Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Fjármál

Kaflar:

 1. Réttur til sjálfsákvörðunar
 2. Helstu lög, reglur og hugtök um fjármál  og eignarétt barna 
 3. Eignaréttur
 4. Hvaða peningum mega börn ráðstafa sjálf? 
 5. Skylda lögráðamanna 
 6. Hlutverk yfirlögráðenda 
 7. Mega börn skulda? 
 8. Börn og fjármálastofnanir 
 9. Kaup og sala barna á eignum 
 10. Ábyrgð hinna fullorðnu
 11. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til sjálfsákvörðunar

Þó að börn njóti eignarréttar eins og aðrir takmarkast réttur þeirra til að ráðstafa fjármunum sínum af því að þau eru ófjárráða til 18 ára aldurs. Meginregla lögræðislaganna er að ófjárráða ræður ekki fé sínu. Foreldrar barns, sem fara með forsjá þess, eða aðrir þeir sem falin hefur verið forsjá barns fara með fjárhald þess. Foreldrum ber þó ávallt að hafa samráð við börn sín áður en teknar eru ákvarðanir um ráðstöfum fjármuna þeirra og taka tillit til vilja þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 6. mgr. 28. gr. barnalaga og 12. gr. Barnasáttmálans. Þá gildir sú undantekning að börn ráða sjálf yfir sjálfsafla- og gjafafé, sem fjallað verður nánar um hér að neðan. 

2. Helstu lög, reglur og hugtök um fjármál og eignarétt barna

Lögræðislög nr. 71/1997 kveða á um fjármál barna en í barnalögum nr. 76/2003 er fjallað um skyldur forsjárforeldra almennt séð. Þá má nefna stjórnarskrána lýðveldisins sem kveður á um grundvallarréttindi borgaranna.

Í lögræðislögum nr. 71/1997 koma fyrir nokkur hugtök sem mikilvægt er að útskýra:

 • Lögræði: Með lögræði er átt við sjálfræði og fjárræði. Við 18 ára aldur ræður einstaklingur sjálfur fé sínu og persónulegum högum. Börn verða lögráða við 18 ára aldur, nema lög mæli fyrir á annan veg. Eina undantekningin er ef unglingar gifta sig fyrir þann aldur, sbr. 2. mgr. 1. gr. lögræðislaga. 
 • Sjálfsaflafé: Það fé sem barnið hefur sjálft unnið sér inn með persónulegri vinnu sinni.
 • Gjafafé: Það fé sem barnið hefur fengið að gjöf, hvort sem um lífgjöf eða dánargjöf er að ræða.
 • Annað fé: Aðrir fjármunir en að ofan greinir s.s. arfur, bótagreiðslur o.fl.
 • Lögráðamaður: Sá sem fer með lögformlegt fyrirsvar barns. Yfirleitt eru foreldrar eða þeir sem fara með forsjá barns lögráðamenn barna sinna. Ef foreldrar eru látnir, ekki hæfir eða geta einhverra hluta vegna ekki sinnt þessari skyldu sinni getur sýslumaður skipað barni annan lögráðamann. Meginreglan er því að forsjá og lögráð fari saman en þó eru undantekningar frá því.
 • Yfirlögráðandi: Sýslumenn eru yfirlögráðendur hver í sínu umdæmi. Hlutverk yfirlögráðanda er að hafa eftirlit með fjárhaldi lögráðamanna og er samþykki þeirra áskilið til ýmissa ráðstafana með fjármuni ófjárráða barna.

3. Eignaréttur

Börn njóta sömu mannréttinda og fullorðnir. Á það einnig við um eignarétt sem er m.a. tryggður í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Börn eiga því rétt á að ráðstafa eignum sínum sjálf, þó með þeim takmörkunum sem leiða af lögum og forsjárskyldum foreldra. Foreldrum og öðrum er því óheimilt að takmarka eignarrétt barna sinna að ástæðulausu. Sem dæmi má nefna að þegar foreldrar barns búa ekki saman er foreldrum óheimilt að takmarka rétt barns til að njóta eigna sinna hjá báðum foreldrum. Barni er frjálst að fara með fatnað og  hluti til þess foreldris sem það býr ekki hjá og öfugt. Foreldrar geta þó e.t.v. takmarkað þennan rétt ef um er að ræða stóra eða verðmæta hluti sem erfitt er að færa á milli.

4. Hvað peningum mega börn ráðstafa sjálf? 

Foreldrar fara með fjárhald barns til 18 ára aldurs, sbr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Frá þeirri meginreglu að ófjárráða megi ekki ráða fé sínu eru þó gerðar undanþágur. Í 75. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 segir að ófjárráða maður ráði sjálfur sjálfsaflafé sínu, gjafafé sínu og því fé sem lögráðamaður hefur látið hann fá til ráðstöfunar:

Ráðstöfunarréttur ófjárráða manns.
75. gr. 1. Ófjárráða maður ræður ekki fé sínu nema lög mæli á annan veg.
2. Ófjárráða maður ræður sjálfur sjálfsaflafé sínu sem hann hefur þegar unnið fyrir. Maður, sem sviptur hefur verið fjárræði, ræður þó aðeins því sjálfsaflafé sem hann hefur unnið sér inn eftir að úrskurður gekk um sviptingu fjárræðis.
3. Ófjárráða maður ræður sjálfur gjafafé sínu, þar með töldum dánargjöfum, nema gefandi hafi mælt fyrir á annan veg eða lög kveði sérstaklega öðruvísi á um. Ef maður hefur verið sviptur fjárræði ræður hann þó aðeins því gjafafé sem hann hefur fengið eftir að úrskurður gekk um sviptingu fjárræðis.
4. Ófjárráða maður ræður einnig með sama hætti því fé sem lögráðamaður hans hefur látið hann hafa til ráðstöfunar.
5. Ef um tiltölulega mikið sjálfsaflafé eða gjafafé er að tefla eða fari hinn ófjárráða ráðlauslega með féð getur yfirlögráðandi, án tillits til fyrirmæla gefanda, ef því er að skipta, tekið eða heimilað lögráðamanni að taka féð að nokkru eða öllu leyti til varðveislu og ræður hinn ófjárráða maður þá ekki því fé meðan sú ráðstöfun helst.
6. Forráð ófjárráða manns yfir sjálfsaflafé og gjafafé taka einnig til arðs af því fé, svo og verðmætis er í stað þess kemur.
7. Ákvæði þessarar greinar heimila hvorki ófjárráða manni að stofna til skulda né veðsetja þá fjármuni sem þau taka til.

5. Skylda lögráðamanna 

Í V. kafla lögræðislaganna er fjallað um lögráðamenn. Meginskylda lögráðamanna ófjárráða barna er að varðveita eignir barnsins tryggilega og gæta þess að þær séu ávaxtaðar eins og best verður á kosið á hverjum tíma. Lögráðamaður á sem sagt að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi og haga störfum sínum í þágu þess. Lögráðamanni ber einnig að hafa samráð við hið ófjárráða barn um framkvæmd starfs síns eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Honum er þó heimilt að taka minniháttar ákvarðanir án sérstaks samráðs, t.d. þegar greiða þarf reikninga sem lögskylt er að greiða.

Óheimilt er að ráðstafa fjármunum barns til að greiða kostnað af framfærslu þess, námi eða öðru án fyrirfram fengins samþykkis sýslumanns. Lögráðamaður ber ábyrgð á þeim fjármunum barns sem hann hefur umráðarétt yfir samkvæmt lögræðislögum. Hann skal ávallt halda fjármunum barns aðskildum frá sínum eigin fjármunum. Ef lögráðamaður veldur ófjárráða barni tjóni með starfi sínu, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi, ber honum að bæta það.

6. Hlutverk yfirlögráðenda 

Sýslumenn eru yfirlögráðendur hver í sínu umdæmi, sbr. 80. gr. lögræðislaga. Hlutverk yfirlögráðenda er að hafa eftirlit með fjárhaldi lögráðamanna og er samþykki þeirra áskilið til ýmissa ráðstafana með fjármuni barna.

Ef verðmæti eigna barns fer yfir 500.000 kr. ber lögráðamanni að varðveita eignirnar og ávaxta að höfðu samráði við yfirlögráðanda, sbr. 2. mgr. 67. gr. lögræðislaga og ber lögráðamanni að gefa yfirlögráðanda árlega skýrslu um ákvarðanir sem hafa verið teknar um slíkar eignir, sbr. 1. mgr. 63. gr. lögræðislaga. Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. lögræðislaga ber öllum þeim sem inna af hendi fjárgreiðslur til lögráðamanns ófjárráða barns og greiðslan er eign hins ófjárráða, að tilkynna það yfirlögráðanda ef greiðslan er að fjárhæð 500.000 kr. eða þar yfir. Jafnframt ber lögráðamanni ófjárráða barns að tilkynna yfirlögráðanda ef barninu áskotnast verðmæti sem nemur 500.000 kr. eða þar yfir t.d. í formi gjafar, happdrættisvinnings eða með öðrum hætti, sbr. 4. mgr. 63. gr. lögræðislaga.

Samkvæmt 6. mgr. 67. gr. lögræðislaga þarf alltaf samþykki yfirlögráðanda ef gengið er á eignir ófjárráða barns vegna framfærslu þess, náms eða annars. Er þetta í samræmi við þá reglu barnalaga að foreldrum eða öðrum þeim sem falin hefur verið forsjá barns beri ávallt skylda til að framfæra barnið.

Almennt er óheimilt að setja fjármuni ófjárráða barns sem tryggingu fyrir skuldbindingu eða láta ófjárráða barn gangast í ábyrgð eða setja tryggingu fyrir þriðja aðila, sbr. 70. og 71. gr. lögræðislaga. Yfirlögráðandi getur veitt undanþágu frá þessum reglum þegar sérstaklega stendur á vegna hagsmuna hins ófjárráða. Einnig er óheimilt að lána fé ófjárráða barns nema með leyfi yfirlögráðanda og þá gegn tryggu veði í fasteign, sbr. 72. gr. lögræðislaga.

Alltaf þarf samþykki yfirlögráðanda til að binda ófjárráða barn við kaup eða sölu ýmissa eigna, t.d. þegar ófjárráða barn kaupir eða selur fasteign eða bifreið, sbr. 69. gr. lögræðislaga. Sama gildir þegar ófjárráða barni eru afhentar slíkar eignir án endurgjalds. Sjá nánar í kaflanum Kaup og sala barna á eignum.

7. Mega börn skulda? 

Það kemur skýrt fram í lögræðislögum nr. 71/1997 að ófjárráða börnum er óheimilt að stofna til skulda, sbr. 7. mgr. 75. gr. laganna. Eins kemur fram í 76. gr. sömu laga að löggerningar ófjárráða barna, sem þau hafa ekki heimild til að gera, binda þau ekki.

Einstaklingum og lögaðilum er því óheimilt að beina kröfu að ófjárráða barni til innheimtu skulda og fyrirtæki og stofnanir mega ekki eiga viðskipti við ófjárráða einstakling, sem felur í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir hann, án samþykkis lögráðamanns. Það að fá samþykki lögráðamanns er ákveðin trygging fyrirtækisins fyrir greiðslu. Geri fyrirtækið hins vegar samning við ófjárráða barn, án samþykkis lögráðamanns, tekur það ákveðna áhættu af því að fá ekki greiðslu samkvæmt samningnum.

Hafa verður í huga að þótt meginreglur lögræðislaganna kveði á um að löggerningar ófjárráða bindi þá ekki eru viðurkenndar ákveðnar undantekningar frá þeim. Þá er jafnframt kveðið á um skilaskyldu, sbr. 78. gr. lögræðislaga, þ.e. hvor aðili um sig skal skila aftur þeim verðmætum sem hann hefur veitt viðtöku. Skal hinn ófjárráða greiða fégjald að því leyti sem verðmætin hafa orðið honum að notum. Þetta þarf alltaf að meta í hverju tilviki fyrir sig.

Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 er því t.d. óheimilt að einstaklingur undir 18 ára fái yfirdráttarheimild í banka, taki annars konar lán eða fái kreditkort (nema það sé fyrirframgreitt). Eins er óheimilt að beina hvers kyns innheimtu að börnum undir 18 ára aldri, s.s. vegna innheimtu gjalda fyrir tómstundaiðkun, skólavist í framhaldsskóla o.s.frv. Slíkir reikningar skulu alltaf vera stílaðir á forsjáraðila, sem hefur með undirskrift sinni samþykkt að greiða fyrir viðkomandi þjónustu, enda er greiðsla slíkra gjalda liður í framfærslu barnsins.

8. Börn og fjármálastofnanir 

Engar sérstakar reglur gilda um samskipti banka og fjármálastofnana við börn og unglinga aðrar en þær sem fram koma í lögræðislögum nr. 71/1997. Viðskipti barna við fjármálastofnanir eru því ekki andstæð lögum. Flestar fjármálastofnanir hafa sett sér verklagsreglur um meðferð fjármuna ófjárráða barna.

Eins og fram kemur í lögræðislögum ráða ófjárráða börn sjálf yfir sjálfsaflafé sínu, gjafafé og því fé sem lögráðamenn þeirra láta þeim í té. Ekki eru sett nein aldurstakmörk vegna þessara fjármuna. Það er því á valdi innlánastofnana sjálfra að ákveða við hvaða aldur börn geta stofnað innlánsreikninga án undirskriftar forráðamanna.

Mikilvægt er að þegar stofnaður er reikningur fyrir ófjárráða barn að jafnt viðskiptamenn sem og starfsmenn fjármálastofnunar þekki greinarmun á þeirri flokkun fjármuna sem lögin setja. Jafnframt er mikilvægt að tryggja forráðamönnum aðgang að upplýsingum um stöðu á reikningum ófjárráða barna þannig að þeir geti fylgst með þeim fjármunum sem börnin hafa á milli handanna. Er þetta nauðsynlegt svo að lögráðamenn geti sinnt skyldum sínum sem ábyrgðarmenn með fjárhaldi barnanna þar til þau verða sjálf fjárráða.

Í raun er ekkert sem bannar það að bankar og fjármálafyrirtæki láti ófjárráða börn hafa debetkort í tengslum við innlánsreikninga þeirra þegar um er að ræða reikninga með sjálfsafla- eða gjafafé. Þó svo að fjármálastofnunum sé í sjálfsvald sett hvort og þá hvernig reglur þær setja sér varðandi debetkort ófjárráða barna verður að gera þá kröfu til þeirra að kort sem afhent eru ófjárráða börnum séu svokölluð síhringikort, þ.e. að könnuð sé innstæða í hvert sinn sem kortið er notað. Því þótt ófjárráða börn megi ráðstafa sjálfsafla- og gjafafé sínu kemur skýrt fram í lögum að þeim er óheimilt að stofna til skulda og eiga því ekki að geta farið fram yfir á reikningum sínum. Ef börn með debetkort fara yfir á reikningum sínum af einhverjum ástæðum (t.d. ef kaupmaður er með slökkt á síhringibúnaði verslunar) ættu þau að fá FIT-gjald fellt niður hjá bankanum.

9. Kaup og sala barna á eignum

Eins og fram kemur í lögræðislögum nr. 71/1997 er meginreglan sú að ófjárráða einstaklingur má ekki stofna til skulda og er því almennt óheimilt að beina innheimtu að ófjárráða barni. Í 69. gr. laganna er þó að finna undanþágu frá þessari meginreglu:

Kaup og sala á eignum o.fl.
69. gr. 1. Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að binda ófjárráða mann við kaup eða sölu fasteignar, loftfars, skráningarskylds skips eða skráningarskylds ökutækis, svo og atvinnufyrirtækis hans. Sama gildir ef ófjárráða manni eru afhentar slíkar eignir án þess að endurgjald komi fyrir. Eignir samkvæmt þessari málsgrein skulu eigi látnar af hendi, nema hinum ófjárráða sé auðsjáanlega hagur að því.
2. Samþykki yfirlögráðanda þarf til þess að leigusamningur um fasteign ófjárráða manns sé gildur ef leigusamningur er til lengri tíma en þriggja ára, nema kveðið sé á um rétt til uppsagnar með hæfilegum fyrirvara.
3. Samþykki yfirlögráðanda þarf einnig til allra ráðstafana varðandi fjárhald ófjárráða manns sem eru mikils háttar eða óvenjulegar, miðað við efni hins ófjárráða, svo sem kaup eða sölu á lausafé, ef um tiltölulega mikið verðmæti er að tefla, og til ráðningar forstjóra fyrir atvinnufyrirtæki ófjárráða manns.
4. Ráðherra getur sett nánari reglur um form og efni beiðna lögráðamanna um samþykki yfirlögráðenda samkvæmt þessari grein og um þau gögn sem beiðni skulu fylgja.

Þar sem þetta er veigamikil undanþága á þeirri meginreglu laganna að ófjárráða börnum sé óheimilt að stofna til skulda óskaði umboðsmaður barna eftir skýringum ráðuneytisins á því hvaða réttaráhrif það hafi í för með sér þegar ófjárráða barn fær heimild yfirlögráðanda til þess að kaupa/selja ökutæki eða fasteign. Í svarbréfi frá dómsmálaráðuneytinu sem barst í apríl 2002 segir m.a.:

Skv. 1. mgr. 69. gr. lögræðislaga þarf samþykki yfirlögráðanda til þess að binda ófjárráða mann við kaup á skráningarskyldu ökutæki eða fasteign. Sama gildir ef ófjárráða er afhent slík eign án þess að endurgjald komi fyrir. Í greinargerð með 1. mgr. 69. gr. lögræðislaga segir: „þar sem margskonar skyldur hvíla á eigendum þeirra eigna sem tilgreindar eru í málsgreininni þykir rétt að yfirlögráðandi meti hvort hinn ófjárráða hafi hag af eignatilfærslunni og er því lagt til að samþykki hans þurfi til að koma þegar þannig hagar til." 
Það er því ljóst að ekki er eingöngu verið að horfa til þess að hinn ófjárráða aðili geti staðið skil á því endurgjaldi sem fyrir ökutækið kemur heldur jafnframt til þess að þegar hinn ófjárráða aðili verður eigandi t.d. skráningarskylds ökutækis tekst hann á hendur ábyrgð á greiðslu þeirra lögboðnu gjalda sem krafist er af eiganda skráningarskylds ökutækis. Innheimtu lögboðinna gjalda verður því beint að hinum ófjárráða aðila, einnig þegar um er að ræða vanskil á lögboðnum gjöldum, nema hinn ófjárráða hafi sérstaklega verið undanþeginn greiðslu þeirra t.d. með yfirlýsingu lögráðamanns um að hann taki að sér greiðslu þessara gjalda fyrir hinn ófjárráða.

Eins og sést á ofangreindu verður innheimtu lögboðinna gjalda er hvíla á fasteign eða bifreið beint að ófjárráða barni, enda hafi sýslumaður samþykkt slíka eignatilfærslu. Ef eign er skráð á ófjárráða barn í veðmálabókum eða bifreiðaskrá má ætla að slíkt samþykki sýslumanns liggi fyrir.

10. Ábyrgð hinna fullorðnu 

Það er fyrst og fremst á ábyrgð foreldra eða annarra lögráðamanna barna að kenna börnum ábyrga meðferð fjármuna í samræmi við gildandi reglur laga, varðveita  og að gæta hagsmuna þeirra. Foreldrum ber ávallt að hafa samráð við börn sín áður en teknar eru ákvarðanir um ráðstöfum fjármuna þeirra og taka tillit til vilja þeirra í samræmi við aldur og þroska. Foreldrum ber þó alltaf að virða þá reglu að börn ráða sjálf yfir sjálfsafla- og gjafafé.

Það er líka hlutverk skólanna að fræða börn um fjármál og ábyrga neytendahegðun. Í aðalnámskrám grunnskóla og framhaldsskóla 2011 er fjallað um sex meginstoðir menntunar. Ein þeirra er sjálfbærni. Í umfjöllun um sjálfbærni segir að neytendafræðsla og fjármálalæsi séu mikilvæg forsenda þess að geta metið þarfir okkar í nútíð og framtíð. 

En þó svo að ábyrgð foreldra og menntakerfisins sé rík er mikilvægt að þeir sem börn eiga viðskipti við, s.s. afgreiðslufólk og gjaldkerar, séu meðvitaðir um þær reglur sem gilda um ófjárráða börn og hagi störfum sínum í samræmi við þær. Einnig er þýðingarmikið að allir í samfélaginu standi með foreldrum í uppeldishlutverki þeirra og að skilaboðin sem börn fái séu samhljóma, þ.e. að umgangast beri fjármuni af virðingu og skynsemi.

11. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Nokkrir aðilar sinna fjármálaráðgjöf eða bjóða upp á fjármálanámskeið:

 • Félagsþjónusta sveitarfélaganna 
  Á vegum sveitarfélaganna er veitt ýmiss konar félagsleg ráðgjöf (fjölskylduráðgjöf). Hér á vef Sambands Íslenskra sveitarfélaga er listi yfir öll sveitarfélög landsins.  Með því að smella á landsvæði er hægt að komast inn á heimasíðu sveitarfélaganna.
 • Áttavitinn - Tótalráðgjöfin 
  Tótalráðgjöfin er ætluð ungu fólki sem vantar aðstoð og ráðgjöf fagfólks til að leysa úr alls kyns vandamálum. Hægt er að hringja í síma 520-4600, koma (í Hitt húsið, Pósthússtræti í Reykjavík) eða senda tölvupóst. Sérfræðingur í fjármálum svarar fyrirspurnum um fjármál sem berast Tótalráðgjöfinni. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.attavitinn.is. 
 • Fjármálaskólinn 
  Á vef Fjármálaskólans er hægt að nálgast fræðslu um fjármál.

Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.