Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Framhaldsskóli

Kaflar:

 1. Réttur til menntunar
 2. Helstu lög og reglur um framhaldsskóla
 3. Aðalnámskrá framhaldsskóla og skólanámskrár
 4. Hlutverk framhaldsskóla
 5. Yfirstjórn framhaldsskóla
 6. Starfsfólk framhaldsskóla og skyldur þess
 7. Aðkoma nemenda að stjórnun framhaldsskóla
 8. Inntökuskilyrði og innritun
 9. Kostnaður
 10. Styrkir
 11. Námsframboð
 12. Námsmat og námslok
 13. Starfsnám
 14. Skólareglur og meðferð mála
 15. Námsráðgjöf
 16. Heilsugæsla og forvarnir
 17. Nemendur með annað móðurmál en íslensku og þeir sem hafa búið erlendis
 18. Nemendur með sérþarfir
 19. Heimavist
 20. Félagslíf nemenda
 21. Samstarf foreldra og framhaldsskóla
 22. Upplýsingaskylda skóla við forsjárlausa foreldra
 23.  Persónulegar upplýsingar og meðferð gagna  
 24. Meðferð trúnaðarupplýsinga
 25. Tilkynningaskylda til barnaverndaryfirvalda
 26. Markaðssetning í framhaldsskólum
 27. Stjórnsýslulög
 28. Mat og eftirlit með gæðum starfs framhaldsskóla


Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.  
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til menntunar

Börn njóta fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og eiga framhaldsskólar landsins að bjóða upp á menntun sem hentar þörfum hvers og eins. Stór hluti unglinga, eða um 95%, fer beint í framhaldsskóla að loknum grunnskóla og ver þar að u.þ.b. fjórum árum að jafnaði. Á þessum árum tekur unga fólkið út mikinn þroska en stærsta formlega breytingin er þó að við 18 ára aldurinn fæst lögræði. Um helmingur nemenda í framhaldsskólum er því ólögráða og miðast þessi umfjöllun að mestu leyti við þann hóp. 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna fjallar um rétt barna til menntunar og markmið menntunar í 28. og 29. gr.:

28. gr.

1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til menntunar og skulu þau, til þess að réttur þessi nái fram að ganga stig af stigi og þannig að allir njóti sömu tækifæra, einkum: 
   a) Koma á skyldu til grunnmenntunar sem allir geti notið ókeypis. 
   b) Stuðla að þróun ýmiss konar framhaldsmenntunar, þar á meðal almennrar menntunar og starfsmenntunar, veita öllum börnum kost á að njóta hennar, og gera aðrar ráðstafanir sem við eiga, svo sem með því að veita ókeypis menntun og bjóða fjárhagslega aðstoð þeim sem hennar þurfa með. 
   c) Veita öllum kost á æðri menntun eftir hæfileikum, með hverjum þeim ráðum sem við eiga. 
   d) Sjá til þess að upplýsingar og ráðgjöf um nám og starfsval séu fyrir hendi og aðgengilegar öllum börnum. 
   e) Gera ráðstafanir til að stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi. 

 2. Aðildarríki skulu gera allt það sem við á til að tryggja að námsaga sé haldið uppi með þeim hætti sem samrýmist mannlegri reisn barnsins og í samræmi við samning þennan.

 3. Aðildarríki skulu stuðla að og hvetja til alþjóðasamvinnu um menntamál, einkum í því skyni að leggja fram skerf til útrýmingar á vanþekkingu og ólæsi hvarvetna í heiminum, og greiða fyrir aðgangi að vísinda- og tækniþekkingu og nútímakennsluaðferðum. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarríkja.

 29. gr.

1. Aðildarríki eru sammála um að menntun barns skuli beinast að því að: 
   a) Rækta eftir því sem frekast er unnt persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess. 
   b) Móta með því virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða. 
   c) Móta með því virðingu fyrir foreldrum þess, menningarlegri arfleifð þess, tungu og gildismati, þjóðernislegum gildum þess lands er það býr í og þess er það kann að vera upprunnið frá, og fyrir öðrum menningarháttum sem frábrugðnir eru menningu þess sjálfs. 
   d) Undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa, og fólks af frumbyggjaættum. 
   e) Að móta með því virðingu fyrir náttúrulegu umhverfi mannsins. 

 2. Eigi skal líta svo á að í grein þessari eða í 28. gr. sé fólgin nein íhlutun í rétt manna og hópa til að koma á fót og stjórna menntastofnunum, enda sé ávallt gætt þeirra meginreglna, sem fram koma í 1. tölul. þessarar greinar, og lágmarkskrafna sem ríkisvaldið kann að gera til menntunar sem slíkar stofnanir veita.

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann árið 2013.  Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst“.

2. Helstu lög og reglugerðir um framhaldsskóla

Um opinbera framhaldsskóla og þá skóla sem ráðherra hefur veitt viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi gilda sérstök lög, nr. 92/2008. Þegar frumvarpið var lagt fyrir Alþingi fylgdi því greinargerð með athugasemdum um einstakar greinar. Þær athugasemdir geta verið gagnlegar við að skýra greinarnar betur.

Ýmsar reglugerðir hafa verið settar með heimild í lögum um framhaldsskóla og fjalla þær um afmarkaðri viðfangsefni framhaldsskólans.  Á vefsvæðinu www.reglugerd.is má sjá allar reglugerðir sem til eru um framhaldsskóla en hér til hægri eru tenglar á þær reglugerðir sem fjallað er um á þessari síðu.

3. Aðalnámskrá framhaldsskóla og skólanámskrár

Menntamálaráðuneytið gefur út aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla og er hún meginviðmið skóla við skipulagningu náms og kennslu. Í aðalnámskránni er að finna nánari útfærslu á þeirri mennta- og skólastefnu sem birtist í lögunum. Þar er lýst námsframboði og umgjörð skólastarfs á framhaldsskólastigi.  Í almennum hluta aðalnámskrár (2011) er m.a. kveðið á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi. Í námskránni er fjallað um hlutverk aðalnámskrár, almenna menntun og grunnþætti, mat á skólastarfi, áherslur og skipulag við námskrárgerð á framhaldsskólastigi, samstarf, réttindi, skyldur, skólanámskrá og fleira. Útlistun á því sem aðalnámskrá skal innihalda er að finna í 21. gr. laga um framhaldsskóla. Námsbrautalýsingar sýna námsbrautir til stúdentsprófs, listnámsbrautir, almenna námsbraut, starfsbrautir (sérdeildir) og starfsnámsbrautir. 

Sérhver skóli skal gefa út námsvísi/skólanámskrá. Um skólanámskrá segir í 22. gr. framhaldsskólalaga:

Sérhver framhaldsskóli skal gefa út skólanámskrá. Skólanámskrá skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautalýsingar.

Í almennum hluta skólanámskrár skal gerð grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum og stefnumörkun, stjórnskipan, námsframboði og skipulagi náms, kennsluháttum, námsmati, stuðningi, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, réttindum og skyldum nemenda, foreldrasamstarfi og samstarfi við utanaðkomandi aðila, sjálfsmati og gæðamálum og öðru sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá. Jafnframt skal skóli gera grein fyrir því hvernig hann uppfyllir skilyrði samkvæmt almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og markmið laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim.

Um setningu námsbrautalýsinga í skólanámskrá skal farið að ákvæðum 23. gr.
Skólanámskrá skal staðfest af skólanefnd að fenginni umsögn skólafundar, sbr. 5. gr. Skólanefnd fylgist með framkvæmd skólanámskrár.

Einn hluti skólanámskrárinnar er árleg starfsáætlun þar sem gerð er grein fyrir starfstíma skólans, mikilvægum dagsetningum og öðrum grunnupplýsingum um starfsemi skólans. Þar er gerð grein fyrir starfsfólki skólans, skólaráði, skólanefnd, foreldraráði og nemendaráði.

Námsbrautalýsingar skólanna  sýna námsbrautir til stúdentsprófs, listnámsbrautir, almenna námsbraut, starfsbrautir (sérdeildir) og starfsnámsbrautir. 

4. Hlutverk framhaldsskóla

Í 2. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 segir:

Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.

Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.

Í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla 2011 segir á bls. 30:

Allt skólasamfélagið þarf að vera meðvitað um það hlutverk framhaldsskólans að hafa velferð nemenda í fyrirrúmi. Velferð og heilbrigði krefst þess að líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum nemenda sé sinnt. Foreldrar ólögráða nemenda bera ábyrgð á uppeldi barna sinna en framhaldsskólar hafa einnig uppeldishlutverk. Þar fer fram mikilvægt mótunarstarf samhliða þjálfun og fræðslu. Uppeldisstarf skóla miðar að því að nemendur verði virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðissamfélagi, virði jafnrétti í samskiptum og taki ábyrga afstöðu til eigin velferðar og annarra. Hér skiptir skólabragurinn, samskipti innan skóla sem utan og virk þátttaka nemenda í mótun skólasamfélagsins, höfuðmáli.

5. Yfirstjórn framhaldsskóla

Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála er lög um framhaldsskóla taka til. Menntamálaráðuneytið á að hafa eftirlit með framhaldsskólum og taka þátt í almennri stefnumótun. Þá skal ráðherra staðfesta námskrár og námsbrautalýsingar framhaldsskólanna.

Ráðherra skipar fimm manna skólanefnd við opinbera framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Ákvæði um skólanefnd við opinbera framhaldsskóla er að finna í 5. gr. laga um framhaldsskóla. Hlutverk skólanefndar er að marka áherslur í starfi skólans og stuðla að sem bestri þjónustu við íbúa á starfssvæði skólans og tengslum hans við atvinnu-, félags- og menningarlíf. Þá á skólanefnd m.a. að staðfesta skólanámskrá og fylgjast með framkvæmd hennar og vera skólameistara til samráðs um námsframboð, starfsmannamál, fjármál skólans o.fl.

Ráðherra veitir þeim skólum sem uppfylla skilyrði laga um framhaldsskóla og reglur sem settar eru með stoð í þeim viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi. Einkareknir framhaldsskólar geta verið sjálfseignastofnanir, hlutafélög eða með öðru viðurkenndu rekstrarformi.

6. Starfsfólk framhaldsskóla og skyldur þess

Ráðherra skipar skólameistara í opinberum framhaldsskólum til fimm ára í senn að fenginni umsögn skólanefndar um umsækjendur. Stjórn einkarekinna framhaldsskóla ræður skólameistara til að stýra daglegri starfsemi skólans. Hann ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði stjórnar eða ábyrgðaraðila í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.

 Skólameistari veitir skólanum forstöðu skv. 6. gr. laga um framhaldsskóla. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans. Óheimilt er að ráða einstakling til starfa við framhaldsskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot) skv. 4. mgr. 8. gr. laganna. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólameistara til að afla upplýsinga úr sakaskrá.

Samkvæmt 9. gr. laga um framhaldsskóla skal halda skólafund a.m.k. einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Á skólafundi er rætt um málefni viðkomandi skóla. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð skólafundar skal kynnt skólanefnd.

Í 7. gr. reglugerðar um starfslið og skipulag framhaldsskóla nr. 1100/2007 (sem heldur gildi sínu þar til ný reglugerð hefur verið sett með stoð í 8. gr. núgildandi laga) eru talin upp þau störf sem kennarar skulu annast, taka þátt í og bera ábyrgð á. Ákvæði um umsjónarkennara er ekki að finna í lögum um framhaldsskóla eða reglugerðum tengdum þeim. Mismunandi er eftir skólum hvaða skyldur umsjónarkennarar bera og skal hlutverk umsjónarkennara vera skilgreint í skólanámskrá.

Starfsfólk í framhaldsskólum er bundið trúnaði og óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um lögráða nemendur án samþykkis þeirra eða forsjárforeldra ef um er að ræða nemendur yngri en 18 ára. Þetta segir á bls. 76 í aðalnámskrá – almennum hluta 2011. Umboðsmaður barna vill þó undirstrika að börn njóta líka friðhelgi um einkahagi sína. Sjá nánar í kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga og kafla um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda.

Sjá nánari upplýsingar um starfsfólk framhaldsskóla í 8.gr. laga um framhaldsskóla og í lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008. Sjá einnig Siðareglur kennara á vef Kennarasambands Íslands, reglugerð um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara og reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, nr. 872/2009.

7. Aðkoma nemenda að stjórnun framhaldsskóla

Nemendafélag

Í 1. mgr. 39. gr. laga um framhaldsskóla segir að í hverjum framhaldsskóla skuli starfa nemendafélag. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Nánar er fjallað um nemendafélög í kaflanum um félagslíf.

Skólaráð

Skólaráð starfa við framhaldsskóla. Um þau segir í 7. gr. laga um framhaldsskóla:

Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans og fulltrúum kennara og nemenda. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti.

Um hlutverk skólaráðs er fjallað í 2. gr. reglugerðar um skólaráð við framhaldsskóla nr. 140/1997 (sem heldur gildi sínu þar til ný hefur verið sett). Þar segir að ráðið eigi að fjalla um starfsáætlun skólans og framkvæmd hennar, skólareglur, umgengnishætti í skólanum, vinnu- og félagsaðstöðu nemenda. Þá veitir skólaráð umsögn um erindi frá skólanefnd, almennum kennarafundi, nemendaráði, einstaklingum, skólameistara og menntamálaráðuneytinu sé þess óskað. Að lokum fjallar ráðið um mál sem varða einstaka nemendur. Með slík mál skal farið sem trúnaðarmál. Kosið skal til skólaráðs við upphaf hvers skólaárs. Í ráðinu sitja tveir fulltrúar kennara, tveir fulltrúar úr nemendafélagi, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri (eða sambærilegt starfsfólk).

Skólafundir

Um skólafundi er fjallað í 9. gr. laga um framhaldsskóla:

Í framhaldsskólum skal halda skólafund a.m.k. einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Á skólafundi er rætt um málefni viðkomandi skóla. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð skólafundar skal kynnt skólanefnd.

8. Inntökuskilyrði og innritun

Allir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla skv. 32. gr. framhaldsskólalaga. Þeir skulu jafnframt eiga rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, að því gefnu að þeir fari eftir almennum skólareglum. Hér er í reynd tryggð fræðsluskylda fyrir alla ólögráða nemendur.

Innritun í framhaldsskóla er rafræn, þ.e. sótt er um skólavist á vefnum www.menntagatt.is. Framhaldsskólar skilgreina sjálfir í samráði við menntamálaráðuneytið inntökuskilyrði á einstakar námsbrautir. Inntökuskilyrði eru birt í skólanámskrá á vefsíðu hvers framhaldsskóla.

Ráðherra hefur sett reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla (nr. 1150/2008). Þar er í 3. gr. kveðið á um kröfur um undirbúning:

Nemendur, sem lokið hafa skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla, geta innritast á námsbrautir framhaldsskóla. Kröfur um undirbúning og önnur skilyrði innritunar skulu miðast við skólaeinkunnir við lok grunnskóla og aðra þætti sem miða að því að nemendur hafi nægan undirbúning til að takast á við nám á viðkomandi náms­braut.

Kröfur um sérstakan undirbúning vegna náms á tilgreindum námsbrautum, svo sem á verknáms- og listnámsbrautum, skulu byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og taka m.a. mið af:
a.  frammistöðu nemenda í námsgreinum í grunnskóla,
b.  því hvort nemandi hafi lagt stund á samsvarandi nám í grunnskóla eða sérskóla með fullnægjandi árangri eða geti með öðrum hætti fært rök fyrir því að námið henti honum,
c.  öðrum þáttum, s.s. raunfærnimati, sem varpað geta ljósi á getu nemenda til þess að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til náms á viðkomandi námsbraut,
d.  sérkennum skóla sem fram koma í áherslum og stefnumörkun hans og nánar er lýst í skólanámskrá.

Skólameistari getur heimilað nemendum, sem ekki uppfylla skilyrði til innritunar að fullu, að hefja nám á viðkomandi námsbraut ef telja má líklegt að þeir standist þær kröfur sem gerðar eru um námsárangur.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar á í skólanámskrá hvers skóla að birta þær forsendur sem lagðar er til grundvallar við mat á umsókn um innritun og þær kröfur sem skóli gerir til undirbúnings náms á einstökum námsbrautum. Í 6. gr. segir að menntamálaráðuneytið ákveði fyrirkomulag innritunar í framhaldsskóla, gefi út leið­beiningar til umsækjenda um frágang umsókna og auglýsi umsóknarfrest. Landið er eitt innritunarsvæði. Í 7. gr. segir svo:

Skólameistari tilkynnir umsækjendum um afgreiðslu umsókna þeirra. Nemendur sem fengið hafa skólavist skulu staðfesta veitta skóla­vist með greiðslu innritunargjalds. Synji skólameistari umsókn á umsækjandi rétt á rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun.

Við mat á umsóknum ber skólameistara að taka mið af kröfum skólans um undirbúning, sbr. 3. gr., almennum viðmiðum í skólanámskrá, ákvæðum 4. gr. um skólasamninga og gæta að öðru leyti samræmis og jafnræðis við mat á sambærilegum umsóknum.

Synjun skólameistara um skólavist sætir kæru til menntamálaráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Nánari upplýsingar um inntökuskilyrði og innritun er að finna á www.menntagatt.is/innritun.

9. Kostnaður

Ríkissjóður greiðir rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu í fjárlögum. Einungis er heimilt að innheimta innritunar- og efnisgjöld af nemendum. Skólum er ekki heimilt að krefjast gjalda fyrir þjónustu sem telst hluti námskrárbundinnar kennslu. Þjónusta sem nemendum í framhaldsskólum stendur til boða, auk kennslu án sérstaks endurgjalds, er eftirfarandi: Aðgangur að bókasafni og þjónusta bókasafns- og upp­lýsinga­fræðinga; þjónusta náms- og starfsráðgjafa; aðstoð og þjónusta umsjónar­kennara, skólanámskrá og kennsluáætlanir; stundatafla, fjarvistayfirlit, náms­ferill og braut­skráningar­skírteini; aðgangur að lesstofu og nettengdum tölvum. Skólar leggja nemendum ekki til námsgögn.

Í 45. gr. laga um framhaldsskóla er fjallað um gjaldtökuheimildir framhaldsskóla. Þar segir m.a. að heimilt sé að taka 25% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til innritunar utan auglýsts innritunartíma. Einnig mega skólar innheimta efnisgjald af nemendum sem og gjald vegna kennslu utan reglubundins starfstíma framhaldsskóla. Þetta er nánar útskýrt í ákvæðinu.

Reglugerð nr. 614 /2009 um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla kveður nánar á um þessi atriði. Þar segir m.a. að innritunargjald skal aldrei vera hærra en 12.000 kr. á skólaári eða 6.000 kr. á önn. Framhaldsskólum er heimilt að innheimta gjald fyrir aðra þjónustu sem í boði er og telst ekki vera hluti af eða leiða af lögbundnu hlutverki skóla. Gjaldið tekur til þátta eins og útgáfu skírteina, aðgangs að þráðlausu neti, tölvuforritum, útgáfu netfangs, gagnaplássa, skápaleigu, prentunar, fjölföldunar og bílastæðis.

10. Styrkir

Nemendur á framhaldsskólastigi eiga rétt á að sækja um styrk til jöfnunar námskostnaðar skv. reglugerð um námsstyrki nr. 693/2003. Eitt frumskilyrði fyrir styrk er að umsækjandi stundi nám fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni. Námið verður að vera að lágmarki eins árs skipulagt nám við skóla sem falla undir lög um framhaldsskóla/menntaskóla. Nánari upplýsingar er að finna hér á síðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).  LÍN tekur m.a. við umsóknum um námsstyrki, sér um úrvinnslu þeirra, leitar eftir upplýsingum frá skólum um hvort nemandi teljist hafa stundað reglubundið nám og annast útborgun námsstyrkja.

Framhaldsskólanemar geta sótt um dvalarstyrk skv. 4. gr. reglugerðar um námsstyrki ef þeir uppfylla þessi skilyrði:

a. Nemandi stundi reglubundið framhaldsnám hér á landi sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, sbr. a-lið 2. gr.
b. Nemandi geti ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu, sbr. skilgreiningu í b-lið 2. gr.
c. Nemandi verði að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili og fjarri fjölskyldu vegna námsins. Heimilt er að veita dvalarstyrk þótt fjarlægð skv. 1. málsl. sé styttri en 30 km, ef samgöngur til og frá skóla eru nemanda sérstaklega erfiðar m.a. með tilliti til veðráttu og ástands vega eða vegna skorts á almenningssamgöngum.

Þeir nemendur sem sækja nám frá lögheimili fjarri skóla geta átt rétt á styrk vegna skólaaksturs skv. 6. gr. reglugerðar um námsstyrki. Styrkir vegna skólaaksturs renna beint til nemenda enda uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:

a. sækja skóla frá lögheimili sínu og fjölskyldu,
b. lögheimili er ekki í nágrenni skóla, sbr. yfirlit á fylgiskjali II yfir staði, sem teljast í nágrenni skóla í þessu samhengi.

Ólögráða nemendur mega að sjálfsögðu ekki taka lán en fyrir 18 ára og eldri eru upplýsingar um námslán og lánshæft nám á framhaldsskólastigi á síðu LÍN. Þeir sem njóta námslána hjá LÍN eiga ekki rétt á jöfnunarstyrk.

11. Námsframboð

Námsframboð og starf í framhaldsskólum skal vera þannig að sérhver nemandi eigi völ á námi og kennslu í sem bestu samræmi við óskir hans, þarfir og þroska. Framhaldsskólar eiga að skipuleggja mislangt nám, bóklegt og verklegt, sem farið getur fram í skóla eingöngu eða bæði í skóla og atvinnulífi.

Fyrirkomulag náms og kennslu á framhaldsskólastigi er breytilegt eftir skólum. Flestir starfa eftir áfangakerfi en aðrir eftir bekkjakerfi. Skólar sem starfa eftir áfangakerfi skipuleggja starfið til einnar annar í senn en bekkjaskólar til eins árs í senn. Allir skólar starfa þó samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Námið er skipulagt eftir námsbrautum og í brautalýsingu er kveðið á um markmið og inntak námsins. Í 10. kafla aðalnámskrár framhaldsskóla má lesa um námsbrautalýsingar og fleira sem því tengist. Menntamálaráðuneytið gefur út upplýsingar um nám að loknum grunnskóla á www.menntagatt.is. Sjálfsagt er að leita til umsjónarkennara í grunnskóla og námsráðgjafa um aðstoð við val á námi í framhaldsskóla. Einnig geta nemendur grunnskóla leitað beint til framhaldsskóla um upplýsingar og ráðgjöf.

12. Námsmat og námslok

Þegar nemendur byrja í framhaldsskóla standa þeir frammi fyrir mun meiri námslegum kröfum en þeir hafa vanist. Nemendur eiga að geta lokið framhaldsskólaprófi að loknu 90-120 eininga námi sem sniðið er að einstaklingsbundnum þörfum þeirra samkvæmt námskrá sem ráðherra hefur staðfest. 30. gr. framhaldsskólalaga fjallar um námsmat. Þar segir meðal annars:

Almennt námsmat í framhaldsskóla er í höndum kennara, undir umsjón skólameistara. Matið byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá.

Nemandi á rétt til að fá útskýringar á mati er liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi, sem ekki hefur náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveðja til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Þeir nemendur sem hyggjast ljúka stúdentsprófi skulu hafa lokið öllum námsáföngum samkvæmt námskrá með fullnægjandi árangri samkvæmt mati viðkomandi skóla...
 ... 

Námi í löggiltum iðngreinum lýkur með sveinsprófi. Ráðherra hefur sett reglugerð nr. 698/2009 um sveinspróf.

Í IV. kafla laga um framhaldsskóla (15. - 20. gr.) eru ákvæði um fjölda eininga nemandi þarf að hafa lokið til að útskrifast með framhaldsskólapróf, stúdentspróf, próf til starfsréttinda, önnur lokapróf svo og viðbótarnám við framhaldsskóla. Í 15. gr. segir að námseiningar nemenda skuli skilgreindar út frá vinnuframlagi þeirra en ekki kennslustundafjölda eingöngu.

Um viðurkenningu á námi í öðrum skólum og mat á raunfærni segir í 31. gr.:

Nemandi sem flyst á milli skóla sem starfa samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla á rétt á því að fá nám sem hann hefur lokið metið til eininga í viðtökuskóla, enda falli námið að námskrá og námsbrautalýsingum viðkomandi skóla. Viðurkennda námsþætti sem falla utan brautakjarna ber að meta sem valgreinar.

Nemandi sem innritast í framhaldsskóla á rétt á því að raunfærni hans sé metin til náms og námseininga, enda falli metin raunfærni að námskrá og námsbrautalýsingum viðkomandi skóla. Viðurkennda raunfærni sem fellur utan brautakjarna ber að meta sem valgreinar.

Ráðherra setur í aðalnámskrá reglur um viðurkenningu náms og raunfærnimat og tilhögun þess.

Raunfærnimat felur í sér að þekking og færni sem einstaklingar hafa aflað sér án þess að hafa lagt stund á nám samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla er metið til eininga á framhaldsskólastigi. Matið getur byggst á fyrra námi, starfsreynslu og annarri reynslu. Raunfærnimat getur leitt til þess að nemendur teljist hafa lokið námi í einstökum áföngum og/eða að þeir fái styttingu á þeim hluta námsins sem fer fram í verklegri þjálfun á vinnustað. Um framkvæmd raunfærnimats er nánar fjallað í III. kafla reglugerðar um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011.

Eins og fyrr segir eru í aðalnámskrá skilgreind almenn markmið náms í framhaldsskóla, markmið einstakra námsbrauta, svo og markmið einstakra námsgreina, auk ákvæða um námsmat. Fjallað er um námsmat 11. kafla aðalnámskrár framhaldsskóla – almennum hluta 2011. 

13. Starfsnám

Starfsnám á að stuðla að almennri menntun nemenda, veita þeim undirbúning til tiltekinna starfa og innsýn í hlutverk fyrirtækja og starfsfólks í atvinnulífi. Náminu er jafnframt ætlað að hvetja nemendur til að viðhalda þekkingu sinni og bæta við hana með endurmenntun eða áframhaldandi námi. Starfsnám skiptist á skóla og vinnustað eða fer eingöngu fram í skóla. Námið er bóklegt og verklegt og skal mynda sem samfelldasta heild svo að nemendur fái betur skilið tengsl fræðilegra og hagnýtra þátta. Um vinnustaðanám segir m.a. í 28. gr. laga um framhaldsskóla:

Verknám og starfsþjálfun á vinnustað byggist á almennum ákvæðum aðalnámskrár um nám á vinnustað. 

Starfsþjálfunarsamningar skulu gerðir við upphaf vinnustaðanáms og kveða á um rétt og skyldur vinnuveitanda, skóla og nemanda, markmið vinnustaðanáms og gæðakröfur, gildistíma, meðferð ágreinings og samningsslit.

Sé þörf á því að gera sérstakan ráðningarsamning milli nema og vinnuveitanda skal skóli staðfesta hann. Skulu slíkir samningar vera í samræmi við gildandi kjarasamninga um nema í viðkomandi starfsnámi.

 Starfsgreinaráð skulu halda skrá yfir fyrirtæki og vinnustaði sem uppfylla skilyrði til vinnustaðanáms.
...

Starfsgreinaráð eru, hvert á sínu sviði, ráðherra til ráðgjafar um starfsnám á framhaldsskólastigi. Fjallað er um starfsgreinaráð í 24.–25. gr. laga um framhaldsskóla. 

Í reglugerð um námssamninga og starfsþjálfun nr. 697/2009 er kveðið á um vinnuvernd, ábyrgð framhaldsskóla, efni náms- og starfsþjálfunarsamninga, heimild til styttingar námstíma, skyldur fyrirtækja og skilyrði fyrir því að þau megi taka nemendur á námssamning, reynslutíma, slit námssamnings o.fl.

Í kafla 11.4  í aðalnámskrá framhaldsskóla – almennum hluta 2011 er fjallað um ágreining um námsmat. Þar segir orðrétt:

Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á mati sem liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemendur, sem ekki hafa náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans geta þeir snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Fjallað er um meðferð ágreiningsmála vegna árangurs í sveinsprófum í gildandi reglugerð þar um.

14. Skólareglur og meðferð mála

Í 33. gr. laga um framhaldsskóla segir:

Í skólanámskrá hvers skóla skulu vera reglur þar sem gerð er grein fyrir réttindum og skyldum nemenda. Skólareglur skulu geyma ákvæði um eftirfarandi þætti:
   a. skólasókn,
   b. hegðun og umgengni,
   c. námsmat, námsframvindu og prófareglur,
   d. viðurlög vegna brota á skólareglum,
   e. reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga.

Við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldu nemenda skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, svo sem brottvísun úr skóla í fleiri en einn skóladag eða að nemanda sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Ákvörðun skólameistara er kæranleg til menntamálaráðuneytis. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.

Sjá nánar um stjórnsýslulög hér. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er fjallað um meðferð ágreiningsmála í kafla 14.7.2 á bls. 75. Kaflinn er hér birtur í heild:

Hver skóli setur sér reglur um boðleiðir og verklag um ágreiningsmál sem upp kunna að koma. Við vinnslu þeirra skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga um málsmeðferð.

Í verklagsreglum skal koma fram:

• með hvaða hætti nemanda, lögráða og ólögráða, er veitt viðvörun áður en til viðurlaga kemur,

• kostur á að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun og tímafrestur tilgreindur í því skyni,

• meðferð ágreiningsmála, kvartana og kæra vegna samskipta milli nemenda, kennara og/eða annars starfsfólks framhaldsskóla,

• meðferða ágreiningsmála um námsframvindu,

• meðferð undanþágubeiðna.

Leitast skal við að leysa ágreiningsmál á vettvangi skóla. Uni nemandi eða forráðamaður hans ekki úrskurði í deilumáli má vísa málinu til mennta- og menningamálaráðuneytisins.

Framhaldsskólar skulu skrá feril máls þegar ágreiningsmál koma upp innan skólans eða þegar um brot á skólareglum er að ræða. Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga, laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga (sjá Viðauka 1). Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti en jafnframt leggja áherslu á öryggi og vandvirkni við úrlausn og afgreiðslu.

15. Námsráðgjöf

Góð námsráðgjöf getur styrkt nemendur í vel ígrunduðu námsvali, unnið gegn brottfalli og aðstoðað nemendur sem áður hafa horfið frá námi svo þeir finni sér betri farveg  Samkvæmt 37. gr. laga um framhaldsskóla eiga nemendur rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskóla af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa. Í skólanámskrá framhaldsskóla skal markmiðum og stefnu skóla varðandi ráðgjöf lýst og þar skal einnig koma fram hvernig skóli rækir skyldur sínar og hlutverk á þessu sviði.

Rétt til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra, sbr. lög um náms- og starfsráðgjafa nr. 35/2009.

Í reglugerð um starfslið og skipulag framhaldsskóla nr. 1100/2007 (sem sett var með heimild í eldri framhaldsskólalögum og heldur gildi sínu þar til ný reglugerð hefur verið sett með heimild í 8. gr. núgildandi laga) er hlutverki náms- og starfsráðgjafa gerð skil í 9 gr.

Náms- og starfsráðgjafi veitir nemendum leiðsögn í persónulegum málum sem snerta námið og skólann. Náms- og starfsráðgjafi metur hvort unnt sé að leysa úr málum innan skólans eða hvort leita þarf eftir sérhæfðari meðferð til viðeigandi sérfræðinga eða stofnana. Hann kemur upplýsingum þar um til skólameistara.

Náms- og starfsráðgjafi skal m.a.:
skipuleggja og sjá um framkvæmd náms- og starfsfræðslu í skólanum,
annast ráðgjöf um náms- og starfsval,
taka þátt í að skipuleggja ýmsar aðgerðir til að stuðla að betri líðan nemenda í skólanum,
fylgjast með námsgengi nemenda sem til hans leita eða til hans er vísað og gera tillögur til úrbóta gerist þess þörf,
liðsinna kennurum vegna námsvanda einstakra nemenda og vera þeim til aðstoðar við skipulagningu og umsjón með nemendahópum,
hafa samband við forráðamenn nemenda þegar þörf er á,
fylgjast með nýjungum á sviði námsráðgjafar,
taka saman skýrslu um starfsemina í lok hvers skólaárs.

Fara skal með vitneskju sem náms- og starfsráðgjafi öðlast um persónuleg mál einstaklinga sem trúnaðarmál.

16. Heilsugæsla og forvarnir

Í 36. gr. laga um framhaldsskóla segir að framhaldsskóli og heilsugæslustöð í nágrenni skólans eigi að gera samkomulag um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu sem veitt er nemendum og að framhaldsskólar skulu tryggja að í boði sé innan veggja hvers skóla heilnæmt fæði í samræmi við opinber manneldismarkmið. Framhaldsskólar eiga líka að hvetja til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar nemenda. Sérhver framhaldsskóli skal setja sér stefnu um forvarnir og skal sú stefna birt opinberlega. Skólinn skal gera grein fyrir því með reglubundnum hætti hvernig forvarnastarfi er háttað.

17. Nemendur með annað móðurmál en íslensku og þeir sem hafa búið erlendis

Í 35. gr. laga um framhaldsskóla er kveðið á um rétt nemenda með annað móðurmál en íslensku og nemenda sem hafa búið lengi erlendis:

Kennsla í framhaldsskólum skal fara fram á íslensku.

Heimilt er að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar 
a. það leiðir af eðli náms eða námskrár og 
b. þegar um er að ræða námsbrautir sem sérstaklega eru ætlaðar nemendum sem ekki hafa vald á íslensku eða verða að stunda eða hafa stundað hluta af námi sínu erlendis.

Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Sama gildir um nemendur sem dvalist hafa langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku. Miða skal við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein, í fjarnámi eða með öðrum hætti.

Framhaldsskólar skulu setja sér áætlun um móttöku nemenda. Móttökuáætlun framhaldsskóla skal vera aðgengileg nemendum og foreldrum, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um námið og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum er greint frá möguleikum á túlkaþjónustu. Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum.
Í reglugerð skal kveðið nánar á um rétt nemenda til kennslu í íslensku, svo og um tilhögun og mat á náminu.

Í reglugerð nr. 654/2009 er kveðið nánar á um móttökuáætlanir skóla, skipulag og framkvæmd kennslu o.fl.

Framhaldsskólum er heimilt að meta móðurmál nemenda til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað annars erlends tungumáls. Sjá nánar í kafla 16.1.2 í aðalnámskrá framhaldsskóla – almennum hluta 2011

18. Nemendur með sérþarfir

Meirihluti framhaldsskóla á Íslandi býður upp á sérstakar námsbrautir fyrir fatlaða nemendur. Svo til allir nemendur með skilgreindar fatlanir nýta sér rétt sinn til náms í framhaldsskólum. Í 34. gr. laga um framhaldsskóla er fjallað um nemendur með sérþarfir. Þar segir:

Á framhaldsskólastigi skal veita nemendum með fötlun, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.

Ráðherra getur í samningi við framhaldsskóla heimilað rekstur sérstakra námsbrauta við framhaldsskóla fyrir nemendur með fötlun.

Nemendur með leshömlun skulu eiga aðgang að sérsniðnum námsgögnum eftir því sem við verður komið. Framhaldsskóli gerir grein fyrir því í skólanámskrá hvernig staðið er að skimun og greiningu leshömlunar, ásamt eftirfylgni og stuðningi við nemendur sem greindir eru með leshömlun.

Framhaldsskólar skulu leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi.
 ...

Reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum nr. 230/2012 tekur til framhaldsskólanemenda sem eiga rétt á kennslu og sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. II. kafli reglugerðarinnar kveður á um skyldur framhaldsskóla og réttindi nemenda:

4. gr. Skyldur framhaldsskóla.

Framhaldsskólum er skylt að sjá til þess að framhaldsskólanemendur fái kennslu og sérstakan stuðning í námi í samræmi við metnar sérþarfir þeirra og eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

5. gr. Réttindi nemenda.

Nemendur í framhaldsskólum eiga rétt á:

a. að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis,

b. að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur miðað við aldur þeirra og þroska í samráði við einstaklingana eftir því sem við verður komið, sbr. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun,

c. að fá sérfræðilega aðstoð og viðeigandi búnað eftir því sem þörf krefur,

d. að veitt sé skimun og greining á leshömlun ásamt eftirfylgni og stuðningi í námi eftir því sem þörf krefur,

e. aðgangi að viðeigandi samskiptamáta, s.s. táknmáli og punktaletri, auk nauðsynlegs tækjabúnaðar, sérsniðnum námsgögnum eftir því sem við á, aðstöðu og kennslu til að stuðla að sem bestri menntun, sjálfstyrkingu og félagsþroska.

6. gr. Réttur til kennslu í íslensku táknmáli og íslensku punktaletri.

Nemendur sem hafa þörf fyrir táknmál skulu eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál í framhaldsskólum, samkvæmt lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Heyrnarskertir, heyrnarlausir og daufblindir nemendur eiga rétt á kennslu við hæfi í íslensku táknmáli sem fyrsta máli.

Nemendur sem hafa þörf fyrir punktaletur skulu eiga þess kost að læra og nota íslenskt punktaletur í framhaldsskólum, samkvæmt lögum nr. 61/2011.

Nemendur sem hafa þörf fyrir punktaletur vegna skerðingar á sjón eiga rétt á kennslu við hæfi í íslensku punktaletri sem fyrsta ritmáli.

Framhaldsskóla er heimilt að meta íslenskt táknmál og íslenskt punktaletur til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað erlends tungumáls.

Í reglugerðinni er einnig fjallað um ábyrgð skólameistara, ábyrgð og rétt foreldra, fyrirkomulag kennslu og skipan stuðnings í námi, námsbrautir fyrir fatlaða nemendur, innritun og sérstaka þjónusta við langveika nemendur.

19. Heimavist

Heimavist er það húsnæði skóla sem nýtt er til íbúðar fyrir nemendur í þeim tilvikum sem heimili nemenda eru fjarri framhaldsskólanum. Um heimavistir gilda ákvæði 46. gr. framhaldsskólalaga. Þar segir m.a. að ráðherra á að sjá til þess að mæta kostnaði við umsjón og almennan rekstur heimavista en nemendur bera sjálfir hluta sérgreinds kostnaðar. Um kostnað er fjallað í reglugerð um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla nr. 614/2012. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi heimavistar, en getur með samningi falið öðrum að annast daglega umsýslu og rekstur.

Á heimavistum/nemendagörðunum gilda reglur um aga og umgengni sem íbúum og gestum þeirra ber að fara eftir enda hafa þeir samþykkt að fara að reglum húsnæðisins með því að leigja það. Kveðið skal á um umgengni, samskipti og hegðun nemenda í skóla, á samkomum á vegum skóla og á heimavist í skólanámskrá.

Upp geta komið álitamál varðandi friðhelgi einkalífs nemenda á heimavist. Ótvírætt er að herbergi eða íbúð sem námsmaður leigir á heimavist telst til heimilis hans og nýtur friðhelgi sem slíkt. Aðrir hlutar heimavistar, s.s. sameiginleg aðstaða ýmiss konar, gangar, setustofur, matsalur, sjónvarpsherbergi, hreinlætisaðstaða, tölvuver o.þ.h. teljast ekki til „heimilis“ námsmanns í þeim þrönga skilningi orðsins að hann geti hamlað öðrum aðgang að þeim. Hins vegar eru þetta svæði sem eru í svo nánum tengslum við heimili námsmanns að eðlilegt og sanngjarnt er að hann njóti þar nokkuð ríkrar verndar um einkalíf sitt. Þetta segir í máli Persónuverndar nr. 2005/59.

Notkun eftirlitsmyndavéla á heimavistum og í skólum flokkast undir rafræna vöktun í skilningi laga um persónuvernd. Til þess að slík vöktun sé í lagi þarf hún bæði að vera lögmæt, þ.e. eiga stoð í lögun og uppfylla ýmis frekari skilyrði, m.a. um meðalhóf og tilgang. Sjá nánar reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun á vef Persónuverndar.

Þegar foreldrar eða forsjáraðilar ólögráða barna senda þau að heiman í heimavistarskóla er ekki óeðlilegt að ýmis vandamál eða álitamál skapist í samskiptum barnsins, foreldranna og skólayfirvalda. Foreldrar fara með forsjá barna sinna, jafnvel þó að þau séu tímabundið í umsjá annarra og hafa því enn þau réttindi og þær skyldur sem hvíla á forsjáraðilum. Skólinn tekur yfir ýmis af þessum réttindum og skyldum tímabundið eða meðan barnið er í skólanum og býr á heimavist. Í forsjá felst meðal annars að forsjáraðilar ráða dvalarstað barna sinna og er því eðlilegt að foreldrum séu veittar upplýsingar um það ef barn þeirra t.d. yfirgefur heimavistina um lengri tíma. Við ákvörðun þess hvenær rétt sé að hafa samband við foreldra í slíkum tilvikum þarf að taka eðlilegt tillit til annars vegar einkalífs unglingsins og hins vegar til þess réttar foreldra að vita hvar ólögráða barn þeirra dvelur.

20. Félagslíf nemenda

Í 39. gr. laga um framhaldsskóla segir:

Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla. Nemendafélögum skal búin aðstaða til starfsemi sinnar.

Framhaldsskólum er heimilt að styrkja starfsemi nemendafélaga fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður framhaldsskóla.

Gjöld til nemendasjóða eru ákveðin af nemendafélögum skóla sem sjá um innheimtu og meðferð fjárins. Nú eru fyrirtæki í auknum mæli að leita inn í framhaldsskólana með því að gera samninga við nemendafélögin. Þar sem nemendafélög starfa á ábyrgð skóla er eðlilegt að haft sé samráð við skólastjórnendur hvað varðar markaðssetningu innan veggja skólans, enda geta skólastjórnendur sett reglur um auglýsingar innan veggja skólans. Auk hagsmunagæslu fyrir nemendur hafa nemendafélögin félagslíf nemenda á sinni könnu.

21. Samstarf foreldra og framhaldsskóla

Um helmingur nema í framhaldsskólum eru undir lögræðisaldri og því á ábyrgð foreldra. Foreldrum ber skv. barnalögum að að stuðla eftir mætti að því að börn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þeirra og áhugamál. Skólum er því skylt að upplýsa foreldra um námsframvindu barna þeirra svo og mál sem upp kunna að koma varðandi skólagöngu þeirra. Þá er gagnlegt að börn og foreldrar ræði almennt um styrkleika og veikleika barnanna, áhugasvið og framtíðaráform. Rannsóknir sýna að aukinn áhugi, ábyrgð og áhrif foreldra á skólastarfið geta skipt sköpum fyrir námsárangur og almenna velferð nemenda. Það er mikilvægt að foreldrar séu til staðar fyrir börn sín og geti gripið inn í fljótt ef eitthvað kemur upp á varðandi framhaldsskólann. Um leið og foreldrar finna að eitthvað er ekki eins og það á að vera er mikilvægt að hafa samband við skólann. Dæmi um það væru að nemandinn lærir ekki heima, gengur illa með að tileinka sér námið, líður illa eða leiðist. Þá er gott að tala við umsjónarkennara eða námsráðgjafa. Það er mjög mikilvægt að foreldrar mæti á foreldrafundi í skólanum. Það sýnir áhuga þeirra á velferð barnsins.

Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð skv. 50 gr. framhaldsskólalaga. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forsjáraðila ólögráða nemenda við skólann. Félagsmenn geta verið foreldrar nemenda við skólann. Kjósa skal í stjórn ráðsins á aðalfundi þess. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Foreldraráð setur sér starfsreglur.

Í  athugasemd við þessa grein frumvarpsins er hlutverk foreldraráðs skýrt frekar: 

Foreldraráð eru talin mikilvægur tengill milli skólans og forráðamanna ólögráða nemenda. Sem dæmi um markmið slíks ráðs eru:
    –    Að vera samráðs- og samstarfsvettvangur foreldra/forráðamanna.
    –    Að stuðla að aukinni vitund foreldra/forráðamanna um forsjárskyldur sínar og þekkingu þeirra á réttindum og skyldum sínum og barna þeirra.
 –  Að vera bakhjarl skólans og auka áhrif foreldra/forráðamanna sem hagsmunahóps um bættan hag og stöðu skólans.
    –      Að hvetja til aukins stuðnings, aðhalds og hvatningar foreldra/forráðamanna við börn sín og nám þeirra. Að koma á og tryggja öflugt og gott samstarf foreldra/forráðamanna, nemenda og starfsfólks skólans.

    Í öllu falli er ljóst að með þeim breytingum sem orðnar eru á þjónustu og starfsumhverfi framhaldsskóla þá eru sterk rök til þess að slík ráð séu stofnuð. Margnefnd breyting á sjálfræðisaldri er hér augljós hluti umræðunnar. Þrýstingur hefur verið á slíkt en hér með er slíkt ráð lögbundið og því ekki einungis lagt í hendur áhugasamra forráðamanna.

Í reglugerð um starfslið og skipulag framhaldsskóla nr. 1100/2007 (sem sett var með heimild í eldri framhaldsskólalögum og heldur gildi sínu þar til ný reglugerð hefur verið sett með heimild í 8. gr. núgildandi laga) segir í 4. gr:

Skólameistari ber ábyrgð á að upplýsa forráðamenn ólögráða nemenda um námsástundun, námsgengi og önnur atriði er varða skólavist nemandans og velferð hans.

Í sömu reglugerð er fjallað um ábyrgð kennara í 7. gr. Þar segir m.a. að kennarar eiga að hafa viðtalstíma fyrir nemendur sína og forsjáraðila þeirra og þeir skulu sitja a.m.k. einn fund á ári/önn með forsjáraðilum ólögráða nemenda sinna.

Heimili og skóli — landssamtök foreldra eru landssamtök foreldrafélaga. Samtökin hafa samið sýnishorn að starfsreglum fyrir foreldrafélög sem hverjum þeim er ráðast í stofnun slíkra félaga er frjálst að nota og breyta að vild. Nánari upplýsingar á www.heimiliogskoli.is.

22. Upplýsingaskylda skóla við forsjárlausa foreldra

Um upplýsingaskyldu skóla við forsjárlausa foreldra gildir ákvæði 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem hljómar svona:

Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá frá hinu munnlegar upplýsingar um hagi þess, þar á meðal varðandi heilsufar þess, þroska, dvöl á leikskóla, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengsl.

Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris. Stofnunum og stjórnvöldum, sem nefnd eru í 2. mgr., er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingagjöf sé skaðleg fyrir barn. Skjóta má synjun um upplýsingar um barn skv. 3. mgr. til sýslumanns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun sýslumanns samkvæmt þessari málsgrein verður ekki kærð til ráðuneytisins.

Þegar sérstaklega stendur á getur sýslumaður ákveðið að ósk forsjárforeldris að svipta hitt foreldrið heimild til að fá upplýsingar skv. 2. mgr. Um kæru slíkrar ákvörðunar sýslumanns fer skv. 78. gr.

23. Persónulegar upplýsingar og meðferð gagna

Annars vegar er gerður greinarmunur á upplýsingum sem menntamálaráðuneytið aflar, varðveitir og ber ábyrgð á og því eru nauðsynlegar til að rækja mats- og eftirlitshlutverk sitt og hins vegar persónuupplýsingum sem skólar safna um einstaka nemendur, en meðferð slíkra upplýsinga er á ábyrgð stjórnenda hlutaðeigandi skóla.

Framhaldsskóla ber skylda til að varðveita upplýsingar um nám nemenda og veita nemendum aðgang að þeim skv. 38. gr. framhaldsskólalaga. Í athugasemdum frumvarpsins segir um 38. grein:

Þetta er nýmæli og tryggir að upplýsingar um nám nemenda séu varðveittar án tilgreindra tímamarka. Jafnframt er hér kveðið á um að nemendur hafi aðgang að upplýsingum um eigið nám og er það í samræmi við meginreglu laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Hvers kyns afhending upplýsinga til annarra en nemandans sjálfs telst vera tilkynningarskyld upplýsingavinnsla og þarf að styðjast við heimild og löglegan tilgang skv. II. kafla laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Menntamálaráðuneytið annast söfnun og miðlun upplýsinga um skólahald og skólastarf á framhaldsskólastigi sem varða lögbundið eftirlitshlutverk þess. Sjá nánar í reglugerð nr. 235/2012 um upplýsingaskyldu framhaldsskóla um skólahald, aðra kerfisbundna skráningu og meðferð persónuupplýsinga um nemendur.

Starfsfólk í framhaldsskólum er bundið trúnaði og óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um ólögráða nemendur án samþykkis forsjárforeldra. Umboðsmaður barna vill þó undirstrika að börn njóta líka friðhelgi um einkahagi sína. Sjá nánar í kafla um meðferð trúnaðarupplýsinga og kafla um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda.

Í aðalnámskrá framhaldsskóla – almennum hluta 2011 er fjallað um meðferð gagna í kafla 14.8. Þar segir m.a.:

Framhaldsskólum er þó heimilt að veita öðrum skólum upplýsingar um einstaka nemendur vegna flutnings þeirra milli skóla eða vegna þess að þeir stunda nám við fleiri en einn skóla eða fræðslustofnun. Einnig er heimilt að veita fræðsluyfirvöldum slíkar upplýsingar í skýrt afmörkuðum tilgangi. Sé um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða skulu þær þó ekki afhentar nema með upplýstu samþykki forsjárforeldra eða lögráða nemenda.

Persónuupplýsingar skulu afhentar á öruggan hátt þannig að fyllsta trúnaðar sé gætt. 

24. Meðferð trúnaðarupplýsinga

Nemendur eiga rétt á því að fá upplýsingar frá skólayfirvöldum sem varða þá sjálfa. Nemendur eiga líka rétt að fá vitneskju frá skólanum um það hvaða upplýsingar hefur verið, eða er, unnið með, um tilgang þeirrar vinnslu upplýsinga, hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingarnar, hvaðan þær koma og hvaða öryggisráðstafanir eru viðhafðar vegna þeirrar vinnslu.

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í friðhelgi einkalífsins felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu. Fleiri atriði falla tvímælalaust undir vernd einkalífs svo sem réttur manna til trúnaðarsamskipta við aðra. Börn jafnt sem fullorðnir eiga að njóta þeirrar verndar sem ákvæðið kveður á um í einka- og fjölskyldulífi.

Sú staðreynd að forsjá barna er í höndum foreldra setur sjálfstæðum rétti þeirra til að njóta friðhelgi einkalífs þó skorður enda ber foreldrum skylda til að vernda börn sín. Samkvæmt barnalögum ráða forsjáraðilar nemenda persónulegum högum þeirra, bera ábyrgð á velferð þeirra og fara með lögformlegt forsvar þeirra. Foreldrar eða forsjáraðilar nemenda eiga því almennt rétt á mikilvægum upplýsingum um börn sín. Þessi réttur takmarkast þó af rétti barnanna sjálfra til trúnaðar starfsmanna skólans.

Ákvæði um þagnarskyldu starfsstétta er víða að finna í löggjöf. Meginrökin fyrir lögbundinni þagnarskyldu starfsmanna ríkis og sveitarfélaga byggjast annars vegar á grundvallarrétti manna til friðhelgi einkalífs og hins vegar á því trúnaðarsambandi sem nauðsynlegt er að sé á milli borgaranna og starfsmanna hins opinbera. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum.

Afar mikilvægt er að starfsfólk framhaldsskóla geri sér grein fyrir að hagsmunir barna og foreldra þurfa ekki alltaf að fara saman. Virða verður rétt barna til að koma fram sem sjálfstæður einstaklingur og tjá skoðanir sínar. Þá á starfsmaður að virða rétt barna til trúnaðarsamskipta á sama hátt og hann myndi gera ef fullorðinn maður ætti hlut að máli. Hafa verður þó í huga að erfitt er að gefa nákvæmar leiðbeiningar um mál sem þessi, hvað þá að lögfesta. Atvik geta þróast þannig að nauðsynlegt sé að foreldrar komi að málinu á einn eða annan hátt, jafnvel gegn vilja barnsins. Þegar málum er þannig háttað þarf starfsmaður að sýna barninu tillitssemi og skýra vel út ástæðu þess að nauðsynlegt er að foreldrar komi að málinu. Í samskiptum við foreldra þarf hann einnig að sýna barni fullan trúnað því ella er jafnvel hætta á að samband barns og foreldra skaðist.

Þrátt fyrir þau mikilvægu rök sem búa að baki lögbundinni þagnarskyldu getur verið nauðsynlegt að takmarka þagnarskyldu starfsmanna. Þagnarskylda starfsfólks grunnskóla nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt, en um það fjallar næsti kafli.

Nánari umfjöllun er að finna í ritinu Friðhelgi einkalífs. Réttur barna til friðhelgi einkalífs. Réttur barna til trúnaðar af hálfu opinberra starfsmanna, (pdf). 

25. Tilkynningarskylda til barnaverndaryfirvalda

Tekið er fram í 3. mgr. 17. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem fjallar um tilkynningarskyldu þeirra sem stöðu sinnar og starfa vegna hafa afskipti af málefnum barna, að tilkynningarskyldan samkvæmt barnaverndarlögum gangi framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Undanþága frá þagnarskyldu er talin réttlætanleg vegna hagsmuna barns og þeirra verndarsjónarmiða sem liggja að baki barnaverndarstarfi.

Tilkynningarskylda gengur því framar trúnaðarskyldu ef um er að ræða atvik sem benda til að aðbúnaður og uppeldisaðstæður barns séu óviðunandi, barn sé í hættu eða grunur er um að barn hafi framið refsiverðan verknað eða refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni. Við slíkar aðstæður eru þeir hagsmunir sem í húfi eru, ef tilkynningarskyldu er ekki fullnægt, mun meiri og ríkari en hagsmunir sem tengjast trúnaði við barnið. Þegar atvik eru með þessum hætti er mikilvægt að starfsmaðurinn upplýsi barn um að á honum hvíli skylda til að tilkynna barnaverndarnefnd um málið vegna alvarleika þess. Hann verður að útskýra vel fyrir barni ástæðuna og þær afleiðingar sem tilkynning kunni að hafa fyrir barnið og fjölskyldu þess. Það er ótvíræður réttur barns að starfsmaður segi barni frá því ef hann verður að rjúfa trúnað við það vegna fyrirmæla um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda. Mikilvægt er að skólastjórnendur brýni þessa skyldu fyrir starfsfólki. Til eru sérstakar verklagsreglur um tilkynningarskyldu starfsfólks leik-, grunn-, og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda

26. Markaðssetning í framhaldsskólum

Nú eru fyrirtæki í auknum mæli að leita inn í framhaldsskólana með því að gera samninga við nemendafélögin, sem þurfa að miklu leyti sjálf að afla fjár fyrir starfsemi sína. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla og það er að sjálfsögðu í valdi hvers skóla fyrir sig að setja reglur um auglýsingar innan veggja skólans. Þó að nemendafélög hafi ákveðið svigrúm til að taka þeim tilboðum sem þeim hugnast er eðlilegt að skólastjórnendur séu hafðir með í ráðum áður en nemendafélög skuldbinda sig með samningi við fyrirtæki.

Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda gáfu í ársbyrjun 2009 út leiðbeinandi reglur um neytendavernd barna. Þar segir í V. kafla um skóla og æskulýðsstarfsemi:

1. Framhaldsskólar 
Auglýsingar, kostun og önnur markaðssókn eða kynning skal aðeins heimil með skriflegu leyfi skólameistara eða fulltrúa hans. Skal leyfið gefið sérstaklega í hvert sinn eða fyrirfram fyrir tiltekinn tíma.

Samningar sem nemendafélag gerir til hagsbóta fyrir félagsmenn skulu vera
• gagnsæir og aðgengilegir nemendum og
• kynntir skólameistara fyrirfram.

Stjórnarmenn eða aðrir fulltrúar nemendafélaga mega ekki hagnast eða njóta nokkurra persónulegra hlunninda umfram aðra frá fyrirtæki vegna viðskipta eða markaðssetningar sem nemendafélagið hefur milligöngu um.

Nemendafélag gefur ekki fyrirtækjum upp persónulegar upplýsingar á borð við GSM-númer, heimilisfang eða netfang nemenda til notkunar í markaðssetningu. Óheimilt er fyrirtækjum að notast við nemendalista í markaðssetningu. Ef félagið kýs að hafa milligöngu við markaðssetningu með því að hringja í félagsmenn, senda þeim tölvupóst eða afhenda límmiðalista skal áður gefa öllum félagsmönnum kost á að andmæla því, hverjum fyrir sitt leyti, að vera á slíkum lista.

27. Stjórnsýslulög

Stjórnsýslulög nr. 37/1993 gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu einstaklinga en það er kallað stjórnvaldsákvörðun. Í stjórnsýslulögum er að finna lágmarksreglur sem þarf að fylgja við málsmeðferð, s.s. andmælaréttur, meðalhófsregla, leiðbeiningarskylda, rannsóknarregla og jafnræðisregla. Ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lög þessi mæla fyrir um, halda gildi sínu. Rétt er að taka fram að skv. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga getur aðili máls krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.

28. Mat og eftirlit með gæðum starfs framhaldsskóla

Í 40. — 42. gr. laga um framhaldsskóla er fjallað um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs í framhaldsskólum. Hver framhaldsskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs  með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á og skulu framhaldsskólar birta opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur. Menntamálaráðuneyti annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í framhaldsskólum og er það liður í reglubundnu ytra mati á gæðum skólastarfs ásamt úttektum, könnunum og rannsóknum.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.

 Helstu lög og reglur

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944

Barnasáttmálinn sbr. lög nr. 19/2013

Barnalög nr. 76/2003

Lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008

Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008

Reglugerð um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, nr. 872/2009

Reglugerð um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara nr. 241/2009

Reglugerð nr. 230/2012  um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum

Reglugerð nr. 872/2009 um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara

Reglugerð um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara nr. 241/2009

Reglugerð nr. 1150/2008 um innritun nemenda í framhaldsskóla

Reglugerð nr. 697/2009 um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað

Reglugerð nr. 1103/2009 um breytingu á reglugerð nr. 697/2009 um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað

Reglugerð nr. 711/2009 um skipan og störf starfsgreinaráða

Reglugerð nr. 1007/2009 um breytingu á reglugerð um skipan og störf starfsgreinaráða nr. 711/2009

Reglugerð nr. 698/2009 um sveinspróf

Reglugerð nr. 1163/2011 um framhaldsfræðslu

Reglugerð nr. 654/2009 um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku

Reglugerð nr. 692/2003 um námsstyrki (sjá breytingar hér)

Reglugerð nr. 614/2009 um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla

Reglugerð nr. 242/2009 um Sprotasjóð leik-, grunn- og framhaldsskóla

Reglugerð nr. 241/2009 um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara

Reglugerð nr. 235/2012 um upplýsingaskyldu framhaldsskóla um skólahald, aðra kerfisbundna skráningu og meðferð persónuupplýsinga um nemendur

Reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun

Eldri reglugerðir

Reglugerðar um starfslið og skipulag framhaldsskóla nr. 1100/2007 (sem heldur gildi sínu þar til ný reglugerð hefur verið sett með stoð í 8. gr. núgildandi laga)

Reglugerð um skólaráð við framhaldsskóla nr. 140/1997 (sem heldur gildi sínu þar til ný reglugerð hefur verið sett með stoð í 7. gr. núgildandi laga)

Aðalnámskrá framhaldsskóla

 

Tenglar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Persónuvernd

Heimili og skóli

Lánasjóður íslenskra námsmanna - jöfnunarstyrkur

Úrskurðir mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Álit mennta- og menningarmálaráðuneytisins

Ritið Ofbeldi gegn börnum - hlutverk skóla