Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Málaflokkar

Afbrot

Kaflar:

1. Réttur til réttlátrar málsmeðferðar
2. Helstu lög og reglur um afbrot
3. Sakhæfi
4. Ósakhæf börn yngri en 15 ára
5. Sakhæf börn 15–18 ára
6. Viðbrögð við afbrotum sakhæfra barna
7. Fésektir – skaðabætur
8. Börn sem brotaþolar
9. Bætur til þolenda afbrota
10. Börn sem vitni
11. Börn fanga
12. Tollskoðanir
13. Sakaskrá
14. Ábyrgð hinna fullorðnu
15. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Hægt er að smella á kaflaheitin til að komast í einstaka kafla.
Með því að smella á kaflaheiti í texta er hægt að komast aftur efst á síðu.

1. Réttur til réttlátrar málsmeðferðar

Ljóst er að afbrot geta snert líf barna með ýmsum hætti. Börn geta verið brotaþolar, vitni eða átt foreldra eða aðra nákomna sem verða fyrir eða fremja afbrot. Börn geta líka sjálf framið refsivert brot. Þegar tekið er á afbrotum í samfélaginu er mikilvægt að huga sérstaklega að hagsmunum þeirra barna sem eiga í hlut.

Ein af grundvallargreinum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er 3. gr.:

1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. 

2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu. 

3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón. 

Þessi meginregla á að sjálfsögðu við um öll börn og við allar aðstæður. Það hvílir því skylda á öllum þeim sem fara með málefni barna sem hafa framið afbrot að hafa það sem er þeim fyrir bestu að leiðarljósi. Í 37. og 40. gr. Barnasáttmálanum er auk þess fjallað sérstaklega um réttindi þeirra barna sem eru grunuð um eða hafa verið dæmd fyrir refsivert brot.

Í 37. gr. Barnasáttmálans segir:

Aðildarríki skulu gæta þess að: 

a) Ekkert barn sé látið sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ekki skal ákveða dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn fyrir afbrot sem yngri menn en 18 ára hafa framið.

b) Ekkert barn sé ólöglega eða gerræðislega svipt frjálsræði sínu. Handtaka, varðhald og fangelsun barns skal eiga sér stað samkvæmt lögum, og skal slíku aðeins beitt sem síðasta úrræði og í skemmsta tíma sem við getur átt. 

c)  Farið sé mannúðlega með hvert það barn sem svipt er frjálsræði sínu og af virðingu fyrir meðfæddri göfgi manna og með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa einstaklings á þeim aldri sem um ræðir. Einkum skal halda hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að því sé fyrir bestu að gera það ekki, og á barn rétt á að halda tengslum við fjölskyldu sína með bréfaskriftum og heimsóknum, nema sérstaklega standi á. 

d)  Hvert það barn sem svipt er frjálsræði eigi rétt á skjótri lögfræðilegri aðstoð og annarri viðeigandi aðstoð, svo og rétt til að vefengja lögmæti frjálsræðissviptingar sinnar fyrir dómstól eða öðru þar til bæru óháðu og óhlutdrægu stjórnvaldi, og til að fá skjótan úrskurð þar um.  

Í 40. gr. sáttmálans er fjallað um viðbrögð við afbrotum barna og réttláta málsmeðferð:

1. Aðildarríki viðurkenna rétt hvers þess barns, sem er grunað, ásakað eða fundið sekt um brot á refsilögum, til meðferðar sem styrkir vitund þess um eigin göfgi og manngildi, sem treystir virðingu þess fyrir mannréttindum og mannfrelsi annarra, og sem tekur tillit til aldurs barnsins og þess að æskilegt sé að stuðla að aðlögun þess og því að það gegni jákvæðu hlutverki í samfélaginu.  

2. Skulu aðildarríki í þessu skyni, og með hliðsjón af viðeigandi ákvæðum alþjóðlegra löggerninga, einkum sjá til þess að: 

 a) Ekkert barn sé grunað, ásakað eða fundið sekt um brot á refsilögum vegna verknaða eða aðgerðarleysis sem ekki var lagt bann við í landslögum eða að þjóðarétti á þeim tíma er verknaðurinn eða aðgerðarleysið átti sér stað. 

 b) Hvert það barn sem grunað er eða ásakað um refsilagabrot njóti eftirgreindra lágmarksréttinda: 

   i) Að vera talið saklaust þar til það er fundið sekt að lögum. 

  ii) Að fá vitneskju um kærurnar gegn því án tafar og beint, og, ef við á, fyrir milligöngu foreldra sinna eða lögráðamanna og að njóta lögfræðilegrar aðstoðar eða annarrar viðeigandi aðstoðar við undirbúning og framsetningu á vörn sinni.

  iii) Að fá gert út um mál sitt án tafar af þar til bæru, óháðu og óhlutdrægu yfirvaldi eða dómstól, við réttláta og lögmælta rannsókn, enda sé til staðar lögfræðileg eða önnur viðeigandi aðstoð, svo og foreldrar þess eða lögráðamenn, nema það sé ekki talið barninu fyrir bestu, sérstaklega með tilliti til aldurs eða aðstæðna þess. 

  iv) Að verða ekki þröngvað til að bera vitni eða játa á sig sök, að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn því, og að vitni þess komi fyrir og séu spurð við sömu aðstæður. 

  v) Að ákvörðun um að það hafi brotið gegn refsilögum svo og ráðstafanir sem gerðar eru vegna hennar séu endurskoðaðar af æðra þar til bæru óháðu og óhlutdrægu yfirvaldi eða dómstól samkvæmt lögum. 

  vi) Að fá ókeypis aðstoð túlks ef barnið skilur ekki eða talar ekki tungumál það sem notað er. 

  vii) Að friðhelgi einkalífs þess sé virt að fullu á öllum stigum málsmeðferðarinnar. 

3. Aðildarríki skulu hvetja til þess að settar séu lagareglur, og reglur um málsmeðferð, skipuð stjórnvöld og settar á fót stofnanir sérstaklega fyrir börn sem eru grunuð, ásökuð eða fundin sek um refsilagabrot, og einkum: 

a) Ákveða þann lágmarksaldur, sem börn verða að hafa náð til þess að vera talin sakhæf. 

b) Gera, þegar það á við og þykir henta, ráðstafanir til að fara með mál slíkra barna án þess að leita til dómstóla, enda sé mannréttinda og lögverndar gætt að fullu. 

4. Séð skal til þess að grípa megi til ýmiss konar ráðstafana, svo sem umsjónar, leiðsagnar, eftirlits, ráðgjafar, skilorðs, fósturs, fræðslu- og starfsnámsáætlana og annarra valkosta í stað vistunar á stofnunum, til að tryggja að með börn sé farið á þann hátt sem velferð þeirra hæfir og samræmist bæði aðstæðum þeirra og brotinu. 

Af ofangreindu ákvæði leiðir meðal annars að viðbrögð við afbrotum barna eiga að miða að því að styrkja sjálfsmynd þeirra og hafa uppbyggileg áhrif. Í samræmi við það ber almennt að leitast við að leysa úr málum sem varða afbrot barna án þess að leita til dómstóla.

Ísland fullgilti Barnasáttmálann árið 1992 og lögfesti hann í febrúar 2013, sbr. lög nr. 19/2013. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst."

2. Helstu lög og reglur um afbrot

Auk Barnasáttmálans eru helstu lagabálkarnir í íslenskum rétti sem fjalla um börn sem brjóta af sér, börn sem brotaþola og börn sem vitni almenn hegningarlög nr. 19/1940, barnaverndarlög nr. 80/2002, lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 og lög um fullnustu refsinga nr. 49/2005.

3. Sakhæfi

Í 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að eigi skuli refsa manni fyrir verknað, er hann hefur framið áður en hann varð 15 ára gamall. Þetta þýðir að  börn teljast sakhæf þegar þau verða 15 ára gömul, þ.e. við lok 15 ára afmælisdags. Frá 15 ára aldri bera öll börn refsiábyrgð á afbrotum sínum, óháð þroska hvers og eins. Það þýðir þó ekki að taka eigi á afbrotum barna á aldrinum 15 til 18 ára með sama hætti og brotum fullorðinna, enda njóta börn sérstöðu samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ýmsum öðrum lögum.  Í samræmi við það gilda ýmsar sérreglur um afbrot sakhæfra barna og meðferð þeirra. Þá gilda ákvæði barnaverndarlaga um afbrot barna, hvort sem þau eru sakhæf eða ekki. 

4. Ósakhæf börn, yngri en 15 ára

Þegar börn yngri en 15 ára fremja afbrot verður þeim ekki refsað fyrir brot sín samkvæmt almennum hegningarlögum. Það er því hlutverk barnaverndar að taka á afbrotum barna fram að 15 ára aldri og gilda þá ákvæði barnaverndarlaga um meðferð máls. Þegar brot barns er alvarlegt er lögreglan yfirleitt kölluð til. Tilgangurinn með rannsókn lögreglu á brotum ósakhæfra barna er ekki að undirbúa mál fyrir ákæruvaldið eða rannsaka til hlítar alla þætti brotsins. Hlutverk lögreglu í þessum málum er fremur eins konar hjálpar- eða aðstoðarhlutverk við börnin og fjölskyldur þeirra.

Í 18. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, segir:

Ef lögregla verður þess vör að barn búi við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. skal hún tilkynna barnaverndarnefnd um það. Þegar grunur leikur á að barn hafi framið eða framið hafi verið gegn barni brot gegn almennum hegningarlögum eða lögum þessum eða brot gegn öðrum lögum sem varðað getur þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins. Barnaverndarnefnd skal tilkynna foreldri barns um slíkt mál mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því.

Gefa skal fulltrúa barnaverndarnefndar kost á að vera viðstaddur skýrslutöku af barni sem sakborningi í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, svo og skýrslutöku af barni sem brotaþola og sem vitni. Á þetta við hvort sem skýrslutaka fer fram hjá lögreglu eða fyrir dómi. Um skýrslutöku af barni gilda að öðru leyti ákvæði laga um meðferð sakamála og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim.

Um samskipti lögreglu við ósakhæf börn og fjölskyldur þeirra gilda fyrirmæli nr. 9/2009 um meðferð mála gegn börnum yngri en 15 ára. Fyrirmælin byggja fyrst og fremst á barnaverndarlögum og er þar áréttað að lögreglu sé skylt að eiga samstarf við barnaverndarnefndir vegna afbrota ósakhæfra barna. Í fyrirmælunum segir að lögreglu beri að rannsaka brot ósakhæfra barna, m.a. til þess að leiða í ljós umfang brotsins, að ganga úr skugga um hvort aðrir kunni að eiga þátt í brotinu, að unnt sé að hafa uppi á og/eða skila því sem stolið var og að stuðla að velferð þeirra barna sem eiga í hlut.

Ef yfirheyra á barn yngra en 15 ára er skylt að hafa samband við barnaverndarnefnd sem getur sent fulltrúa sinn á staðinn. Þó er heimilt að byrja að yfirheyra barnið ef talið er að bið eftir fulltrúa barnaverndarnefndar geti spillt fyrir rannsókn málsins. Lögreglu ber einnig að láta foreldra vita og mega þeir vera viðstaddir skýrslutökuna, nema hagsmunir barnsins eða rannsóknarhagsmunir standi því í vegi. Lögreglu er skylt að gæta fyllstu tillitsemi þegar tekin er skýrsla af barni og hafa hagsmuni þess að leiðarljósi.

Ósakhæf börn verða ekki beitt þvingunarráðstöfunum í þágu opinberrar rannsóknar nema í algjörum undantekningartilvikum og verður að vera fyrir hendi skýr og ótvíræð lagaheimild til beitingar slíkra úrræða. Þó er talið heimilt að handsama ósakhæft barn og færa það á lögreglustöð án samþykkis þess í því skyni að yfirheyra það í tengslum við rannsókn á broti. Einnig er hægt að beita þvingunarúrræðum laga um meðferð sakamála sem unnt er að beita gagnvart þeim sem ekki eru sakaðir í máli, t.d. líkamsleit.

Ekki ber að vista barn yngra en 15 ára í fangageymslu eða öðru húsrými þar sem handteknir eru vistaðir til bráðabirgða. Þá skal ekki beita handjárnum eða öðrum búnaði sem lögreglan notar við valdbeitingu, nema brýna nauðsyn beri til og önnur úrræði hafa verið fullreynd.

Þó að börn verði ekki sakhæf fyrr en við 15 ára aldur er brýnt að yngri börn átti sig á því að þau beri ákveðna ábyrgð á gerðum sínum. Er því almennt ekki talið börnum fyrir bestu að ekki sé brugðist við afbrotum þeirra. Þvert á móti er mikilvægt að grípa sem fyrst inn í afbrotahegðun barna með jákvæðum og uppbyggilegum hætti. Rétt viðbrögð við afbrotum barna eru til þess fallin að efla sjálfsmynd barnanna og draga úr líkum á áframhaldandi áhættuhegðun.  Það er hlutverk foreldra og barnaverndarnefndar að bregðast við afbrotum ósakhæfra barna í samræmi við það sem er þeim fyrir bestu.

5. Sakhæf börn 15–18 ára

Börn á aldrinum 15-18 ára eru sakhæf samkvæmt almennum hegningarlögum. Það þýðir að börn á þessum aldri eru talin bera ábyrgð á gerðum sínum og hægt er að refsa þeim ef þau brjóta gegn refsilögum. Almenna refsilög og lög um meðferð sakamála gilda um börn á þessum aldri. Eins og að framan greinir eiga þó ákveðnar sérreglur við um sakhæf börn sem fremja afbrot, sem taka mið af því að börn eiga rétt á sérstakri vernd og umönnun sökum reynslu- og þroskaleysis.

Í Barnasáttmálanum er að finna ákvæði sem er sérstaklega ætlað að tryggja réttindi og hagsmuni þeirra barna sem eru grunuð um eða hafa verið dæmd fyrir brot á refsilögum. Samkvæmt þessum ákvæðum eiga viðbrögð við afbrotum barna fyrst og fremst að miða að því að hafa uppbyggileg áhrif og stuðla að því að þau hverfi af braut afbrota, sbr. t.d. 37. gr. og 3. og 4. mgr. 40. gr. Barnasáttmálans. Ákvæðin taka mið af þeirri staðreynd að börn og ungmenni eru yfirleitt móttækilegri en þeir sem eldri eru fyrir hvers kyns endurhæfingu.

6. Viðbrögð við afbrotum sakhæfra barna

Með sama hætti og gildir um ósakhæf börn er lögreglu skylt að hafa samband við barnavernd ef grunur leikur á að barn á aldrinum 15 til 18 ára hafi framið brot gegn almennum hegningarlögum eða annað brot sem getur varðað þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi. Barnavernd ber að hafa samband við foreldra barns, nema hagsmunir barnsins mæli gegn því, sbr. 18. gr. barnaverndarlaga. Gefa skal fulltrúa barnaverndarnefndar kost á að vera viðstaddan skýrslutöku af sakborningi, hvort sem hún fer fram hjá lögreglu eða fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 18. gr. barnaverndarlaga og 61. gr. laga um meðferð sakamála.

Ekki er heimilt að svipta börn frelsi sínu, svo sem með handtöku, nema ljóst sé að önnur úrræði duga ekki til. Ef barn undir 18 ára aldri er handtekið skal hafa samband við foreldra og fulltrúa barnaverndarnefndar og hvetja þá til að koma án tafar á lögreglustöð, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Einungis er heimilt að úrskurða sakborning á aldrinum 15 til 18 ára í gæsluvarðhald ef ljóst er að önnur úrræði duga ekki til, sbr. 5. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála. Sem dæmi um önnur úrræði sem hægt er að beita er vistun barns á meðferðarheimili á vegum barnaverndarnefndar.

Almennt ber að leitast við að taka á afbrotum barna án þess að leita til dómstóla, sbr. 3. mgr. 40. gr. Barnasáttmálans. Í íslenskum rétti er að finna nokkur úrræði sem hægt er að grípa til vegna afbrota ungmenna án þess að leita til dómstóla. Sem dæmi má nefna að til greina kemur að fresta ákæru skilorðsbundið ef sakborningur játar brot sitt og er á aldrinum 15 til 21 árs, sbr. 56. gr. almennra hegningarlaga. Þegar ákæru er frestað er hægt að taka málið upp að nýju ef ungmenni brýtur aftur af sér á skilorðstímanum. Þegar talið er nauðsynlegt að veita ungmenni aukinn stuðning er heimilt að setja frekari skilyrði fyrir ákærufrestun, svo sem að ungmenni skuli sæta eftirliti skilorðsfulltrúa eða fara í meðferð vegna vímuefnavanda. Sáttamiðlun kemur einnig til greina þegar ungmenni fremja ákveðin minniháttar brot. Sáttamiðlun byggir á hugmyndafræði uppbyggilegrar réttvísi en tilgangur hennar er að ná sáttum milli þess sem brýtur af sér og brotaþola. Sáttamiðlun leiðir til þess að ungmenni þarf að horfast í augu við afleiðingar háttsemi sinnar og bæta fyrir brot sitt, en slíkt er almennt talið betur til þess fallið að hafa uppbyggileg og þroskandi áhrif en hefðbundnar refsingar.

Í þeim tilvikum sem framangreind úrræði duga ekki til eða unglingur hefur ítrekað brotið af sér getur verið talið nauðsynlegt að gefa út ákæru og fara með málið fyrir dóm. Í b-lið 2. mgr. 40. gr. Barnasáttmálans er fjallað um rétt barna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. einnig 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar sakborningur í sakamáli er yngri en 18 ára getur dómari ákveðið að réttarhöldin skuli haldin fyrir lokuðum dyrum, þ.e. að engum öðrum en þeim sem málið varðar sé leyft að vera viðstaddir, sbr. 10. gr. laga um meðferð sakamála. Óheimilt er að skýra opinberlega  frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi, nema með leyfi dómara.

Þegar barn er fundið sekt fyrir brot á refsilögum er mikilvægt að refsing sé ákvörðuð með hliðsjón af því sem er barninu fyrir bestu. Í almennum hegningarlögum er tekið fram að taka skuli sérstakt tillit til ungs aldurs sakbornings þegar refsing er ákveðin, auk þess sem aldrei er heimilt að dæma einstaklinga undir 18 ára aldri í meira en 8 ára fangelsi, sbr. 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 74. gr. laganna.

Samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga er heimilt að fresta refsingu eða fullnustu refsingar skilorðsbundið gegn því almenna skilyrði að sá sem brotið hefur af sér gerist ekki sekur um brot að nýju á skilorðstímanum. Með sama hætti og gildir um skilorðsbundna frestun ákæru er auk þess hægt að beita sérstökum skilyrðum samhliða almenna skilyrðinu, sem geta meðal annars falið í sér að aðili þurfi að sæta eftirliti, megi ekki neyta áfengis eða fíkniefna eða vistist á meðferðarstofnun. Skilorðsbundnir dómar geta hentað vel fyrir ungmenni og veitt þeim tækifæri til að snúa af afbrotabrautinni. Þegar mælt er fyrr um eftirlit með þeim sem dæmdir eru skilorðsbundið fer Fangelsismálastofnun með eftirlitið, nema hún hafi falið það öðrum, sbr. 66. gr. laga um fullnustu refsinga. Hér á vef Fangelsismálastofnunar er að finna greinagóðar upplýsingar um skilorðseftirlit og skilorðsbundna fangelsisrefsingu.

Ekki er heimilt að dæma börn í óskilorðsbundið fangelsi nema ljóst sé að engin önnur úrræði duga til og þá aðeins í eins skamman tíma og mögulegt er, sbr. b-liður 37. gr. Barnasáttmálans. Frelsissvipting kemur því aðeins til greina þegar barn er beinlínis talið hættulegt sér eða öðrum, eða öll önnur úrræði hafa verið fullreynd. Samkvæmt c-lið 37. gr. Barnasáttmálans á að halda börnum sem svipt eru frelsi sínu aðskildum frá fullorðnum, nema það sé talið þeim fyrir bestu að gera það ekki. Í samræmi við þetta er kveðið á um það í 44. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016 að fangar sem séu undir 18 ára aldri skuli afplána refsingu á vegum barnaverndaryfirvalda. Með ákvæðinu er því gert ráð fyrir að barn afpláni refsinguna, annað hvort á sérstöku heimili á vegum barnaverndaryfirvalda eða í öðru meðferðarúrræði. Fangi sem er skólaskyldur skal eiga kost á skyldunámi, sbr. 26. gr. laga um fullnustu refsinga.

7. Fésektir – skaðabætur

Samkvæmt almennum hegningarlögum nr. 19/1940 geta refsingar verið tvenns konar, fangelsi og fésektir. Þegar barn verður sakhæft við 15 ára aldur getur því komið til þess að það verði dæmt til að greiða sektir vegna afbrota sem það hefur framið. Þetta á við jafnvel þó að barnið verði ekki fjárráða fyrr en 18 ára.

Börn geta líka borið bótaábyrgð á afbrotum sínum, hvort sem þau eru sakhæf eða ekki. Börn geta því þurft að greiða þeim sem misgert var við skaðabætur, ef almenn skilyrði skaðabótaábyrgðar eru fyrir hendi. Ekki er miðað við ákveðinn aldur heldur ræðst bótahæfi af því hvort ætla megi að barn á sama aldri og tjónvaldur hefði skilið að um hættulega hegðun væri að ræða sem væri líkleg til að valda tjóni. Sem dæmi má nefna að 10 ára barn hefur verið dæmt skaðabótaskylt fyrir dómi. Foreldrar bera ekki ábyrgð á skaðaverkum sem börn þeirra vinna, nema um saknæman eftirlitsskort hafi verið að ræða. Fjölskyldutryggingar foreldra ná oft til skaðaverka barna, en ef barn veldur tjóni af stórkostlegu gáleysi eða ásetningu getur tryggingafélagið beint endurkröfu að barninu. Þetta getur t.d. átt við um þjófnað eða umferðarlagabrot.

8. Börn sem brotaþolar

Mikilvægt er að huga sérstaklega vel að hagsmunum þeirra barna sem brotið er gegn með einum eða öðrum hætti. Í lögum og reglugerðum er að finna nokkrar sérreglur um börn sem brotaþola.

Í 20. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd segir:

Ef grunur leikur á að alvarlegt refsivert brot hafi verið framið gagnvart barni skal barnaverndarnefnd að jafnaði óska lögreglurannsóknar. Leita skal samþykkis forsjáraðila sem hefur barn í sinni umsjá og haft samráð við barn eftir atvikum. Ef samþykki liggur ekki fyrir getur barnaverndarnefnd óskað lögreglurannsóknar ef grunur leikur á að velferð, lífi eða heilsu barns eða annarra sé stefnt í verulega hættu.

Ef grunur leikur á að barn hafi orðið fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi er skylt að hafa samband við barnavernd, sbr. IV. kafli barnaverndarlaga. Lögreglan hefur sérstaka tilkynningarskyldu en í 18. gr. barnaverndarlaga kemur fram að þegar grunur leikur á að framið hafi verið gegn barni brot gegn almennum hegningarlögum, barnaverndarlögum eða öðrum lögum sem varðar getur þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi skal lögreglan, um leið og hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins.

Við rannsókn mála þar sem börn eru brotaþolar kemur foreldri eða annar forsjáraðili barns fram sem fyrirsvarsmaður þess. Foreldri tekur þær ákvarðanir fyrir hönd barnsins sem það er ekki talið fært um að taka, sbr. 39. gr. laga um meðferð sakamála. Foreldri ber þó að sjálfsögðu að hafa samráð við barn sitt í samræmi við aldur og þroska. Þá geta eldri börn tekið ákvarðanir sjálf. Ef hagsmunar foreldris og barns fara ekki saman, til dæmis ef grunur leikur á að foreldri hafi brotið gegn barni, er hægt að skipa barni sérstakan lögráðamann til að vera fyrirsvarsmaður í málinu, sbr. 53. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Þegar barn hefur orðið fyrir kynferðisbroti er lögreglu skylt að tilnefna réttargæslumann sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna barnsins og veita því aðstoð, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga um meðferð sakamála. Ef lögregla telur þörf á ber einnig að tilnefna börnum réttargæslumann ef um er að ræða brot á ákveðnum greinum almennra hegningarlaga, svo sem um líkamsmeiðingar, ef ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkamlegu eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn, sbr. 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.

Þegar barni hefur verið skipaður réttargæslumaður á hann rétt á að vera viðstaddur þegar tekin er skýrsla af barni sem brotið hefur verið gegn, sbr. 45. gr. laga um meðferð sakamála. Auk þess skal gefa fulltrúa barnaverndarnefndar kost á að vera viðstaddur skýrslutökuna, hvort sem hún fer fram hjá lögreglu eða fyrir dómi, sbr. 18. gr. barnaverndarlaga.

Það er almennt hlutverk lögreglu að taka skýrslu af brotaþolum á rannsóknarstigi máls. Lögreglu er skylt að gæta fyllstu tillitssemi þegar tekin er skýrsla af barni. Ef aðstæður eru sérstakar, svo sem vegna þroska barns, ungs aldurs eða alvarleika máls á lögregla að hafa samráð við forsjáraðila barns og eftir atvikum gefa þeim kost á að vera viðstaddir, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Þegar börn hafa orðið fyrir kynferðisbroti gildir hins vegar sú sérregla að skýrslutaka á rannsóknarstigi skal fara fram fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um meðferð sakamála. Þessu ákvæði er ætlað að tryggja að börn þurfi að jafnaði bara að gefa skýrslu einu sinni við meðferð málsins. Yfirleitt fer skýrslutakan ekki fram í dómsal heldur í Barnahúsi eða öðru sérútbúnu húsnæði, sbr. 9. gr. laga um meðferð sakamála.

Í 2. mgr. 123. gr. laga um meðferð sakamála kemur fram að þegar skýrsla er tekin af brotaþola yngri en 15 ára geti dómari kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku. Þá eiga ákærandi, ákærði og verjandi hans ekki rétt á að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð hans. Ef brotaþoli er yngri en 15 ára getur dómari ákveðið að skýrslutaka fari fram í sérútbúnu húsnæði ef það þykir æskilegra með tilliti til hagsmuna barnsins, t.d. í Barnahúsi, sbr. 9. gr. laga um meðferð sakamála. Í reglum um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af vitni skv. 123. gr. laga um meðferð sakamála, einkum ef vitni er yngra en 15 ára nr. 190/2009 kemur fram að sérútbúið húsnæði skuli innréttað og búið húsgögnum og leikföngum, með það fyrri augum að barninu líði sem best.

Hér á vef innanríkisráðuneytisins er hægt að lesa bækling með upplýsingum fyrir þolendur afbrota.

9. Bætur til þolenda afbrota

Börn sem eru þolendur afbrota geta átt rétt á skaðabótum frá þeim sem brotið hefur gegn þeim. Ef brotamaðurinn er ekki fær um að greiða þær bætur sem hann hefur verið dæmdur til að greiða getur barn átt rétt á greiðslum úr ríkissjóði, sbr. lög nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Í 1. gr. laganna segir að ríkissjóður greiði bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum. Geta bæturnar verið vegna líkamstjóns, tjóns á munum og vegna miska. Sem dæmi má nefna að miskabætur eru yfirleitt dæmdar þegar um er að ræða kynferðisbrot gegn börnum. Ríkissjóður greiðir þó einungis ákveðið hámark fyrir einstakan verknað, sbr. 7. gr. laganna. 

10. Börn sem vitni

Þegar börn hafa orðið vitni af afbroti geta þau þurft að gefa skýrslu, bæði hjá lögreglu við rannsókn máls og svo fyrir dómi. Við slíkar aðstæður er barni skylt að skýra satt og rétt frá.

Í 6. gr. reglugerðar um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu, nr. 651/2009 er fjallað um framkvæmd þess þegar barn yngra en 18 ára er yfirheyrt sem vitni hjá lögreglu. Þar segir:

Nú er barn yfirheyrt sem vitni og skal lögreglan þá gæta fyllstu tillitssemi. Ef aðstæður eru sérstakar, s.s. vegna þroska barns, ungs aldurs þess eða alvarleika máls skal lögregla hafa samráð við forráðamenn barns og eftir atvikum gefa þeim kost á að vera viðstaddir yfirheyrslu. Þetta á ekki við ef viðkomandi er sjálfur sakborningur í málinu eða aðrar ástæður mæla gegn því að mati lögreglu. Ef ekki næst til forráðamanna skal gefa barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn vera viðstaddan yfirheyrslu.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð sakamála er börnum sem hafa náð 15 ára aldri skylt að koma fyrir dóm sem vitni. Þegar um yngri börn er að ræða þarf dómari að meta það með hliðsjón af atvikum hverju sinni hvort þeim sé skylt að gefa skýrslu sem vitni, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Við slíkt mat ber dómara að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi, sbr. m.a. 3. gr. Barnasáttmálans.

11. Börn fanga

Sum börn alast upp við þann veruleika að foreldrar þeirra dveljast í fangelsi í lengri eða skemmri tíma. Við slíkar aðstæður eiga börn engu að síður rétt á að umgangast foreldra sína, nema það sé talið andstætt hagsmunum þeirra, sbr. m.a. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Reglur um samvistir barna og foreldra við þessar aðstæður er að finna í lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005 og reglugerð um fullnustu refsinga, nr. 961/2005.

Í 23. gr. laga um fullnustu refsinga kemur fram að ef kona á ungbarn við upphaf afplánunar refsingar eða eignast barn í afplánun þá megi heimila henni að hafa barnið hjá sér í fangelsinu. Gert er ráð fyrir því að fangelsismálastofnun taki ákvörðun um þetta, að höfðu samráði við barnaverndarnefnd. Í því sambandi ber að líta til hagsmuna barnsins, aldurs þess svo og hæfni móður til að annast það. Í 6. gr. reglugerðar um fullnustu refsingar kemur fram að ungbarn skuli að jafnaði ekki dvelja lengur í fangelsi en til 18 mánaða aldurs.

Í 3. mgr. 34. gr. laga um fullnustu refsinga skal forstöðumaður fangelsis skipuleggja aðstæður þannig að börn geti komið með í heimsóknir og að þeim sé sýnd nærgætni. Ef talið er að heimsókn þurfi að fara fram utan fangelsis vegna hagsmuna barns skal það gert á grundvelli álits barnaverndaryfirvalda eða annarra sérhæfðra aðila.

Þegar barn heimsækir fangelsi er almennt gert ráð fyrir því að forsjáraðili eða annar aðstandandi fylgi barninu. Samkvæmt 10. gr. reglugerðar um fullnustu refsinga er heimilt að leyfa barni sem náð hefur 16 ára aldri að heimsækja fanga án fylgdar ef skriflegt samþykki forsjáraðila eða annars aðstandanda liggur fyrir og það er ekki talið andstætt hagsmunum barnsins. Auk heimsókna geta börn átt ýmis önnur samskipti við foreldra og aðra nákomna í fangelsum. Börn geta skrifað foreldrum sínum bréf eða hringt í þá. Sömuleiðis geta foreldrar skrifað börnum sínum bréf eða hringt í þau úr fangelsum.

Fangar geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fengið reglubundin dagsleyfi til dvalar utan fangelsis til að vera með fjölskyldu sinni eða vinum ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að ljúka afplánun. Slíkt leyfi skal vera að hámarki 14 klukkustundir og skal að jafnaði veitt frá kl. 7 að morgni til kl. 22 að kvöldi sama dags. Heimilt er að lengja leyfið ef fangi á sannanlega um langan veg að fara til heimilis síns sbr. 44. gr. laga um fullnustu refsinga. Þá getur forstöðumaður fangelsis veitt fanga skammtímaleyfi við ákveðnar aðstæður, t.d. til að vera viðstaddur fæðingu, skírn eða fermingu barns síns, sbr. 46. gr. laganna.

12. Tollskoðanir

Þegar barn kemur til landsins án fylgdar forsjáraðila getur sú staða komið upp að tollverðir þurfi að leita á því vegna gruns um refsiverðar verknað.

Í 160. gr. tollalaga nr. 88/2005 segir:

Ef fyrirhuguð er leit á einstaklingi sem er ólögráða vegna aldurs skal þá þegar hafa samband við forsjáraðila hans og fulltrúa barnaverndarnefndar, í því umdæmi þar sem leit skal fara fram, og gefa þeim kost á að koma á staðinn án tafar og vera viðstaddir þegar leit fer fram.

Leit í farangri barna sem byggist á slembiúrtaki eða öðru fyrirfram skilgreindu úrtaki fellur ekki undir þessa sérreglu. Því gilda sömu reglur og um leit í farangri barna og fullorðinna. 

13. Sakaskrá

Ríkissaksóknari heldur sakaskrá þar sem skráð eru úrslit sakamála, sbr. 225. gr. laga um meðferð sakamála. Í reglum nr. 680/2009 um sakaskrá ríkisins er fjallað nánar um gerð og varðveislu sakaskrá og sakavottorð.

Hægt er að fá gefið út sakavottorð samkvæmt 8. gr. reglna um sakaskrá ríkisins, en slíkt vottorð veitir upplýsingar úr sakaskrá. Samkvæmt ákvæðinu þurfa börn samþykki forsjáraðila til að fá slíkt vottorð, en umboðsmaður barna hefur gagnrýnt þetta ákvæði og telur að börn á aldrinum 15 til 18 ára ættu að geta fengið eigið sakavottorð án aðkomu foreldra. Í sakavottorði eru einungis tilgreindar upplýsingar um brot á almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Ef viðkomandi hefur ekki hlotið fangelsisdóm fyrir brot skal einungis tilgreina það í sakavottorði þar til 3 ár eru liðin frá því að máli var lokið. Þá skulu fangelsisdómar ekki tilgreindir ef liðin eru 5 ár frá dómsuppkvaðningu eða frá því að dómþoli var látinn laus hafi hann afplánað refsingu.

Þegar sakhæft barn er fundið sekt um afbrot er það almennt skráð í sakaskrá. Þetta á m.a. við um skemmdarverk, ofbeldisbrot, fíkniefnabrot, brot á áfengislögum og fölsun skilríkja. Það getur verið slæmt fyrir einstakling að vera á sakaskrá þar sem oft þarf að afhenda sakavottorð t.d. þegar sótt er um vinnu eða nám. Eins og að framan greinir birtast þó eldri brot ekki á sakavottorði. Skiptir þetta miklu máli fyrir börn sem hafa brotið af sér en vilja snúa við blaðinu og bæta sig.

14. Ábyrgð hinna fullorðnu

Foreldrar og aðrir fullorðnir sem sinna umönnun barna bera mikla ábyrgð þegar kemur að því að kenna börnum að virða lög og reglur samfélagsins og vera góðar fyrirmyndir. Þegar börn brjóta af sér er mikilvægt að gripið sé inn í hegðun þeirra og brugðist við með uppbyggilegum hætti, sem er til þess fallinn að efla sjálfsmynd þeirra og draga úr líkunum á því að þau brjóti af sér aftur. Samfélagið í heild ber sömuleiðis mikla ábyrgð gagnvart þeim börnum sem brjóta af sér. Harkaleg viðbrögð og umfjöllun um afbrot barna stuðlar ekki að bættri hegðun heldur getur þvert á móti aukið líkurnar á áframhaldandi brotum. Er því mikilvægt að fjölmiðlar og aðrir sem fjalla um afbrot barna sýni sérstaka nærgætni og gæti þess að stimpla ekki börn sem glæpamenn.

Foreldrar, þeir sem koma að kennslu og umönnun barna sem og samfélagið í heild ber ábyrgð á því að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem þau þurfa. Allir sem hafa ástæðu til að ætla að velferð barns sé stefnt í hættu vegna afbrota er skylt að hafa samband við barnaverndarnefnd, sbr. IV. kafli barnaverndarlaga.

15. Aðstoð, ráðgjöf og fræðsla

Barnavernd
Þegar grunur leikur á að barn sé að stefna eigin velferð í hættu með afbrotum eða grunur er á að barn hafi orðið fyrir ofbeldi eða annars konar broti er skylt að hafa samband við barnavernd. Hægt er að hafa samband við barnaverndarnefnd eða starfsmann hennar í viðkomandi sveitarfélagi.  Hér á vef Barnaverndarstofu er listi yfir barnaverndarnefndir landsins og upplýsingar um hvernig er best að ná í starfsmenn þeirra. Þegar um neyðartilvik er að ræða er hægt að hringja í 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar sem kemur skilaboðum áleiðis eða gefur samband við réttan aðila. 

Lögreglan 
Til að fá nánari upplýsingar eða tilkynna um afbrot er hægt að hafa samband við lögregluna í því umdæmi sem um ræðir. Ef um neyðartilvik er að ræða er rétt að hringja í 112. Á lögregluvefnum, www.logreglan.is, er að finna mikið af gagnlegum upplýsingum

Barnaverndarstofa
Barnaverndarstofa veitir ráðgjöf um barnaverndarmál og vinnslu barnaverndarmála. Barnaverndarstofa annast einnig rekstur meðferðarheimila, þar sem börn sem hafa verið dæmd í refsivist geta afplánað refsingu sína. Símatími ráðgjafa Barnaverndarstofu er á milli 11-12 á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum í síma 5302600. Hægt er að senda inn fyrirspurnir hér á vef Barnaverndarstofu. 

Fangelsismálastofnun
Fangelsismálastofnun annast m.a. fullnustu refsinga og annast eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn eða fá skilorðsbundna dóma. Hægt er fá nánari upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar, www.fangelsi.is.


Öllum er heimilt að nota efni af vef umboðsmanns barna svo framarlega að vísað sé í heimild.
Ábendingar um efni sem á heima á þessari síðu eru vel þegnar. Vinsamlegast sendið tillögur til vefstjóra.