvörðun skólastjóra samkvæmt þessari málsgrein lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga.
Heimilt er að kæra synjun um mat á námi eða beitingu heimildar samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr. Í úrskurði getur menntamálaráðuneyti lagt fyrir skólastjóra grunnskóla að veita nemanda heimild til náms á framhaldsskólastigi skv. 4. mgr.

4. mgr. 31. gr. sem fjallar um kostnað í skyldunámi: 

Óheimilt er að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Þó er heimilt að taka gjald fyrir uppihald í námsferðum nemenda, að höfðu samráði við foreldra.
Ákvarðanir um gjaldtöku samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr.

2. mgr. 32. gr. um lok náms í grunnskóla: 

Skólastjóri metur hvort nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla. Heimilt er að útskrifa nemanda úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið, enda uppfylli nemandi námskröfur grunnskóla í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár. Í aðalnámskrá grunnskóla skal nánar kveðið á um útfærslu þessarar greinar. Ákvörðun skólastjóra í þessu efni lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga. Foreldri getur kært synjun um útskrift úr grunnskóla samkvæmt þessari grein eftir fyrirmælum 47. gr.

2. mgr. 33. gr. um gjaldskrá fyrir lengda viðveru (heilsdagsskóla/frístundaheimili):

Í öllum grunnskólum skal nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi. Tómstunda- og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma. Sveitarstjórn getur enn fremur boðið grunnskólanemendum lengda viðveru utan daglegs kennslutíma.
Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir lengda viðveru utan daglegs kennslutíma og tómstundastarf samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Gjaldskrárákvarðanir samkvæmt þessari grein eru kæranlegar samkvæmt fyrirmælum 47. gr.

3. mgr. 40. gr. en í 40. gr. er fjallað um skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu: 

Foreldrar nemenda geta óskað eftir greiningu samkvæmt þessari grein, auk þess sem skólastjóri, kennarar eða starfsmenn heilsugæslu geta lagt fram ósk um greiningu í samráði við og með samþykki þeirra. Sérfræðiþjónusta sér um að greining fari fram, skilar tillögu til skólastjóra um hvernig við skuli bregðast, fylgist með úrbótum og metur árangur. 
...
Sé foreldri synjað um beiðni um greiningu skv. 3. mgr. verður sú ákvörðun kærð samkvæmt fyrirmælum 47. gr. Ráðuneytið getur í úrskurði mælt fyrir um að tilteknum nemanda skuli veitt greining í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

2. mgr. 46. gr. um veitingu undanþágu frá skólaskyldu:

Foreldrar, sem óska eftir undanþágu frá 3. gr. til að geta kennt börnum sínum heima, að hluta eða öllu leyti, skulu sækja um slíka heimild til síns sveitarfélags. Skólastjóri getur veitt undanþágu að höfðu samráði við skólanefnd og sérfræðiþjónustu. Börn sem hljóta heimakennslu eru undanþegin skólaskyldu skv. 3. gr., en skulu lúta eftirliti og reglulegu mati og þreyta könnunarpróf samkvæmt lögum þessum.
Ákvörðun sveitarstjórnar skv. 2. mgr. er kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. Menntamálaráðuneytið getur í úrskurði sínum lagt fyrir sveitarfélag að veita foreldrum barns heimild skv. 2. mgr.

Í 47. gr. segir ennfremur að um meðferð kærumála fari að ákvæðum stjórnsýslulaga. Hægt er að nálgast eldri úrskurði ráðuneytisins hér.

50. Kærustig innan sveitarfélags

Í 47. gr. grunnskólalaga segir að sveitarstjórn geti ákveðið í samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins að áður en hægt er að kæra ofantaldar ákvarðanir skuli fyrst beina kæru til skólanefndar eða annars tiltekins aðila innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sé heimild þessari beitt skal sveitarstjórn ákveða hvort þessi kæruréttur eigi við um hluta ákvarðana eða um þær allar, og þá skal jafnframt tekin afstaða til þess í samþykkt hvort slíkar ákvarðanir sem teknar eru af hálfu sjálfstætt rekinna grunnskóla í sveitarfélagi, sbr. 43. gr., skuli kæranlegar með sama hætti. Um málsmeðferð á kærustigi innan sveitarfélags fer að ákvæðum stjórnsýslulaga. Það er því mismunandi eftir sveitarfélögum hvernig þessum málum er háttað.

Ákveði sveitarfélag að fara þessa leið felst í því ákvörðun um að kærumál samkvæmt lögum þessum sæti því sérstaka ferli að ákvarðanir sem kæranlegar eru til menntamálaráðuneytisins skuli fyrst kærðar til skólanefndar sveitarfélagsins, þeirrar nefndar í stjórnskipulagi sveitarfélags sem hefur hlutverk skólanefndar með höndum samkvæmt samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins, eða annars þess aðila innan stjórnkerfis viðkomandi sveitarfélags sem sveitarstjórn ákveður. Viðkomandi aðili innan stjórnkerfis sveitarfélags tekur þá viðkomandi kæru til meðferðar sem sérstakt stjórnsýslumál og kveður upp úrskurð í málinu í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Í athugasemdum um 47. gr. í frumvarpinu er þetta útskýrt nánar. Þar er einnig tekið fram að aðila skuli ekki skylt að krefjast endurupptöku mála innan sveitarfélags áður en hann leitar til menntamálaráðuneytis með stjórnsýslukæru.

51. Stjórnsýslulög

Víða í grunnskólalögum segir að við tilteknar ákvarðanir skuli farið að ákvæðum stjórnsýslulaga. Stjórnsýslulög nr. 37/1993 gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu einstaklinga en það er kallað stjórnvaldsákvörðun. Í stjórnsýslulögum er að finna lágmarksreglur sem þarf að fylgja við málsmeðferð, s.s. andmælaréttur, meðalhófsregla, leiðbeiningarskylda, rannsóknarregla og jafnræðisregla. Ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lög þessi mæla fyrir um, halda gildi sínu. Um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga fer þó eftir sveitarstjórnarlögum. Rétt er að taka fram að skv. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga getur aðili máls krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.

52. Mat og eftirlit

Í 35.-39. grein grunnskólalaga er fjallað um mat og eftirlit með gæðum grunnskólastarfs. Mat á árangri og gæðum skal fara fram innan hvers grunnskóla með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á og skulu grunnskólar birta opinberlega upplýsingar um innra mat sitt. Sveitarfélög sinna ytra mati og eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. 5. og 6. gr. grunnskólalaga, og upplýsa ráðuneyti um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga o.fl. Menntamálaráðuneyti annast greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í grunnskólum á grundvelli upplýsinga frá sveitarfélögum.

53. Viðurkenning grunnskóla, samrekstur og þróunarskólar

Í 43.-45.gr. grunnskólalaga er fjallað um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum, þróunarskóla og samvinnu tveggja eða fleiri sveitarfélaga um rekstur grunnskóla. Sveitarfélögum er heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn skólanefnda. 


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.

Helstu lög og reglur

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944

Barnasáttmálinn sbr. lög nr. 19/2013

Barnalög nr. 76/2003

Lög um grunnskóla nr. 91/2008

Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008

Lög um leikskóla, nr. 90/2008

Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011

Reglugerð um skólaráð við grunnskóla nr. 1157/2008

Reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010. Með reglugerð nr. 148/2015 eru gerðar nokkrar breytingar á reglugerð nr. 585/2010

Reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010

Reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín, nr. 897/2009

Reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla, nr. 896/2009

Reglugerð nr. 856/2011 um breytingu á reglugerð um skil og miðlun upplýsinga milli leik- og grunnskóla 896/2009

Reglur um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009

Reglugerð um heimakennslu á grunnskólastigi nr. 531/2009

Reglugerð um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum nr. 547/2012

Reglugerðum gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009

Reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, nr. 872/2009

Reglugerð um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara nr. 241/2009

Reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla nr. 435/2009

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 435/2009 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 435/2009 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla

Reglugerð um mat og eftirlit í grunnskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald nr. 658/2009

Reglugerð um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan nr. 699/2012

Reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim nr. 942/2002

Reglugerð um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007

Reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002

Aðalnámskrá grunnskóla

 

 Tenglar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Persónuvernd

Menntamálastofnun

Heimili og skóli

Öryggishandbók grunnskóla

Fagráð eineltismála

Olweusarverkefnið gegn einelti

Ritið Ofbeldi gegn börnum - hlutverk skóla